Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra um nýtt útboð á heimsendum mat:
Flokkur fólksins vill stíga varlega til jarðar þegar kemur að útvistun opinberra verkefna til einkaaðila, sérstaklega þegar kemur að beinni þjónustu við viðkvæma hópa. Útvistanir til einkaaðila hafa gengið misvel auk þess sem útvistanir geta leitt til lægri launa, verra starfsumhverfis og verri þjónustu. Ef horft er til matarþjónustu á velferðarsviði þá erum við í Flokki fólksins ekki sannfærð um að henni eigi að útvista. Það gæti leitt til þess að þjónustan færist fjær fólkinu og að persónulegar þarfir fólks séu ekki virtar. Útvistun er ekki ávísun á sparnað. Hafa skal í huga að varla er nokkurt fyrirtæki að óska eftir verkefni nema komið sé út í hagnaði. Það leiðir líkum að því að gjöld kunni að hækka fyrir þjónustuna. Þann 8. júní 2022 voru tilboð á EES útboði velferðarsviðs. Eitt tilboð barst upp á kr. 317.400.000 en í kostnaðaráætlun var gert ráð fyrir kr. 170.100.000. Fleiri tilboð bárust ekki og var tilboðinu hafnað. Nú á að reyna að auka tímaramma samnings úr tveimur árum í tíu ár til að tryggja að viðunandi tilboð fáist. Flokki fólksins finnst áhætta fólgin í því ef þjónustan er léleg og þá er ekki hægt að segja upp samningi.
Bókun Flokks fólksins kynningu ársskýrslu velferðarsviðs 2021:
Ársskýrsla velferðarsvið er yfirgripsmikil. Fulltrúa Flokks fólksins fannst sérstaklega athyglisverðar upplýsingarnar um stuðningsþjónustu fyrir börn og foreldra. Þar koma fram algengustu ástæður tilvísana barna til stoðþjónustu. Aukning er á öllum ástæðum tilvísana. Langmesta aukningin milli ára er hins vegar vegna tilfinningalegs vanda, eða um 63% og vegna málþroskavanda, eða 62%. Einbeitingarvandi hefur aukist frá 280 í 456 börn. Hér eru án efa vísbendingar um ADHD. Þessi börn þurfa að fá skimun og greiningu til að fá viðeigandi úrræði. Það er greinilegt af þessum upplýsingum að mikil fjölgun hefur orðið hjá börnum sem glíma við tilfinninga- og félagslegan vanda. Þetta þarf að greina nánar þ.e. í hverju vandinn felst. Flokkur fólksins hefur ítrekað bent á að málefni barna verði að hafa meiri forgang. Það er ótækt að börn séu á bið eftir þjónustu fagaðila í skóla. Hvert barn á biðlista er einu barni ofaukið en nú eru börnin 2017 sem bíða eftir stuðningsþjónustu. Hundruð barna hafa verið á biðlistum barna eftir allri mögulegri þjónustu í Reykjavíkurborg. Hér þarf velferðarsvið að axla ábyrgð. Það Þarf að styðja betur við foreldra í uppeldishlutverkinu og brýnt er að víkka út úrræðið PMTO sem hefur gefið góða raun.
Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins um endurskipulagningu íbúðakjarnans að Rökkvatjörn, sbr. 5. lið fundargerðar velferðarráðs frá 31. ágúst 2022:
Tillagan er felld með fimm atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
Flokkur fólksins lagði til að farið verði í að endurskipuleggja íbúðakjarna að Rökkvatjörn 3 með það að markmiði að gera almenningsrými fyrir íbúana. Komið hefur í ljós að það er stór galli á húsnæðinu því þar er ekkert sameiginlegt rými þar sem íbúar geta komið saman, borðað saman og horft saman á viðburði í sjónvarpi. Fram kemur í umsögn að húsnæðið að Rökkvatjörn var sérstaklega hannað og skipulagt með hagsmuni verðandi íbúa að leiðarljósi. Að hönnun komu auk arkitekta og fulltrúa Félagsbústaða, sérfræðingur af skrifstofu málefna fatlaðs fólks. Komu aðstandendur og verðandi íbúar ekkert þarna að? Það er stefna borgarinnar að sameiginleg almenningsrými skuli ekki vera í íbúðakjörnum fyrir fatlað fólk . Auðvitað hentar það ekki endilega öllum. Það er ekki afsökun að aðhafast ekkert ef meirihluti aðstandanda og notenda vilja annað. Í stað almenningsrýmis er í öllum íbúðakjörnum íbúð sem nýtist sem starfsmannaaðstaða og þessa íbúð geta íbúar nýtt sér til sameiginlegra viðburða óski þeir þess. Hér er bara mikil hætta á að þessi íbúð endi sem starfsmannaaðstaða. Flokkur fólksins fagnar því að stofna eigi íbúaráð sem geti tekið ákvarðanir varðandi þetta rými og önnur mál sem þau vilja ræða til að gera húsið sitt að skemmtilegu samfélagi.
Bókun Flokks fólksins við svari fyrirspurna fulltrúa Flokks fólksins um nýtt fyrirkomulag heimaþjónustu, sbr. 13. lið fundargerðar velferðarráðs frá 31. ágúst 2022:
Ástæða fyrirspurnar Flokks fólksins um nýtt fyrirkomulag heimaþjónustu er að ábendingar hafa borist um að sú breyting sem gerð var hefur fengið gagnrýni. Ábendingar hafa borist um að fólki sé ætlað að gera meira en það getur. Varast þarf að ganga of langt og ávallt að muna að þjónustuþeginn stýrir för. Í svari er farið yfir regluverkið og allt gott um það að segja. En fylgja þarf þessu eftir með aðhaldi og eftirliti og ef einhver kvartar þá þarf að hlusta. Ef fjármagn er takmarkað þá verður forgangsröðun oft mjög stíf og aðeins þeir sem eru í allra mestu þörf fá aðstoðina. Það gengur auðvitað ekki. Þeir sem þurfa aðstoðin eiga að fá hana.
Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra, dags. 21. september 2022, við framhaldsfyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um óafgreidd mál Flokks fólksins frá síðasta kjörtímabili, sbr. 10. lið fundargerðar velferðarráðs frá 10. ágúst 2022:
Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Flokkur fólksins spurði um óafgreidd mál Flokks fólksins hjá velferðarsviði. Segir í svari að lagðar hafi verið fram á síðasta kjörtímabili 57 tillögur og 76 fyrirspurnir. Samkvæmt gögnum sviðsins er búið er að afgreiða allar tillögur og fyrirspurnir frá síðasta kjörtímabili. Ein fyrirspurn, sem lögð var fram í borgarráði 4. júlí 2019, hefur ekki verið svarað. Sú fyrirspurn snýr að afdrifum búsetuhúss en ekki hefur fengist niðurstaða í það mál. Óskandi er að niðurstaða komi í það mál sem fyrst. Fjórar tillögur: Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um sjúkraþjálfun og heimahjúkrun; tillaga fulltrúa Flokks fólksins um matseðil, framleiðslu matar og næringargildi; tillaga fulltrúa Flokks fólksins um verkferla aðstoðar við böðun eldri borgara og tillaga fulltrúa Flokks fólksins um átak í að kynna tilkynningarhnapp ætlaðan börnum í Reykjavík hafa verið afgreiddar af ráðinu með vísun til vinnu innan stjórnkerfisins. Það hafði þó ekki verið gerð formlega grein fyrir afdrifum þeirra.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvar allir þeir 118 sem bíða eftir félagslegri heimaþjónustu eru staddir:
Hinn 1. september sl. voru 118 á bið eftir félagslegri heimaþjónustu. Flokkur fólksins vill spyrja hvar þetta fólk er statt? Hvað margir eru heima að bíða? Hvað margir eru hjá aðstandendum? Hvað margir eru á hjúkrunarheimilum, þjónustukjarna og hvað margir eru fastir á Landspítala – háskólasjúkrahúsi vegna þess að þeir geta ekki farið heim því enga heimaþjónustu er að fá. Árið 2019 biðu 271. Ástandið er búið að vera slæmt í áratugi. Aðeins hefur verið hægt að sinna þeim sem eru veikastir.