Borgarstjórn 20. október 2020

Tillaga Flokks fólksins um að innri endurskoðun geri úttekt á sérkennslumálum

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn fari þess á leit við innri endurskoðun að hún geri úttekt á sérkennslu leik- og grunnskóla í Reykjavík.

Stór hópur reykvískra barna eru í sérkennslu, sum í fáeina tíma á viku en önnur eru í sérkennslu alla grunnskólagönguna. Óljóst er hvort nokkuð sem tengist sérkennslu í reykvískum skólum sé samræmt; greiningar á námsgetu, sérkennslan sjálf eða mat á árangri.

Fjölmörg rök hníga að gerð heildstæðrar úttektar á sérkennslu í skólum Reykjavíkur. Fullnægjandi upplýsingar um sérkennslumál skortir. Íslensk börn standa verr að vígi í lestri og lesskilningi samanborið við nágrannalönd. Samkv. PISA 2018 lesa um 34% drengja 14/15 ára sér ekki til gagns og 19% stúlkna. Samkv. Lesskimun 2019 lesa aðeins 61% barna í Reykjavík sér til gagns eftir 2. bekk. Mikilvægt er að fá úr því skorið hvort sérkennslan skili tilætluðum árangri. Í úttektinni felst að skoða hvort:

 1. Nemendur í sérkennslu séu að fá einstaklingsmiðaða sérkennslu byggða á faglegu mati sérfræðinga skólaþjónustu og í samræmi við skilgreindar þarfir þeirra
 2. Greiningar sem liggja til grundvallar sérkennslu séu unnar af fagaðilum skólaþjónustu og séu samræmdar milli skóla
 3. Til staðar sé samræmt eftirlit með sérkennslunni og eftirfylgni
 4. Að fjármagninu sé varið í þeim tilgangi sem því er ætlað.

 

Greinargerð

Um 5 ma.kr. er veitt árlega í sérkennslu en engar samræmdar, heildstæðar árangursmælingar eru gerðar. Því er ekki þekkt hvort sérkennslan er að nýtast nemendum eins og lagt er upp með hana. Ástæðan fyrir beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins um að innri endurskoðun taki út þennan málaflokk er að óljóst er hvort og þá hvernig sérkennsla nýtist börnunum.
Frekari rök fyrir tillögunni:

 1. a)           Engin  heildstæð stefna er til í  sérkennslumálum
 2. b)           Árangur sérkennslu er ekki mældur á einstaklingsgrunni eða milli skóla.
 3. c)           Fjármagn sérkennslu til skóla er ekki byggt á mælingum (fjölda, þörf o.s.frv.).
 4. d)           Sérkennslan er ekki  skilgreind að fullu þannig að skýr greinarmunur sé á stuðningskennslu annars vegar og hins vegar sérkennslu sem kemur alfarið í staðinn fyrir bekkjarnámsefni jafningja (hversu margir nemendur eru í hvorum hópi, hvað er á bak við hvern hóp t.d. greiningar, skimanir o.s.frv.)

Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið með fjölmargar fyrirspurnir um þennan málaflokk sem skóla- og frístundaráð/svið hafa reynt að svara. Eftirfarandi hefur m.a. komið fram í svörum skóla- og frístundasviðs við fyrirspurnum Flokks fólksins um greiningar og sérkennsluþörf:

 1. Að engin rannsókn eða heildarúttekt hafi verið gerð á framkvæmd sérkennslu í skólum borgarinnar og því sé ekki hægt að vita hvort sérkennslan sé að nýtast börnunum
 2. Kostnaður vegna sérkennslu beggja skólastiga er um 5 ma.kr. á ári
 3. Um 30% nemenda grunnskólans eru að jafnaði í sérkennslu.
 4. Ekki er sótt um sérkennslu fyrir börn nema sterkar líkur séu á að þau þarfnist sértækrar aðstoðar, oftast að undangengnum skimunum og mati með viðeigandi matstækjum
 5. Skimun, samræmd próf og námsmat er lagt til grundvallar við skipulag almennrar sérkennslu í skólum.
 6. Í þeim skólum sem hafa menntaða sérkennara eru námslegar greiningar á einstökum nemendum gerðar.
 7. Ekki er vitað hvernig málum er háttað í skólum sem hafa ekki menntaða sérkennara.Af þessu að dæma liggur fyrir að margt er í lausu lofti þegar kemur að sérkennslumálum í leik- og grunnskólum Reykjavíkur. Skortur á heildrænni stefnu, yfirsýn og skýrum mælanlegum markmiðum koma fyrst og fremst niður á börnunum sem þarfnast þessarar þjónustu.

Hagstofa Íslands mælir að einhverju leyti árangur af sérkennslu og byggir á gögnum sem kallað er eftir frá skólum. Ekki er vitað hversu nákvæmlega upplýsingarnar eru greindar eða hversu nákvæmar þær eru. Gera má þó ráð fyrir að upplýsingar séu til um fjölda barna sem eru í sérkennsluveri og/eða inni í bekkjum. Stór munur getur verið á því hvort nemandi er að koma í sérkennslu:

 1. Einu sinni í viku í eina klukkustund
 2. Einu sinni í viku í t.d. fjórar klukkustundir
 3. Eru í sérkennslu 10 tíma á viku kannski allt skólaárið og jafnvel með aðstoð inn í bekk að auki
 4. Nemendur sem eru í sérkennslu 2-4 kennslustundir í viku í afmarkaðan tíma, kannski í tvo mánuði eða skemur.

Sé ekki gerður greinarmunur á þessu má ætla að hlutfall grunnskólanema sem eru skráðir í „sérkennslu“ sé hærra en raun ber vitni.

Hópur þeirra barna sem þarfnast aðstoðar með nám eða sérkennslu er fjölbreyttur. Sumum nemendum nægir að vinna í smærri hóp með leiðsögn þar sem þau fylgja engu að síður bekkjarnámsefninu. Aðrir nemendur hafa verið greindir með sértæka námserfiðleika eða annan námslegan vanda sem kallar á sérefni og einstaklingsmiðaða námsáætlun.

Ekki liggur fyrir nein kortlagning á aðstæðum tengdum sérkennslu í reykvískum leik- og grunnskólum.
Margir nemendur sem eru í sérkennslu eru þess utan með stuðningsfulltrúa inn í bekk. Það getur verið erfitt fyrir sérkennara að vera með nemendahóp á breiðu getustigi. Við slíkar aðstæður má einnig velta vöngum yfir hvort börnin séu að fá námslegum þörfum sínum fullnægt á sínum forsendum. Stundum er staðan þannig í skólum að erfitt er að skipta upp hópum vegna plássleysis.

Allt ofangreint hlýtur að koma til skoðunar þegar rætt er um árangur sérkennslu. Til að mæla árangur þurfa að liggja fyrir samræmdar grunnmælingar á námslegri getu og hver sé hinn námslegi vandi sem rökstyður þörf á sérkennslu. Til að kortleggja hvar námserfiðleikarnir liggja nægir ekki að gera eingöngu skimanir. Leggja þarf fyrir viðurkennd sálfræðileg próf sem mæla vitsmunaþroska barns og viðurkennda kvarða og prófanir sem greina lesvanda/les- og talnablindu. Einnig þarf að leggja fyrir kvarða og prófanir sem meta þætti eins og ADHD og aðrar raskanir sem hafa áhrif á einbeitingu og nám. Upplýsingar af þessu tagi þurfa að liggja fyrir áður en sérkennsla hefst enda byggir sérkennslan (efni og aðferðir) á upplýsingum um námsstöðu barnsins og þörfum þess til að geta stundað nám á eigin forsendum. Sérkennsla sem ekki byggir á sterkum upplýsingagrunni um námsstöðu barns skilar varla miklum árangri.

Að ákveðnum tíma liðnum í sérkennslu þarf að endurtaka mælingar til að skoða hvort sérkennslan sé að skila þeim árangri sem lagt var upp með. Endurmat á sérkennsluþörf og á innihaldi sérkennslunnar er síðan byggt á niðurstöðum sem reglubundnar mælingar sýna.

Til að hægt sé að gera samanburð milli skóla þarf sérkennsla og allt sem henni tengist að vera samræmt milli skóla. Hér er annars vegar verið að ræða um einstaklingsmælingar en ekki síður er mikilvægt að bera saman skóla í þessu sambandi. Til að það sé hægt þarf sérkennsluferlið allt að vera samræmt.

Eins og staðan er nú þá er hver skóli með sínar aðferðir hvað varðar sérkennslu. Á meðan hver skóli hefur sinn háttinn á má gera því skóna að börnin sitja ekki við sama borð heldur fer þjónustan og jafnvel aðferðarfræðin eftir því í hvaða hverfi þau búa og í hvaða skóla þau ganga.

Fjöltyngd börn/börn með erlendan bakgrunn 

Í upplýsingum frá skóla- og frístundasviði kom farm að í kringum 17% barna í grunnskólum í Reykjavík eru fjöltyngd/með erlendan bakgrunn, þá er miðað við að annað eða báðir foreldrar séu af erlendum uppruna. Stór hluti þessara barna fær stuðning í íslensku sem öðru máli. Það tengist ekki sérkennslu.

Stuðningur til barna með sérþarfir er bæði sérstakur stuðningur á grunni greininga vegna fötlunar og alvarlegra raskana og svo er almennur stuðningur. Um það bil 5% barna fá sértæka stuðninginn en ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um hversu hátt hlutfall þeirra er af erlendum uppruna.

Hvað leikskóla Reykjavíkur varðar eru um 26% barna fjöltyngd/með erlendan bakgrunn, þá er miðað við að annað eða báðir foreldrar séu af erlendum uppruna. Fjöldinn allur af börnum fær kennslu í íslensku í leikskólum borgarinnar og er það ekki flokkað sem sérkennsla.

Við fyrirspurn Flokks fólksins um hlutfall tvítyngdra barna/barna af erlendum uppruna í sérkennslu var sagt að þær upplýsingar lægju ekki fyrir.

Afgreiðsla

Lögð var fram málsmeðferðartillaga af hálfu meirihlutans að vísa tillögunni í vinnuhóp sem skoðar þessi mál.
Samþykkt

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslunni:

Fulltrúi Flokks fólksins telur það farsælast að innri endurskoðun fái það verkefni að gera úttekt á sérkennslumálum í Reykjavík eins og lagt er til. Fjöldi raka hníga að úttekt af þessu tagi. Hér er um viðkvæman hóp að ræða og staða barna í lestri og lesskilningi fer versnandi eins og sjá má af niðustöðum PISA könnunar og Lesskimun síðustu ára.
Málsmeðferðartillaga meirihlutans er að vísa tillögunni inn í  vinnuhóp sem  er að rýna þessi mál. Borgarfulltrúi telur málið brýnt og að ekki dugi að skoða það einungis af vinnuhópi. Hlutfall barna sem er í sérkennslu hefur  haldið áfram að hækka, var 26 prósent árið 2011 og er um 30% 2020. Síðust 20 árin eða svo hefur skóla- og frístundasvið misst  yfirsýn og utanumhald sérkennslumála í Reykjavík.

Tímabært er að fá heildstæða úttekt/rannsókn á málaflokknum af óháðum aðila svo byggja megi á henni tillögur að heildstæðir stefnu um sérkennslumál borgarinnar.  Borgarfulltrúi Flokks fólksins vonar að Innri endurskoðandi taki ákvörðun um að gera úttekt/rannsókn á sérkennslumálum enda þótt meirihluti skóla- og frístundaráðs telji það ekki vera verkefni á hans borð. Innri endurskoðun hefur faglegt sjálfstæði í störfum gagnvart allri stjórnsýslu borgarinnar eins og segir í starfsreglum Innri endurskoðunar.

Fram fara óundirbúnar fyrirspurnir.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins beinir fyrirspurn til borgarstjóra um velferðarmál.

Óundirbúnar fyrirspurnir Flokks fólksins eru eftirfarandi:

Ætlar borgarstjóri og velferðaryfirvöld að halda áfram að treysta á að hjálparsamtök hlaupi í skarðið til að aðstoða fólk í neyð?

Veit borgarstjóri hvernig fólki sem stendur í biðröð eftir mat líður?

Er ekki kominn tími til að setja fátækt fólk í forgang og sjá til þess að það geti lifað sómasamlegu lífi í Reykjavík?

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu ferðamálastefnu Reykjavíkur 2020-2025

Hvort tímabært sé að leggja þessa stefnu fram núna er spurning.   Þegar ferðamenn fara að streyma inn í landið gæti margt verið breytt og endurskoða þarf þá marga þætti og setja ný markmið. Flokkur fólksins   telur að Reykjavík verði aftur vinsæl ferðamannaborg þegar bólusett verður fyrir COVID. Þegar  ferðamannabylgjan skall á fyrir um 8 árum tókst að hýsa alla ferðamenn   ekki síst vegna þess að almennir borgarar opnuðu hús sín og leigðu þau út. Fulltrúi Flokks fólksins telur að borgaryfirvöld eigi að stuðla að því að það kerfi gangi áfram, í það minnsta að ekki verði lagðar neinar hindranir á skammtímaútleigu   íbúða í eigu almennings. Stefnumótun í ferðamálum sem öðru   hlýtur að þurfa að fela í sér skilgreiningu á aðgerðum og mælikvörðum til framtíðar í hinum nýja veruleika sem við blasir. Núna sem dæmi er erfitt að átta sig á hvað muni styrkja stöðu Reykjavíkur sem ráðstefnu- og viðburðaborgar og auka aðdráttarafl borgarinnar fyrir ráðstefnu-, hvata- og viðburðagesti. Vegna COVID-19 er ólíklegt að mikið verði um ráðstefnur í Reykjavík næstu mánuði. Allt byggist þetta á að bóluefni við veirunni finnist. Samningur við Íslandsstofu verður   til bóta. Hvernig borgin muni byggja upp atvinnulíf   tengt ferðaþjónustu er spurning sem bíður svars.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að gerð verði úttekt á kynbundnum mun á námsárangri í grunn- og leikskólum borgarinnar:

Breytingar á skólastarfi eiga að hagnast öllum nemendum. Börn hagnast mest ef öllum líður vel í skólanum. Kynjamunur á námsárangri í Reykjavík er mestur í lestri og kemur fram í lesskimunum í 2. bekk grunnskóla og er viðvarandi til loka grunnskólans. Árið 2018 lásu 34% drengja 14-15 ára sér ekki til gagns og 19% stúlkna. Slæm staða drengja í lestri á sér rót sem skólayfirvöldum í Reykjavík hefur ekki tekist að greina. Mörg börn eru með lesblindu. Til eru tugir afbrigða. Skoða þarf hvernig sérkennslan er að skila sér til nemenda því allt hangir þetta saman. Börn með lesblindu lesa ekki hratt. Mikil áhersla er á hraðlestrarpróf um þessar mundir og þau geta auðveldlega brotið börn niður sem eru með lesblindu eða eru hæglæs. Það sem mæla þarf er hvort barn hafi náð að brjóta lestrarkóðann og hvar þau eru stödd í lesskilningi í lok 2. bekkjar. Sérstök styrking á lestrarhæfni drengja sem verst eru staddir gæti dregið úr þessum kynjamun en aðrir áhrifavaldar eru margir. Kennsluhættir geta skipt máli til að bæta stöðu drengja, en um leið stöðu stúlkna. Staða drengja er ekki verri en stúlkna í öllum þáttum. Stúlkur á unglingastigi sem dæmi sýna meiri kvíðaeinkenni, verða fyrir meira einelti og hafa minna sjálfsálit en drengir samkvæmt rannsóknum.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans um að ganga til viðræðna við Heilbrigðisráðuneytið að opna neyslurými:

Auðvitað styður borgarfulltrúi Flokks fólksins þessa tillögu enda er þetta tillaga sem Flokkur fólksins lagði fyrir borgarstjórn 20. nóvember 2018 sem meirihlutinn felldi þá. Hún hljóðaði svo: Lagt er til að velferðarsviði verði falið að ganga til viðræðna við heilbrigðisráðuneytið um sameiginlegan rekstur á neyslurými í Reykjavík. En þá var öldin önnur hjá meirihlutanum því tillögunni var hent út eins og hverju öðru úrkasti með þeim orðum að „Það hafi verið skýr afstaða borgarinnar frá upphafi að um heilbrigðisþjónustu sé að ræða sem er á ábyrgð ríkisins en Reykjavíkurborg veitir notendum þjónustunnar félagslega þjónustu og ýmsan stuðning“. Nú er afstaða þeirra breytt eins og hendi sé veifað. Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði áherslu í tillögu sinni árið 2018 á að mjög brýnt væri að opna rými í Reykjavík til að þjónusta þennan afar viðkvæma hóp, þar sem vímuefnanotendur geta komið í hreint og öruggt athvarf, haft aðgang að heilbrigðisþjónustu og jafnframt fengið aðra aðhlynningu sem þeir þarfnast með skaðaminnkun og mannúð að leiðarljósi. Sama ár, þann 10. ágúst, lagði fulltrúi Flokks fólksins fram tillögu í velferðarráði að hugtakið utangarðsfólk verði ekki notað frekar hjá velferðarsviði og velferðarráði borgarinnar. Sú tillaga varð hins vegar að veruleika og því ber að fagna.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Öldin var ekki önnur, lögin voru önnur. Árið 2018 var ekki lagaheimild til að opna neyslurými.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Meirihlutinn/velferðaryfirvöld geta ekki breitt yfir þá afstöðu sem með svo skýrum hætti er birt í bókun þeirra 2018 þegar tillaga Flokks fólksins um neyslurými var felld með því að vísa í lög. Tillagan var um að velferðarsviði væri falið að ganga til viðræðna við heilbrigðisráðuneytið um sameiginlegan rekstur á neyslurými í Reykjavík. Afstaða þeirra var kýrskýr það að „neyslurými sé heilbrigðisþjónusta sem er á ábyrgð ríkisins“. Það hljóta allir að sjá að nú skýtur skökku við að meirihlutinn komi nú sjálfur með þessa sömu tillögu og gjörbreytta afstöðu. Hvernig á að túlka þetta? Var þessi tillaga ekki nógu góð af því að hún kom frá borgarfulltrúa Flokks fólksins? Eða er einhver hentugleikastefna í gangi núna hjá velferðaryfirvöldum, eitthvað „show off“? Fulltrúi Flokks fólks hvetur þennan meirihluta til að mæta ekki öllum málum minnihlutans með endalausri neikvæðni og hafa manndóm í sér að sjá þegar minnihlutinn leggur fram góð mál í þágu fólksins í borginni. Auðvitað fagnar borgarfulltrúi Flokks fólksins þessu frumkvæði en það hefði mátt hafa fyrr og fljótlega í kjölfar framlagningar tillögunnar 2018. Um er að ræða mjög þarft mál. Þetta er okkar viðkvæmasti hópur sem þarfnast að komast í öruggt athvarf þar sem hægt er að fá aðhlynningu.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðum 9, 8-11 og 13 í fundargerð borgarráðs frá 1. október og lið 2 í fundargerð borgarráðs frá 15. október:

Deiliskipulag Laugavegar og nágrennis;
Fulltrúi Flokks fólksins getur ekki stutt deiliskipulag Laugavegar og nágrannareita vegna þeirrar aðferðafræði sem meirihlutinn í borginni hefur notað og ekki síst vegna vanvirðingar sem hagaðilum svæðisins hefur verið sýnd í gegnum allt skipulagsferlið. Margsinnis var beðið um að ekki verði lokað alfarið fyrir umferð, a.m.k. að ákveðnir götubútar yrðu opnaðir aftur eftir sumarlokun eins og lofað var. Eins og göngugötur geta verið skemmtilegar, ríki um þær sátt, þá umlykur þessar skuggi vonbrigða og reiði. Það sem eftir situr er galtómur miðbær með tugi lausra rýma sem ekki er hægt að kenna COVID alfarið um.

Viðauki við fjárhagsáætlun 2020;

Lagt til að fjárheimildir velferðarsviðs hækki um 20.300 þ.kr. vegna tilraunaverkefnis um frístundir í Breiðholti. Verkefnið ætti auðvitað að ná til allra hverfa og vera varanlegt ef ekki á að mismuna börnum. Það eru fátæk börn í öllum hverfum. Skilyrði fyrir að námskeið þurfi að vara í 10 vikur til að nota frístundakort er ósanngjarnt.

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030;
Leggja á hraðbraut þvert yfir Vatnsendahvarf sem eyðileggja mun eitt helsta náttúrulífs- og útsýnissvæði Reykjavíkur. Hægt er að þyrma hæðinni með því að tengja Arnarnesveginn inn á Tónahvarf og gera hringtorg við Breiðholtsbrautina/Vatnsendahvarf-götuna en á það er ekki hlustað.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 8. október og 11. lið fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 13. október:

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð;
Flokkur fólksins lagði til að Reykjavíkurborg ráðist í átak gegn hættulegu húsnæði í borginni með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Í svörum hefur komið fram að lagaheimildir skorti sem er alvarlegt. Að borginni snýr ákveðinn veruleiki, vitneskja og meðvitund um að því erfiðari sem húsnæðismarkaðurinn er fátæku fólki aukast líkur þess að fólk finni sér skjól í ósamþykktu, hættulegu húsnæði.

Skóla- og frístundaráð
;
Stofnun framtíðarhóps í menntamálum sem fjalla á um m.a. álitamál og umbótaverkefni í skóla- og frístundastarfi er án efa hið mesta þarfaþing gefið að eitthvað komið út úr slíkri hópvinnu annað en orð á blaði. Stutt er í næstu PISA könnun. Bregðast verður við versnandi árangri barna í lestri. Aðeins tæp 61% lesa sér til gagns 2019 en 65% 2018 samkvæmt lesskimunarprófi sem notað hefur verið í áratug. Hringlandaháttur er með lestraraðferðir. Önnur, hljóðaaðferðin, er gagnreynd en árangur hinnar, byrjendalæsis, er dreginn í efa af ýmsum fræðingum. Í sérkennslumálin vantar heildstæða stefnu og hefur Flokkur fólksins lagt til að innri endurskoðun geri úttekt á sérkennslumálum. Á vakt þessa og síðasta meirihluta hefur ekki tekist að greina rót vandans.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs og 26. lið fundargerðar umhverfis- og heilbrigðisráðs:

Skóla- og frístundaráð;
Með ákvörðun um breytingu á viðmiðunarstundaskrá er verið að bregðast við versnandi árangri barna í lestri í grunnskólum Reykjavíkur. Lesskimun 2019 sýnir að aðeins 61% nemenda lesa sér til gagns en 2018 gátu 65% lesið sér til gagns. Hringlandaháttur er með lestraraðferðir. Önnur, hljóðaaðferðin, er gagnreynd en árangur hinnar, byrjendalæsis, er dreginn í efa af ýmsum fræðingum. Skóla- og frístundaráði/-sviði hefur ekki tekist að ná markmiðum sínum í lestrarkennslu.

Umhverfis- og heilbrigðisráð;
Í umsögn er vísað í útboð sem átti að fara fram í september 2020 og ljúka fyrir varp fugla næsta vor. Samkvæmt útboði á verktaki að gera tjarnir og loka skurðum, en ekki er sagt hvernig móta á landið. Það er ekki sama hvernig tjarnir eru gerðar, t.d. skiptir máli hvort hólmi er í tjörninni og hvort hún sé nógu stór til að veita fuglum vernd. Þá er erfitt að tegundagreina votlendisplöntur um hávetur og þar af leiðandi er ekki hægt að taka tillit til mikilvægra tegunda. Skynsamlegra væri að fresta verkinu og að unnin verði í vetur áætlun um endanlegt útlit og þá metið að hvaða gagni framkvæmdin verði með tilliti til verndar lífríkis. Verkið mætti síðan vinna með sóma veturinn 2021-2022.