Skipulags- og samgönguráð 23. febrúar 2022

Bókun Flokks fólksins við Samræming úrgangsflokkunar á höfuðborgarsvæðinu 2020 – 2024:

Um er að ræða breytta úrgangsstjórnun á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur tekið þennan meirihluta langan tíma að kveikja á þessari peru. Að safna lífrænum úrgangi á söfnunarstað er gömul saga hjá bæði sumum öðrum sveitarfélögum og nefna má Ungmennaráð Kjalarness sem lagði fram tillögu um söfnun lífræns sorp sem hófst síðan sem tilraunaverkefni á Kjalarnesi. Svo fulltrúi Flokks fólksins tekur undir orð fulltrúa á fundi Samtaka sveitarfélaga í vikunni sem sagði LOKSINS. Mörgum spurningum er þó ósvarað sem dæmi hvenær fæst nothæf molta úr GAJU? Reyndar hefur því verið svarað af starfsmanni SORPU á fundi Sambandsins og svarið var “ég veit það ekki”. Einnig hafa ekki fengist svör við hvort SORPA hafi kannað hvort ávinningur sé af því að bjóða út sorphirðu í þriggja tunnu kerfi?
Í því sambandi má benda á að aðrir aðilar í sorphirðu hafa boðið það að plast og pappír geti verið í sömu tunnunni og þar með fækkað tunnum við heimili sem er sparnaður og aukin þjónusta við borgarbúa? Fjöldi íláta er stór póstur og helst í hendur við hirðutíðni. Fleira er enn óljóst eins og t.d. að tillögurnar gera ráð fyrir að sveitarfélögin skaffi pappírspoka undir lífúrgang og fyrirkomulagið í því sambandi liggur ekki fyrir.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu  áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, vegna umsóknar um leyfi til rekstrar:

Tillögunni er vísað frá með þeim rökum að heildstæð vinna stendur þegar yfir við að einfalda ferla. Þetta hefur að mati Flokki fólksins of hægt. Umsækjendur bera sig illa, segja að afgreiðsla gangi hægt og er flækjustig ferla mikið. Setja átti stafræna ferla fyrir þetta svið, sem og velferðarsvið og skóla og frístundasvið í forgang sem ekki var gert. Nú er þriðja árið runnið upp og þjónustu- og nýsköpunarsvið fær restina af 10 milljörðunum og en vantar sárlega margar stafrænar lausnir á þessi svið. Sú umsögn sem hér er birt er gömul tugga.

Tillagan stendur sterkt og getur lifað áfram enda um einfaldan og eðlilegan hlut þ.e. að sá sem sækir um leyfi til rekstrar af hvers lags tagi þurfi aðeins að hafa samband við einn aðila í borgarkerfinu, í stað margra. Nýjustu tíðindi af vettvangi er að umsagnarferli tekur langan tíma mun meira en 45 daga eins og fram kemur á heimasíðunni. Er ekkert að marka það sem stendur á heimasíðuna? Stafrænar lausnir fyrir Sviðið væru löngu komnar ef leitað hefði verið samstarfs við aðra sem komnir eru lengra með stafrænar lausnir af þessu tagi.


Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda sem fara fram hjá útgönguleiðum bílastæðahúsa:

Tillaga Flokks fólksins að skipulags- og samgöngusvið kanni öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda sem fara fram hjá útgönguleiðum bílastæðahúsa. Vegfarendur sjá ekki að bíll er á leiðinni út, enda ekið út úr húsi.

Oft hefur legið við slysi þegar bíll kemur akandi út úr bílastæðahús/kjallara og ökumaður gætir ekki að því að á sama tíma gæti hjólandi eða gangandi vegfarandi verið að fara fram hjá.

Þarna þarf að merkja vel báðu megin frá, bæði fyrir ökumann sem er að aka út úr bílastæðahúsi, að hann sé minntur á að aka löturhægt út þar sem gangandi eða hjólandi gæti verið að fara fram hjá. Að sama skapi þarf að vera áberandi skilti á gangstétt áður en kemur að útkeyrslu bílastæðahúss þar sem náð er athygli vegfarenda að bíll gæti skyndilega ekið út úr bílastæðahúsinu.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, bílastæðasjóðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um Gufunes, Loftkastala:

Fyrirspurnir Flokks fólksins vegna lóðanna Gufunesvegur 34. Þengilsbás 1 sem skipt var í tvennt. Reykjavíkurborg setti sem eitt af skilyrðum framkvæmdaleyfis að það yrði samráð um sveigjanleika með m.a. aðkomu og innkeyrslur í útgefnu framkvæmdaleyfi fyrir gatnagerð og fl. í Gufunesi. Einnig hefur skipulagshöfundur sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að mikið hafi borið af leið frá kynntu skipulagi. Nú situr borgarbúi uppi með skertar eignir vegna samskipta- og samráðsleysis. Vandinn snýr að því að það er ekki sama gólfhæð í tveimur samliggjandi húsum en þessi mismunandi hæð hindrar nýtingu þar sem ekki er hægt að renna stórum hlutum, leikmunum, á milli húsanna.

Staðan er núna óásættanleg. Af gögnum má ráða að gefið hafi verið út framkvæmdaleyfi fyrir gatnagerð í Gufunesi sem ekki fellur að þeim húsum sem sem fyrir eru í Gufunesi?

Þessi gatnagerð hindrar nýtingu húsa Loftkastalans.

Fulltrúi Flokks fólksins spyr:

Hvernig á að nýta húsnæði ef engin er aðkoman og gatnagerð í Gufunesi fellur ekki að þeim húsum sem fyrir eru?

Spurt er einnig: Á eftir að hafa þetta samráð við lóðarhafa t.d. þegar kemur að lokaútfærslu lóðar og hvernig lóðin tengist götunni?

Hvenær á að ganga í þetta mál og leysa það?

Loftkastalinn þarf að fá úrlausn mála sinna þannig að hægt sé að renna stórum hlutum á milli húsa.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um merkingar og sektir á Bryggjugötu 4:

Fyrirspurn Flokks fólksins um merkingar á vistgötu og sektir í aðkeyrslu að Edition Hótel við höfnina. Aðkeyrslan að hótelinu er þannig að það er pláss fyrir bíla á svokallaðri vistgötu en þarna er merkingum ábótavant og óljóst hvort megi leggja þarna. Dæmi eru um að fólk hafi lagt þarna í góðri trú til að sinna erindum en fengið síðan háa sekt. Þarna er bann við lagningu í vistgötu nema í sérmerktum stæðum en litlar sem engar merkingar eru um að þarna sé vistgata og óheimilt að leggja. Fulltrúi Flokks fólksins fékk þá upplifun við að heyra lýsingar fólks sem lent hafa í þessu að það sé eins og verið sé að að leiða fólk í gildru. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum frá Bílastæðasjóði um merkingar á þessari götu og á þessum stað nákvæmlega sem er Bryggjugata (101) 4 og hvort talið sé að þær séu nægjanlegar?

Óskað er einnig upplýsinga um hvað margir hafa verið sektaðir nákvæmlega þarna á þessum svæði sem fyrirspurnin snýr að?

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, bílastæðasjóðs.

 

Bókun Flokks fólksins við Vetrarþjónusta á götum og göngu- og hjólastígum:

Fulltrúi Flokks fólksins vill hrósa starfsmönnum vetrarþjónustunnar sem sinna snjóhreinsuninni og færir þeim sínar bestu þakkir fyrir störf sín.

Þessi vinna hlýtur að vera sérlega erfið. Það snjóar, rignir, frýs, snjóar meira, hlánar, frís o.s.frv. Þetta hefur og er oft engin venjuleg tíð. Klakinn hleðst upp og má sjá fyrir sér að vélarnar ráði ekki við þetta. Þegar verst lætur hlýtur þetta að vera mikið álag á þessa starfsmenn og fjölskyldur þeirra enda hvorki spurt um hvort sé dagur eða nótt, virkur dagur eða rauður dagur.

Bestu þakkir. Ofan á þetta bætist eins og fram hefur komið í bréfi frá starfsmönnum sem sent var til allra borgarfulltrúa og í fréttum að eitthvað mikið er að í baklandinu á þessum vinnustað. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram fyrirspurnir um það mál, hverjir séu ábyrgir fyrir alvarlegu ástandi sem þarna ríkir. Einnig er því velt upp hvar Mannauðsdeildin er í öllu því máli? Minnt er á hlutverk Mannauðsdeildar í málum sem þessum. Mannauðsdeild á að koma inn sem lausnarúrræði, stuðningsúrræði og taka utan um starfsfólkið, hlúa að því og hvetja. Hefur Mannauðsdeildin gert það í þessu máli? Það er ótækt að starfsmenn búi við svo neikvæðar vinnuaðstæður í svo miklu álagsstarfi sem þessu.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um vetrarþjónustu Reykjavíkur

Þann 21.02.2022 fengu allir borgarfulltrúar og fleiri bréf frá starfsmönnum vetrarþjónustu sem lýsa mikilli óánægju og vanlíðan. Segir í texta með bréfinu að „bréf þetta fjallar um það sem við teljum vera þekkingarleysi, ófullnægjandi aðbúnað, óboðlegt vaktafyrirkomulag og mismunun í garð starfsfólks sem sér um vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar“.

„Í öðru lagi fjallar það um skoðanakúgun, forsjárhyggja, einelti, þöggun og mismunun sem við teljum að viðgangist innan borgarkerfisins. Mikið af gögnum og vitnisburðum liggur fyrir varðandi þessi mál sem setja má fram síðar.“

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum og skýringum á hvað veldur þessari miklu óánægju sem hér er lýst. Óvenjulegt er að fá bréf sem þetta frá öllum starfsmönnum í einni af deildum borgarinnar. Ætla að mikið þurfi til til að viðkomandi telji sig knúinn til að ákalls sem þetta. Má rekja þetta kannski til yfirstjórnar? Bréf verkstjórans lýsir grafalvarlegri stöðu. Fulltrúi Flokks fólksins spyr, hvað á að gera, hvernig á að bregðast við. Við þetta er ekki hægt að una? Því fer Flokkur fólksins fram á það að fá upplýsingar um það úrbótaferli sem átti að vera í gangi og hvað mun verða gert nú þegar þessar ábendingar hafa borist.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, varðandi Loftkastalamálið í Gufunesi

Fram hefur komið frá umhverfis- og skipulagssviði að skoða eigi enn frekar með opnum huga mögulegar lausnir til að koma til móts við umkvartanir hagsmunaaðila. Gera á athuganir með hönnuðum verksins og utanaðkomandi ráðgjöfum.

Eftir það á að boða hagaðilum til fundar og kynna niðurstöðuna.

Þessi svör og viðbrögð eru einfaldlega ekki nógu góð að mati fulltrúa Flokks fólksins.

Spurt er hvort það standi fyrir dyrum að Sviðið gera athuganir á sjálfu sér?

Einnig er spurt hvar samráð er statt í öllu þessu máli eins og einmitt hefur verið tiltekið að eigi að hafa í umsögn fyrir framkvæmdaleyfi frá Umhverfis- og skipulagssviði?

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um sorpflokkun

Mál nr. US220055

Sveitarfélög eru ekki komin langt í að endurvinna gler þó að það eigi að fara að safna því núna. Samkvæmt skuldbindingum okkar gagnvart ESB eigum við að endurvinna gler en það er ekki gert enn. Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram fyrirspurn um hvenær endurvinnsla glers hefjist í Reykjavík?

Einnig er spurt um hvaða aðgerðir á að grípa til, til þess að flokka plast í flokka til þess að sem mest af því verður endurunnið?

Verður það gert hér á landi eða sent til úrvinnslu erlendis þar sem lögð er áhersla á að endurvinna sem mest.

Eða verður þessu brennt?

Núverandi hugmyndir eru um hátæknibrennslustöð, en slík stöð endurvinnur ekki, hún brennir oft endurvinnanlegu efni. Hátæknibrennslustöð er því ekkert annað en milliskref en ekki endanlegt ferli.

Frestað.