Umhverfi- og skipulagsráð 20. mars 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Bréf skipulagsstofnunar, Fossvogsbrú- breyting á deiliskipulagi.

Meginbreyting deiliskipulagsins felst í að landfylling er aukin. Það virðist vera regla að ef einhverju á að breyta eða koma einhverju fyrir er gerð landfylling. Lítill biti í einu og allar náttúrulegar fjörur eyðilagðar. En hérna væri hægt að bæta úr stórum galla á hönnun brúarinnar en það er að hafa göngustíginn vestan megin og hjólastíginn austan megin. Bent hefur verið á það en ekki er hlustað.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Kjalarnes – Tindastaðir – skipulagslýsing – kynning á athugasemdum.

Vissulega vill fulltrúi Flokks fólksins gleðjast að betur muni fara um fugla í stærra rými. Hins vegar er nokkuð sláandi hvað fjölga á fuglunum mikið, en tvöfalda á fjöldann. Flokkur fólksins getur ekki til þess hugsað ef illa fer um hænsnin, nóg er álagið samt fyrir dýrin að vera í aðstæðum sem þessum. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins sér í gögnum eru helstu athugasemdir um lyktarmengun vegna stækkunar Stjörnueggs. Í ljósi þess að óvissa er um áhrif stækkunarinnar á lyktarmengun telur Umhverfisstofnun rétt að tekið verði tillit til þess við gerð skilmála deiliskipulagsins. Gera þarf skoðun á umhverfisáhrifum. Fleiri athugasemdir hafa nú bæst við og er mótmælt að byggja eigi svo stór hús þarna. Bent er á að þarna sé hreint svæði af einbýlis- og sumarhúsum, ekki iðnaðarhverfi. Talað er um hættu á vatnsmengun mögulega. Ljóst er að stíga þarf varlega til jarðar hér og skoða alla mögulega umhverfisþætti.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga íbúaráðs Háaleitis og Bústaða sbr. 18. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 31. maí 2023

Íbúaráð Háaleitis- og Bústaðahverfis beinir þeim tilmælum til umhverfis- og skipulagsráðs að gerð verði örugg tenging fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur yfir Kringlumýrarbraut. Fulltrúa Flokks fólksins finnst svör umhverfis- og skipulagssviðs frekar rýr. Í umsögn segir að Kringlumýrarbraut sé stofnvegur og því ekki á forræði Reykjavíkurborgar og svo verði hugsanlega ráðist í þessar úrbætur með tilkomu borgarlínunnar þ.e að tryggja örugga tengingu fyrir m.a. gangandi og hjólandi. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það endurtekið efni að bíða þurfi með úrbætur þar til borgarlína er komin til framkvæmda. Það gengur ekki að bíða með allar góðar hugmyndir sem borgarbúar kalla eftir af því að borgarlínan er á bið. Ráðið samþykkir að senda áskorun til Vegagerðarinnar um að framkvæma örugga gönguþverun yfir Kringlumýrarbrautina fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur. Flokkur fólksins styður tillögu íbúaráðsins og málsmeðferð ráðsins og vonandi fær hún góðar móttökur hjá Vegagerðinni. 11. Lögð fram að nýju tillaga íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis um lækkun hámarkshraða á Suðurlandsbraut sem lögð var fram og samþykkt var á fundi íbúaráðsins, dags. 28. september 2023.

Varðandi þessar tillögur íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis er tvennt sem situr í huga Flokks fólksins og það er hvort íbúaráðið er í starfi sínu að vinna samkvæmt vilja meirihluta íbúa hverfisins? Hins vegar er áhyggjuefni ef íbúaráð eru ekkisammála eins og íbúaráð Laugardals er ósammála um þessa lækkun á hámarkshraða. Íbúaráð Háaleitis- og Bústaðahverfis vilja lækkun en íbúaráð Laugardals er á móti þessari lækkun. Mörgum sem þarna búa finnst ekki koma til greina að lækka frekar hraða á Suðurlandsbraut. Einnig að nóg sé komið að þrengingum. Það er of langt gengið að mati margra íbúa eftir því sem Flokkur fólksins kemst næst að hefta flæði innan borgarinnar og auka ferðatíma allra. Það eru ekki margar stórar akreinar sem ganga í gegnum borgina og allt í þessa veru eykur á óhagkvæmni samgangna almennings og sem framtíðarborgarlína mun varla leysa.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 35. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 13. mars 2024, um framkvæmdir 3ja áfanga við Arnarnesveg.

Tillaga Flokk fólksins um að umhverfis- og skipulagssvið beini því til Vegagerðarinnar sem standa að framkvæmd 3ja áfanga Arnarnesvegar að þeir fylgi reglum í hvívetna um vinnutíma ekki síst um helgar var samþykkt. Fagnar Flokkur fólksins þeirri niðurstöðu.