Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjórans í Reykjavík, dags. 1. mars 2022, um tillögur stýrihóps um uppbyggingu leikskóla:
Minnt er á eitt af helstu kosningaloforðum Samfylkingarinnar 2018 var að taka á móti börnum frá 12 mánaða aldri á leikskóla borgarinnar. Á kjörtímabilinu hefur ríkt mikil óvissa í þessum málum sem hefur haft neikvæð áhrif á foreldra og börn. Nú á að spýta í lófana og er því fagnað mjög. Lögð er fram endurskoðuð heildaráætlun um fjölgun leikskólarýma til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.
Sá vandi sem ríkt hefur í þessum málum, sem er skortur á leikskólarýmum er rakið m.a. til erfiðleika með að spá fyrir um mannfjölda. Það er sérkennilegt hvað illa hefur gengið að gera nákvæmari spá t.d. áætlun um hvað mörg börn muni fæðast. Það hlýtur að vera hægt að gera nákvæmari spá um það.
Í endurskoðaðri heildaráætlun er ekki orði minnst á dagforeldra og hvernig sú stétt kemur inn í þessar tillögur. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar vissulega hverju skrefi sem er í átt að bættari hag barna. Ekki er um neinn hugmyndafræðilegan ágreining að ræða en fulltrúi Flokks fólksins gagnrýnir biðlista, seinagang verkefnisins og mannekluvanda leikskólanna. Almennt líður börnum vel í leikskólum sínum og er starfsfólk að vinna þar frábært starf.
Bókun Flokks fólksins við skýrslu og tillögur starfshóps um stöðu kynja- og hinseginfræðslu í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar, dags. í nóvember 2021, ásamt kostnaðarmati, ódags:
Börn og ungmenni eru að biðja um meiri fræðslu t.d. hinseginfræðslu. Það er ekki síður brýnt að bjóða upp á hinseginfræðslu fyrir foreldra og forráðamenn í öllum grunnskólum. Það skiptir máli að forráðamenn geti svarað spurningum sem vakna hjá krökkum og að fræðandi og uppbyggileg samtöl geti átt sér stað inn á heimilunum.
Fulltrúi Flokks fólksins vill draga fram í þessari bókun Viðauka 2 bls. 27 sem er tillaga frá Flokki fólksins um „að gerð verði úttekt á jafnréttisfræðslu í skólunum, hvernig henni er háttað og hvernig hún hefur þróast undanfarna áratugi“. Allt frá því fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976 hefur íslenskum skólum verið skylt að fræða nemendur um jafnrétti kynjanna og að undirbúa bæði stráka og stelpur til jafnrar þátttöku í fjölskyldu- og atvinnulífi. Nú hefur komið í ljós sbr. upplýsingar frá starfshópinum að námsefni og innleiðing (t.d. samþætting og skipulag) á kynja– og hinseginfræði er af skornum skammti sem er með öllu óásættanlegt. Innleiðing á fræðslu af þessum toga er vandmeðfarin og þarf að vera með fjölbreyttum hætti á á öllum skólastigum og með öllum aldurshópum, þannig að kynja- og hinseginfræði snertir á öllu starfi með börnum og ungmennum.
Bókun Flokks fólksins við stefnu Reykjavíkurborgar um byggingar fyrir skóla- og frístundastarf ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. mars 2022 og umsögnum um stefnuna:
Fulltrúa Flokks fólksins er umhugað um aðgengi og þátttöku fatlaðra barna og foreldra í skólastarfi enda eitt af baráttumálum Flokks fólksins. Í stefnu borgarinnar er hvergi lýst hvernig gera á ráð fyrir fötluðu fólki i skólastarfi. Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks er víða í skólastarfinu ekki virtur.
Tekið er undir ábendingu um að í drögum er tilvist fatlaðra barna í skólastarfi dregin saman í kafla aftarlega í skjalinu sem kallaður er Menntun án aðgreiningar – allir með. Það er einfaldlega ekki þannig að „allir séu með“ í „Skóla Reykjavíkur án aðgreiningar“ Margir tjá sig um algilda hönnun. Algild hönnun á að vera fyrir alla, á að tryggja sjálfstæði og reisn allra.
Að breyta byggingum yfir í “algilda hönnun” er einfaldlega erfitt og varla hægt í mörgu grónu skólahúsnæði sem er löngu sprungið vegna fjölgunar nemenda. Nefna má þó Múlaborg en þar tókst ágætlega að gera breytingar sem stuðla að samnýtingu og samkennslu. Verulegar áhyggjur eru af framtíð skólamála í hverfum þar sem þétting er mest og mikil. Sama má segja um húsnæði fyrir íþróttakennslu eins og t.d. í Laugardal. Í Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla sem hafa sérstöðu vegna skiptingu árganga eru þrengsl óviðunandi og ekki sést glitta í lausnir.
Bókun Flokks fólksins við samningi um samstarf og verkaskiptingu milli velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs vegna innleiðingar og framkvæmdar verkefnisins Betri borg fyrir börn, dags. 3. mars 2022.
Lagður er fram samningur um samstarf og verkaskiptingu milli velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs vegna verkefnisins Betri borg fyrir börn. Fulltrúi Flokks fólksins telur að þessi tvö svið ættu að sameinast í eitt enda skarast verkefni þeirra mikið. Það er t.d. sérkennilegt að sálfræðingar skóla heyri undir velferðarsvið en ekki skóla- og frístundasvið. Þessi svið hafa lengst af ekki unnið mikið saman en eru engu að síður að vasast í sömu málum með sömu einstaklingana, foreldra og nemendur. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til í borgarráði 30. janúar 2020 að sálfræðingar í skólum færðust undir skóla- og frístundarsvið. Með því kæmust sálfræðingarnir í betri tengingu við skólasamfélagið. Tillögunni var hafnað. Skólasálfræðingar heyra undir þjónustumiðstöðvar borgarinnar þar sem þeir hafa aðsetur. Í skýrslu innri endurskoðunar sem kom út í júlí 2019, kom fram skýrt ákall skólastjórnenda að sálfræðingar kæmu inn í skólanna. Nærvera þeirra myndi létta álagi á kennara. Í raun má segja að það sé engin haldbær rök fyrir því að skólaþjónusta tilheyri ekki því sviði sem rekur skólanna. Með því að sálfræðingar heyri undir skóla- og frístundasvið yrði hlutverk skólaþjónustu gagnvart skólum og starfsfólki þeirra eflt og veitir sannarlega ekki af því í ljósi langs biðlista til skólasálfræðinga.
Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. febrúar 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um verklag þegar trúnaðarmenn starfsfólks sendir inn ábendingar og kvartanir:
Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta mikilvægar spurningar. Spurt er hvernig er verklagið og aðgerðaráætlunin varðandi það þegar trúnaðarmenn starfsfólks á leik- og grunnskólum senda inn ábendingar eða kvartanir inn til skóla- og frístundasviðs og hvernig er unnið úr þeim? Hér gæti verið um að ræða alls konar kvartanir. Kvörtun yfir níðingsskap, einelti, áreitni þ.m.t. kynferðislega áreitni eða ofbeldi af hvers lags tagi.
Í svari segir að ekki sé neitt formlegt verklag til og finnst fulltrúa Flokks fólksins það mikið áhyggjuefni. Sérfræðingar á skrifstofu skóla- og frístundasviðs rannsaki hins vegar ábendingar og kvartanir sem berast. Fulltrúi Flokks fólksins spyr nú hverjir þessir „sérfræðingar“ eru, eru það fagmenn sem lært hafa til verka að rannsaka mál af þessu tagi? Eins skyldi maður halda að fjarlægð sé ekki næg ef sérfræðingar sviðsins eru að vasast í þessum málum. Ættu málin ekki að fara til mannauðsstjóra og eða til teymis innan borgarinnar sem ekki væri með tengsl við skólasamfélagið. Með þessu fyrirkomulagi er óhæði rannsakandans alls ekki tryggt “Sérfræðingur á sviðinu” gæti vel verið innviklaður í mál eða kann að hafa sterkar skoðanir á því.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvernig Reykjavík og skóla- frístundasvið hyggst bregðast við að í janúar voru 36% 15 ára nemenda undir lágmarksviðmið í lestri:
Langstærstur meirihluti innflytjenda er undir viðmiði þegar kemur að íslenskukunnáttu. Fram hefur komið að í janúar voru 36% 15 ára nemenda undir lágmarksviðmið í lestri. Niðurstöður PISA- könnunarinnar fyrir 2018 sýndu að einn þriðji hluti drengja hafði ekki lágmarksfærni í lesskilningi og helmingur nemenda af erlendum uppruna. Þá voru 92.5% innflytjenda á rauðu eða gulu viðmiði þegar kemur að íslenskukunnáttu og þurfa aðstoð með íslenskunámið. Stór hópur af þessum börnum er fædd á íslandi.
Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvernig Reykjavíkurborg og skóla- og frístundasvið hyggist bregðast við þessu? Reykjavík nýtur ekki framlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hvorki til jöfnunar kostnaðar á rekstri grunnskóla né framlags vegna nemenda með íslensku sem annað tungumál vegna stærðar sinnar. Samt búa langflestir nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku í Reykjavík.
Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að endurskoða löggjöf og regluverk með það að markmiði að öll börn njóti sanngirnis og réttlætis hvar svo sem þau búa. Á meðan niðurstaða er ekki fengin í málið þarf Reykjavíkurborg engu að síður að sinna með fullnægjandi hætti nemendum af erlendum uppruna sem standa illa að vígi í íslensku. Börn mega aldrei líða fyrir deilumál af þessu tagi.