Umhverfis- og skipulagsráð 22. maí 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Elliðaárdalur – Breyting á deiliskipulagi – Skipulagslýsing . Lögð fram skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, dags. í apríl 2024,  vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulagi sem nær yfir afmarkað svæði í Elliðaárdal. Deiliskipulagstillagan nær yfir svæði frá Árbæjarstíflu upp fyrir Blásteinshólma og neðan frá stíflunni meðfram Rafstöðvarvegi að Elliðaárvirkjun.

Breyting á deiliskipulagi – Deiliskipulagstillagan nær yfir svæði frá Árbæjarstíflu upp fyrir Blásteinshólma og neðan frá stíflunni meðfram Rafstöðvarvegi að Elliðaárvirkjun.
Fjallað er í gögnum um nýtt hlutverk Árbæjarstíflu en með niðurlagningu virkjunarinnar er hlutverki hennar lokið. Nú á að finna henni annað hlutverk, einhvers konar tengihlutverk. Það er skoðun margra að stíflan slíti í sundur dalinn og ætti að rífa hana en hluti af henni er friðaður. Á meðan stíflan stendur er varla hægt að tala um að umhverfið verði komið í fyrra horf. Stíflan getur heldur varla virkað sem tengibrú eða brú af neinu tagi enda ekki hönnuð til slíks.  Auðveldara væri að byggja fallega brú þarna í stað stíflunnar. Forvitnilegt verður að sjá hvaða umsagnir berast við lýsingunni. Þegar á heildina er litið er ekki beinlínis séð að verið sé að koma Elliðaárdalnum í fyrra horf  samkvæmt þessum tillögum.

 

Ný mál

Tillögur um úrbætur við leikskólann Sunnuás

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að snarlega verði bætt úr aðgengismálum að leikskólanum Sunnuási en þar sárlega er vöntun á bílastæðum/sleppistæði svo foreldrar geti lagt bíl sínum  og farið með barn sitt inn í leikskólann. Athuga verður að margir foreldrar eru að koma með börn sín úr öðrum hverfum. Einnig er lagt til að fundnar verði lausnir til að létta á umferðarþunga í nágrenni við leikskólann.  Umferðin er sérstaklega mikil um Laugarásveg seinni partinn.

Greinargerð

Fyrir utan leikskólann Sunnuás ríkir iðulega sérhvern morgun ringulreið. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið sendar myndir og myndbandsupptökur því til staðfestingar. Þegar foreldrar koma með börn sín  í leikskólann fá þeir hvergi stæði til að leggja svo hægt sé að fara með börnin inn á leikskólann. Skólinn stendur við Dyngjuveg 18 en liggur að Laugarásvegi. Korteri fyrir opnun leikskólans er orðið stappað fyrir utan. Þarna myndast hættuástand hvern morgun og hreint kraðak jafnvel. Umferðaröryggi er mjög ábótavant þarna. Engin gönguljós eru yfir nærliggjandi gangbraut. Þegar það verður mikill snjóþungi verður ástandið þarna óhugsandi því þá er minna pláss á götunum. Yfir vetrartímann koma auk þess fleiri akandi með börn sín.

 

Flokkur fólksins leggur til að settar verði upp eftirlitsmyndavélar í nánd við helstu verðmæti af listrænum toga í Reykjavík.

Greinargerð:

Þetta er lagt til í ljósi ítrekaðra skemmdarverka nú síðast á Útlögum, styttu Einars Jónssonar myndhöggvara á horni Suðurgötu og Hringbrautar. Þessi stytta hefur ítrekað orðið fyrir skemmdarverkum. Mikilvægt er að ná í skemmdarvargana og að þeir axli ábyrgð. Eina leiðin til þess er að hafa eftirlitsmyndavélar, Flokkur fólksins hefur talað fyrir því í mörg ár. Dauðir hlutir njóta oft ekki griða í Reykjavík. Nefna má veggjakrot og aðrar skemmdir. Eignaspjöll fá að þrífast án nokkurrar refsingar þar sem skemmdarvargar nást sjaldan. Ef kostnaður af skemmdarverkum á opinberum eignum borgarinnar væri tekinn saman hlypi upphæðin  hundruð milljóna króna. Sama væri um að ræða ef kostnaður af skemmdum á eigum fólks í miðborginni væri tekinn saman. Flokkur fólksins hefur áður lagt til að gripið skuli til aðgerða. Einnig að myndaður yrði starfshópur sem leggjast myndi yfir hvaða kostir eru í stöðunni til að spyrna fótum við skemmdarverkum í borginni. Ef heldur áfram sem horfir þá munu skemmdarverk s.s. veggjakrot verða sem aldrei fyrr og hreinsun mun valda borginni gríðarlegum kostnaði. Á meðan það eru ekki afleiðingar af eignaspjöllum sem þessum  getur það virkað sem hvati til að skemma opinberar eignir sem aðrar. Ef einhverjir skemmdarvargar næðust eftir að þeir hafa verið myndaðir við iðju sína og krafðir um greiðslu fyrir skemmdirnar má ætla að þeir hugsi sig tvisvar um áður en þeir ákveði að skemma aftur