Umhverfis- og skipulagsráð 18. desember 2024

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lagt fram til afgreiðslu ráðsins Þróunaráætlun fyrir Háskóla Íslands:

Flokkur fólksins telur að aðgengi virkra ferðamáta (gangandi og hjólandi) verði klárlega betra á svæðinu eftir því sem fram kemur í gögnum. Það á hins vegar eftir að koma í ljós hvernig almenningssamgöngur muni virka. Flokkur fólksins er einnig mjög óviss um hvernig deilifararmátum á eftir að vegna í íslensku samfélagi. Fram kemur að núverandi fjöldi bílastæða sé í hámarki. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að gengið hafi verið of harkalega á bílastæði á sama tíma og bílum fer fjölgandi. Skortur á bílastæðum er víða áþreifanlegur og hefur skapað mikil vandamál. Fram kemur að bílastæðahús verði byggð úr vistvænum efnum til að lágmarka kolefnisspor og með stöðluðum einingum sem geta þannig verið stækkuð eða minnkuð eftir því sem eftirspurn þróast. Það er jákvætt, sveigjanleiki eykur hagkvæmni og notagildi húsanna og lengir líftíma þeirra. Fulltrúa Flokks fólksins finnst jákvætt að heyra að slík bílastæðahús byggja á erlendri fyrirmynd og hafa reynst vel.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á stöðu deiliskipulagstillögunnar fyrir Ártúnshöfða svæði 2B. Svæðið afmarkast af Ártúnshöfða svæði 2A til suðurs, Elliðaárvogi til vesturs og norðurs og til austurs af Ártúnshöfðanum.

Fram fer kynning á stöðu deiliskipulagstillögunnar fyrir Ártúnshöfða svæði 2B. Svæðið afmarkast af Ártúnshöfða svæði 2A til suðurs, Elliðaárvogi til vesturs og norðurs og til austurs af Ártúnshöfðanum. Byggja á bílastæðahús með leikvelli á þaki hússins að danskri fyrirmynd. Reynsla af bílastæðahúsum almennt séð hér í borg er misjöfn og oft ólík því sem sjá má í nágrannalöndum. Mörg bílastæðahús eru illa nýtt. Há bílastæðagjöld í húsunum hefur fælingarmátt sem og slæmt aðgengi og þrengsli. Ekki allir eru þess utan tilbúnir til að ganga langt frá bílastæðahúsi og að áfangastað t.d. fjölskyldur með börn og heimilisvörur. Leiksvæði á þaki bílastæðahús er ekki óskemmtileg hugmynd en útilokað er að átta sig á hvort notkun verði mikil á slíkum velli. Fara á í landfyllingu á svæði 2 D Norðurhluti svæðis D í viðbót við þá landfyllingu sem fyrir er. Athyglisvert er að ekkert er minnst á skerðingu á líffræðilegum fjölbreytileika sem samkvæmt venju meirihlutans og skipulagsyfirvalda ætti að gera. Hér er verið að eyðileggja svæði sem er mikilvægt fyrir lífríkið sem verður ekki bætt með því að setja upp nokkra blómapotta í byggðinni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Fram fer kynning á umsókn Freys Frostasonar, dags. 6. desember 2024, um nýtt deiliskipulag fyrir Ártúnshöfða, Svæði 7A sem staðsett er við Breiðhöfða 3-5.

Hér er um mikið byggingarmagn að ræða. Bílastæði eru ekki i samræmi við það. Horft er til samnýtingar og deilibíla sem alveg er óvíst hvort verði eftirsótt úrræði. Gera þyrfti könnun á nýtingu deilibíla og samnýtingar bíla hér í borg áður en haldið er áfram með slíkar tillögur. Gera má ráð fyrir að eignir þarna verði mjög dýrar. Byggingarform er víða flókið, hvöss horn og kantar, gluggar standa ýmist út í ramma eða eru inngreyptir eða innfallnir í húsin. Mikill halli er á sumum þökum, grös eru á þökum sem kallar væntanlega á eitthvað viðhald og er einfaldlega óvíst hvernig muni virka í óveðrum, regni, roki og snjó. Myndir minna um margt á byggingar, hótelraðir á Tenerife, hvítar byggingar og á flestum kynningarmyndum er bæði sól og mikill trjágróður sem er vissulega ekki beint hinn íslenski raunveruleiki. Lýsing á ofanvatnslausnum virkar smá barnaleg og yfirborðskennd. Hér er um ofmat að ræða á blágrænum ofanvatnslausnum að mati fulltrúa Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju umsókn Hjalta Brynjarssonar, dags. 14. júlí 2023, um breytingu á deiliskipulagi reits 1.181.3, Lokastígsreits 4, vegna lóðarinnar nr. 61 við Njarðargötu.

Í ljósi þessa alvarlega máls í Álfabakka þar sem heimildir voru allt of rúmar, mál sem við flest erum í miklu uppnámi yfir, er það mat Flokks fólksins að það er oft sama hvað fólk gerir athugasemdir við, jafnvel sendir inn alvarlega kvörtun um að verið sé að skerða eignir þeirra, birtumagn, aðgengi, þrengja að bílastæðum o.s.frv. þá er bara bent á gildandi deiliskipulag og þar við látið sitja. Svoleiðis er einmitt í þessu máli, varðandi athugasemdir sem eiga við fyrirliggjandi erindi að Njarðargötu 61 þá er viðkvæðið að þetta sé í gildandi deiliskipulagi og fyrir þessu séu heimildir. Eitthvað hlýtur að vera hægt að gera í málum af þessu tagi s.s. bæta í skilmálana. Fulltrúi Flokks fólksins vill að hlustað verði á þá sem fyrir eru, það er óboðlegt að gera breytingar – viðbætur sem dregur úr gæðum eigna sem fyrir eru.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lagt fram bréf starfshóps íbúaráðs Grafarvogs, dags. 4. desember 2024, ásamt erindisbréfi dags. 8. janúar 2024 og skýrslu:

Nú liggur fyrir skýrsla starfshóps íbúaráðs Grafarvogs. Starfshópurinn hafði það hlutverk að gera úttekt á umferðaröryggismálum í hverfinu. Nú liggur fyrir að alvarlegum slysum Í Grafarvogi hefur fjölgað um 5% ef borinn er saman fjölda alvarlegra slysa sl. fimm ár samanborið við fimm ár fyrir 10 árum síðan. Á sama tíma hefur öðrum slysum, sem ekki teljast alvarleg, fjölgað um 27%. Starfshópurinn leggur fram fjölmargar ábendingar um bætt umferðaröryggi í hverfinu. Flokkur fólksins tekur undir með íbúaráði Grafarvogs um mikilvægi þess að farið verði yfir tillögur starfshópsins og þeim forgangsraðað eftir mikilvægi aðgerða.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á aðgengisbætandi aðgerðum við strætóstöðvar:

Varla er með þessu yfirliti verið að segja að búið sé að “dekka” allar þær biðstöðvar sem þarfnast endurgerðar og eða lagfæringar þ.e. þær sem halda áfram að vera í notkun. Um er að ræða 546 stöðvar í heild. Af þeim hafa aðeins verið endurgerðar 35 og aðrar 35 sem hluti af útboði án frekari skýringa. Tæplega 100 eru innan “sérrýmis s.s. borgarlínu eða hafnarsvæðis” hvað svo sem það þýðir. Verða þær biðstöðvar ekki lagaðar? Einar 32 eru sagðar þjóna áfram borgarlínuleiðum sem þýðir hvað, verða þær endurgerðar/lagfærðar? Rúmlega fjörutíu tengjast öðrum verkefnum og það sem þó er skýrt er að 124 detta út í nýju leiðarneti og aðeins 6 þurfa ekki endurgerð. Hvað með restina af þessum 546 stöðvum? Málið er að allt of hægt hefur gengið að endurgera biðstöðvar. Árið 2020 var gerð úttekt á aðgengi að biðstöðvum. Skoðað var yfirborð. Þá kom í ljós að 546 stöðvar voru metnar ófullnægjandi. Fram til þessa dags hafa aðeins verið lagfærðar þær sem eru allra verst farnar bæði aðgengi og yfirborð. Fjölmargar aðrar eru hættulegar vegna viðhaldsskorts. Tafir hafa orðið á borgarlínu og mikilvægt er að allar stöðvar verði þannig úr garði gerðar að þær skapi ekki slysahættu og að fólk, einnig þeir sem er hreyfihamlaðir hafi aðgengi að þeim.

 

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um friðlýsingarmörk í Grafarvogi, sbr. 32. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 13. nóvember 2024.

Vísað til umsagnar umhverfis og skipulagssviðs skrifstofu umhverfisgæða, deildar náttúru og garða. USK24110150

 

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um grundvallar endurskoðun á uppbyggingaráformum í Grafarvogi, sbr. 33. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 13. nóvember 2024. Greinargerð fylgir tillögu.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu Aðalskipulags og loftslagsmál, húsnæðisátakshóps. USK24110156

 

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Fram fer umræða um uppbyggingu við Suður-Mjódd. USK24120135

Stórt vöruhús hefur nú verið reist steinsnar frá fjölbýlishúsi í Breiðholti. Íbúar í húsinu eru eðlilega miður sín með nýbygginguna því við þeim blasir 13 metra hár stálveggur vöruhúss sem blasir við sé horft út um stofuglugga íbúa blokkarinnar. Þetta mál þarf að rannsaka ofan í kjölinn af óháðum aðilum. Fulltrúi Flokks fólksins vill að húsið verði rifið eða breytt þannig að íbúar blokkarinnar verði sáttir. Ljóst er að hér mun borgarsjóður eiga eftir að blæða. Þetta mál eru mistök fyrst og fremst borgarinnar sem hefur skipulagsvaldið og getur sett inn í samninga kvaðir sem tryggja að svona lagað geti ekki gerst. Málið var ekki lagt fyrir borgarfulltrúa minnihlutans eftir því sem það tók breytingum og kom þessi útkoma því eins og reiðarslag. Lóðarhafar skipulögðu lóðina í friði og ró frá afskiptum borgaryfirvalda. Lóðin hefur gengið kaupum og sölum frá úthlutun á föstu verði, var upphaflega íbúðalóð með 7 litlum íbúðablokkum, síðan 4 lóðir með litlum þjónustu og verslunareiningum en er nú ein löng lóð með vöruhúsi og hefur lóðarhafi getað gert allt sem þeim sýndist án minnstu gagnrýnnar hugsunar eða að gæta hagsmuna nágranna enda skipulagsheimildir óvenju víðar. Íbúar voru grunlausir um hvernig endaniðurstaðan yrði.

Þegar borgarráð veitti heimildir fyrir uppbyggingunni þann 15. júní 2023 lá skýrt fyrir í gögnum málsins að um þjónustu- og verslunarlóð væri að ræða. Án fyrirvara reis hins vegar á lóðinni stærðarinnar vöruhús sem vitanlega ætti betur heima á athafnasvæði. Ekki síst í ljósi þess að starfseminni munu fylgja hávaðasamir vöruflutningar, að líkindum á öllum tímum sólarhringsins, með tilheyrandi ama fyrir íbúa að Árskógum. Framgangur uppbyggingarinnar í kjölfar lóðaúthlutunar var á engu stigi máls kynntur skipulagsráði eða borgarráði. Málið var unnið áfram á skrifstofu borgarstjóra í samstarfi við byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa. Ljóst er að hver sem lausn málsins verður, mun niðurstaðan hafa verulegan kostnað í för með sér fyrir borgarsjóð, enda ber borgin óskipta ábyrgð á skipulagsslysinu.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um afgreiðslu mála Flokks fólksins

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að umhverfis- og skipulagssvið leitist við að afgreiða óafgreidd mál Flokks fólksins á umhverfis og skipulagssviði eins og unnt er í janúar þar sem fulltrúi Flokks fólksins mun halda brátt til annarra starfa. USK24120176

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um mál vöruhússins í Álfabakka:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um eftirfarandi atriði um mál vöruhússins í Álfabakka 2, Suður – Mjódd: Lýsingu á ákvarðanatökuferli málsins frá upphafi, Tímalínu málsins, frá upphafi til loka. Upplýsingar um regluverkið og framkvæmd þess, með áherslu á hvort farið hafi verið eftir gildandi lögum og reglum. Upplýsingar um eftirlitsferla, með sérstakri áherslu á hvernig staðið var að eftirliti við byggingu skemmunnar. Athugasemda íbúa og hvernig unnið var úr þeim athugasemdum. Einnig er spurt hvort umferðarmál hafi verið skoðuð í kringum byggingu vöruhússins, t.d. hvernig flutningum að og frá húsinu yrði háttað? Greinargerð fylgir fyrirspurn USK24120175

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um málefni Grafarvogs:

Ljóst er að margar tillögur borgarinnar ganga þvert gegn vilja íbúa og samræmast ekki núverandi byggð. Hvernig hyggst borgin endurvinna traust íbúa?
Fulltrúi Flokks fólksins leggur því fram eftirfarandi spurningar:
1. Hvernig hefur samráði við íbúa í Grafarvogi verið háttað
2. Hvar er raunverulegt samráð? Borgin státar sig af íbúalýðræði í fjölmiðlum, en metfjöldi athugasemda í Skipulagsgátt og fjölmennasti íbúafundur í manna minnum benda til annars.
3. Hefur Esja verið beðin um að vinna áfram tillögur að Sóleyjatúni? Hvernig er það eðlilegt þegar ekki hefur verið tekið ákvörðun um deiliskipulag?
4. Esja arkitektar leggja til byggingu á ýmis konar almannarýmum? Hver verður rekstraraðili að þeim? sbr. býflugnabú, samkomuhús og smíðaverkstæði?
5. Gengið á græn svæði: Telur borgin það forsvaranlegt að ganga á græn svæði þvert á viðvaranir sérfræðinga um heilsufarslegar afleiðingar og áhrif á líðan íbúa?
5. Brot á fyrri loforðum: Árið 2003 var lofað að skilja eftir grænt útivistarsvæði á Sóleyjatúni. Hvað varð um það loforð? Af hverju hefur svæðið ekki verið gert að aðlaðandi útivistarsvæði?
6. Kostnaðarmat vegna stofnlagna: Er borgin meðvitað um stofnlagnir undir Sóleyjatúni og þann kostnað sem fylgir flutningi þeirra ef áform um uppbyggingu verða að veruleika?
7. Staða Sóleyjartúns: Hvar er málið statt í ferlinu?
8. Öryggi barna: Hvernig á að tryggja öryggi skólabarna með framkvæmdum sem liggja þétt upp við einn fjölmennasta grunnskóla landsins? Einnig er spurt hvort hægt sé að réttlæta svo fá bílastæði miða við íbúðir í ljósi þess að víst má telja að bílastæðavandi muni skapa mögulega hættu fyrir gangandi vegfarendur?
9. Notkun á húsnæði Isavia: Þegar Isavia flytur út úr húsnæðinu við túnið, er spurt hvort ekki verði þá skynsamlegt að nýta það sem félagsmiðstöð fyrir unglinga eða leikskóla? Þannig mætti nýta túnið betur sem útivistarsvæði og koma til móts við þarfir barna í hverfinu. Isavia húsið verður friðað á næstu 2-3 árum.
10. Skuggavarp og áhrif á íbúa: Skuggavarp á Sóleyjatúni er þegar mikið og hefur áhrif á útsýni og sól í görðum íbúa hinum megin við götuna. Ætti ekki aðeins að leyfa lágreista byggð á svæðinu ef byggja á yfirhöfuð?
11. Hvernig ætlar borgin að tryggja jafnvægi milli þróunar í miðborg og úthverfum? Af hverju þarf að vera sama þéttingarstefnan í úthverfum og í miðborginni? Íbúar hafa lýst sig andsnúna svo mikilli þéttingu vegna skuggavarps og umferðarþunga sem af henni leiðir.
12. Upplýsingagjöf: Óskað er upplýsinga um af hverju íbúar hafa ekki verið upplýstir meira en raun ber vitni. Það er mat íbúa að upplýsingagjöf hafi verið léleg og vinnubrögð óskýr. Þetta kom berlega í ljós þegar ný tillaga að deiliskipulagi fyrir Mjódd var kynnt? Hvernig áttu íbúar að geta áttað sig á svona ferlum?

Greinargerð

Flokkur fólksins eins og aðrir kjörnir fulltrúar hefur ítrekað fengi skeyti frá íbúum í Grafavogi m.a. vegna Sóleyjarrima en einnig vegna fleiri þátta sem tengist uppbyggingu húsnæðisbyggðar. Í ljósi þess hvernig staðið var að samráði við íbúa Álfabakka, vilja íbúar Grafarvogs vita hvort sömu vinnubrögð verði höfð uppi í þeirra hverfi?

Íbúar hafa upplifað mikinn skort á samtali og samráði við borgina. Það eina sem sagt hefur verið er að borgarstjóri sé að fara yfir athugasemdir sem bárust í Skipulagsgátt. Íbúar upplifa sem þeim sé haldið utan við allar ákvarðanir, hafi enga stjórn á því hvernig verður unnið úr þessum athugasemdum, og samtalið sé algjörlega einhliða. Miklar áhyggjur eru af þessum málum og ekki síst núna þegar horft er á hvernig risastórt vöruhúss er byggt þétt upp við íbúablokk í Mjódd. Nú stendur til að byggja 3 hæða blokk (plús þakmæni) í neðri hluta Sóleyjarima og blokkera þar með allt útsýni og eftirmiðdagsbirtu. Hér er samskonar skipulagsslys í uppsiglingu. Þessar byggingar verða aðeins í nokkurra metra fjarlægð frá íbúahúsum.

Vinningstillaga sem fór í gegnum nefnd á vegum borgarinnar og er frá Esju Arkitektum gerir ráð fyrir þessu. Íbúar við Sóleyjartún eru í 1-2 hæða húsum. Í neðri hluta götunnar þar sem túnið stendur eru engar blokkir. Gríðarlega mikið af athugasemdum bárust í skipulagsgátt og hafa íbúar sent kjörnum fulltrúum ítrekaða pósta. Bílastæðamál eru svo annað vandamál sem ber að taka alvarlega. Þarna ganga ung börn í Rimaskóla og þeim er stefnt í hættu ef bílum verður lagt upp eftir allri götunni á gangstéttum vegna bílastæðaskorts. Íbúar kalla á eftir samráði og að skoðanir þeirra verði virtar sem og að allar stórar ákvarðanir verði lagðar undir íbúanna.