Bókun Flokks fólksins við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, íbúðarbyggð og blönduð byggð:
Hér er verið að kynna stórt mál. Nokkrir punktar standa upp úr svona í fyrstu atrennu. Bílastæðum á að fækka og eru nokkrar áhyggjur af því. Bílum mun fjölga án efa en vonandi aðeins raf- og metanbílum. Aðgengi á vissa staði borgarinnar er erfitt og má nefna miðborgina. Þrátt fyrir þéttingu byggðar er borgin talsvert dreifð. Fólk þarf að geta komist um innan borgarinnar. Borgarlína er enn talsvert inn í framtíðinni og óvíst með almenna notkun hennar jafnvel þótt byggt sé þétt í kringum hana. Hvað varðar mannfjöldaspá hefur Hagstofan tekið inn nýja spá til ársins 2068. Í fyrra reiknaði hagstofan með verulegum aðflutningi fólks umfram brottflutning fram til ársins 2023 vegna efnahagsástands en þær forsendur eru úreltar. Atvinnutækifærum á að fjölga. Það þurfa að vera atvinnutækifærum í öllum hverfum.
Fram kemur að varðveita eigi græn svæði. Til stendur engu að síður til að eyðileggja eina fallegustu náttúruperlu Reykjavíkur, Vatnsendahvarfið með lagningu Arnarnesvegar sem skera mun hæðina. Þetta stríðir gegn einu af leiðarljósum sem kynnt eru „að ekki verði gengið á svæði sem hafa hátt náttúru- og eða útivistargildi“. Hægt er að fara aðrar leiðir og hafa þær verið lagðar fram. Vel má tengja Arnarnesveginn inn á Tónahvarf og gera hringtorg við Breiðholtsbrautina/Vatnsendahvarf.
Bókun Flokks fólksins Dunhagi, Hjarðarhagi og Tómasarhagi, deiliskipulag:
Málefni Dunhaga, Hjarðarhaga og Tómasarhaga hefur verið til umræðu lengi ekki síst vegna athugasemda og gagnrýni íbúa svæðisins. Kvartað hefur verið undan málsmeðferð en taka skipulagsyfirvöld ekki undir það.
Andmælendur hafa tvívegis unnið mál fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála. Eigendur fengu aukafrest til að skila athugasemdum. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort skipulagsyfirvöld telji að vel hafi verið tekið í ábendingar og athugasemdir íbúa hverfisins og hvort þeim hafi verið mætt eins og framast er unnt? Vonandi hefur náðst meiri sátt í málinu með þeim breytingum sem gerðar verða frá upphaflegu skipulagi/tillögum.
Bókun Flokks fólksins Göngugötur – viðhorf Reykvíkinga 2020, kynning:
Viðhorfið sem birtist í könnuninni endurspeglar greinilega ekki viðhorf fólks sem er miður því maður vill gjarnan geta stuðst við kannanir að einhverju leyti. Kynningin gefur þá mynd að allir séu í raun húrrandi glaðir yfir ástandinu í bænum. Ef fulltrúi Flokks fólksins væri spurður hvað honum þætti almennt um göngugötur væri svarið að þær væru frábærar þar sem þær ættu við og þjónuðu sínum tilgangi. Ef horft er til göngugatna í miðbænum sem leiddu til lokunar umferðar hafa margir stigið fram og lýst óánægju sinni. Ekki síst hagaðilar sem hættu að fá til sín kúnna í sama mæli og áður. Fólk sem kom á svæðið er hætt að koma. Það vita það allir sem vilja hvernig komið er fyrir Laugavegi. Nú nýlega steig eigandi Máls og menningar fram og sagði að reksturinn hefði verið orðinn erfiður fyrir COVID. Sölutölurnar ljúga ekki og fylgja sölutölurnar lokunum gatna. Fólk sem ekki býr í nágrenninu kemur eðlilega minna þegar engar verslanir eru lengur á staðnum og aðgengi erfitt. Fulltrúi Flokks fólksins verður bara að vera heiðarlegur í þessu sambandi og segja að þessi könnun, niðurstöður hennar eru í ljósi alls þessa ekki trúverðugar eða í það minnsta gefur kynningin ranga mynd.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Áheyrnarfulltrúar í skipulags- og samgönguráði gagnrýna skoðanakönnun fyrir að stemma ekki við þeirra eigin upplifun af veruleikanum. Það breytir ekki niðurstöðum könnunarinnar sem er unnin á faglegan hátt og með viðurkenndum aðferðum.
Bókun Flokks fólksins við Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025, megináherslur vinnu, kynning
Kynnt er hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025. Fulltrúi Flokks fólksins vill leggja áherslu á að ef nota á hjól sem samgöngutæki þarf að leggja stíga eftir hæðarlínum eins og hægt er.
Bókun Flokks fólksins við Ný gjaldskrá vegna stöðvunarbrota í Reykjavík, tillaga:
Lögð er fram tillaga að nýrri gjaldskrá vegna stöðvunarbrota í Reykjavík. Hækka á sektir umtalsvert. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að vel mætti skoða að gefa ríflegri afslætti ef sektin er greidd t.d. innan sólarhrings. Þá mætti lækka sektina um helming. Með því er verið að hvetja þá sem fá sekt að ganga strax í málið og greiða hana. Sjálfsagt er að gefa þeim sem brjóta umferðarlög kost á að lækka upphæð sektarinnar með þessum hætti.
Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins um að gert verði átak til að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í Úlfársárdal:
Tillögunni er vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.
Flokkur fólksins lagði til að átak yrði gert í Úlfarsárdal til að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Skrifstofa samgöngustjóra vill að tillögunni sé vísað frá og því er hlýtt. Minnt er á að málið var á dagskrá íbúaráðs Úlfarsárdals fyrir skemmstu en þar var bókað að nokkuð sé ábótavant við merkingar og einnig við umferðaskipulag svo sem hringtorg í Grafarholti og Úlfarsárdal.
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að verið sé að vinna að merkingu og lýsingu gangbrauta í Úlfarsárdal. Miklar tafir hafa greinilega verið á verki sem búið var að lofa fyrir ákveðinn tíma og svar samgöngustjóra ber það með sér, en þakka ber að nú virðist eiga að taka við sér og ganga til verka.
Sagt er í svarinu að veghaldarinn ákveði hvar gangbrautir yfir vegi eigi að liggja en ekki íbúar og að gagnbrautir séu bara gangbrautir ef veghaldari segir svo, annars er það gönguþverun. Og ef það er gönguþverun þarf ekki að vera skilti?! Hér er gott tilefni til að hafa samráð við íbúa sem vilja kannski hafa eitthvað að segja hvar gangbraut eigi að vera.
Bókun Flokks fólksins við svari við Bókun Flokks fólksins við svari við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um stæði og sleppistæði við leik- og grunnskóla
Í svörum við fyrirspurnum og framhaldsfyrirspurn Flokks fólksins um stæði og sleppistæði við leik- og grunnskóla liggur fyrir að verið er hægt og bítandi að fækka stæðum sem foreldrar nota þegar þau fara með börn sín í leik- og grunnskóla. Segir í svari að reglum sé fylgt. Auðvitað er reglum fylgt. Um er að ræða reglur sem skipulagsyfirvöld setja einhliða og án nokkurs samráðs við þá sem fylgja á reglunum. Til að gera fólki enn erfiðara fyrir er sett á gjaldskylda á nánast öll stæði sem skipulagsyfirvöld vita að fólk þarf nauðsynlega að nota.
Í svari segir að ekki sé hægt að útiloka að gjaldskylda verði nærri leikskólum og grunnskólum. Það er upplifun fulltrúa Flokks fólksins að þessi meirihluti skipulagsmála borgarinnar vilji setja eins háan verðmiða á nauðsynlegar þarfir fólks og þau mögulega komast upp með. Þetta hefur sést víðar og áður. Alls staðar þar sem er álag eða aukið álag er rukkað og rukkað meira, þá er gjaldskyldum bílastæðum fjölgað og gjaldið hækkað.
Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um vistgötur:
Vistgötur eru stórfínar ef fólkið við götuna er sammála breytingunni. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins skilur fyrirkomulagið þá er þetta alfarið ákvörðun örfárra sem starfa á skipulagssviði. Afar erfitt er að sjá að einhver öryggissjónarmið liggja að baki alla vega í sumum tilfella þar sem breytt er yfir í vistgötu. Það er mjög auðvelt að útskýra alla mögulega hluti út frá öryggissjónarmiði og nota skipulagsyfirvöld það óspart. Vel kann að vera að mikil sátt ríki um Norðurstíginn og þar hafi öryggissjónarmið legið sterklega til grundvallar. Samkvæmt svari þá er fyrirkomulagið þannig að ef breyta á götu í vistgötu er íbúum einungis send tilkynning um fyrirhugaðar framkvæmdir. Þeir er aldrei boðið upp á neitt samtal hvað þá samráð eða er yfir höfuð eitthvað hlustað á sjónarmið íbúanna? Ef marka má svarið þá er það bara tilkynningarformið sem gildir, að svona skuli þetta vera.
Bókun Flokks fólksins við frávísun tillögu fulltrúa Flokks fólksins, um notkun hraðavaraskilta:
Tillögunni er vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.
Flokkur fólksins lagði til að skoðað verði hvar hentar betur blikkljós og radarskilti sem mæla hraða og vara við ef hraði er mikill í stað hraðahindrunar. Tillögunni er vísað frá. Í svari er vísað í skýrslu frá 2006 sem er úrelt enda þessi tækni þá ekki komin að neinu marki. Í svari kemur fram að minnst sé tekið mark á blikkljósum. Reyndar eru ekki mörg blikkljós og radarskilti í Reykjavík og ekki vitað um að könnun hafi verið gerð á hversu mikið er tekið mark á þeim. Notkun þeirra hefur aukist mjög í löndunum í kringum okkur frá 2006 með góðum árangri, ásamt því að nágranasveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið þessa tækni í notkun. Ef valið er frekar hraðahindranir en leiðbeinandi hraðahindranaskilti þá þarf að koma á betra skipulagi. Setja þarf upp staðla fyrir hindranir. Uppsetning hraðahindrana er tilviljanakennd. Þegar ekið er eftir 50 km götu þá getur hún verið krappari heldur en á 30 km götu. Hafa ber í huga það tjón sem rangar og ómarkvissar hraðahindranir í götum hafa á ökutæki, þar sem hönnun bíla hefur breyst mjög á undanförnum árum. Þá er tjón á vögnum Strætó, snjóruðningstækjum og öðrum þjónustubílum borgarinnar verulegt vegna þessa eins og fram hefur komið.
Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um væntanlega legu Sundabrautar:
Flokkur fólksins spurði um væntanlega legu Sundabrautar. Í umsögn kemur fram að það er ekkert að frétta. Engar ákvarðanir liggja fyrir enn um hvar Sundabraut mun liggja. Áréttað er að það skiptir miklu máli fyrir aðrar framkvæmdir að legan verði þekkt sem fyrst.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir um greiðslur sem skipulags- og samgöngusvið hefur greitt sjálfsstætt starfandi arkitekta-/verkfræðistofum svo og einyrkjum s.l. 2 ár?
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hversu margir arkitektar starfa hjá skipulags- og samgöngusviði?
Ef einhverjir, er ekki hægt að nota sérfræðiþekkingu þeirra, sem arkitekta til að sinna einhverjum af þeim verkefnum sem skipulags- og samgöngusvið kaupir af sjálfstætt starfandi verkfræðistofum svo sem ráðgjöf, teikningar, utanumhald, hönnunarsamkeppni og hönnun bygginga?
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir um Arnarnesveg:
Fyrirhugað er að leggja Arnarnesveg og skal hann liggja þvert yfir Vatnsendahvarfið og kljúfa Vatnsendahæðina í tvennt. Þetta mun leiða til stórfelldrar eyðileggingar á náttúru og fallegs útsýnisstaðar þar sem byggja á Vetrargarð? Hvernig samræmist það grænum sjónarmiðum skipulagsyfirvalda að ætla að sprengja fyrir hraðbraut ofan í fyrirhugaðan Vetrargarð þvert yfir grænt svæði með fjölbreyttri náttúru?
Frestað.
Áheyrnafulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um lagfæringar á samgöngum í Norðanverðum Grafarvogi í tengslum við flutning skólahalds.
Fulltrúi Flokks fólksins vill spyrja hvernig gengur með lagfæringar á samgöngum í Norðanverðum Grafarvogi í tengslum við flutning skólahalds. Foreldrum var lofað þegar Korpuskóla var lokað að öryggi barna þeirra yrði að fullu tryggt. Það loforð hefur ekki verið efnt. Enn er vandamál með aðstæður við biðstöðina við Brúnastaði. Þarna er stærsti hópurinn á hverjum degi að bíða í einum hnapp. Börn á aldrinum 6-10 ára. Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á þetta enn og aftur og það áður en að slys verður. Eftir því sem upplýsingar berast er ekki verið að hægja á umferð á þessum stað, fyrir utan hvað skýlið stendur nærri götunni. Umferðin og hraðinn þarna er stórhættulegur og vekur furðu að ekki sé búið að ganga í betrumbætur.
Frestað.