Umhverfis- og skipulagsráð 24. ágúst 2022

Bókun Flokks fólksins við erindi íbúasamtaka Kjalarness varðandi færslu á skotvelli:

Flokkur fólksins hefur ítrekað gagnrýnt framgöngu borgarinnar gagnvart íbúum á Kjalarnesi vegna staðsetningar skotvallar á Álfsnesi, ekki síst vegna samráðsleysis við íbúanna. Íbúasamtök Kjalarnes gera enn á ný athugasemdir sem ekki hefur verið hlustað á. Fram kemur í erindi þeirra ósk um að skoðað verði með hljóðmælingum og öðrum mælingum hvort hægt sé að færa völlinn til á Álfsnesinu. Flokkur fólksins væntir þess að vel verði tekið í erindi íbúasamtakanna.

 

Bókun Flokks fólksins svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um Smyrilshlíð:

Í erindi íbúa við reit E við Haukahlíð/Smyrilshlíð hafa verið gerðar athugasemdir vegna breytingar á skipulagi frá 2010-2030 sem vísað er til í svarinu við fyrirspurn Flokks fólksins. Verið er að breyta skipulagi í veigamiklum atriðum. Miklar breytingar eru á hæð húsa, skuggavarpi og nýtingu. Skuggavarp er mikið í þessu hverfi og vindmögnun sem þegar er farin að hafa neikvæð áhrif á umhverfið (þ.m.t. flug) auk þess sem alla þjónustu og verslun skortir. Með skipulags breytingunni er verið að magna þessi vandamál. Skuggavarp mun aukast og einnig vindmögnun þar sem lóðir í hverfinu eru dimmar hefur reitur I verið eina græna svæðið í hverfinu sem sólar nýtur. Fólk sem býr við Fálkahlíð nýtur ekki sólar mestan hluta sólarhringsins. Þannig verður það jafnframt við Haukahlíð ef af þessum breytingum verður. Verið er að breyta reit G sem átti að verða verslunar og þjónusturými í íbúðarkjarna. Á sama tíma sárvantar íbúa verslanir (sérstaklega matvöru) sem er forsenda annarrar þjónustu) í hverfið. Þetta er algerlega í andstöðu við upphaflegt skipulag þar sem þetta hverfi átti að vera blönduð byggð með verslun og þjónustu nálægt og þannig styðja við bíllausan lífsstíl. Flokkur fólksins hvetur skipulagsyfirvöld til að skoða málið betur og leita samráðs við íbúa.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um hljóðvist á KR svæðinu:

Flokkur fólksins spurði um hávaða og viðurlög ef hávaði er of mikill við KR svæðið sem nú mun taka gjörbreytingu. Íbúðabyggingar verða nánast ofan í vellinum samkvæmt skipulagi. Fram kemur að stefnt verði af fremsta megni að haga skipulagi þannig að álag á vellinum sé að jafnaði frá kl. 15-19 en ónæði sé lágmarkað eftir kl. 20.00. Í skilmálum skipulagsins skal stefnt að því eins og kostur er að koma í veg fyrir hljóðmengun frá aðal keppnisvelli að íbúðarhúsum. Flokkur fólksins bendir á að engin viðurlög eru þó nefnd er farið er á svið við skilmála. Svo virðist því vera að ekkert verði gert þótt mörk um hávaða verði brotin, en skipulagsyfirvöld hvetja til góðrar hegðunar. Það er á ábyrgð Heilbrigðisnefndar að tryggja að reglugerð um hávaðamengun í kringum KR-völlinn verði fylgt eftir og séu reglur brotnar verða að vera viðurlög ella eru reglur dauður bókstafur. Telja má víst að KR svæðið sé álagssvæði enda eru þar haldnir kappleikir og fjöldi gesta mætir á svæðið.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um reglur um tíma sem hús mega standa óuppgerð.

Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna greiða atkvæði gegn frávísuninni.

Tillaga Flokks fólksins um reglur um tíma sem hús mega standa óuppgerð er vísað frá með þeim rökum að skipulagsyfirvöldum skorti lagaheimildir fyrir reglum af hálfu einstaka sveitarfélaga. Flokkur fólksins telur að það megi finna leiðir í þessu máli sem mörgum öðru sé vilji fyrir því. Í raun er verið að segja með þessari afgreiðslu að það sé bara í lagi að hús séu látin grotna niður og engin geti gert neitt? Það sakar ekki að skoða málið betur og ræða við aðila sem þessu tengjast. Horfa þarf til öryggismála og fjölmargs annars sem veldur nágrönnum ama svo ekki sé minnst á sjónmengun. Þetta er vandamál og skipulagsyfirvöldum er skylt að skoða þessi mál en ekki stinga hausnum í sandinn.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um að endurskipuleggja íbúðakjarna að Rökkvatjörn 3 en þar láðist að hafa sameiginlegt rými fyrir íbúanna sem glíma við fötlun:

Tillögunni er vísað frá með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Flokkur fólksins lagði til að farið verði í að endurskipuleggja íbúðakjarna að Rökkvatjörn 3 með það að markmiði að gera almenningsrými fyrir íbúana. Komið hefur í ljós að það er stór galli á húsinu en þar er ekkert sameiginlegt rými þar sem íbúar geti komið saman, borðað saman, horft á saman á viðburði í sjónvarpi. Ljóst er að láðst hefur að hafa foreldra með í ráðum við hönnun og skipulagningu íbúðakjarnans. Tillögunni er vísað frá með þeim rökum að þetta heyri undir velferðarsvið, að það svið komi með ósk um að þetta verði endurhannað. Sérkennilegt er að svona klúður verði, þar sem áherslan ætti að sjálfsögðu alltaf að vera á þjónustuþegunum og þörfum þeirra. Flestir þeirra sem hér um ræðir eru að fara að heiman í fyrsta sinn. Íbúarnir þurfa mikla aðstoð við flesta hluti og verkefnin sem hvíla á starfsfólki eru mörg og margvísleg. Enda þótt tillögunni sé vísað frá þarf að ganga í að leysa þetta t.d. með því að skoða hvort á öðrum stöðum í íbúakjarnanum sé óþarfa mikið eða stórt rými, eða rými sem er illa nýtt eða sjaldan, sem þá er hægt að nýta undir sameiginlegt rými fyrir íbúana.

Mál lögð fram á síðasta fundi og er nú framvísað

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um úrbætur á Breiðholtsbraut.

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um úrbætur á Breiðholtsbraut, sbr. 44. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 29. júní 2022 ásamt greinargerð.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Bókun Flokks fólksins:

Ástandið á Breiðholtsbrautinni er verulega slæmt. Þessi spotti milli Jafnasels og Suðurlandsvegar á að sjálfsögðu að vera tvöfaldur eins og Breiðholtsbrautin neðar. Þegar brautin verður einbreið stöðvast öll umferð því þá þarf sífellt verið að hleypa inn bílum af endaðri akrein. Þessi stífla kemur niður á öllum bílum sem staddir eru á brautinni alveg niður að Mjódd. Tvöföldun á Breiðholtsbrautinni ætti að vera í algjörum forgangi. Ástandið þarna bitnar á mörgum íbúum Breiðholts, sérstaklega þeim sem nota Breiðholtsbrautina daglega á háannatíma og leið upp í t.d. Seljahverfi. Þarna situr fólk í umferðarteppum oft síðari hluta dags og á föstudegi. Dæmi eru um að akstur upp brautina þegar verst lætur taki 40 mínútur. Ástandið á þessari leið mun einungis versna með nýrri byggð í Kópavogi.

 

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um göngubrú fyrir Vogabyggð, neyðarkall er frá íbúum

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um göngubrú fyrir Vogabyggð, sbr. 45. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 29. júní 2022 ásamt greinargerð.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Bókun Flokks fólksins:

Flokkur fólksins lagði til að til að strax verði hafist handa við að byggja bráðabirgða göngubrú yfir Sæbraut við gatnamót við Skeiðarvog/Kleppsmýrarveg, sem eru ein hættulegustu gatnamót Reykjavíkur. Tillögunni er framvísað til frekari umsagnar. Vogabyggð er orðin fjölmenn byggð, en þannig er málum háttað að börnin í hverfinu þurfa daglega að fara yfir Sæbrautina til að sækja skóla, frístundir, heilsugæslu, vini og fleira. Íbúar Vogabyggðar gera kröfu um að borgaryfirvöld standi við áform og gefin loforð um göngubrú. Samkvæmt þinglýstu samkomulagi við lóðarhafa frá 2016-17 mátti gera ráð fyrir göngubrú þegar árið 2019. Enn bólar ekkert á þessari brú. Nú fá íbúar þær fréttir að ekki verði af þessari göngubrú vegna þess að það eigi að setja Sæbraut í stokk. Framkvæmdir við stokk eiga ekki að hefjast fyrr en eftir tvö ár og klárast 2027. Hlusta þarf á neyðarkall íbúanna. Þarna þarf að hafa hagsmuni þeirra sem búa á svæðinu í huga. Íbúar sjá mögulega hættu og vara við henni. Við því þarf að bregðast. Krafa íbúa í Vogabyggð er skýr og afdráttarlaus: Göngubrú yfir Sæbraut strax. Krafan kemur líka fram í nýlegri undirskriftasöfnun íbúa.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um hreinsun í Breiðholti en í sumar hefur ástandið í Breiðholti verið sérlega slæmt.

Ruslastampar hafa verið yfirfullir bæði í Seljahverfi og  við leikvelli og við kartöflugarðana ábak við Fljótasel.  Borgarfulltrúar hafa fengið ábendingar um þetta frá íbúum. Flokkur fólksins óskar eftir upplýsinga um tíðni hreinsunar og ástæður fyrir af hverju hreinsun er ekki eins góð og hún ætti að vera.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlands.

 

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um að bjóða út sorphirðu í póstnúmeri og kanna hagkvæmni á að bjóða út þjónustu við djúpgáma.

Öll sveitarfélög önnur en Reykjavík bjóða út sorphirðu og er ekki að sjá annað en að slíkt hafi reynst vel. Lagt er til að SORPA kanni ávinning þess að bjóða út sorphirðu með því að bjóða út sorphirðu í einu af póstnúmerum Reykjavíkur. Flokkur fólksins leggur til að gerð verði hagkvæmisúttekt á þjónustu við djúpgáma með þeim tækjum og tólum sem til þess þarf en SORPA hyggst sjálf þjónusta djúpgáma.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða.

 

Ný mál Flokks fólksins lögð fram á fundinum

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um umferð í miðbænum á hátíðum en gengið var of langt í lokunum á Menningarnótt sem olli því að ákveðinn hópur komst ekki í bæinn:

Tillaga Flokks fólksins að ekki verið lokað eins mikið fyrir bílaumferða á menningarnótt og 17. júní eins og tíðkast hefur. Gengið er allt of langt í að loka fyrir bílaumferð og með því er loku fyrir það skotið að ákveðinn hópur geti lagt leið sína í bæinn.

Frítt í strætó og skutluferðir leysa ekki vanda þeirra sem eiga erfitt um gang og komast hvergi nærri hátíðarsvæði borgarinnar vegna lokunar gatna fyrir bílaumferð. Ekki einu sinni bílar með stæðiskort á leyfi til að aka inn á lokað svæði. Hávær gagnrýni hefur heyrst vegna strætóferða á menningarnótt ýmist vegna þess að þeir væru of fáir, of seinir eða óku oftar en ekki fram hjá fólki. Vegna svo róttækrar lokunar fylltust vagnar af fjölskyldum með barnavagna. Hvernig á einstaklingur með líkamlega fötlun að nota strætó undir þessum kringumstæðum. Eins sniðug og skutluþjónusta er þá var hún ekki að virka á menningarnótt. Skoða þarf hvað þarf að gera öðruvísi og betra til að slík þjónusta gangi upp.

Margar athugasemdir og kvartanir hafa borist vegna aksturs Strætó bs. á menningarnótt. Ekki er vitað um fjölmargt í þessu sambandi t.d. vantar upplýsingar um viðbótarviðbúnað og fyrirkomulag vegna menningarnætur. Hvaða leiðir voru eknar, á hvaða tímum, hverjar voru endastöðvar og hversu margir vagnar voru notaðir í verkefninu? Hvernig var staðið að upplýsingagjöf til farþega, bæði á netinu sem og á vettvangi? Hefur verið gerð greining á því hvað fór úrskeiðis í verkefninu?

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um ókláraðar lóðir ætlaðar leikskólum:

Flokkur fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um frágang lóða og uppbyggingu og framkvæmdir við nýja leikskóla þar sem Brúum bilið verkefnið hefur strandað m.a. vegna þess að ekki hefur verið unnið í lóðum. Flokkur fólksins óskaði eftir umræðu um þessi mál fyrir síðasta fund ráðsins. Við beiðninni var ekki orðið með þeim rökum að málið ætti ekki heima í umhverfis- og skipulagsráði heldur væri verkefnið hjá Skóla- og frístundasviði. Það getur reyndar varla staðist að mál sem snýr að lóðum og framkvæmdum eigi ekki heima í umhverfis- og skipulagsráði?

Það hlýtur að koma umhverfis- og skipulagsráði við þegar meirihlutinn lofar plássum í leikskólum sem ekki eru til. Það er á ábyrgð ráðsins að drífa í því að klára lóðafrágang við leikskóla svo að þeir verði tilbúnir í síðasta lagi í september. Einnig hlýtur það að koma ráðinu við nú þegar ákveðið hefur verið að taka á leigu húsnæði þangað til leikskólabyggingar verða tilbúnar. Umhverfis- og skipulagráð er ekki undanskilið að neinu leyti þegar kemur að því að axla ábyrgð og takast á við það neyðarástand sem ríkir í leikskólamálum.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um sorpkostnað við tæmingu tunna per íbúðareiningu.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram fyrirspurn um hver sorpkostnaður Reykjavíkurborgar er við tæmingu tunna per íbúðareiningu og hver sambærilegur kostnaður er í nágrannasveitarfélögum.

Eins og hvert heimili þarf Reykjavíkurborg að horfa vel í alla útgjaldaliði og leita allra ráða til að hagræða. Í skýrslu sem ég hef áður bent á (Competition in the waste managment sector) og gefin er út af samkeppniseftirlitinu árið 2016 eru helstu niðurstöður þær að sveitarfélög sem nota útboð við meðhöndlun úrgangs spara sér 10 – 47% frá kostnaði við eldri kerfi. Er það ekki skylda okkar borgarfulltrúa að skoða hvort að hægt sé að ná sparnaði í sorphirðu við heimili? Ef að skoðun leiðir í ljós að þetta sé í góðum málum þá er það fínt og þá allavega búið að skoða þetta.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um stafræna umbreytingu á umhverfis- og skipulagssviði og hvað veldur því að umsóknarferli er enn fornaldarlegt:

Í október 2021 óskaði skrifstofustjóri upplýsinga- og skjalastýringar eftir að borgarráð heimili Þjónustu- og nýsköpunarsviði að hefja útboðsferli á fyrsta fasa verkefnisins Átak í teikningaskönnun þ.e. þeim hluta sem snýr að skönnun. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsingar um framgang verkefnis Átaks? Nýlega var birt yfirlit yfir netspjall borgarinnar og má sjá að helmingur þeirra afgreiðslna snúa að aðgengi að teikningum sem geymdar eru í kjallara Borgartún 12-14. Aðgengi að þessum gögnum skyldi maður ætla að ætti að vera orðið rafrænt. Í þessu samhengi er vert að spyrja af hverju stafræn umbreyting er komin svo skammt á veg hjá umhverfis- og skipulagssviði þrátt fyrir að ríflega 13 milljörðum hefur verið varið í stafræna umbreytingu hjá þjónustu og nýsköpunarsviði? Einnig er spurt hvar ábyrgðin liggur. Liggur hún hjá þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON) nú kallað Stafrænt svið eða hjá umhverfis- og skipulagssviði?