Velferðarráð 5. maí 2021

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra, dags. 5. maí 2021, um  þróun á matarþjónustu velferðarsviðs í takt við áherslur í matarstefnu Reykjavíkurborgar:

Fram kemur að fara þarf í breytingar á matarþjónustu velferðarsviðs.  Bjóða á út framleiðslu á heimsendum mat ásamt pökkun og akstursþjónustu. Fulltrúi Flokks fólksins er hræddur við útboð sem leiðir til þess að þjónustan færist fjær. Útvistun er oft  dýr kostur.  Hafa skal í huga að ekkert fyrirtæki  óskar eftir verkefni nema hægt sé að græða á því. Líklegt má telja að gjöld muni hækka fyrir þjónustuna í kjölfarið. Kaupa á sérfræðiaðstoð til að þarfagreina verkefnið, en hverjir eru færari  í því en þeir sem nú sinna verkefninu ásamt þeim  sem njóta? Jafnframt verður farið í þróunarverkefni þar sem byrjað verður að fullelda mat á tveimur félagsmiðstöðvum. Hlutverk framleiðslueldhússins á Vitatorgi verður þá aðeins verkstjórn. Ljóst er að breyta þarf matseðlinum en spurning er hvort fara þurfi í svo miklar breytingar til þess. Fulltrúi Flokks fólksins er þó ávallt tilbúinn að samþykkja tillögur sem sýnt þykir að bæti þjónustuna og auka gæði og fjölbreytni á heimsendum mat. Í þessari tillögu liggur það ekki ljóst fyrir og situr því fulltrúi Flokks fólksins hjá við atkvæðagreiðslu.

Bókun Flokks fólksins við minnisblaði sviðsstjóra, dags. 5. maí 2021, ásamt fylgigögnum, um stöðuna á sviði geðheilbrigðismála í Reykjavík vegna áhrifa COVID-19 faraldursins.

Lagt var til að gerð verði úttekt á stöðu geðheilbrigðismála hjá borginni vegna kórónuveirunnar. Veiran hefur haft áhrif á alla en mestar áhyggjur eru af viðkvæmustu hópunum sem voru veikir fyrir og síðan börnunum.
Rannsóknir sýna að líðan grunnskólabarna hefur farið versnandi eftir því sem liðið hefur á faraldurinn. Fleiri eru einmana og áhyggjufull. Nú er mikilvægt að tryggja að þau fái tækifæri til að ræða sína vanlíðan. Á 5 hundruð barna hafa greinst með COVID-19 í Reykjavík. Huga þarf að foreldrum, starfsmönnum og börnunum sjálfum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur einnig sérstaklega áhyggjur af börnum sem þarfnast sértækrar þjónustu vegna fötlunar eða röskunar af einhverju tagi, einnig  börnum innflytjenda sem mörg eru einangruð og síðan þeim börnum sem voru í  vanlíðan fyrir faraldurinn en hafa ekki fengið lausn sinna mála.  Annar viðkvæmur hópur eru eldri borgarar. Margt er gert fyrir þennan hóp en langt er í land að þjónusta sé heildstæð. Hvernig er sá hópur að koma undan COVID-19? Umfram allt er nú að sýna hvernig gögnin eru notuð og hvaða árangur hlýst þar af. Ekki er nóg að greina og taka stöðuna ef ekki á að bretta upp ermar og hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi.

Bókun Flokks fólksins við Lagt fram bréf borgarstjórnar, dags. 6. nóvember 2020, varðandi  svohljóðandi tillögu borgarstjórnar Sjálfstæðisflokksins sem vísað var til meðferðar velferðarráðs á fundi borgarstjórnar, þann 3. nóvember 2020 að fela velferðarráði að skoða leiðir til að ná betur utan um stöðu geðheilbrigðismála í Reykjavík vegna kórónuveirunnar.

Vitað er að faraldurinn hefur haft áhrif á alla aldurshópa en vísbendingar eru um að hann hafi lagst þyngra á andlega líðan ungs fólks en þeirra sem eldri eru. Rannsóknir hafa merkt aukinn  kvíða hjá ungmennum í 8-10 bekk grunnskóla, sérstaklega hjá ungum stúlkum en um 17% þeirra upplifðu sig einmmana/niðurdregnar eða daprar í október 2020. Fulltrúi Flokks fólksins hefur sérstaklega áhyggjur af börnum sem þarfnast sértækrar þjónustu vegna fötlunar eða röskunar af einhverju tagi, einnig  börnum innflytjenda sem mörg eru einangruð og síðan þeim börnum sem voru í  vanlíðan fyrir faraldurinn en hafa ekki fengið lausn sinna mála.  Skólakerfinu hefur sem betur fer tekist að halda sjó að mestu á þessu krefjandi tímabili.  Þess vegna er mikilvægt að hlúð sé að skólum, starfsfólki og innviðum skólanna. Svarti bletturinn eru biðlistar til fagaðila skólanna. Úr þeim málum verður að fara að leysa. Biðlistar eftir skólaþjónustu, þ.m.t. sálfræðinga, styðja aukna þörf á þjónustu en hann jókst um 14,6% á milli ára. Starfsmannakönnun sýnir að fleiri upplifa álag í starfi. Hugmynd er að mynda annan starfshóp sem er ágætt í sjálfu sér en fulltrúi Flokks fólksins er mest upptekinn af því hvort ekki eigi að fara að gera eitthvað í málunum. Það þarf að fá fjármagn til að fjölga fagaðilum sem gengju í að taka niður biðlista þeirra sem bíða eftir hjálp vegna andlegra vanlíðan.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu og lögð fram ársskýrsla endurhæfingar í heimahúsi hjá Reykjavíkurborg árið 2020.:

Kynning á ársskýrslu endurhæfingar í heimahúsi. Þarna er unnið metnaðarfullt starf. Fulltrúa Flokks fólksins er hugsað til ólíkra gerða á „heimahúsum“. Sumir búa í sínum íbúðum, hafa búið þar til margra ára, stundum gamlar íbúðir, þröng rými, háir skápar og þröskuldar en annar hópur er í þjónustuíbúðum, hönnuðum fyrir fólk með minni hreyfifærni. Þetta hlýtur að skipta miklu máli þegar horft er til endurhæfingar í heimahúsi og forvarnir og kann fyrrnefndi hópurinn að þurfa allt annars konar nálgun en sá síðari. Sífellt er verið að fjölga möguleikum velferðartækni og er það gott sem viðbót enda kemur fátt í staðinn fyrir að eiga persónulega stund með annarri manneskju í raun.

Bókun Flokks fólksins við kynningu á úttekt Innri endurskoðunar á innra eftirliti félagslegrar heimaþjónustu frá mars 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar úttekt á innra eftirliti félagslegri þjónustu. Eftirlit er bráðnauðsynlegt og eftirlit með eftirlitinu ekki síður. Gott er að heyra að alúð og metnaður sé lagður í að gera þjónustuna vel úr garði. Eins og alltaf er tækifæri til að bæta og þá með hag notenda í huga. Bent er á að athugasemdir hafa komið fram um að nákvæmari skráninga á biðlista er þörf og vöktun á gildistíma samninga við notendur. Einnig skortir á samræmingu milli hverfa varðandi ýmis praktísk atriði. Upplýsingaflæði er iðulega þáttur sem víða mætti bæta. Innri endurskoðun þyrfti einnig nauðsynlega að gera úttekt á hvort gera þurfi betrumbætur á upplýsingaflæði til notenda um t.d. réttindi þeirra en kvartanir hafa borist þess efnis að notendur fái ekki alltaf fullar upplýsingar. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sé hvernig þessum athugasemdum verður fylgt eftir. Það er á ábyrgð innri endurskoðunar að kanna eftir einhvern ákveðinn tíma hvort búið er að bæta það sem mælst var til að yrði bætt og lagað.

Bókun Flokks fólksins við Lagt fram svar sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 21. apríl 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um ábyrgð á hár,- hand- og fótsnyrtiþjónustu, sbr. 6. lið fundargerðar velferðarráðs frá 17. febrúar 2021:

Spurt var um hver, innan þjónustueininganna hefur yfirumsjón með þjónustuþáttum félagsmiðstöðva hár-, hand- og fótsnyrtingu og hvert eiga þeir að snúa sér sem hafa áhuga á að bjóða fram þjónustu sína og gera leigusamning við Reykjavíkurborg? Skýrt kemur fram að það er deildarstjóri fjármála og reksturs á þjónustumiðstöð sem ber ábyrgð. Þetta er gott að vita ef spurt verður. Einnig er sagt að ef rými eru laus þá eru þau auglýst opinberlega. Þeir fagaðilar sem hér um ræðir eru með lögvernduð starfsheiti svo ekki má ráða aðra en þá sem hafa full réttindi. Við val á leigjendum er því litið til reynslu gefið að viðkomandi hafi full réttindi. Ef koma upp misbrestir er bent á fagfélagið. Hér myndi maður halda að fyrsta skrefið væri að leita til þjónustuveitenda og þann sem ber ábyrgð á honum sem hlýtur að vera deildarstjóri/Reykjavíkurborg. Fag- og stéttarfélög fara ekki inn í einstaklingsmál. Fram kemur einnig að aðeins er laust í Furugerði 1 og hefur stofan þar verið ítrekað auglýst. Spurning er þá hvernig stendur á því? Er erfiðara að fylla stöðu þar en í öðrum félagsmiðstöðvum með sambærilega þjónustu?