Ungmennaráð fer fram á betra aðgengi að skólasálfræðingum!

Það var sannkallað ánægjuefni þegar fulltrúi í ungmennaráði Árbæjar og Holta hafði samband við mig. Erindið var að ungmennaráðið ætlaði að leggja fram tillögu um betra aðgengi að sálfræðiþjónustu í grunnskólum Reykjavíkur á fundi borgarstjórnar með ungmennum 8. febrúar.

Mér var bæði ljúft og skylt að senda þeim efni og segja þeim frá baráttu minni með málið í borgarstjórn. Árum saman hefur sálfræðingum ekki fjölgað í skólum þrátt fyrir að börnum hafi fjölgað.Enda þótt sálfræðingar séu hluti af þverfaglegu teymi skólaþjónustunnar ættu þeir engu að síður að hafa aðsetur í skólunum eins og áður var.

Fyrir börnin og foreldrana skiptir sýnileiki sálfræðinga og aðgengi að þeim miklu máli. Börnin og foreldrar þeirra þurfa að þekkja skólasálfræðinginn sinn, vita hvar hann er að finna og vita að þau geti leitað til hans með skömmum fyrirvara og jafnvel fyrirvaralaust.Með því að sálfræðingar hafi aðsetur í skólunum geta þeir unnið þéttar með námsráðgjafa og skólahjúkrunarfræðingi.

Saman geta þessir fagaðilar myndað öflugt teymi sem sinnir forvarnarstarfi og verið til taks fyrir börnin, starfsfólkið og foreldrana allt eftir atvikum og þörfum. Barn sem þarf að bíða lengi eftir þjónustu fagaðila eða fær ekki aðstoð við hæfi er því miður í meiri hættu á að grípa til örþrifaráða

Sorglega langur biðlisti

Umsóknum um þjónustu í skólum hefur fjölgað gríðarlega frá 2020. Langur biðlisti er eftir fagþjónustu skólaþjónustunnar og hefur reyndar verið árum saman en fyrir COVID stefndi í sögulegt hámark hans. Nú bíða 1.804 börn eftir aðstoð fagfólks skóla. Bæst hafa um 200 börn á listann á örstuttum tíma.

Ekki hefur verið brugðist við þessari fjölgun nema að litlu leyti. Sálfræðiþjónusta og þjónusta talmeinafræðinga er ekki í forgangi hjá meirihlutanum í borgarstjórn. Það viðbótarfjármagn sem veitt hefur verið í málaflokkinn á árinu er dropi í hafið og sér varla högg á vatni í stóra samhenginu.

Naumt er skammtað og eins mikið og meirihlutinn segir að þetta sé hið versta mál er ekki verið að gera nóg til að eyða biðlistum. Á meðan bíða börnin með ófyrirséðum afleiðingum. Fulltrúi Flokks fólksins fagnaði því vissulega þegar ákveðið var að auka fjárheimildir til velferðarsviðs 2022 um 100 milljónir vegna tímabundinnar fjölgunar sérfræðinga til að vinna úr áhrifum COVID-19 á börn og unglinga.En þetta er ekki há upphæð og mun varla duga til að taka obbann af biðlistakúfnum.

Meirihlutinn horfir grannt í krónuna þegar kemur að því að fjárfesta í andlegri heilsu barna en er alveg til í að setja háar fjárhæðir í alls kyns „annað“ jafnvel eitthvað sem enginn er að biðja um.

Brýnna er en orð fá lýst að ganga í þetta verkefni enda hefur hver skýrslan á fætur annarri staðfest að andleg líðan unglinga fari versnandi.

Skylda borgarinnar er að tryggja öllum börnum sem þess þurfa biðlistalaust aðgengi að skólasálfræðingum. Við eigum að geta gert forgangskröfu um að börn hafi gott aðgengi að sálfræðingum – það er einfaldlega svo mikið í húfi! Koma svo!

Grein birt í Fréttablaðinu 9. febrúar 2022