Forsætisnefnd 16. september 2022

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Samþykkt fyrir mannréttinda- og ofbeldisvarnaráð:

Mannréttindaráð er að taka miklum breytingum. Búið er að taka stafrænum málin úr því og setja í sér ráð og inn er kominn málaflokkur ofbeldis sem áður átti sína eigin nefnd. Þessar breytingar eru umdeildar og allsendis óvíst hvort þessi breyting verður til góðs eða ekki. Hætta er á að ofbeldis- málaflokkurinn fái mun minna vægi en áður þegar hann hafði sérstaka umgjörð.  Ef samþykktir er skoðuð, rekur fulltrúi Flokks fólksins augun í að “Mannréttinda- og ofbeldisvarnaráð” skuli hafa eftirlit með rekstri mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu. Flokkur fólksins veltir því fyrir sér hvað þetta þýðir, hversu umfangsmikið  er þetta eftirlit? Ráðið á einnig að stuðla að hvers lags upplýsingagjöf. Þetta er einnig óljóst. Er átt við upplýsingagjöf til borgarbúa? Mikið er af kynningum í Ráðinu en þær upplýsingar ná ekki eyrum borgarbúa enda fundir Ráðsins lokaðir. Fulltrúi Flokks fólksins vill sjá mannréttindaráðið aflmeira og virkara en það hefur verið. Vera meira vakandi yfir hvar pottur er brotinn og hvar er mögulega verið að brjóta mannréttindi á fólki. Ráðið þarf einnig að láta sig  alla hópa samfélagsins varða, efnaminni og fátæka, eldra fólk, börnin sem bíða á biðlistum, fatlað fólk og öryrkja. Ráðið getur beitt sér af krafti og í mörgum málum og óskað eftir samvinnu við önnur fagráð.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Samþykkt fyrir Stafrænt ráð:

Fulltrúum Flokks fólksins hreinlega brá þegar þær fréttir bárust, stuttu eftir að gengið var frá skipunum í ráð og nefndir á nýju kjörtímabili, að búið væri að ákveða að fjarlægja stafrænu málin úr mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráði og búa til utan um málaflokkinn sérstakt ráð.
Sú hugsun skaut upp kollinum hvort að með þessari tilfærslu væri verið að vernda  þjónustu og nýsköpunarsvið fyrir  gagnrýni Flokks fólksins á hvernig sýslað er með útsvarsfé borgarbúa. Flokkur fólksins hefur ítrekað leitað svara við hvort bruðl og sóun  hafi átt sér stað í stafrænni umbreytingu Reykjavíkurborgar? Flokkur fólksins hefur haft þá skoðun að árangursstjórnun sviðsins sé óábyrg. Ný Ársskýrsla sviðsins styður þessa skoðun en þar virðist helsta áhersla sviðsins vera að “sigra hinn stafræna heim”  á erlendri grundu. Í nýrri samþykkt kemur fram að Stafrænt ráð skal hafa eftirlit með rekstri þjónustu og nýsköpunarsviðs. Vel kann að vera að aðhald og eftirlit verði betra hjá nýju Stafrænu ráði en hjá síðasta meirihluta. Sporin hræða. Allt of mörg stafræn verkefni hafa verið illa skilgreind og mörg eru enn ýmist í þróunar, uppgötvunar– eða tilrauna fasa. Margar lausnir hafa einnig hreinlega dagað uppi eftir að búið var að setja umtalsvert fjármagn í þær.