Ungmenni sem beitir ofbeldi líður ekki vel

Á síðasta ári reið bylgja ofbeldis yfir meðal íslenskra barna og ungmenna í Reykjavík þar sem vopnaburður er notaður þ.m.t. eggvopn. Einnig hefur færst í aukana að ungt fólk taki myndskeið af ofbeldi sem það sjálft, beint eða óbeint er þátttakandi í eða verður vitni að, og setji það á samfélagsmiðla. Myndskeið af þessu tagi hafa farið eins og eldur í sinu og virðist stækkandi hópur barna sýna þeim áhuga og dreifa þeim áfram um netmiðlana til að fá vinsældir og viðurkenningu. Í ljósi þessa óskaði borgarfulltrúi Flokks fólksins eftir umræðu um þessi mál á fundi borgarstjórnar 3. janúar s.l.

Hvað þurfa börnin?

Ungmenni sem beitir ofbeldi af ásetningi líður ekki vel. Ástæður geta verið fjölmargar og margslungnar. Grafast þarf fyrir um þær og sjá til þess að viðkomandi fái aðstoð við hæfi.

Öll vitum við hvað það er sem börn þurfa til að geta vaxið úr grasi og orðið heilbrigðir og heilsteyptir einstaklingar. Börn þufa ást og aðhald til að þrífast. Börnum þarf að sinna á öllum sviðum til að þeim geti liðið vel og notið hæfileika sinna. Börn þurfa fræðslu og þeim þarf að setja mörk. Kenna þarf börnum að koma ávallt vel fram við aðra og vera góð við minnimáttar, börn og dýr. Börn þrá tengingu við aðra, fullorðna jafnt sem jafningja og þau þrá viðurkenningu. Fái þau ekki umbun, ást og viðurkenningu í raunheimi eru líkur á að þau leiti að henni á samfélagsmiðlum eða í gerviveröld.

Börn sem líða langvinnan skort, búa við óviðunandi aðstæður eða eru beitt ofbeldi eiga á hættu að skaðast tilfinninga- og félagslega, jafnvel til langs tíma eða ævilangt. Grunnþörfum barna þarf að sinna til að það eigi þess kost að þróa með sér gott sjálfstraust og sjálfsöryggi. Barn sem er svangt vegna fátæktar foreldra eða fær ekki tækifæri til að festa rætur í félagslegu umhverfi hefur ekki sömu möguleika og önnur börn sem fá þessum grunnþörfum sínum mætt. Sé skortur á einhverjum þessara grunnþátta í aðstæðum barns eru auknar líkur á að barnið þrói með sér viðvarandi vanlíðan, brotna sjálfsmynd og félagslegt óöryggi sem getur markað þau um langan tíma og haft áhrif á þeirra helstu ákvarðanir í lífinu.

Borgarstjórn ber ábyrgð

Rannsóknir og lærðar skýrslur hafa ítrekað bent á að líðan barna í Reykjavík hefur farið versnandi sem birtast m.a. í aukningu í sjálfsvígsgælum, sjálfsskaða og sjálfsvígstilraunum. Sem borgarfulltrúi finn ég fyrir mikilli ábyrgð í þessum málum og finnst að borgarstjórn eigi að vera kraftmeiri og ákveðnari í að halda betur utan um börn í Reykjavík sem glíma við erfiðleika af einhverju tagi og hlúa enn meira að foreldrum þeirra en nú er gert. Hjá skólaþjónustu Reykjavíkurborgar bíða nú 2048 börn eftir sálfræðiaðstoð og greiningu og meðferð hjá talmeinafræðingum. Þessi staðreynd sýnir okkur svart á hvítu hver staðan er í þessum málaflokki í Reykjavíkurborg.

Í umræðunni í borgarstjórn 3. janúar s.l. var meirihlutinn spurður af hverju ekki sé verið að vinna hraðar og markvissara að því að innleiða Barnasáttmálann í Reykjavík. Í Barnasáttmálanum er kveðið á um að börn eigi rétt á fræðslu, vernd, aðstoð og meðferð, leiki grunur á að þau séu skaðleg sjálfum sér og eða öðrum. Fátt var um svör.

Reykjavíkurborg hefur sofnað á verðinum að mati Flokks fólksins. Hinn langi biðlisti barna eftir aðstoð ber skýran vott um það. Ástandið er svo sem ekki skárra á ríkisstofnunum eins og BUGL og Þroska- og hegðunarstöð. Biðlistar eftir þjónustu þar eru í sögulegu hámarki.

Flokkur fólksins kallar eftir að meirihlutinn í borgarstjórn sem stjórnvald vakni upp og beiti sér af krafti í þessu mikilvæga verkefni. Huga þarf að aðgerðum og aðferðarfræði. Málefni barna og ungmenna varða okkur öll. Kjarnaspurningin er hvernig Reykjavíkurborg geti og ætli að beita sér til að spyrna fótum við þeirri óheillaþróun sem hér er lýst. Reykjavíkurborg sem rekur m.a. skóla og félagsmiðstöðvar verður að axla ríkari ábyrgð en gert er núna enda á þessi þróun sér djúpstæðar orsakir og langan aðdraganda. Hlutverk borgarstjórnar er að styðja t.d. enn betur við skólasamfélagið og foreldra með því að veita víðtæka og reglulega fræðslu og með því að tryggja að ekkert barn þurfi að bíða mánuðum ef ekki árum saman eftir nauðsynlegri aðstoð og hjálp við hvort heldur námslegum, félagslegum eða tilfinningalegum vanda sínum.

Birt í Morgunblaðinu 10. janúar 2023