Auka borgarstjórnarfundur 5. júní 2025. CEB erlent lán

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að samþykkt verði fyrirliggjandi drög að lánasamningi að fjárhæð 100 milljónir evra milli Reykjavíkurborgar, kt. 530269-7609 og Þróunarbanka Evrópuráðsins eða Council of Europe Developement Bank (CEB) til að fjármagna viðhaldsátak í skólahúsnæði borgarinnar. Borgarstjóra verði veitt heimild til að undirritunar og frágangs gagna.

Taka á erlent lán að fjárhæð 100 milljónir evra hjá Þróunarbanka Evrópuráðsins til fjármögnunar á viðhaldsátaki í húsnæði grunnskóla og leikskóla. Vegna slakrar fjármálastöðu borgarinnar verður að grípa til þessa örþrifaráðs. Reykjavíkurborg hefur að mestu fjármagnað fjárfestingar með útgáfu skuldabréfa á innlendum markaði. Þróunarbankinn lánar öllu jafna samfélögum sem eiga undir högg að sækja en hyggst nú veita lán til borgar sem hefur vanrækt að halda við skólabyggingum í áraraðir þrátt fyrir að geta talist velmegunarborg. Á þessu væri ekki þörf ef sveitarfélagi lánast að halda rétt á spilunum að vera fjárhagslega stöndugt. Það er almenn þumalfingurregla að ekki eigi að taka lán í öðrum gjaldmiðli en lántakinn fær tekjur sínar í. Reynslan hefur sýnt að þetta getur verið tvíbent eins og við sáum glöggt í hruninu. Þessi lántaka mun þýða að afborganir lána munu hækka enn frekar á komandi árum og er þá hæpið að veltufé frá rekstri nægi til að standa undir afborgunum lána. Það er þess utan útilokað að átta sig á hver gengisáhættan verður. Að borgin skuli vera nauðbeygð til að leita á náðir Þróunarbankans vegna viðhaldsskuldar er skýrt merki um skort á fyrirhyggju og skilvirkni í stjórnsýslunni og ábyrgri fjármálastjórnun.

Lengri útgáfa:

Taka á erlent lán að fjárhæð 100 milljónir evra hjá Þróunarbanka Evrópuráðsins eða Council of Europe Development Bank (CEB) til fjármögnunar á viðhaldsátaki í húsnæði grunnskóla, leikskóla og frístundar. Vegna slakrar fjármálastöðu borgarinnar verður að grípa til þessa örþrifaráðs. Á síðustu árum hefur Reykjavíkurborg að mestu fjármagnað fjárfestingar með útgáfu skuldabréfa á innlendum markaði. Sérstakt þykir að þróunarbankinn sem hefur það að markmiði að styrkja samfélög sem eiga undir högg að sækja hyggist nú veita lán til borgar sem hefur trassað að halda við skólabyggingum í áraraðir þrátt fyrir að geta talist velmegunarborg. Markmið bankans hefur í raun engan snertiflöt við almennar viðhaldsframkvæmdir mannvirkja hjá sveitarfélagi sem ætti ef rétt er haldið á spilunum að vera fjárhagslega stöndugt. Viðhald er skilgreint sem venjubundið verkefni sveitarfélaga sem bera ábyrgð á mannvirkjum sínum. Það er almenn þumalfingurregla að ekki eigi að taka lán í öðrum gjaldmiðli en lántakinn fær tekjur sínar í. Reynslan hefur sýnt að þetta getur verið tvíbent. Stundum hefur reynst hagfellt að taka erlend lán, en í öðrum tilfellum hefur það reynst mjög dýrt. Það sáum við glöggt í hruninu. Þessi lántaka mun þýða að afborganir lána munu hækka enn frekar á komandi árum og er þá hæpið að veltufé frá rekstri nægi til að standa undir afborgunum lána. Það er þess utan útilokað að átta sig á hver gengisáhættan verður. Að borgin skuli vera nauðbeygð til að leita á náðir Þróunarbanka Evrópu til að fjármagna almennt viðhald skólabyggingar er skýrt merki um skort á fyrirhyggju, á skilvirkni og skipulagi í stjórnsýslunni og ábyrgri fjármálastjórnun.