Velferðarráð 18. október 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 18. október 2023, um vetraráætlun neyðarskýla velferðarsviðs:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að unnið er að nákvæmari skilgreiningu á markhópi neyðarskýlanna og áhersla er lögð á að engum heimilislausum einstaklingum með miklar og flóknar þjónustuþarfir verði vísað frá. Það voru ömurlega fréttir þegar einstaklingi sem leitaði skjóls í neyðarskýli var vísað út á guð og gaddinn. Undir engum kringumstæðum á að vísa gestum neyðarskýla borgarinnar út. Það eiga í raun ekki að vera neinar undantekningar á því nema þá að búið sé að finna viðkomandi annað skjól eða tryggja að viðkomandi sé kominn undir þak. Einnig er tekið undir að þörf er á aukinni aðkomu fagaðila á stigi neyðarþjónustu svo notendur fái viðeigandi ráðgjöf og stuðning í nærumhverfi um leið og neyðarþjónusta hefst.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Fram fer kynning á málefnum eldra fólks í Reykjavík. Einnig lagt fram uppfært erindisbréf stýrihóps um mótun stefnu í málefnum eldra fólks til ársins 2026:

Það er gríðarmikið sem hægt er að bóka hér. Sem dæmi er sárlega vöntun á félagsskap fyrir þá sem komnir eru á hjúkrunarheimili. Starfsfólk má ekki vera að sinna andlegu hliðinni og gera má ráð fyrir að mjög margir upplifi ekki bara áfallið að vera komin á hjúkrunarheimili heldur einnig einmanaleika. Það er átakanlegt að koma inn á hjúkrunarheimili. Starfsfólk upp til hópa hvorki skilur né talar íslensku. Það bráðvantar sveigjanlega dagdvöl, þetta millistig og meira má gera til að styðja við þá sem vilja vera lengur heima. Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt fram tillögur til að auka og bæta þjónustu við þennan aldurshóp en þeim hefur öllum verið hafnað.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um endurskoðun á fjármögnun unglingasmiðjanna Stígs og Traðar, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs, sbr. 12. lið fundargerðar borgarstjórnar 19. september 2023:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að velferðarráð hafi ákveðið að hætta við skerðingu á þjónustu unglingasmiðjanna Stígs og Traðar. Flokkur fólksins hefur ávallt mótmælt skerðingu á þessari þjónustu í sparnaðarskyni. Unglingasmiðjurnar Stígur og Tröð hafa tekið á móti unglingum sem hafa orðið fyrir einelti, sýna einkenni kvíða og þunglyndis og eru með slaka sjálfsmynd. Starfsemi smiðjanna hefur verið ómetanleg fyrir þennan hóp unglinga.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar sviðsstjóra, dags. 18. október 2023, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um milligöngu velferðarsviðs vegna leigusamninga á almennum markaði, sbr. 17. lið fundargerðar velferðarráðs frá 20. september 2023:

Flokkur fólksins spurði um milligöngu velferðarsviðs vegna leigusamninga á almennum markaði. Jafnframt var spurt hvort velferðarsvið velji leigjendur og gangist þá í ábyrgð fyrir þá. Samkvæmt svari þá aðstoðar velferðarsvið einstaklinga sem hafa stöðu flóttafólks í Reykjavík við að leita sér að húsnæði og aðstoðar einstaklingana við að eiga í samskiptum við leigusala. Velferðarsvið upplýsir að þegar flóttafólk gerir samning um leigu húsnæðis á almennum markaði gilda um þá samninga sömu reglur og um aðra húsaleigusamninga á almennum leigumarkaði, samkvæmt húsaleigulögum. Reykjavíkurborg er ekki aðili að slíkum leigusamningum og hefur því ekki heimild til að hafa afskipti af slíkum samningum. Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið en telur mikilvægt að leigusalar séu vel upplýstir um þessar reglur. Góð upplýsingagjöf til leigusala gæti minnkað líkur á atviki því sem kom fram í fyrirspurn Flokks fólksins þar sem leigusali lenti í vandræðum með að endurheimta íbúð sína.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um sérstakan styrk til að greiða fyrir frístundardvöl barna sinna í stað þess að nota frístundastyrkinn sem er ætlaður til íþrótta- og tómstundaiðkunar:

Flokkur fólksins leggur til að foreldrar með aðþrengdan fjárhag geti sótt um sérstakan styrk til að greiða fyrir frístundardvöl barna sinna í stað þess að nota frístundastyrkinn sem er ætlaður til íþrótta- og tómstundaiðkunar. Staðan í dag er þannig að í tilfellum 1020 barna er frístundakortið þeirra notað til að greiða fyrir frístundaheimili og í tilfellum 150 barna er frístundastyrkurinn þeirra notaður til að greiða fyrir íslenskukennslu. Frístundakortið var hugsað frá upphafi sem styrkur til að auka jöfnuð og gefa börnum tækifæri til tómstunda- og íþróttaiðkunar að eigin vali óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum.

Greinargerð fylgir tillögunni. VEL23100046.

Upphaflegt markmið frístundastyrks var að auka jöfnuð í samfélaginu og  efla fjölbreytileika í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi. Í áranna rás hefur reglum verið breytt og er nú styrkurinn einnig einskonar gjaldmiðill, t.d. til að greiða  gjald fyrir dvöl barna á frístundaheimili eða tungumálanám barna af erlendum uppruna. Sé styrkurinn nýttur í ofangreint nýtist hann ekki börnunum til að velja sér íþrótta-, lista- eða tómstundaiðkun að eigin vali. Breyta þarf reglum styrksins aftur til upprunans til að hann megi þjóna sínu hlutverki fyrir öll börn óháð efnahag foreldra þeirra. Til að hjálpa efnaminni foreldrum að greiða þá nauðsynlegu þjónustu fyrir börn sín ættu að vera aðrar leiðir í boði eins og  að sækja um sérstaka styrki fyrir þau. Barn á ekki að þurfa að líða fyrir fátækt foreldra sinna. Það á bæði að geta verið á frístundaheimili, sótt tungumálaskóla og á sama tíma nýtt frístundastyrk sinn til að stunda íþróttir, listnám eða tómstundir að eigin vali.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að Reykjavíkurborg komi sér upp húsnæði sem neyðarúrræði fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem missa húsnæði og lenda á götunni:

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg komi sér upp húsnæði sem neyðarúrræði fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem missa húsnæði og lenda á götunni. Það hefur færst í vöxt að Reykjavíkurborg greiði háar upphæðir til gistiheimila vegna fjölskyldna sem bornar eru út af heimili sínu. Gistiheimili getur kostað allt að 500.000 kr. á viku fyrir fjölskyldu. Starfsmenn Reykjavíkurborgar sem vinna náið með fjölskyldum telja að þessi þróun muni aukast vegna slæmrar stöðu á húsnæðismarkaði. Reykjavíkurborg gæti sparað háar fjárhæðir með því að hafa eigið neyðarhúsnæði í stað þess að greiða gistiheimilum himinháar fjárhæðir. VEL23100047.

Frestað.