Umhverfis- og skipulagsráð 22. mars 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lögð fram svohljóðandi tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða dags. 16. mars 2023: Lagt er til við umhverfis- og skipulagsráð eftirfarandi fyrirkomulag fyrir sérbýlishús þar sem fyrir eru ein eða tvær sorptunnur í dag:

Skipulagsyfirvöld vilja hafa fyrirkomulag sorphirðu við sérbýli þannig að séu þrír eða færri íbúar í húsi verða sett tvö tvískipt sorpílát við húsið – annað fyrir blandað sorp og lífrænan eldhúsúrgang, hitt fyrir pappír og plast. Séu fjórir eða fleiri íbúar í húsi verða sett eitt tvískipt sorpílát fyrir blandað sorp og lífrænan eldhúsúrgang, eitt blátt sorpílát fyrir pappír og eitt grænt sorpílát fyrir plast. Samtals þrjú. Flokkur fólksins telur að það kunni að vera erfitt að hella plasti úr tunnu og vel kann að vera að hönnun tunnanna sé ekki sú besta í þessu sambandi, því gert er ráð fyrir að ekki verði hægt að hella plasti úr tunnunni. Ef ílát eru með þeim hætti að þau mjókki niður á við er lítil hætta á að efni sitji fast í þeim þegar þeim er hvolft.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð Sorpu bs. nr. 478, dags. 14. mars 2023, ásamt fylgiskjölum:

Nú á að kanna hvort hægt væri að byggja sorpbrennslustöð. Vonandi mun það verkefni ganga upp, óæskilegum efnum eytt og að varminn verði nýttur. Fulltrúi Flokks fólksins er nú ekki rólegur og má rekja áhyggjur og kvíða til fyrri vandamála Sorpu. Sorpbrennsla er sannarlega eitthvað sem þarf að gera og gera það í sátt við náttúruna. Það vantar ekki að stjórn fái hugmyndir en því miður hafa þessar stærstu ekki orðið farsælar. Hvert klúðrið hefur rekið annað. Flokkur fólksins telur að breyta þurfi Sorpu í grunnin. Byggðarsamlagskerfið hefur reynst Reykvíkingum dýrkeypt. Eitt lítið dæmi er kaupin á Kára, vindflokkunarvélinni sem nú sé sagt að vitað var að myndi ekki virka. Það nálgast, þegar upp er staðið, að vera bara einn stór brandari. Hvað næst?

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um vetrarþjónustu og innviði í Vogabyggð og öðrum uppbyggingarreitum sem merkir eru sem vistvænir:

Vetrarþjónustu hefur ekki verið sinnt vel í Vogabyggð og gefur skrifstofustjóri sínar skýringar á því. Líklega væri hægt að gera betur en áður var gert. Ef vetrarþjónusta og önnur þjónusta við borgarbúa ef háð því að verktakar standi sig vel þarf að skerpa á vinnulaginu. Hópur sem yfirfór þjónustuna hefur nýlega lokið störfum og gert tillögur að betrumbótum sem vonandi ganga eftir eins og smurð vél.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stafræna umbreytingu á umhverfis- og skipulagssviði, sbr. 30. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs:

Flokkur fólksins spurði eftirfarandi: Hvernig miðar verkefninu Átak í teikniskönnun þ.e. þeim hluta sem snýr að skönnun, Fulltrúinn man ekki betur en að hafa rekist reglulega á kynningar á þessu verkefni alveg frá árinu 2021 án þess að mikið hafi gerst síðan. Samkvæmt yfirliti yfir netspjall þá snýr helmingur afgreiðslna að vandamálum með aðgengi að teikningum. Einnig var spurt hvar ábyrgðin liggur í seinagangi stafrænnar umbreytingar Reykjavíkurborgar. Fram kemur að verkefnið sé í vinnslu. Af tölum um netspjall má sjá að óþreyja og pirringur ríkir hjá borgarbúum vegna slæms aðgengis að teikningum. Í stað þess að sýna ákveðna ábyrgð í framgangi stafrænnar umbreytinga, bendir þjónustu- og nýsköpunarsvið á umhverfis- og skipulagssvið n.t.t. byggingarfulltrúa. Frumkvæði stafrænnar umbreytingar kemur frá sviðunum sjálfum, stjórnendum þeirra eins og segir í svari. Með þessu er einfaldlega verið að varpa ábyrgðinni á frumkvæði og framkvæmd stafrænna umbreytinga yfir á aðra. Það er Þjónustu og nýsköpunarsvið sem er ábyrgðaraðili á frumkvæði og framkvæmd stafrænnar umbreytingar Reykjavíkurborgar og hefur fengið til þess úthlutað milljörðum á milljarða ofan. Ábyrgðin á öllum þeim töfum og beinum vandræðagangi sem seinkað hafa innleiðingu margra lausna, hlýtur þess vegna að falla eingöngu á þjónustu og nýsköpunarsvið en ekki aðra.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lögð fram vöktunarskýrsla Jóhanns Óla Hilmarssonar og Ólafs Karls Nielsen um vöktun fuglalífs Tjarnarinnar árið 2022:

Umhverfi Tjarnarinnar er manngert. Hér er ekki um náttúrulegt umhverfi að ræða, en það hefur lengst af verið með þeim hætti að það má teljast vera vin í annars ónáttúrulegri borg. Halda á svæðinu þannig og gera margt til að styðja við fjölbreytt fuglalíf. Margt er sagt í skýrslunni sem tekið er undir og að lögð verði vinna í vöktun lífríkis og ,,endurbætur á vistkerfinu”. Halda þarf mjög stórum og ágengum plöntutegundum frá svæðinu, en vernda gulstararflákana. Ekki er minnst á að bæta við hólmum en fjallað um þá sem þegar eru. Hólmar veita fuglsungum vernd gegn köttum og hvatt er til þess að kannað verði hvort ekki megi gera fleiri hólma.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, dags. 7. mars 2023, vegna nýs deiliskipulags fyrir Veðurstofureit. Í tillögunni sem lögð er til felst að koma fyrir nýrri íbúabyggð ásamt þjónustu á Veðurstofuhæð:

Skipulagsyfirvöld óska eftir að skipulagslýsing fyrir Veðurstofureit verði send í kynningu. Fækka á bílastæðum sérstaklega mikið, meira en í öðrum þéttingar hverfum og setja bílastæðahús. Gert er ráð fyrir að þarna búi þeir sem vilja lifa bíllausum lífsstíl. Fulltrúa Flokks fólksins finnst með þessu að verið sé að útiloka mikilvæga valmöguleika. Blönduð byggð skal vera þarna t.d. stúdentaíbúðir og sambýli sem Flokki fólksins finnst jákvætt. Stefnt er að þarna rísi 250 íbúðir jafnvel meira. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af því að kvartað verði yfir því sama og heyrst hefur frá t.d. íbúum Vogabyggðar, að erfitt sé að komast í og út úr hverfinu. Athugasemdir hafa komið um mögulega of mikið skuggavarp og það eru sömu kvartanir og víða heyrist og þar sem þétt hefur verið meira en góðu hófi gegnir.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um breytingar á gatnamótum Kleppsmýrarvegar/Skeiðarvogs:

Fyrirspurnir vegna breytinga á gatnamótunum Kleppsmýrarvegar/Skeiðarvogs og Sæbrautar. Meðal annars á að fella niður aðra af af tveimur vinstri beygjuakreinum frá Kleppsmýrarvegi til suðurs inn á Sæbraut. Þar fara vöruflutningar um frá ýmsum stórfyrirtækjum og myndast gjarnan teppur á álagstímum. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvort þessi áform sem eiga að stuðla að bættu umferðaröryggi geti í raun ekki aukið slysahættu en hitt? Áhyggjur eru af því að þetta muni hreinlega auka áhættuna á því að bílstjórar fari yfir á rauðu ljósi þegar færri bílar komast yfir gatnamótin hverju sinni en er í dag. Vogabyggð hefur byggst hratt upp og er stórt íbúðahverfi og eiga íbúar þar í erfiðleikum með að komast út úr hverfinu á álagstímum. Sama má segja um viðskiptavini fyrirtækja sem þarna eru. Það eru umferðarteppur niður í Kjalarvog og Skútuvog á álagstímum og beygjuljósin anna vart umferð. Um þessi gatnamót er keyrt stórum hluta af byggingarefni inn á höfuðborgarsvæðið. Þeir sem þekkja best til þarna furða sig á þessum vinnubrögðum og telja að ef þessi breyting verði mun meiri umferð beinast í gegnum Vogabyggðina með tilheyrandi aukningu á mengun og slysahættu. USK23030285

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um strætókort og afslætti:

Flokkur fólksins óskar upplýsinga um af hverju ekki er gefinn afsláttur á fargjaldi nema að skilja eftir persónulegar upplýsingar sem ættu ekkert að koma því við að fara frá A til B með strætisvagni. Bent er á að 30 daga kort er ekki hægt að kaupa nema skilja eftir persónulegar upplýsingar hjá stjórnendum strætó og undirmönnum þeirra. Af hverju er talið nauðsynlegt að safna auk nafns, kennitölu, símanúmeri, heimilisfangi og tölvupósti notenda Strætó. Hægt er að fá kort sem gildir í 30 daga og kostar það 9000. Hvort er meira keypt af 30 daga korti eða 10 miða korti? Einnig er spurt af hverju 10 daga fargjaldakort gefur engan afslátt? Tíu daga fargjaldakort kostar 5.500 kr. en stök ferð kostar, þ.e. 550 kr. Til hvers að kasta pening í að prenta kort ef það skilar farþegum engum hagnaði? Til hvers er farið í þennan leiðangur? USK23030287

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hreinsun tjarnarinnr:

Fulltrúi Flokks fólksins er oft spurður um hvort hann telji að meirihlutinn taki ákvörðun um að láta hreinsa tjörnina, t.d. fjarlægja rusl, hreinsa rusl úr tjörninni sjálfri, klippa runna og fjarlægja illgresi í kringum tjörnina. Mörgum finnst tjörnin hreinlega sóðaleg oft á tíðum. Til að hlúa að lífríki hennar þarf tjörnin að vera hrein og laus við mengun. Hættuleg efni geta auðveldlega ratað í tjörnina. Spurt er hvað er langt síðan tjörnin var hreinsuð rækilega? Einnig hversu reglulega er tjörnin hreinsuð? Óskað er eftir lýsingu á hreinsun og hvað er það helst sem hreinsað er úr og í kringum tjörnina. Vitað er að vöktun er á þessum málum að einhverju leyti en fróðlegt væri að fá skriflegt svar um t.d. hvaða efni hafa fundist í tjörninni og hvaðan er talið að þau haf komið? USK23030291

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort það sé rétt að USK hefur dregið lappirnar í stafrænni umbreytingu?

Fram hefur komið í svari frá þjónustu- og nýsköpunarsviði við fyrirspurn Flokks fólksins um hvernig verkefninu Átak í teikniskönnun miðar á umhverfis og skipulagssviði, þeim hluta sem snýr að skönnun. Einnig var spurt hvar ábyrgðin liggur í seinagangi stafrænnar umbreytingar á sviðinu. Fram kemur hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði að verkefnið sé í vinnslu og við svari um hvar ábyrgðin liggur í seinagangi stafrænna umbreytingar á umhverfis- og skipulagssviði kemur fram að ábyrgðin sé hjá umhverfis- og skipulagssviðinu sjálfu n.t.t. byggingarfulltrúa. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort það sé rétt að sviðsstjóri og byggingarfulltrúi beri ábyrgð á að sviðið sé ekki komið lengra í stafrænni umbreytingu en raun ber vitni? Að um hafi verið að ræða seinagang í undirbúningi fyrir að meðtaka stafrænar lausnir sem ÞON bauð upp á? Frumkvæði stafrænnar umbreytingar á að koma frá sviðunum sjálfum, stjórnendum þeirra eins og segir í svari frá þjónustu- og nýsköpunarsviði. USK23030290

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hreinsun Gufuness:

Nú stendur til að byggja upp Gufunesið með glæsibrag. Fulltrúi Flokks fólksins hefur í því sambandi áhyggjur af mengun á svæðinu. Óskað er upplýsinga um hvort til standi að hreinsa svæðið áður en lengra er haldið? Sorpa er þarna með móttökustöð og því fylgir mikið drasl. Eins og stendur er erfitt að sjá að þarna í grennd verði einhver sælureitur. Hluti nessins er manngert með urðuðu sorpi til áratuga. Almennt er svæðið sóðalegt og hefur lengi verið. Síðan er asbest í sumum gömlum byggingum þarna frá tímum Áburðarverksmiðjunnar sem gæti valdið miklum skaða ef hreyft er við. Spurt er hver mun bera ábyrgð ef það veldur heilsutjóni? USK23030284