Bókun Flokks fólksins við Samgöngusáttmáli, stofnleiðir hjólreiða á höfuðborgarsvæðinu:
Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á að gott er að stefna að því að hjólastígar séu og verði hugsaðir sem samgönguæð. Hjólreiðafólki þykir almennt best að hjóla á láréttri braut þegar verið er að nota hjól sem samgöngutæki. Þess vegna er mikilvægt að slíkir stígar liggi samhliða hæðarlínum, en brekkur ætti frekar að forðast. Í þessu gildir að betri er krókur en kelda. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir sýnist að hægt sé að huga betur að þessu atriði eða í það minnsta þarf að hafa þetta í huga og fylgja þeim reglum sem að þessu snúa þegar verkefninu framvindur.
Bókun Flokks fólksins við kynningu á Suðurlandsbraut 34/ Ármúli 31, lýsing /deiliskipulag:
Bókun Flokks fólksins við framlagningu skipulagslýsingar dags. í ágúst 2019 vegna breytingu á deiliskipulagi Suðurlandsbrautar 34/Ármúla 31, en þar á að rísa þétt og blönduð byggð, allt að 450 íbúðir, atvinnuhúsnæði og leik- og grunnskóli. Fulltrúi Flokks fólksins er að sjá þessi gögn og heyra nákvæmlega þessar lýsingar í fyrsta sinn og getur ekki eftir örstutta kynningu myndað sér skoðun á þeirri umbyltingu sem á að verða á þessum reiti. Ítrekað er mikilvægi þess að fá gögn send með dagskrá til að geta rýnt þau fyrir fundinn. Breytingar sem lagt er til að verði eru gríðarmiklar. Myndir sem sýndar eru líkjast í engu því útliti og aðstæðum sem þarna eru núna. Gert er ráð fyrir að stór hluti af núverandi húsnæði á lóðinni víki. Hvaða hús eru það sem munu víkja, hve mörg, hvaða starfsemi er í þeim nú og hvernig mátast skipulagsbreytingin við eigendur þeirra. Það vakna margar spurningar. Hér er ekki verið að gagnrýna eða segja að þetta geti ekki orðið vel heppnað og glæsilegt heldur frekar er verið að leggja áherslu á að kjörnir fulltrúar fái mýmörg tækifæri til að rýna í þetta til að mynda sér skoðanir enda gætu þeir viljað koma með umsögn eða ábendingar, eða frekari spurningar.
Bókun Flokks fólksins við framlagningu mála, færsla Hringbrautar, Skógarhlíð, breyting á deiliskipulagi vegna smáhýsa og Veðurstofuhæð einnig breyting á deiluskipulagi vegna smáhýsa:
Flokkur fólksins gerir ekki efnislega athugasemd við þessa tillögu um færslu Hringbrautar. Fulltrúi Flokks fólksins veit að það hefur verið mjög erfitt að finna smáhýsunum stað í borgarlandinu og er það áhyggjuefni. Fulltrúi Flokks fólksins vill hins vegar nefna í þessari bókun að undir báðum þessum liðum eru birt tugir nafna fólks sem sendu inn athugasemdir/umsögn. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta óþarfi og veltir fyrir sér hvort þessi nöfn séu birt með vitund þessara einstaklinga? Hverjir senda inn athugasemdir snertir málið ekki að neinu leyti og því finnst fulltrúa Flokks fólksins engin þörf á að birta nöfn þeirra sem senda inn athugasemdir í dagskrá fundarins. Þessu má breyta og mun Flokkur fólksins koma með tillögu um það.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um
Í fyrirspurn sem áheyrnarfulltrúi Flokk fólksins lagði fram fyrir rétt um ári síðar varðandi lélegt aðgengi fyrir hreyfihamlaða einstaklinga á stoppistöð Strætó bs. við Suðurlandsbraut norðan megin, á móts við Laugardalshöll, hvort það stæði til að lagfæra umhverfi þessarar stoppistöðvar svo fatlað fólk kæmist með auðveldum hætti að göngubraut yfir Suðurlandsbraut? Svarið var að það væri á framkvæmdaáætlun fyrir 2020. Nú er sumar á næsta leiti, og spurt er hvort lagfæring á umræddri stoppistöð sé á lista yfir framkvæmdaráætlun borgarinnar.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu framkvæmda og viðhalds.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fyrirspurn Flokks fólksins vegna afnotar Bandalags skáta af reit í Hádegismóum til að reisa bækistöðvar. Um er að ræða einstakt land, með einstaka náttúru. Flokkur fólksins óskar að vita hvað Bandalag íslenskra skáta greiðir fyrir lóðina.
Framsent til skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að borgarstjóri og skipulagsyfirvöld nota ekki núverandi ástand til að minnka aðgengi að miðbænum.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjóri og skipulagsyfirvöld nota ekki núverandi ástand til að minnka aðgengi að miðbænum. Lagt er til að borgarstjóri noti ekki hið viðkvæma ástand vegna COVID-19 veirunnar til að þrýsta málum í gegn sem eru jafnvel í óþökk fjölda borgarbúa. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það blasa við að borgarstjóri og skipulagsyfirvöld ætli að nota tækifærið í þessu ástandi til koma áformum sínum um að loka fyrir bílaumferð í miðbænum hraðar í gegn. Sagt er að rekstraraðilar vilji stækka staði sína til að virða tveggja metra regluna og leggur borgarstjóri til frekari lokanir gatna í því sambandi. Inn í umræðuna reyndi borgarstjóri að draga þá Þórólf og Víði sem hafa nú sagst ekki hafa neina skoðun á hvort göngugötur dragi almennt úr eða auki smithættu. Hverjir hafa viljað stækka staði sína? Eru það veitingastaðir? Hvað með aðrar verslanir, eiga þær að færa varning sinn út á götu? Þessar hugmyndir eru með öllu óraunhæfar og munu skaða miðbæinn. Með því að loka fleiri götum verður verra aðgengi fyrir bíla. Miðbærinn er nú mannlaus vegna veirufaraldurs. Borgarstjóri vill notfæra sér veirufaraldurinn til að loka fleiri götum fyrir umferð. Tveggja metra reglan er notuð sem yfirskyn og sagt að rekstraraðilar vilji þetta.
Vísað frá með atkvæðum fulltrúa Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.
Fulltrúar Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgin er í sífelldri þróun og umhverfi rekstraraðila í miðbænum er að taka snörum breytingum vegna Covid faraldursins. Það er nauðsynlegt að bregðast við á hverjum tíma með það að markmiði að huga að heilsu borgarbúa sem og góðu mannlífi. Aukið göngusvæði í miðborginni, unnið í góðu samráði við haghafa gerir hvoru tveggja. Tillaga þessi felur hins vegar í sér gildisdóma um skoðanir borgarstjóra, lýsingu á afstöðu áheyrnarfulltrúa Flokks fólks til þessara meintu afstöðu ásamt spurningum sem óljóst er hver eigi að svara. Tillagan er ekki tæk til afgreiðslu og er henni vísað frá.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að borgarstjóri og skipulagsyfirvöld noti ekki núverandi ástand til að minnka aðgengi að miðbænum.. Tillögunni hefur verið vísað frá. Það hefur hins vegar ekki farið milli mála að meirihlutinn hefur reynt að nota hið viðkvæma ástand vegna COVID-19 veirunnar til að þrýsta skipulagsmálum í miðbænum hraðar í gegn og kom það skýrt fram þegar borgarstjóri reyndi að fá sóttvarnalækni og yfirlögregluþjón í lið með sér í þeirri von að hægt væri að nýta göngugötumálið í tengslum við meinta mögulega smithættu. Þetta eru upplýsingar sem komu í fréttum. Bókun sem kemur með frávísun tillögunnar felur að mati Flokks fólksins í sér gildisdóma um Flokk fólksins sem bendir á það augljósa. Máli er greinilega viðkvæmt hjá borgarmeirihlutanum. Nær væri að taka sér tak og huga að sátt og samvinnu við rekstraraðila sem hafa orðið illa úti vegna breytinga á einum mikilvægustu og áður vinsælustu götum miðbæjarins. Flokkur fólksins telur að borgarstjóri þurfi að gæta betur að sér þegar hann er í opinberri umræðu um þessi mál sér í lagi ef hann ætlar að tengja skipulagsmál við Covid. 19.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að skipulagsyfirvöld eigi alvöru viðræður og samstarf við rekstraraðila miðbæjarins til að ræða björgunaraðgerðir
Flokkur fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld eigi alvöru viðræður og samstarf við rekstraraðila miðbæjarins til að ræða björgunaraðgerðir s.s. hvernig markaðsátak hægt er að fara í fyrir miðborgina. Fara þarf í almennar aðgerðir sem nýtast öllum. Almennar aðgerðir þurfa m.a. að fela í sér samvinnu við bílastæðasjóð og Strætó b sem gefa þurfa eftir í gjöldum til að laða að fólk. Breyta verður aksturstefnum á Laugavegi þannig að ekið verði í vesturátt niður alla götuna. Opna þarf hliðin enda er nú komið í lög að um þessar götur megi P merktir bílar aka og leggja. Það hefur komið fram í niðurstöðum m.a. Maskínu könnunar að miklar áhyggjur eru af fækkun fólks í miðbænum. Fyrir veirufaraldurinn var orðið fátt um annað fólk í bænum en ferðamenn. Götulokanir á svæðinu höfðu haft þau áhrif að verslun og viðskipti hrundi í miðbænum utan veitingahúsareksturs. Covid-19 áhrifin bættust síðan ofan á og mun sennilega líða talsverður tíma áður en sjá má stóra hópa ferðamanna í bænum. En orsök faraldursins engum að kenna. En flótti verslana af svæðinu er á ábyrgð meirihlutans. Þrátt fyrir hávær mótmæli og beiðni um samráð ákvað meirihlutinn að halda sig við einhliða ákvörðun sína um götulokanir eins og þau tilkynntu í meirihlutasáttmálanum.
Vísað frá með atkvæðum fulltrúa Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.
Fulltrúar Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Ólíkt því sem tillagan heldur fram er mikið samstarf í gangi við rekstraraðila miðbæjarins. Unnið er með stórum hóp hagaðila í miðborginni og starfsfólki Reykjavíkur með það að markmiðið að móta saman aðgerðarpakka til að bregðast við afleiðingum af Covid-19 fyrir miðborgina. Var hópurinn stofnaður á stórum stöðufundi hagaaðila í verkefnisstjórn miðborgarmála. Hagsmunasamtök í miðborginni auk verkefnisstjóra miðborgarmála hjá Reykjavíkur sjá um hópinn. Meðlimir eru núna 202 og er hópurinn mjög virkur. Auk þessa er búið fá aðstöðu í Aðalstræti 2 þar sem verkefnisstjórar sem sinna miðborginni munu koma sér fyrir og vera til staðar fyrir rekstraraðila í sumar, bæði hvað varðar miðlun upplýsinga, aðstoð við leyfisveitingar og allskyns er varðar borgarlandið. Sviðsstjóri USK hefur einnig hafið samtal við forsvarsmenn veitingaaðila sem hafa áhuga á samstarfi um Kvosina, Laugaveg og Óðinstorg. Tillögu þessari er því vísað frá og ásökunum um skort á alvöru samstarfi alfarið hafnað.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Tillögu Flokks fólksins um að skipulagsyfirvöld eigi alvöru viðræður og samstarf við rekstraraðila miðbæjarins til að ræða björgunaraðgerðir hefur verið vísað frá. Flokkur fólksins harmar hvernig borgaryfirvöld hafa komið fram við rekstraraðila og hvernig ríghaldið er í einhliða ákvörðun sem skráð er í sáttmála þeirra um lokun gatna. Vonast var til að meirihlutanum myndi bera gæfa til að stíga skref til baka og vinna frá grunni með öllum rekstraraðilum. Sagt er að unnið sé með stórum hópi hagsmunaðila en þegar rætt er við tugi slíkra kemur annað í ljós. Öll vitum við flótta þeirra af svæðinu og ekki þarf annað en að ganga um svæðið til að sjá hvernig komið er. Staðreyndin er sú að mjög margir eru ósáttir aðallega þeir sem fullyrða og hafa sýnt fram á að með lokun gatna fyrir umferð hrundi verslun þeirra og var þetta sérstaklega slæmt þegar ákveðið var að loka allt árið um kring. Þetta atriði verður að skoða, kannski að prófa aftur að opna fyrir umferð og sjá hvort meira líf komi í bæinn. Nú er ferðamenn horfnir vegna Covid. Covid var engum að kenna en að Íslendingar sem koma lengra að séu hættir að koma í bæinn er á ábyrgð meirihlutans.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að ekki verði birt hvorki í dagskrám eða fundargerðum nöfn þeirra sem senda inn athugasemdir eða kvartanir vegna skipulagsmála
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að ekki verði birt hvorki í dagskrám eða fundargerðum nöfn þeirra sem senda inn athugasemdir eða kvartanir vegna skipulagsmála. Það er víst algengt er í skipulags- og samgönguráði að nöfn þeirra sem senda inn athugasemdir eru birt í dagskrá. Að birta nöfn þeirra sem senda inn athugasemdir telur fulltrúi Flokks fólksins vera óþarfi. Ef horft er til nafnabirtinga þeirra sem senda inn kærur þá eru þau gögn iðulega merkt trúnaðargögn. Því skýtur skökku við að sjá að nöfn þeirra sem senda inn athugasemdir eru birt. Hver er munurinn á þessu tvennu þegar kemur að reglum um birtingu nafna? Hér hlýtur að þurfa að gæta jafnræðis. Tími kann að vera kominn að reglur og samþykktir sem lúta að þessu atriði verði endurskoðaðar. Vel kann að vera að þær séu orðnar barn síns tíma. Oft er um að ræða viðkvæm skipulagsmál. Skipulagsmál geta t.d. verið mjög tilfinningaleg fyrir suma.
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um heimildir til nafnbirtinga þeirra sem senda inn athugasemdir og kvartanir:
Nöfn þeirra sem sendu inn athugasemdir vegna staðsetninga smáhýsa hafa verið birt í dagskrá fyrir fundinn. Þetta er sagt vera venja í samgöngu- og skipulagsráði. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort það sé með leyfi aðila? Einnig er spurt hvort þetta rými við persónuverndarlög ? Kærur eru t.d. merktar sem trúnaðargögn. Hver er munurinn á þessu tvennu, kærur vs. athugasemdir þegar kemur að reglum um birtingu nafna í dagskrá? Hvernig er fjallað um nafnabirtingar innsendra mála í reglum og samþykktum borgarinnar?Flokkur fólksins vill árétta að mikilvægt er að hafa í huga að það er ekki víst að fólk sem sendir inn athugasemdir og umsagnir vilji að nöfn þeirra séu birt í dagskrá eða fundargerðum. Skipulagsmál eru fyrir mörgum afar tilfinningaleg mál.
Frestað.