Umhverfis- og skipulagsráð 4. september 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

Sáttmálinn er að mestu um stórar framkvæmdir sem koma í gagnið eftir mörg ár. Tímalína nær til allt að 2040. Um er að ræða Miklubraut í göng, Fossvogsbrú og Borgarlínu. Þeir sem eru komnir vel yfir miðjan aldur munu aldrei upplifa eða sjá þennan veruleika en sitja hins vegar áfram fastir í umferðarteppum með tilheyrandi mengun sem aðeins mun versna því bílum fjölgar stöðugt. Fram kemur í Samgöngusáttmálanum að fjárfesta eigi í tækjabúnaði, úrbótum og tækniþróun fyrir umferðarljósastýringar en það kemur ekki fram hvenær. Þetta er bráðavandi sem þarf að leysa hið fyrsta. Fram hefur komið að ekki eigi að eyða krónu í að leysa bráðavanda. Í Sáttmálann vantar enn fullt af kostnaðarliðum í áætlunina eins og verkstæði, geymslur fyrir vagna, stjórnstöð, tölvubúnað o.fl. Gera þarf ráð fyrir að kostnaður verði enn meiri og kannski þarf að uppfæra Sáttmálann enn einu sinni t.d. eftir 2 ár. Eftir því er tekið að uppfærslan er unnin nokkurn vegin af sama fólki og bjó til fyrri sáttmálann. Það er galli því betur sjá augu en auga. Jákvætt er að Ríkið skuldbindur sig til þess að fjármagna þriðjung kostnaðar vegna reksturs almenningssamgangna á móti sveitarfélögunum. En hvort við munum sjá ávinning af því fljótlega er stóra spurningin.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Að lokinni kynningu er lögð fram að nýju skipulagslýsing fyrir Sóleyjarima dags. í maí 2024. Um er að ræða deiliskipulagslýsingu vegna nýrrar íbúðabyggðar við Sóleyjarima.

Athugasemdir lúta að því að 5 hæða bygging skyggi á útsýni í næsta nágrenni sem eru einbýlishús sem standa við Smárarima og raðhús sem standa við Sóleyjarima. Það myndi því breyta yfirbragði byggðarinnar verulega ef fjölbýlishús allt að 5 hæðir myndu rísa á uppbyggingarreit 91. Sóleyjarimi. Að auki myndi háreist byggð hafa áhrif á útsýni úr eignum við Smárarima 81. Einn orðar þetta þannig að hann sé að fá 5 hæða hús í bakgarðinn sinn. Fulltrúi Flokks fólksins finnst mjög mikilvægt að fundin verði lending í máli af þessu tagi sem getur samþætt sjónarmið beggja aðila að einhverju leyti en þá helst íbúanna fyrst og fremst. Af gögnum að dæma hafa íbúar verið að kvarta lengi en hafa ekki náð eyrum skipulagsyfirvalda.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju umsókn Grímu arkitekta ehf., dags. 26. mars 2024, um breytingu á deiliskipulagi Breiðholt I vegna lóðanna nr. 2-6, 8 og 10 við Arnarbakka.

Gott er að breyta úreltu húsnæði við Arnarbakka í íbúðir enda eru innviðir góðir í næsta nágrenni, verslun, þjónusta og viðunandi samgöngumöguleikar. Hins vegar má setja spurningarmerki við að ekki eigi að vera kjallari undir húsunum. Í kjöllurum má geyma bíla og önnur farartæki og spara þannig rými á opnu svæði, eða bara að fjölga bílastæðum. Það er líka í stefnu borgarinnar að geyma bíla sem mest neðanjarðar, en af hverju ekki hér? Á neðstu hæð húsanna eiga m.a, að vera verslanir og hagur getur verið af því að þær hafi aðgang að geymslu í kjallara. Af öðrum athugasemdum að segja eru áhyggjur af því að gengið er á græn svæði og leiksvæði barna og byggingarmagn sé of mikið og þéttleiki byggðar. Þessar athugasemdir er rauði þráðurinn í nánast í öllum deiliskipulagsmálum í borginni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Umsögn um tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um úrbætur við leikskólann Sunnuás.
Felld með fimm atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokks

Tillagan er felld af meirihlutanum. Í umsögn segir að töluverður fjöldi af bílastæðum sé í nágrenni leikskólans Sunnuás og var því ekki talið tilefni til að útbúa tímabundin bílastæði í stað þeirra sem nú eru notuð undir tímabundið húsnæði. Hvað er “töluverður fjöldi” mörg bílastæði í huga meirihlutans? Þrjár götur umlykja leikskólann og er spurning hvort það teljist göngufjarlægð frá leikskólanum og hversu auðvelt það er með ung börn. Heimilt er að leggja beggja megin í götu við leikskólann að því gefnu að farið sé eftir ákvæðum umferðarlaga, t.a.m. að ökutæki sé ekki lagt á gangstétt, innan 5 metra frá gangbraut. Þetta gerir það að verkum að þrengsl myndast í götunni. Sumir foreldrar eru að koma langt að og koma því á bíl. Foreldrar hafa kvartað yfir erfiðleikum með aðgengi að þessum leikskóla og finnst fulltrúa Flokks fólksins að hlusta eigi á það. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið sendar myndir og myndbandsupptökur því til staðfestingar. Umferðaröryggi er ábótavant þarna. Engin gönguljós eru við nærliggjandi gangbraut. Yfir vetrartímann koma fleiri akandi með börn sín og þegar snjóþungt er þá er enn minna rými á götunum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sbr. 36 liður fundargerðar umhverfis- og skipulagssviðs 29. maí 2024. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 27. ágúst 2024.

Hér er spurt hvers vegna borgin vill ekki þrýsta á Vegagerðina með að fá viðræður um breikkun Breiðholtsbrautar frá Jafnaseli að Rauðavatni eins og Flokkur fólksins lagði til í tillögu 2021, en tillagan var felld af meirihlutanum. Borgin má alveg gæta hagsmuna borgarbúa. En af marka má svör er ekki mikils að vænta. Fulltrúi Flokks fólksins veit að tvöföldun Breiðholtsbrautar er framkvæmd á vegum Vegagerðarinnar. Fulltrúinn veit einnig að forgangsröðun þessara verkefna er ákvörðuð í gegnum samgönguáætlun og í gegnum samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Ekkert af þessu hindrar borgina í að þrýsta á Vegagerðina með að fá viðræður um breikkun Breiðholtsbrautar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. 33. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 26. júní 2024 um almenningssalerni.

Spurt var um almenningssalerni í Reykjavík. Fram kemur í svari að það eru 5 salernisturnar Reykjavík, en þar af hefur salernisturn í Hljómskálagarði ekki verið virkur lengi og ekki hefur fundist lausn á því að koma honum í lag aftur, sem er sérkennilegt. Það væri forvitnilegt að vita hvort það hafi borist kvartanir vegna vöntunar á almenningssalernum í Reykjavík. Fulltrúi Flokks fólksins veit til þess að komið hafa all margar ábendingar m.a. frá ungu fólki um að fjölga þurfi almenningssalernum í borginni. Eitt er að setja upp klósett og hitt að halda því við og sjá um tilheyrandi þrif. Fátt er meira óaðlaðandi en að koma inn á almenningssalerni sem ekki hefur verið þrifið um tíma.