Borgarstjórn 6. febrúar 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um Kvosina og Austurstræti sem heildstætt göngusvæði. USK23020228

Búið er að gera kannanir á ferðavenjum fólks í mörg ár, m.a. heimsóknum í miðbæinn. Stærstur hluti fólks í miðbænum eru ferðamenn. Íslendingar sem búa fjarri eru fæstir og er það vegna þess að þeim finnst aðgengi að bænum erfitt og finnst einnig erfitt að fá bílastæði í miðbænum. Raunveruleikinn er sá að við eigum ekki nógu tryggar og traustar almenningssamgöngur sem koma fólki hratt og vel milli borgarhluta. Þess vegna er einkabíllinn þarfasti þjónn mjög margra og nú ber svo við að hann er ekki velkominn í bæinn og ekki nálægt göngugötum sem sífellt fjölgar. Miðbærinn er að verða eitt göngugötuvirki. Flokkur fólksins vill gjarnan sjá einhverjar göngugötur en fólk sem kemur á bíl þarf að geta ekið inn í miðbæinn, lagt bílnum sínum nálægt verslun og þjónustu. Flokkur fólksins vill sjá fleiri bílastæði í bænum og að fólk sem þar býr geti ekið vörum upp að húsum sínum og að sjálfsögðu lagt í stæðin sín á eigin lóð. Gengið hefur verið of langt í að strípa miðbæinn af bílum og gera þeim sem eiga bíl erfitt fyrir. Finna þarf eðlilegt jafnvægi og gefa öllum samgöngukostum tækifæri sérstaklega þegar almenningssamgöngur eru ekki betri en raun ber vitni í Reykjavík.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarstjórn samþykkir að falla frá öllum fyrirætlunum um að færa Reykjavíkurflugvöll í Hvassahraun og falla samhliða frá frekari fjárframlögum borgarinnar til rannsókna á Hvassahrauni sem mögulegu flugvallarstæði:

Líkur hafa aukist á að flugvöllur í Hvassahrauni verði fyrir tjóni eða truflunum vegna eldsumbrota í nánustu framtíð. Samkvæmt þessu lítur út fyrir að flugvöllur í Hvassahrauni sé úr myndinni sem framtíðar innanlandsflugvöllur. Meðan nýr flugvöllur í stað núverandi flugvallar í Reykjavík hefur ekki verið tekinn í notkun eru allir aðilar sammála um að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni sé miðstöð innanlandsflugs, varaflugvöllur fyrir millilandaflug og kjarninn í sjúkraflugi frá landsbyggðinni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Í ljósi þess hve bókasöfn eru samfélagslega mikilvæg er lagt til að hætt verði við fyrirhugaða sumarlokun borgarbókasafna Reykjavíkur:

Í ljósi þess hve bókasöfn er samfélagslega mikilvæg er lagt til að hætt verði við fyrirhugaða sumarlokun borgarbókasafna Reykjavíkur. Gert er ráð fyrir því að bókasöfnin verði lokuð til skiptis í þrjár vikur í sumar og er það sett fram í kjölfar hagræðingarkröfu. Áætlað er að sparnaður í krónum talið vegna sumarlokunar bókasafnanna verði 21 milljón. Að skerða opnunartíma bókasafna er eins og að hella  olíu á eld í baráttunni við að viðhalda íslenskri tungu. Lestur er gríðarlega mikilvægur til að auka og efla málskilning barna. Á sumrin eru skólabókasöfnin lokuð og þá verða börnin að sækja bækur í borgarbókasöfnin. Börn sem ekki lesa sér til yndisauka á sumrin detta oft mikið niður í lestrarfærni og þess vegna eru kennarar sífellt að minna á sumarlestur. Það að loka bókasöfnunum rýrir möguleika barna á að nálgast bækur og sérstaklega á þetta við um börn frá efnaminni heimilum þar sem foreldrar hafa ekki hafa ráð á að kaupa bækur fyrir börn sín. Þetta er alvarlegt í ljósi neikvæðrar niðurstöðu í PISA. Lestrarfærni og málskilningur barna byggist á því að börn lesi allt árið um kring. Bókasöfnin okkar eru mikilvæg fyrir menningu okkar og tungu og við eigum að standa vörð um þau. Flokkur fólksins styður þessa tillögu heilshugar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um smáhýsin í Reykjavík. MSS24020020

Í Reykjavík eru 20 smáhýsi sem sett hafa verið upp á sex stöðum auk þriggja smáhýsa úti á Granda. Áætlað er að heildarkostnaður við hvert smáhýsi sé um 33 m.kr. Lóðaverð er núll. Ef allt er tekið saman er því kostnaður við eitt smáhýsi mun hærri. Á biðlista eftir smáhýsi eru um 100 manns. Stærsti hluti þeirra er fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Ljóst er að heimilislausum er ekki að fækka í Reykjavík nema síður sé. Erfitt reyndist að finna smáhýsunum stað í borgarlandinu því ekki voru allir á eitt sáttir um staðsetningu þeirra í sínu hverfi. Við val á staðsetningu var mikilvægt að horfa til aðgengis að allri nærþjónustu. Samkvæmt nýjustu upplýsingum þá gengur vel með úrræðið. Erfitt er að segja til um tíðni lögregluheimsókna þar sem VOR teymið starfar einungis hluta dagsins. VOR teymið hefur staðið sig afburða vel í að bregðast hratt og vel við  athugasemdum um umgengni eða aðrar ábendingar. Flokki fólksins er umhugað um málefni heimilislausra og er það helsta baráttumál flokksins að berjast gegn fátækt, ójöfnuði og óréttlæti í víðum skilningi. Flokkur fólksins telur þörf á að skoða aðra útfærslu á húsnæði sem myndi gagnast fleirum því margir eru á bið eftir húsnæði.

Greinargerð borgarfulltrúa Flokks fólksins með umræðunni: 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir umræðu í borgarstjórn um smáhýsin í Reykjavík. Smáhýsi eru búsetuúrræði á vegum velferðarsviðs Reykjavíkur og eru hugsuð fyrir fólk sem hefur verið heimilislaust og þarf mikla þjónustu. Úrræðið er hluti af Velferðarstefnu Reykjavíkurborgar sem  samþykkt var í borgarstjórn 15. júní 2021.
Óskað er eftir að umræðan snúist m.a. um hvernig hafi almennt gengið með úrræðið, hvað hefur gengið vel,  hverjir eru helstu hnökrarnir og hvernig hafa samskipti gengið milli íbúa smáhýsanna og nágranna þeirra.
Einnig er óskað að fram komi í umræðunni hvort velferðaryfirvöld í Reykjavík ætli að fjölga ennfrekar smáhýsum af þessu tagi í borgarlandinu eða hvort eigi að horfa til annars konar búsetuúrræða fyrir fólk sem nú á hvergi heima.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um álit innviðaráðuneytisins varðandi rétt borgarfulltrúa að setja málefni Ljósleiðarans ehf. á dagskrá borgarstjórnar. MSS23010066

Flokkur fólksins fagnar niðurstöðu ráðuneytisins og liggja nú fyrir skýrari línur um rétt borgarfulltrúa til að fá mál sett á dagskrá. Sá réttur er óumdeildur svo fremi sem óskin komi innan ákveðins tímaramma. Á því má þó vissulega gera undantekningar. Nokkur dæmi eru um að fulltrúa Flokks fólksins hafi gengið illa að fá mál sett á dagskrá og þá hefur ýmsu verið borið við. Málefni sem sveitarstjórnarfulltrúi óskar eftir að taka á dagskrá þarf heldur ekki að hafa hlotið fullnaðarafgreiðslu annarra nefnda, ráða eða starfsmanna sem hafa fengið slíkt vald framselt, til þess að sveitarstjórn geti tekið afstöðu til þess hvort málið skuli tekið fyrir á dagskrá sveitarstjórnarfundar. Í þessu tiltekna máli telur ráðuneytið ljóst að afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni málshefjanda um að setja þetta tiltekna mál á dagskrá borgarstjórnarfundar hafi ekki verið í samræmi við 1. mgr. 27. gr. sveitarstjórnarlaga. Fyrir minnihlutann í Reykjavík er afar gott að fá þessa niðurstöðu og væntir Flokkur fólksins þess að betur verði tekið en áður á beiðni hans um að fá mál sett á dagskrá.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 25. janúar og 1. febrúar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. febrúar:

Liður 1 í fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 31. janúar: Göngustígur hefði átt að vera vestan megin og hjólaleiðin austan megin. Gangandi eru settir skuggamegin og sitji þeir á bekk á áningastöðum brúarinnar að degi til þegar sól er hæst á lofti er sólin í bakið. Hér er verið að hygla hjólreiðamönnum. Upplifun gangandi vegfarenda af sjávarsýn tapast þegar horft er yfir brú, handrið og strætisvagn. Ekki stendur steinn við steini að þessi tilhögun sé til að minnka þveranir því þær eru jafn margar hvorn veginn sem er.

Liður 4. í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 31. janúar: Ábending hefur borist frá borgarbúa. Um er að ræða umsókn um leyfi fyrir svalaskýli við vesturgafl á svölum á Rafstöðvarvegi 31. Leyfið var veitt en þegar fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 11. janúar er birt sést hvorki tangur né tetur af málinu í henni, eins og það hafi aldrei verið lagt fyrir fundinn. Umsækjendur höfðu meira að segja fengið tölvupóst eftir fundinn frá starfsmanni þar sem staðfest var samþykki, þ.e. að leyfið hafi verið veitt. Nú er málið afgreitt neikvætt því það samræmist ekki hverfisskipulagi. Fulltrúi Flokks fólksins telur sig knúinn til að draga þessa óeðlilegu afgreiðslu fram í bókun. Einnig hefur verið lögð fram formleg fyrirspurn.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 2. febrúar, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 25. janúar, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 26. janúar, skóla- og frístundaráðs frá 22. janúar, stafræns ráðs frá 24. janúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 24. janúar og velferðarráðs frá 26. janúar. MSS24010034. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 22. janúar:

Liður 4: Í bókun fulltrúa leikskólastjóra koma fram alvarlegar ábendingar um stöðuna í leikskólamálum borgarinnar. Nánast allir borgarreknir leikskólar voru í halla, frá janúar-september 2023 og er hallareksturinn 1.959 m.kr. Gríðarlegt álag hefur verið á starfsfólki leikskóla vegna undirmönnunar, heilsuspillandi starfsumhverfis og óvissu um húsnæðismál. Vegna alls þessa hafa margir starfsmenn farið í langtímaveikindi og fóru langtímaveikindi 174 m.kr. fram úr fjárheimildum. Á sama fundi undir 5. lið kemur fram að samkvæmt fjárhagsáætlun 2024 eigi leikskólaplássum að fjölga um 751 en á móti er gert ráð fyrir fjölgun stöðugilda um 4 starfsmenn. Fulltrúi Flokks fólksins er gáttaður á að aðeins eigi að fjölga um fjóra starfsmenn fyrir 751 nýtt leikskólapláss. Hvernig á þetta að koma heim og saman? Minnt er á að auk þessa hefur ekki tekist að ráða í 61 stöðugildi. Einnig er talið að það þurfi að ráða í 22,5 önnur stöðugildi í stað núverandi starfsfólks sem mun fara í leyfi eða hætta störfum á komandi vikum. Öllum ætti að vera ljóst að  staðan er grafalvarleg og undirmönnun og mannekla mun verða meiri en nokkru sinni ef ekki á að fjölga starfsfólki meira en ráð er fyrir gert.