Borgarstjórn 20. september 2022

 Umræða um hvort bruðl og sóun hafi átt sér stað í stafrænni umbreytingu Reykjavíkurborgar að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins

Greinargerð

Nú eru liðin tæp tvö ár frá því að borgarstjórn samþykkti að fjárfesta 10 ma.kr. í stafræna umbreytingu á þriggja ára tímabili. Nú er upphæðin komin í 13 ma.kr. og á þessu kjörtímabili á að auka fjármagn enn frekar í málaflokkinn.

Stafræn umbreyting er sannarlega mikilvægt framfaraskref á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar. Um það er ekki deilt heldur hvernig sýslað hefur verið með þetta mikla fjármagn af lausung og leikaraskap að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins.

Afurðir, þ.e. þær stafrænu lausnir sem litið hafa dagsins ljós eru ekki í takti við fjármagnið sem búið er að eyða í þær. Verulegur hluti þessa fjármagns hefur  farið í að gera ásýnd innviða sviðsins, Þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON), sem glæsilegasta. Viðbótarhúsnæði hefur verið leigt og ráðnir fjöldi  sérfræðinga þ.m.t. flokkur lögfræðinga úr einkageiranum með tilheyrandi launakostnaði og sérstökum hlunnindum.

Umgjörðin hefur tekið stóran hluta kostnaðarins og háar fjárhæðir hafa verið greiddar fyrir ráðgjöf frá erlendum ráðgjöfum. Hvergi er hægt að sjá hvernig þessi ráðgjöf hefur nýst til lausna fyrir borgarbúa. Halda mætti að Reykjavíkurborg sé að reisa hugbúnaðarfyrirtæki sem ætlað er að fari á samkeppnismarkað.

Allt þetta má sjá reifað í háfleygum lýsingum í nýútkominni Ársskýrslu þjónustu- og nýsköpunarsviðs fyrir árið 2021. Skýrslan er í raun ótrúleg lesning þar sem hún snýst ekki hvað síst um markmið sviðsins að ná einhvers konar heimsfrægð á sviði stafrænna umbreytinga. Ítrekað er því lýst hvernig stafræn vegferð borgarinnar sé einsdæmi, „engri annarri lík“ eins og segir í Ársskýrslunni.

Ef horft er á stöðu stafrænna lausna hefur nálgun sviðsins undanfarin ár einkennst af fumkenndri tilraunastarfsemi þar sem miklum tíma og fjármunum hefur verið eytt í að uppgötva, þróa og gera tilraunir á stafrænum lausnum sem margar hverjar voru til fyrir og komnar í fulla virkni t.d. hjá Stafræna Íslandi og öðrum fyrirtækjum. Allt þetta raungerðist undir verndarvæng síðasta meirihluta sem segja má að hafi hleypt sviðinu lausu með þetta mikla fjármagn.

Forgangsröðun verkefna var strax í upphafi kolröng. Byrjað var á margra mánaða tilrauna- og uppgötvunarferli í svokölluðu Gróðurhúsi sem virtist vera til þess eins að öðlast skemmtilega upplifun. Hugmyndir að verkefnum spruttu fram sem hvorki voru brýn né nauðsynleg og má þar nefna fjöldi alls kyns mælaborða, viðburðar- og sorphirðudagatöl og sundgestayfirlit svo fátt eitt sé nefnt.

Þær lausnir sem sárlega var beðið eftir voru aftar á forgangslista og þegar þær birtust komu  ótal vandræði í ljós. Má nefna skjalakerfið Hlöðuna í því sambandi og nýjan vef Reykjavíkurborgar. Enn sést ekki til stafrænnar lausnar umhverfis- og skipulagsráðs sem létta myndi stórlega á umsóknum um byggingarleyfi með tilheyrandi teikningum.

Flokkur fólksins vill horfa á árangur sem gagnast Reykvíkingum. Það þarf að efla stafræna þjónustu fyrir leikskóla borgarinnar. Þar hefur ekkert stafrænt gerst í mörg ár. Þetta hefur opinberast í þeim vanda sem leikskólar borgarinnar hafa glímt við undanfarið. Það sárvantar betri yfirsýn og upplýsingar til foreldra. Þetta hefur valdið töfum á þjónustu við foreldra barna sem sækja um leikskólapláss.

Samantekt

Borgarfulltrúi Flokks fólksins kallar eftir opinskárri og hreinskiptinni umræðu í borgarstjórn um þessa stafrænu vegferð sem skort hefur aga og aðhald meirihlutans á síðasta kjörtímabili. Á þriðja ár hefur verið reynt að benda á bruðlið, ranga forgangsröðun, sérkennilega áherslu og flotta ytri ásýnd. Flokkur fólksins hefur verið með fjölmargar fyrirspurnir, lagt fram tillögur til að sporna gegn sóun og almennt reynt að sinna hlutverki sínu í minnihluta.

Allt of mörg stafræn verkefni hafa verið illa skilgreind og mörg eru enn ýmist í þróunar, uppgötvunar– eða tilraunafasa. Önnur verkefni hafa dagað uppi eftir að búið var að setja í þau umtalsverðar fjárupphæðir. Byrja hefði átt fyrir þremur árum að forgangsraða efst á lista lausnum til að einfalda umsóknarferli hjá umhverfis- og skipulagssviði, skóla- og frístundasviði og velferðarsviði í stað lausna sem ekki eru brýn eða liðka sérstaklega fyrir beinni þjónustu við borgarbúa. Fara hefði átt strax í náið samstarf við Stafræna Ísland og önnur sveitarfélög.

Ákveðinn hluti sem þarna á sér stað er komið úr böndum að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins, t.d. hin mikla þensla sviðsins og sú gríðarlega áhersla sviðsins að ætla að „sigra hinn stafræna heim“ á erlendri grundu. Þarna er um hreina ímyndun að ræða – það eru margar borgir komnar lengra í stafrænni umbreytingu en Reykjavík.

Áherslan þarf að vera á stafrænar lausnir sem gagnast borgarbúum beint og að velja ávallt hagkvæmustu leiðir í öllum tilvikum. Með umræðu um þessi mál í borgarstjórn er borgarfulltrúi Flokks fólksins að sýna verkefninu aðhald og fylgjast með ráðstöfun fjármuna af gaumgæfni. Vissulega er nú komin „nýr“ meirihluti og sett hefur verið á laggirnar sérstakt ráð sem halda á utan um málaflokkinn. Flokkur fólksins óskar og vonar að við bætist liðsstyrkur í þessu máli. Hér er um að ræða útsvarsfé borgarbúa og víða er brýn þörf á að bæta þjónustu. Kallað er eftir gagnrýnni hugsun og aðhaldi frá nýjum meirihluta borgarstjórnar og hinu nýja Stafræna ráði.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um hvort bruðl og sóun hafi átt sér stað í stafrænni umbreytingu Reykjavíkurborgar að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Á þriðja ár hefur verið reynt að benda á ákveðið bruðl í stafrænni vegferð borgarinnar, ranga forgangsröðun, sérkennilega áherslu á flotta ytri ásýnd. Skort hefur aga og aðhald meirihlutans allt síðasta kjörtímabil. Flokkur fólksins hefur verið með fjölmargar fyrirspurnir, lagt fram tillögur til að sporna gegn sóun og almennt reynt að sinna hlutverki sínu í minnihlutaAllt of mörg stafræn verkefni hafa verið illa skilgreind og mörg eru enn ýmist í þróunar, uppgötvunar– eða tilraunafösum. Önnur verkefni hafa dagað uppi eftir að búið var að setja í þau umtalsvert fjármagn. Byrja hefði átt fyrir þremur árum að forgangsraða lausnum sem létta á borgarbúum að eiga samskipti við borgina. Þenslan er komin úr böndum  og áhersla á að „sigra hinn stafræna heim“ á erlendri grundu er hlægileg. Með umræðu um þessi mál er borgarfulltrúi Flokks fólksins að sýna verkefninu aðhald og kallar eftir eftirliti. Vissulega er nú komin „nýr“ meirihluti og sett hefur verið á laggirnar sérstakt ráð sem halda á utan um málaflokkinn. Hér er um að ræða útsvarsfé borgarbúa og víða er brýn þörf á meira fjármagni til þess að bæta þjónustu. Kallað er eftir gagnrýnni hugsun og aðhaldi frá nýjum meirihluta borgarstjórnar og hinu nýja Stafræna ráði.

Bókun Flokks fólksins við  umræða um málefni barna 0-6 ára:

Hér má minna á biðlista barna eftir fagþjónustu. 401 leikskólabarn í Reykjavík bíður eftir þjónustu hjá sálfræðingi og 330 eftir talmeinafræðingi. Flokkur fólksins hefur lagt til að mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð taki upp og beiti sér fyrir mannréttindum lítilla barna. Málefni leikskólans hafa verið í sviðsljósinu. Meirihlutinn, sá síðasti og þessi, hefur brugðist foreldrum og börnum í stórum stíl. Leikskólaplássum var úthlutað sem eru ekki til og nú er verið að reyna að redda málum. Í vor blasti vandinn við, en hvernig var sumarið notað? Foreldrar hafa stigið fram sem aldrei fyrr, þetta er einsdæmi í sögu borgarinnar. Ákvæði barnasáttmálans eru margbrotinn í þessum málum. Það skýtur nokkuð skökku við að Reykjavík vill verða fyrsta barnvæna höfuðborgin á heimsvísu þegar borgin er ekki einu sinni að innleiða barnasáttmálann eins og Flokkur fólksins hefur lagt til. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögur vegna leikskólavandans, að veita þeim foreldrum sem eru í mestri neyð aðstoð í formi sérstaks styrks á meðan verið er að ljúka framkvæmdum við leikskóla. Hin útfærsla Flokks fólksins er að bjóða foreldrum sem það hentar mánaðarlegan styrk (heimgreiðslur) sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir leikskólapláss fyrstu tvö árin á meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt yngstu börnunum leikskólapláss

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um stöðu skóla- og íþróttamála í Laugardal:

Málið velkist um og fátt er að frétta. Allir eru orðnir þreyttir. Vilji stjórna foreldrafélaga er skýr og það er að velja á sviðsmynd 1, sem er að byggja við hvern skóla fyrir sig og vernda þannig skólagerð þeirra, skólahverfin og hverfamenningu. Það sárvantar upplýsingar frá skóla- og frístundasviði. Það vantar einnig tímalínu framkvæmda, forgagnsröðun, kostnað, rekstrarkostnað, hvernig á að bæta íþróttaaðstöðu og fleira. Í gær, 19. september, átti að vera stóri dagurinn, þá var stefnt að tillögu skóla- og frístundasviðs til borgarstjóra. Nú er 20. september. Í stuttu máli hefur borgin komið illa fram við íbúa þessa hverfis og þar með talið börnin. Laugalækjarskóli er eini grunnskólinn í borginni með 7.-10. bekk. Nemendum Laugarnesskóla hefur fjölgað um 167 frá 2008 og stefnir í fjölgun um 115 út áratuginn. Ástandið er slæmt. Húsnæðisskortur hefur verið ríkjandi frá árinu 2013. Íþróttahúsið er barn síns tíma. Nú eru sjö færanlegar stofu og eiga tvær að bætast við. Allt annað er löngu sprungið, mötuneyti, smíða-, myndmennta- og tónmenntaaðstaða og aðstaða fyrir kennara og starfsfólk. Skólahljómsveitinni hefur verið úthýst. Hljóðvist er erfið og loftræstingu vantar í gamla skólahúsinu. Úttekt á rakaskemmdum stendur yfir. Frístund er langt í burtu.

 

 Bókun Flokks fólksins við tillögu Sósíalista um gjaldfrjálsa frístund:

Flokkur fólksins var stofnaður árið  2016 til að berjast gegn fátækt barna. Sannarlega er ekkert barn fátækt nema af því að foreldrarnir eru fátækir og geta ekki séð börnum sínum farborða og veitt börnum sínum tækifæri til jafns við önnur börn. Barn sem býr við fátækt verður oft út undan vegna minni möguleika til þátttöku í tómstundum og öðrum frístundum. Flokkur fólksins hefur  alltaf barist fyrir hag barna  sem búa við fátækt og vill tryggja gjaldfrjálsar máltíðir fyrir þau og jafnframt að tryggja öllum börnum aðgengi að tómstundastarfi , þ.á.m. tónlista og íþróttastarfi. Við vitum að sem betur fer geta langflestir foreldrar greitt fyrir skólamáltíðir barna sinna og veitt börnum sínum jöfn tækifæri. Ef fjárhirslur borgarinnar væru fullar  af seðlum þá gætum við svo sannarlega barist fyrir því að ekkert foreldri ætti að borga þjónustu fyrir barn sitt. Á meðan svo er ekki þá verðum við að forgangsraða til handa þeim börnum sem búa við kröpp kjör. Ójöfnuður hefur aukist á vakt Samfylkingar sem gefur sig út fyrir að vera jafnaðarflokkur. Þess vegna er sértækra aðgerða þörf og þeir sem hafa minnst og ekki neitt fái styrki og nauðsynleg gjöld vegna barna þeirra verði felld niður.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir borgarráðs frá 15. september og 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. september:

Bókun við 4. lið, gjaldskrá heilbrigðis- og mengunareftirlits í Reykjavík: Lögð er til 4,5% hækkun sem er mikið. Það er hart í ári hjá fjölmörgum. Þeir hópar sem hafa það erfitt hafa sennilega aldrei haft það eins erfitt og núna. Ójöfnuður hefur aukist og bilið milli ríkra og fátækra hefur breikkað á vakt Samfylkingarinnar. Svo mikil hækkun á þjónustu kemur verst niður á þeim sem minnst hafa milli handanna. Verðbólga hefur aukist mikið sem rekja má einna helst til vanda á húsnæðismarkaði því ekki nóg hefur verið byggt. Ytri aðstæður koma líka til. Liður 5 í fundargerð borgarráðs frá 8. september: Við lestur ársskýrslu þjónustu- og nýsköpunarsviðs virðist sem alþjóðafrægð skipti mestu máli. Nú er liðið á þriðja ár frá því samþykkt var að fjárfesta 10 milljörðum í stafræna umbreytingu á þriggja ára tímabili. Búið er að bæta við nokkrum milljörðum. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að rannsókn McKinsey and Company sem sýnir að stafræn umbreyting hefur mistekist í að minnsta kosti 70% tilvika. Ástæður er skortur á aga og aðhaldi. Í þessari vegferð borgarinnar hefur skort fókus og sviðinu verið sleppt lausu með þessa miklu peninga.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 5. september:

Liður 3, lesfimi: Flokkur fólksins lagði til að lesfimipróf eða hraðlestrarpróf yrðu val og aðeins lögð fyrir barn í samráði við foreldra og sátt við nemandann þar sem slík próf valda sumum börnum kvíða. Í umsögn segir að hraðlestur sé mikilvægur í lestrarnámi eins og lesskilningur þó lesskilningur sé markmiðið. Þessir tveir þættir haldast í hendur. Tillagan er felld þrátt fyrir að meirihlutinn í skóla- og frístundaráði bóki að leggja skuli eindregið áherslu á að mæla lesskilning. En sagt er einnig að leshraði tengist lestrarkunnáttu. Það er reyndar ekki alltaf þannig. Áherslan á nr. eitt að vera á lesskilning. Hraði er einstaklingsbundinn og kemur af sjálfu sér. Hraðlestrarsamanburður getur almennt séð verið vafasamur, ekki einungis fyrir börn sem standa höllum fæti heldur einnig þá sem ná viðmiðum. Liður 12, úrræðið Birta: Flokkur fólksins óskaði upplýsinga um framtíðarskipulag tilraunaverkefnisins Birtu sem er móttökudeild fyrir börn umsækjenda um alþjóðlega vernd sem staðsett hefur verið í Álftamýrarskóla. Sex starfsmenn hafa sagt upp störfum sem gefur vísbendingar um að ekki hafi verið allt með felldu. Eftir því sem skilst á svari á úrræðið að halda áfram en í Seljaskóla.