Velferðarráð 17. mars. 2021

Bókun Flokks fólksins við kynningu á drögum að aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2021-2023:

Í aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2021-2023 er hvergi minnst á  einelti. Einelti er ein birtingarmynd ofbeldis. Spurt er hversu algengt ofbeldi er í rannsókn en þá er ekki meðtalin vanræksla, andlegt ofbeldi, rafrænt ofbeldi eða einelti þannig að sú tala sem niðurstöður sýna getur varla birt þann raunveruleika sem við búum við.  Huga þarf að aðgerðum gegn einelti eins og öðru ofbeldi enda er það skráð að framtíðarsýn Reykjavíkurborgar er að vinna gegn einelti, áreitni og ofbeldi á öllum sviðum og vinnustöðum borgarinnar. Þolendur og gerendur eineltis finnast í öllum hópum óháð aldri,  stöðu eða stétt. Einelti eða samskiptamynstur sem getur leitt til eineltis eða útilokunar má rekja allt niður í leikskóla og fyrirfinnst einnig á hjúkrunarheimilum og dagdvöl eldri borgara. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu í skóla- og frístundaráði um að kannað verði verklag og viðbrögð í skólum og frístund komi tilkynning/kvörtun um einelti og það sé kannað sérstaklega hvort viðbragðsáætlanir séu  samræmdar. Markmiðið hlýtur að vera að tryggja samræmt verklag svo allir skólar standi nokkurn veginn jafnfætis gagnvart forvörnum, viðbragðsáætlun og úrvinnslu.

Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 8. lið fundargerðar velferðarráðs 3. febrúar 2021, um aðgerðir til að finna öruggt húsnæði fyrir þá sem búa í ósamþykktu húsnæði.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgaryfirvöld grípi strax til aðgerða sem miða að því að finna öruggt húsnæði fyrir þann hóp fólks sem býr í ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Talið er að allt að 7000 manns búi í ósamþykktu húsnæði í borginni. Í sumum tilfellum er aðbúnaður ekki í samræmi við öryggiskröfur sem getur skapað íbúum mikla hættu.

Það hefur ávallt tíðkast að hluti borgarbúa eigi heimili í húsnæði sem ekki hentar til íbúðar og er ekki samþykkt sem slíkt. Heimilisfesta í ósamþykktu íbúðarhúsnæði jókst verulega eftir hrun, þegar fjöldi fólks misstu vinnu og heimili. Góðærið varð til þess að sumir fundu betri aðstæður en í stað þeirra komu aðrir. Vegna mikillar eftirspurnar eftir ódýru vinnuafli við ferðaþjónustu fluttu hér til landsins fjöldi fólks og hóf búsetu í ósamþykktum íbúðum. Ætla má að stór hópur þessa fólks sé nú atvinnulaus vegna áhrifa faraldursins og eigi því ekki annara kosta völ en að dvelja áfram í óöruggu húsnæði. Um 900 manns eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík. Flestir búa í óleyfishúsnæði vegna þess að þeir hafa ekki efni á að koma yfir sig betra og öruggara skjóli. Mikið af þessu fólki er fjölskyldufólk.

Greinargerð

Því erfiðari sem húsnæðismarkaðurinn er fátæku og efnalitlu fólki, aukast líkur þess að fólk finni sér skjól í ósamþykktu, hættulegu húsnæði þar sem brunavörnum er oft ábótavant. Vandinn er meiri nú eftir að atvinnuleysi hefur aukist vegna COVID-19. Ástæður sem leiða til þess að fólk neyðist til að leita sér skjóls í óleyfishúsnæði er skortur á hagkvæmu leiguhúsnæði og fátækt. Hér er m.a. um að ræða húsnæði sem er skipulegt undir atvinnustarfsemi en nýtt til íbúðar fyrir einstaklinga. Einnig séu dæmi um að starfsmannaleigur og atvinnurekendur komi starfsmönnum sínum fyrir í óleyfisbúsetu.

Samþykkt að vísa til borgarráðs.

Fulltrúi Flokks fólksins mun bóka við málið þegar það kemur í borgarráð

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 17. lið fundargerðar velferðarráðs þann 20. janúar 2021, um fræðsluátak um félagslegan stuðning Reykjavíkurborgar.

Tillaga Flokks fólksins um fræðsluátak um félagslegan stuðning Reykjavíkurborgar  hefur verið samþykkt. Það er ánægjulegt enda dæmi um að  ekki allir vita að það er hægt að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning til viðbótar við almennar húsnæðisbætur. Fram kom hjá  lögfræðingi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að ein af ástæðum þess að ekki fleiri sæki um er að fólk vissi hugsanlega ekki  af þessum möguleika.

Samþykkt. 

Hér er tillagan í heild sinni:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavík ráðist í sérstakt fræðsluátak með það að markmiði að fræða fólk um félagslegan stuðning borgarinnar og hverjir eigi rétt á stuðningi og hvaða skilyrði séu fyrir stuðningnum. Þetta er lagt til í ljósi þess að einhverjir vita greinilega ekki að það sé hægt að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning eða veigra sér við því af einhverjum ástæðum. Sveitarfélög bjóða upp á sérstakan húsnæðisstuðning til viðbótar við almennar húsnæðisbætur. Sérstakur húsnæðisstuðningur er ætlaður til þeirra sem eru sérstaklega tekjulágir og í erfiðum félagslegum aðstæðum. Slíkur stuðningur er lögbundinn en sveitarfélögin hafa sveigjanleika með útfærsluna. Engu að síður hafa margir sem eiga rétt á honum ekki sótt um. Fram hefur komið hjá lögfræðingi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að önnur af tveimur skýringum á því af hverju fólk sem uppfyllir öll skilyrði er ekki að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning er að fólk viti ekki af þessum möguleika. Einnig hefur komið fram að fátækt fólk veigri sér við að sækja um kannski vegna skammar, að þurfa að leita eftir aðstoð hjá sveitarfélaginu. Á þessu þarf að finna lausn og er fræðsla og kynning fyrsta skrefið.

 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar meirihlutans taka undir þessa tillögu. Það er mikilvægt að fólk sé vel upplýst um þá þjónustu og þau úrræði sem eru í boði, annars nýtast þau ekki þeim sem þeim er ætlað að hjálpa. Þessi tillaga er samþykkt og vísað til velferðarsviðs til útfærslu.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tllögu fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 12. lið fundargerðar velferðarráðs þann 19. febrúar 2020, um árskort fyrir notendur akstursþjónustu fatlaðs fólks, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 17. mars 2021.  

Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna, gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.

Sú tillaga sem nú kemur til afgreiðslu er árs gömul. Lagt er til að Reykjavíkurborg endurskoði gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðra með það að markmiði að fólk geti keypt árskort fyrir aðgang að ferðaþjónustu fatlaðra og þurfi ekki að greiða fyrir hverja ferð. Tillagan hefur verið felld. Tímalínan í meðferð málsins hjá sviðinu er sérkennileg. Umsögn við tillöguna kemur frá Strætó 3. des. 2020, meira en hálfu ári eftir framlagningu tillögunnar.  Sama tillaga er lögð fram af Sósial.flokki í des. 2020 og var hún felld. Nú í mars kemur loks til afgreiðslu hinnar árs gömlu tillögu Flokks fólksins. Hvað sem því líður er hér um réttlætismál að ræða. Ferðaþjónusta fatlaðra er á vegum Reykjavíkur, ekki Strætó og því gilda ólíkar verðskrár. Margir notendur gætu notað strætó við ákveðnar aðstæður. Sameina ætti kerfin eins og hægt er. Mismunun felst í að greiða þarf fyrir hverja ferð á meðan notendur strætó geta keypt afsláttarkort.

 

Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohjóðandi bókun:

Fulltrúi sósíalista styður þessa tillögu heilshugar. Það myndi kosta Reykjavíkurborg um 35 milljónir á ári að bjóða notendum akstursþjónustu fatlaðs fólks upp á það að kaupa árskort. Fulltrúi sósíalista telur að slíkt eigi að vera í boði líkt og á við hjá Strætó bs. þar sem hægt er að kaupa afsláttarkort. Samkvæmt svarbréfi frá því í október 2020 voru um 213 einstaklingar í Reykjavík sem greiddu meira en 100.000 krónur á ári í akstursþjónustu fatlaðs fólks og því um gríðarlegan kostnað að ræða fyrir notendur.

 

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra velferðarsviðs, dags 17. mars 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 19. lið fundargerðar velferðarráðs þann 20. janúar, um fjölda umsækjenda um sérstakan húsnæðisstuðning:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Svo virðist sem það sé eðlileg skýring á þessari fækkun um 1000 manns  frá október til desember  2020 sbr. það sem fram kemur í svari og að október skeri sig úr vegna þess að þá voru greiddar út leiðréttingar. Skiljanlega getur verið erfitt að meta til fulls hversu margir af þeim sem eiga rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi hafi sótt um hann þar sem félagslegar aðstæður eru einnig metnar. Áhyggjur fulltrúa Flokks fólksins eru að þeir sem eiga þennan rétt viti ekki um hann og sæki þar af leiðandi ekki um. Segir í svari að líklegt sé að flestir þeir sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður hafi leitað aðstoðar félagsþjónustu og séu á lista þeirra sem fá greiddan sérstakan húsnæðisstuðning. En það er einmitt þetta „líklega“ sem fulltrúa Flokks fólksins finnst óþægilegt. Hér er um ákveðna óvissu að ræða. Velferðarsvið þarf að vera með þetta meira á hreinu. Vont er til þessa að vita ef fólk veit ekki um réttindi sín, fólk sem er e.t.v. að berjast í bökkum.