Velferðarráð 21.12. 2022

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 21. desember 2022, um stöðu málaflokks heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir vegna tíðra kuldakasta:

Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til að opnunartíma neyðarskýla verði breytt þannig að þau verði opin að degi til. Undanfarna daga hefur verið hrikaleg kuldatíð með mikilli snjókomu og frosthörku á öllu landinu. Flokkur fólksins telur að neyðaráætlun í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir hafi verið virkjuð of seint. Heimilislaust fólk þurfti að hírast úti í miklu frosti vegna þess að gistiskýlunum var lokað að degi til.

Það er ábyrgð sveitarfélaga að annast um þá sem sem eru verst settir og að veita þeim sem eru heimilislausir öruggt skjól þegar veður eru válynd. Það dugir ekki að hafa skýlin opin að degi til einn og einn dag. Það gengur ekki að heimilislaust fólk lifi i stöðugri óvissu um hvort það fái inni þegar veður eru þannig að ekki sé hundi út sigandi. Það veldur heimilislausu fólki angist og kvíða að lifa í slíkri óvissu. Áfram er spáð miklum kulda næstu daga. Flokki fólksins finnst það ómanneskjulegt að meta eigi stöðuna frá degi til dags og telur að opna verði nýtt skjól fyrir heimilislausa ef ekki er hægt að nýta neyðarskýlin að degi til.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu tillaga sviðsstjóra, dags. 21. desember 2022, um hækkun gistináttagjalds hjá öðrum sveitarfélögum vegna gistingar í neyðarskýlum Reykjavíkurborgar:

Lagt er til að velferðarsviði verði heimilað að hækka gistináttagjald hjá sveitarfélögum fyrir gistingu í neyðargistiskýlum Reykjavíkurborgar í kr. 34.000 fyrir hverja gistinótt, þegar einstaklingur á lögheimili utan Reykjavíkur, þannig að gjaldið samsvari raunkostnaði. Gjaldið verði innheimt ársfjórðungslega og fjárhæð taki breytingu miðað við vísitölu neysluverðs.

Það er eðlilegt og sjálfsagt að innheimta gistináttagjald hjá öðrum sveitarfélögum ef Reykjavík skýtur skjólshúsi yfir einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir, sem tilheyra öðru sveitarfélagi/eru skráðir annars staðar en í Reykjavík. Það breytir því ekki að Reykjavík getur undir engum kringumstæðum neitað að hjálpa fólki þótt það sé ekki skráð

í Reykjavík. Skortur á samvinnu milli sveitarfélaga má aldrei bitna á fólki. Þjónustuþeginn á ekki að þurfa að líða fyrir að sveitarfélög geti ekki átt samvinnu. Við eigum að hugsa um okkar minnstu bræður og systur, sama hvar þau eru í sveit sett.

 

Fulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvernig velferðarsvið hyggst bregðast við tillögum Flokks fólksins um að endurskoða skuli ákvörðun meirihlutans um að leggja niður Vin og Tröð og Stíg, unglingasmiðjur.

Flokkur fólksins óskar upplýsinga um tillögur sem flokkurinn hefur lagt fram í borgarráði og hvernig velferðarsvið hyggst bregðast við þeim. Um er að ræða tillögur Flokks fólksins um að endurskoða skuli ákvörðun meirihlutans um að leggja niður Vin og einnig að endurskoða að leggja niður starfsemi unglingasmiðjanna Traðar og Stígs. Þessar ákvarðanir meirihlutans hafa valdið miklu uppnámi og sorg. Á þessum stöðum er um mikilvæga starfsemi að ræða, þjónustu við okkar allra viðkvæmustu hópa. Vel er hægt að beita niðurskurðarhnífnum annars staðar þar sem ekki er skert bein þjónusta við fólk. Á þessum stöðum er þjónusta við fólks sem treystir á hana og hefur fundist einmitt þessi þjónusta gefa lífi sínu lit.

 

Fulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að opnað verði nýtt skjól sem opið er allan sólarhringinn ef ekki er hægt að hafa neyðarskýlin opin. Fordæmi eru fyrir slíku athvarfi víða erlendis:

Flokkur fólksins leggur til að opnað verði nýtt skjól sem opið er allan sólarhringinn ef ekki er hægt að hafa neyðarskýlin opin. Fordæmi eru fyrir slíku athvarfi víða erlendis. Hér er lagt til að opnað verði rými þar sem einstaklingar geta komið inn þegar þeim hentar til að hvílast og borða.

Í vetrarhörkunni sem verið hefur undanfarna daga hefur komið í ljós að það úrræði sem nú er í boði er ekki nóg. Vegna þess að fólk er rekið út úr gistiskýlunum að degi til og hefur í engin hús að venda. Hér er ekki um margar krónur að ræða í stóra samhenginu. Hér gæti hins vegar verið um heilsu og jafnvel líf að ræða. Dæmi eru um að þeir sem bíða eftir að komast inn klukkan 5 húki einhvers staðar úti undir vegg. Þetta er ekki boðlegt. Reykjavíkurborg getur gert betur. Flokkur fólksins telur einnig ótækt að staðan sé metin dag frá degi. Þetta veldur miklu óöryggi hjá heimilislausum en þau þurfa öryggi eins og aðrir borgarbúar. Flokkur fólksins telur mikilvægt að opnað verði nýtt skjól fyrir heimilislausa ef ekki er hægt að nýta neyðarskýlin. Slíkt skjól/skýli sem er opið allan sólarhringinn er bráðnauðsynlegt yfir vetrartímann.

 

Fulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um að notkun leigubíla fyrir starfsfólk veðferðarsviðs verði eingöngu í undantekningatilfellu.

Flokkur fólksins leggur til að notkun leigubíla fyrir starfsfólk velferðarsviðs verði eingöngu í undantekningartilfellum.
Leigubílanotkun er afar misjöfn eftir sviðum. Ef tekið er árið 2020 (fyrir COVID) er velferðarsvið hástökkvari í leigubílanotkun með 35.171.154 kr. Af þessu má draga þá ályktun að velferðarsvið hlýtur að verða að fara að skoða hvort ekki sé hægt að taka færri leigubíla. Finna þarf aðrar leiðir til að koma starfsfólki milli staða í þeim tilfellum sem þess þarf, öðruvísi en að notast við rándýran ferðamáta eins og leigubíla. Meirihlutinn í borgarstjórnar hefur linnulaust hvatt borgarbúa til að hjóla eða taka strætó og slíkt ætti allt eins að eiga við borgarstarfsmenn.

Flokkur fólksins spurðist fyrir um leigubílakostnað starfsmanna borgarinnar í maí 2022. Ástæða fyrirspurnarinnar er að eftir því hefur verið tekið að þegar viðburðir eru á vegum velferðarsviðs má sjá eitthvað starfsfólk koma á leigubíl, stundum nokkrir saman í bíl en stundum einn í bíl:

Í svari frá velferðarsviði er aðeins sundurliðað hve mikill heildarkostnaður var á hvert undirsvið velferðarsviðs og svo tekið dæmi um hvaða ástæður liggi að baki mestum hluta kostnaðarins, þ.e. „Önnur notkun á leigubílum er vegna vitjana á heimili, starfsstaði eða á fundi.“ Ekki er hægt að sundurliða notkunina meira en þetta. Kjörnir fulltrúar verða að hafa nákvæmari upplýsingar til að geta sinnt sínu aðhaldshlutverki.  Hvað sem þessu líður er fjárhæðin há sem fer í leigubílakostnað sérstaklega á velferðarsviði. Það er alltaf hægt að réttlæta hvers konar útgjöld með vísan í að “réttir aðilar” hafi gefið grænt ljós vegna þeirra og að almennt séu góðar ástæður fyrir þeim.

 

Fulltrúi Flokks Fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um að lækka kostnað vegna utanlandsferða:

Tillaga um að lækka kostnað vegna utanlandsferða. Flokkur fólksins leggur til að embættismenn velferðarsvið stilli ferðum erlendis í hóf næsta ár vegna fjárhagsstöðu borgarinnar.
Notast skal við fjarfundarbúnað og streymi í stað þessa að taka sér ferð á hendur. Reynist nauðsynlegt að fara erlendis nægir að einn fari og deili reynslu og upplifun af fundi/ráðstefnu með samstarfsfólki þegar heim er komið. Fara á vel með skattfé borgarbúa og ferðalög eru sjaldan lífs spursmál