Borgarráð 31. mars 2022

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. mars 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. mars 2023 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Laugardals:

Breytingin felur í sér umtalsverðar breytingar á nærumhverfinu. Mestu áhyggjurnar eru af samnýtingu hallarinnar og óvissunni í því sambandi. Munu Ármann og Þróttur fá þarna trygga aðstöðu? Munu nemendur og félög Laugardalsins fá þarna trygga íþrótta- og æfingaaðstöðu? Ekki hefur lengi verið rætt við skólayfirvöld eða foreldra barna í Laugardal um þessi mál og þau hvorki spurð né boðið að borðinu þegar rætt er um samnýtingu. Fyrir liggur yfirlýsing frá aðalstjórn Þróttar og Glímufélagsins Ármanns þar sem fram kemur að mannvirkið eins og það er kynnt muni ekki leysa aðstöðuvanda íþróttafélaganna í dalnum. Það mun ekki anna þörf hverfisfélaganna fyrir æfingatíma fyrir börn, unglinga og meistaraflokka né æfingar félagsfólks og barna. Þessi félög sem hér eru nefnd munu mæta afgangi ef fram fer sem horfir. Tryggja þarf aðstöðu hverfafélaganna í Laugardal enda um bráðamál að ræða. Flokkur fólksins hefur lagt fram eftirfarandi fyrirspurnir: Munu nemendur og félög Laugardalsins fá trygga íþrótta- og æfingaaðstöðu í Þjóðarhöllinni? Munu Ármann og Þróttur fá trygga aðstöðu í Þjóðarhöllinni?

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 21. mars 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 20. mars 2023 á tillögu um niðurfellingu leikskólagjalda vegna barna sem eru í leyfi í dymbilviku og vetrarfríum grunnskóla:

Lagt er fyrir borgarráð að leikskólagjöld verði felld niður vegna barna sem ekki sækja leikskóla í dymbilviku (síðustu vikunni fyrir páska) og alla virka daga í öðru hvoru eða báðum vetrarleyfum grunnskóla (samkvæmt samþykktu skóladagatali vegna grunnskóla Reykjavíkurborgar). Flokki fólksins finnst þetta auðvitað sjálfsagt mál og má spyrja af hverju þetta hefur ekki verið gert fyrir lifandis löngu enda bæði sanngjarn og eðlilegt. Varla getur talist eðlilegt að rukka fólk fyrir þjónustu sem ekki er veitt. Flokkur fólksins hefur lagt fram fyrirspurn um hvort foreldrum sé ekki einnig veittur afsláttur á gjaldi vegna skerðingar þjónustu leikskóla. Í gangi eru skipulagðar skerðingar en einnig óvæntar skerðingar sem koma foreldrum mjög illa. Ítrekað þurfa foreldrar að sækja börn sín fyrr á leikskóla vegna þess að ekki tekst að manna daginn. Það er sanngirnismál að leikskólagjöldin verði lækkuð í hlutfalli við skerðingu þjónustu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 21. mars 2023, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 20. mars 2023 á tillögu að breytingu á reglum um leikskólaþjónustu:

Þetta er ekki auðskilin breyting. Hér á kennitala að ráða og kannski ef fólk er framsýnt blessast þetta, en fyrir þá sem sækja um innritun næsta haust getur þetta verið vont. Bent er á ákvæði þar sem 3 ára börn á ungbarnaleikskóla fá að vera innrituð í almennan leikskóla áður en almenn úthlutun fer fram. Einhverjir myndu kalla þetta ákveðna reddingu en svona fyrirkomulag skilar engri varanlegri lausn. Foreldrar sem eru þegar komnir með pláss í ungbarnaleikskóla eru í vandræðum því það gæti allt eins farið að börn sem ættu að vera á leið í almennan leikskóla verði föst í ungbarnaleikskólanum og því ekki pláss þar fyrir ný börn sem þá þurfa að bíða enn lengur eftir plássi. Foreldrar eru langoftast með einn leikskóla í huga fyrir barnið sitt eftir að ungbarnaleikskóla lýkur og það er sá sem er í nágrenni við heimilið. Það er ekki nóg að breyta reglum leikskólaþjónustunnar heldur þarf fyrst að leysa bæði húsnæðisvanda og manneklu sem er orsökin fyrir öllu þessu klúðri. Einhverjar reglubreytingar má svo framkvæma líka eftir atvikum. Þessi mál ættu að vera alger forgangsmál hjá meirihlutanum. Enn sést ekki til sólar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 20. mars 2023, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 15. mars 2023 á tillögu um framlengingu samnings við Hugarafl um þjónustu við einstaklinga með andleg veikindi:

 

Hér er lagt til að samningur við Hugarafl um þjónustu við einstaklinga með andleg veikindi verði framlengdur til loka árs 2024. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessum samningi. Samkvæmt úttekt gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála á árinu 2022 á starfsemi Hugarafls er mikil ánægja með starfsemina. Niðurstöður viðtala bentu til þess að starfsemi Hugarafls hafi nýst mörgum vel við að bæta lífsgæði sín og ná bata.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 16. mars 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja verkefni um sjálfvirknivæðingu upplýsingatækniinnviða:

Þjónustu- og nýsköpunarsvið óskar heimildar til að hefja verkefni um sjálfvirknivæðingu upplýsingatækniinnviða. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar innleiðingu á lausnum sem nú þegar eru til í stað þess að verið sé að eyða útsvarspeningum borgarbúa í tímafreka vinnu við að uppgötva eitthvað sem búið er að uppgötva og þegar komið í notkun annars staðar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um tungumálakunnáttu strætóbílstjóra, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. mars 2023:

Flokkur fólksins lagði til að borgarráð beindi því til Strætó að það verði gert að skilyrði að bílstjórar strætó geti bjargað sér á íslensku og skilji málið nógu vel til að leiðbeina farþegum áður en þeir hefji störf sem strætóbílstjórar. Upp hafa komið samskiptavandamál í vögnunum vegna þess að bílstjóri hvorki skilur íslensku né jafnvel ensku. Fjölmargar ábendingar hafa borist um erfiðleika sem leiða má beint og eingöngu til samskiptavanda vegna tungumálaörðugleika. Ljóst er að Strætó er ekki mikið að fylgja sinni eigin þjónustustefnu. Tillögunni er hafnað í borgarráði sem gengur þvert á stefnu borgarinnar. Reykjavíkurborg hefur þá stefnu að íslenskukennsla fyrir starfsfólk sé almennt í boði innan vinnustaða Reykjavíkurborgar. Samkvæmt lið 9.2 í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar vill borgin koma í veg fyrir hvers konar mismunun varðandi starfsaðstæður, starfsþróun og símenntun fólks af erlendum uppruna. Öll eiga að njóta jafnra tækifæra til starfsframa og starfsþróunar. Segir að starfsfólki af erlendum uppruna sé gefinn kostur á starfstengdu íslenskunámi. Í málstefnu Reykjavíkurborgar segir að starfsfólk, sem er í beinum samskiptum við borgarbúa, skuli hafa grundvallarfærni í íslensku. Flokkur fólksins telur að Reykjavíkurborg sé ekki að framfylgja sínum eigin stefnum með þessu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 15. mars 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stöðugildi leikskólakennara og menntun starfsfólks, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. mars 2022:

Flokkur fólksins spurði um hvað vantar í mörg stöðugildi leikskólakennara í dag og hvað eru margir í stöðum leikskólakennara sem ekki eru menntaðir leikskólakennarar. Ekki er gott að lesa úr svari hvað vantar í mörg stöðugildi leikskólakennara í dag. Annað sem er þó eftirtektarvert í svari er að tæp 26% starfsfólks leikskólanna eru leikskólakennarar með leyfisbréf. Aðrir 315 starfsmenn í 272 stöðugildum eru með annarskonar uppeldismenntun sem nýtist vel í starfi leikskólanna. Í heildina eru því 41% starfsmanna leikskóla með fagmenntun á sviði menntunar og uppeldis.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 13. mars 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um tíðni og kostnað við að kalla inn varamenn, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. október 2019:

Fyrirspurnin var á þá leið að óskað var eftir upplýsingum í hversu mörgum tilfellum það hefur verið gert á kjörtímabilinu og sundurliðun eftir flokkum sem og í hvaða sætum lista viðkomandi varamenn voru. Fyrirspurn er samkvæmt svari ekki nógu skýr og svarið við hinni óskýru fyrirspurn er þess utan mjög óskýrt, eitthvað sem fulltrúi Flokks fólksins skilur illa. Fulltrúi Flokks fólksins mun því reyna að leggja þessa fyrirspurn aftur fram með skýrari hætti.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir aðgengis- og samráðsnefndar frá 2. og 16. mars 2023. MSS23010026.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar frá 16. mars:

Umsögn aðgengis- og samráðsnefndar um tillögu Flokks fólksins um að hefja kynningu og innleiðingu aðgengisstefnu Reykjavíkurborgar til 2030 með markvissum hætti innan kerfis borgarinnar, s.s. í ráðum, deildum og stofnunum hennar að fullu. Segja má að þessari stefnu hafi verið stungið undir stól. Í umsögn kemur í raun fram það sem hafði áður komið í svari þ.e. að stefnan hafi ekki verið kynnt en hægt væri að skoða hana á ytri vef borgarinnar. Fulltrúi Flokks fólksins áttar sig ekki á af hverju verið sé að búa til stefnu en síðan ekki að kynna hana. Hvað er það sem hindrar? Ljóst er á bæði svörum sem hafa fengist og umsögninni að ekki er áhugi á að stefna þessi komi fyrir margra augu. Í raun segir ekki mikið í umsögninni annað en að hafa eigi samráð við aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks. En varla er það nú umdeilt. Einnig að upplýsa eigi borgarbúa um framgang aðgerðar eftir því sem við á hverju sinni. Þetta hefur áður verið sagt í svari. Það er afar óvenjulegt og ekki í neinum takt við innleiðingu á stefnum borgarinnar að setja þær aðeins á ytri vef og hvorki kynna þær né innleiða í deildir og svið borgarinnar. Ef þessi stefna er svo slæm að hún er ekki frambærileg þá væri best að viðurkenna það.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 8. og 17. mars:

Fjárhagsstaða Strætó bs. er í járnum sbr. ársreikninginn. Ekki sést til sólar í þeim efnum. Rekstrarhæfi félagsins sé einungis tryggt til skemmri tíma sbr. áritun endurskoðenda. Mikil gagnrýni hefur einnig verið á ýmsa þjónustuþætti Strætó. Ekki nóg með að þjónustan hafi skerst þá virðist sem þjónustustefnu sé ekki fylgt. Borgarfulltrúar fá mikið af kvörtunum frá strætónotendum og hefur fulltrúi Flokks fólksins lagt inn margar fyrirspurnir sem ekki hefur verið séð að hafi verið teknar fyrir. Þær lúta m.a. að samskiptum vagnstjóra við farþega m.a. vegna tungumálaerfiðleika og aksturslags. 17. mars, 1. liður: Útboð á akstri er greinilega í fullum undirbúningi en sú aðgerð er mjög umdeild. Óttast er að þjónusta versni enn meira með útvistun og má hún ekki við því. Á þessum fundi samþykkti stjórn að á næsta fundi yrðu drög að útboðsgögnum lögð fyrir fundinn til samþykktar. Fulltrúi Flokks fólksins er uggandi yfir þessu og hefði viljað sjá sveitarfélögin sem eiga byggðasamlagið standa sterkar að baki Strætó þar sem þetta eru jú einu almenningssamgöngurnar. Tímabært er að skoða að leysa upp þetta byggðasamlag og huga að öðru rekstrarfyrirkomulagi fyrir Strætó.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að stofna þverpólitískan starfshóp sem skoðar hvernig Reykjavíkurborg getur mótað stefnur sem eru raunhæfar þannig að hægt sé að fylgja þeim betur eftir:

Flokkur fólksins leggur til að borgarráð samþykki að stofna þverpólitískan starfshóp sem skoðar hvernig Reykjavíkurborg getur mótað stefnur sem eru raunhæfar þannig að hægt sé að fylgja þeim betur eftir. Vel kann að vera að hugsa þurfi stefnur til styttri tíma þar sem sviptingar í samfélaginu eru það miklar. Engin stefna, góð eða slök, getur staðið tímans tönn í árafjölda í slíku róti sem ríkir í efnahagsmálum. Ekki er hægt að kenna fjármálastjórn Reykjavíkurborgar um allt það ófremdarástand sem nú ríkir þar sem verðbólgan er að einhverju leyti innflutt. Stór ábyrgð liggur þó hjá Reykjavíkurborg þar sem ekki tókst að skapa húsnæðismarkað í samræmi við þörf eins og búið var að lofa ítrekað. MSS23030221

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að borgarráð samþykki að gera óháð, faglegt árangursmat á verkefninu Betri borg fyrir börn þar sem sérstaklega er mæld ánægja/óánægja hjá foreldrum með þjónustuna, skilvirkni og almenn upplifun af verkefninu:

Lagt er til að borgarráð samþykki að gera óháð, faglegt árangursmat á verkefninu Betri borg fyrir börn þar sem sérstaklega er mæld ánægja/óánægja hjá foreldrum með þjónustuna, skilvirkni og almenn upplifun af verkefninu. Þessi tillaga er lögð fram í ljósi þess að tvennar sögur fara af þessu verkefni eftir því við hvern er talað og aðeins hefur verið talað við þá hópa sem sýnilega eru ánægðir. Starfsfólk og „deildir“ eru sögð fagna Betri borg fyrir börn og finna mun á þjónustu. Ef vandi kemur upp í skóla mætir þangað lausnateymi sem styrkir starfsfólk og veitir því ráðgjöf. Ekkert hefur frést af hvernig foreldrar upplifa afköst og skilvirkni verkefnisins. Þarna skortir alfarið mælingar. Verkefnið er dýrt og stefnt er að því að það komi í öll hverfi. Verkefnið hófst í Breiðholti sem tilraunaverkefni. Nú er tímabært að gera árangursmælingar áður en lengra er haldið til að sjá hvað hefur virkað og hvað má betur fara. Langur biðlisti barna eftir fagþjónustu er merki þess að eitthvað er ekki að virka nógu vel í borgarkerfinu. Það breytir engu hvaða skýringar eru á fjölgun beiðna eftir aðstoð því á bak við hverja einu og einustu er barn og fjölskylda sem hrópar á aðstoð. MSS23030036

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að borgarráð samþykki að beina því til velferðarsviðs að fagfólk skólanna (sálfræðingar, talmeinafræðingar og aðrir sérmenntaðir einstaklingar sem starfa innan skólakerfisins) komi meira inn í nærumhverfi barnanna, þ.e. skólana, en nú er raunin:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð samþykki að beina því til velferðarsviðs að fagfólk skólanna (sálfræðingar, talmeinafræðingar og aðrir sérmenntaðir einstaklingar sem starfa innan skólakerfisins) komi meira inn í nærumhverfi barnanna, þ.e. skólana, en nú er raunin. Hávært kall skólasamfélagsins er um að fá sérfræðingana meira inn í skólabyggingarnar, „inn á gólf“ eins og það er kallað og er þá átt við að þeir sérfræðingarnir séu til staðar á staðnum mun oftar og meira en nú tíðkast og veiti börnunum þjónustu í þeirra nærumhverfi þegar þau þurfa hana. Það er mat fleiri en fulltrúa Flokks fólksins að kerfið sem nú er í gangi sé of flókið, seinvirkt og óskilvirkt. Áhyggjur eru af því að börnin séu ekki að fá beina þjónustu, séu ekki að fá hlustun á mál sín. Eitt helsta markmiðið með Betri borg fyrir börn var að færa sálfræðinga í nærumhverfi barna og var talið að það þýddi að starfsstöð þeirra yrði þá í skólanum. Það hefur ekki gerst. Tryggja þarf að barn í vanda hitti sálfræðing skólans í eigin persónu og geti myndað við hann trúnaðarsamband í samvinnu og samráði við foreldra. Samtal við barnið er lykilatriði. Þjónusta við börn hefur vissulega verið í þróun í Reykjavík síðustu misseri. Biðlisti barna eftir sálfræðiþjónustu skólasálfræðinga hefur þó aldrei verið eins langur og nú. Á þriðja þúsund börn bíða ýmist eftir fyrstu eða frekari þjónustu, þá helst sálfræðinga og talmeinafræðinga. Þessi sami listi taldi 400 börn árið 2018. MSS23030222

Greinargerð

Með tilkomu verkefnisins Betri borg fyrir börn stóð til að færa fagfólk skólanna meira í nærumhverfi barnanna þ.e. í skólana. Það hefur ekki orðið raunin. Sálfræðingar skólanna eru með starfsstöð á miðstöðvum en með ákveðna viðveru í skólunum. Það sem þó hefur færst meira út  skólana er stuðningur við kennara og starfsfólk með tilkomu svokallaðra lausnateyma. Því ber sannarlega að fagna. Það er brýnt er að barnið sjálft fái tækifæri til að ræða við fagaðila eins og aldur og þroski þess leyfir, með eða án foreldra eftir atvikum. Í samtali barns og sálfræðings hlustar sálfræðingurinn ekki einvörðungu á orð barnsins heldur er með einbeitingu á fjölmörgum öðrum atriðum í fari og háttum barnsins. Fagaðili horfir á líkamsmál og hlustar eftir raddblæ og augna- og svipbrigðum til að lesa og meta líðan, kvíða og áhyggjustig barnsins. Eitthvað sem barn segir getur vakið sálfræðinginn til meðvitundar um að það þurfi að skoða málið nánar. Það getur leitt til þess að barn opni sig enn frekar um hluti sem ella hefðu ekki komið upp á yfirborðið. Það getur skipt sköpum að sjónarhorn og vinkill barnsins af eigin máli komi fram milliliðalaust ef ske kynni að upplifun þess er önnur en foreldranna eða kennara. Mál barns er líklegra til að fá úrlausn sé því gefið tækifæri til að tjá sig sjálft frá innstu hjartarótum við fagaðila frekar en að einungis sé rætt við aðstandendur eða kennara. Mikilvægt er að gera hvort tveggja. Fulltrúi Flokks fólksins óttast að bilið milli nemenda og sálfræðinga sé að breikka enn frekar í skólaþjónustu Reykjavíkurborgar. Eins nauðsynlegt og það er að veita skólum og foreldrum ríkan og tryggan stuðning í málefnum barna má aldrei gleyma börnunum sjálfum.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um ferðir borgarstjóra og hans fólks:

Flokkur fólksins óskar upplýsinga um heildarkostnað við ferðir borgarstjóra erlendis og hans föruneytis frá því að COVID létti. Óskað er sundurliðunar eftir fargjöldum og dagpeningum. MSS23030223

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um kostnað við kynjaða fjárhagsáætlun:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um kostnað við kynjaða fjárhags- og starfsáætlunargerð frá upphafi. Kynjuð fjárhags- og starfsáætlun er tæki sem notað er til þess að stuðla að jafnrétti og betri og réttlátari nýtingu fjármuna með tilliti til ólíkra þarfa borgarbúa. Árið 2011 var tekin sú ákvörðun að hefja formlega innleiðingu á kynjaðri fjárhags- og starfsáætlun hjá Reykjavíkurborg. Markmiðið með innleiðingunni er að samþætta mannréttindastefnu og fjármálastefnu borgarinnar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst afar mikilvægt að gæta að jafnrétti í hvívetna og fylgjast þarf grannt með að það sé gert. Mikilvægt er einnig að gæta að því að flækja ekki aðferðafræðina umfram það sem nauðsynlegt er. Kynjuð fjárhags- og starfsáætlun er eitthvað sem ekki allir vita hvað er. Flokkur fólksins óskar eftir að sjá hver afraksturinn er af þessari vinnu og hvort eitthvað hafi breyst og hvernig, hver er ávinningurinn og hver er kostnaður af þessu verkefni frá því það hófst 2011? MSS23030224

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um biðlista í íslenskuver:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort það sé biðlisti í íslenskuver borgarinnar. Ef svo er, hvað bíða margir nemendur eftir þjónustu íslenskuveranna sem eru fjögur? MSS23030225

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn vegna fjárhagsvanda Strætó og úrræði í því sambandi:

Flokkur fólksins óskar upplýsinga um það hvernig á að bjarga Strætó frá gjaldþroti. Hverjar verða björgunaraðgerðirnar til skemmri tíma en einnig til lengri tíma? Nú liggur fyrir að Strætó bs. er í alvarlegum fjárhagskröggum. Tapið nam á síðasta ári um 834 milljónum króna og gerir áætlun ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu af rekstri, 242 milljónir króna. Tap af rekstri Strætó var því um 592 milljónir umfram áætlun ársins. Ljóst má þykja að Strætó stefnir í gjaldþrot nema eitthvað verulega stórt og bitastætt komi til til bjargar. MSS23030117