Borgaráð 8. nóvember 2018

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að láta birta á vef borgarinnar lista um allar nefndir og ráð.

Lagt er til að borgarráð samþykki að láta birta á vef Reykjavíkurborgar lista með upplýsingum um allar nefndir, ráð og starfshópa á vegum borgarinnar. Þar skulu jafnframt koma fram upplýsingar um það hvort um launuð störf sé að ræða og þá fjárhæð þóknana.

Greinargerð:

Flokkur fólksins leggur það til að settur verði saman ítarlegur listi yfir allar nefndir, ráð og starfshópa sem starfa á vegum borgarinnar og hverjir eru launaðir og hver sé upphæð þóknanna. Listann skal birtur á vef borgarinnar þar sem hann er sýnilegur, aðgengilegur og uppfærður reglulega. Til að auka trúverðuleika er þrennt sem skiptir mestu máli, gegnsæi, heiðarleiki og lýðræðisleg vinnubrögð.

Til að eyða efasemdum og vantrausti er fátt eins öflugt og að veita ítarlegar upplýsingar um hlutina og gera það af heiðarleika og einurð.

Fjölmargir borgarbúar hafa spurt um :

  1. Nefndir, ráð og hve margir stýri- og starfshópar og nefndir aðrar en fastanefndir og stjórnir eru á vegum borgarinnar. Fólk vill og á rétt á að þessar upplýsingar séu aðgengilegar og uppfærðar reglulega.
  2. Hvaða nefndir/hópar, stjórnir eru launaðar og hverjar eru þóknanirnar?
  3. Hve margir þiggja þóknanir vegna setu í nefndum, ráðum, hópum og stjórnum?

Frestað.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að reglulegt samtal eigi sér stað milli oddivta borgarinna og formanna flokka á Alþingi:

Lagt er til að borgarráð samþykki að fela borgarstjóra að fara þess á leit við formenn flokka á Alþingi að skipulagðir verði tveir fundir á ári þar sem oddvitar flokka borgarstjórnar og formenn flokka Alþingis hittast til að ræða málefni sem eru sameiginleg ríki og borg.

Greinargerð:

Það eru fjölmörg mál sem eru sameiginleg ríki og höfuðborg og sem einungis verða leyst með sameiginlegri ákvörðun ríkis og borgar. Sum mála sem eru á borði beggja kerfa eru brýn á meðan önnur eru meira langtímamál og enn önnur eru þessleg að þau krefjast mikillar vinnu og tíma. Með því að setja á fasta fundi þar sem formenn þingflokkanna og oddvitar borgarstjórnarflokkanna koma saman til að fara yfir þessi sameiginlegu mál má ætla að heildarsýn yfir komandi verkefni verði meiri en ella og auknar líkur verði á faglegum  og markvissum  vinnubrögðum. Með því að oddvitar/formenn allra flokka taki þátt í samtalinu minnka líkurnar á að stefnubreyting verði við stjórnarskipti jafnt hjá ríki og borg.

Frestað.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að virkari eftirlit verði með reglugerð um hávaðamengun:

Lagt er til að borgarráð samþykki að tryggja að eftirlit með framkvæmd reglugerðar um hávaðamengun í borginni verði fylgt til hins ítrasta og hafa þá í huga a) Leyfisveitingar þurfa að fylgja reglugerð um hljóðvist og hávaðamörk: https://www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/724-2008. Oftar en ekki eru leyfi samþykkt umfram tíma sem tengist næturró, sem gildir frá klukkan 23 til 7, samkvæmt reglugerð. Einnig er áberandi að hávaðamörkum fyrir þann tíma er ekki fylgt. Til dæmis fær Airwaves tónlistarhátíðin leyfi til klukkan 2 föstudag og laugardag fyrir útitónleika í þaklausu porti Listasafns Reykjavíkur. Lýðheilsa íbúanna og friðhelgi einkalífs eru neðarlega á lista þeirra sem samþykkja slík leyfi hávaðaafla, sem halda vöku fyrir íbúum og hótelgestum, í boði Reykjavíkurborgar. b) Mikilvægt er að beita viðurlögum, sektum og leyfissviftingum þegar leyfishafi brýtur lög og reglur um hljóðvist og hávaðamengun. Í dag eru leyfi veitt ár eftir ár þrátt fyrir brot á reglugerð, sem hefur bein áhrif á lýðheilsu íbúanna. c) Íbúalýðræði, grenndarkynningar og samstarf við íbúasamtök þarf að vera virkt og lausnamiðað með hag íbúa miðborgar í huga. d) Gera þarf skýran greinarmun á vínveitingaleyfi og hávaðaleyfi sem tengist reglugerð um hljóðvist og hávaðamengun. e) Hátalarar utan á húsum skemmtistaða og veitingastaða miðborgar verði fjarlægðir.

Hér má sjá greinargerð:

Tillaga Flokks fólksins um eftirlit með hávaðamengun í Reykjavík
Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að Félagsbústaðir setji sér þjónustustefnu:

Lagt er til að borgarráð samþykki að leggja það til við stjórn Félagsbústaða að fyrirtækið setji sér þjónustustefnu með áherslu á notendamiðaða hönnun. Notendamiðuð hönnun felst í því að þjónustu skal hanna og skipuleggja út frá þörfum og sjónarhorni notenda hennar.

Greinargerð
Allar stofnanir og fyrirtæki borgarinnar sem og þau sem eru í eigu borgarinnar eiga að hafa skýra þjónustustefnu. Félagsbústaðir eru engin undantekning. Félagsbústaðir eiga að hafa skýra þjónustustefnu þar sem finna má upplýsingar um þjónustuna og hvers þjónustuþegar geta vænst hjá  og af fyrirtækinu. Stefnan nýtist einnig starfsfólki við dagleg störf um leið og hún setur viðmið og mælikvarða um þjónustu Félagsbústaða almennt.

Markmið þjónustustefnu er að uppfylla hlutverk sitt og veita þjónustuþegum góða þjónustu

Til þess að fylgja þessari stefnu eftir eiga stjórnendur og starfsmenn að leggja áherslu á að:

  1. Sýna þjónustuþegum jákvætt viðmót, virðingu og kurteislega framkomu
  2. Vera vingjarnleg og hjálpfús gagnvart þjónustuþegum Félagsbústaða
  3. Þekkja hlutverk, stefnu og gildi Félagsbústaða
  4. Sýna drifkraft í störfum sínum með frumkvæði, kjark og þor að leiðarljósi
  5. Vinna  saman að hagsmunum og framtíðarsýn og mynda þannig sterka liðsheild
  6. Skapa traust þjónustuþega Félagsbústaða og sýna áreiðanleika og ábyrgð í verki.
  7. Veita þjónustuþegum nauðsynlegar upplýsingar eftir atvikum

Árlega skal taka saman yfirlit yfir stöðu og framvindu þjónustumála.

Frestað.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að Félagsbústaðir setji sér siðareglur:

Lagt er til að borgarráð samþykki að fara þess á leit við stjórn Félagsbústaða að samdar verði sérstakar siðareglur varðandi samskipti starfsfólks Félagsbústaða Reykjavíkurborgar við leigutaka Félagsbústaða og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Siðareglur virðast ekki vera til hjá Félagsbústöðum eftir því sem næst er komist.

Greinargerð

Í siðareglum er öllu jafnan kveðið á um samskipti starfsfólks við þjónustuþega og trúnað varðandi þær upplýsingar sem fram koma hjá þjónustuþegum. Einnig er kveðið á um hlutverk starfsmanna Félagsbústaða Reykjavíkurborgar og ábyrgð sem á þeim hvílir bæði formlega og eins óformlega, vegna væntinga þjónustuþega, varðandi þjónustu, viðhald, og annars sem upp kann að koma. Í siðareglum er gjarnan fjallað um hvernig starfsfólk kemur fram við þjónustuþega og hvert við annað. Hvernig er gegnsæi tryggt í rekstri? Siðareglur leiðbeina þegar siðferðileg álitamál koma upp í starfi. Siðareglur minna á að láta heiðarleika, virðingu og jafnrétti einkenna öll samskipti, þjónustuþega, samstarfsfólk, stjórn og aðra hagsmunaaðila. Að öðru leyti hvað varðar innihald siðareglna má horfa til annarra siðareglna m.a. þeirra sem Reykjavíkurborg hefur sett sér svo og einstaka fyrirtæki á hennar vegum.
Frestað.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn breyti gjaldskrá sinni og fyrirkomulagi um helgar:

Flokkur fólksins vill leggja þrennt til í sambandi við Fjölskyldu- og húsdýragarðinn:
1. Að öll börn á leikskólaaldri fái frítt inn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn, ekki bara þau sem eru yngri en 5 ára.
2. Að ekki verði krafist sérstakrar gjaldtöku í leiktæki eins og hringekjuna
3. Að farið verði þess á leit við stjórn Fjölskyldu- og húsdýragarðsins/ÍTR að gert verði sérstakt átak í að laða gesti að garðinum um helgar sérstaklega yfir vetrartímann.

Greinargerð

Tillögur þessar hafa ekki mikinn kostnaðarauka í för með sér. Það er mat Flokks fólksins að sá kostnaður sem hér um ræðir er auk þess vel varinn þar sem börn og fjölskyldur eru annars vegar. Þetta er einmitt sá hópur sem borgin þarf að hugsa enn frekar til þegar kemur að útdeilingu fjármagns.

Það skýtur skökku við að 5 ára börn þurfi að borga á 5. hundrað króna inn í garðinn, börn sem eru á lokaári í leikskóla. Eðlilegt væri að öll leikskólabörn fái frítt í garðinn. Hér er ekki um stóran kostnaðarlið að ræða. Eina tækið sem opið er í garðinum yfir vetrartímann er hringekja. Í hana er krafist sérstaks gjalds. Þetta þykir Flokki fólksins óþarfi. Það er eðlilegt að barn geti tekið hring í leiktækinu án þess að greiða fyrir það sérstaklega eftir að búið er að greiða gjald inn í garðinn.

Á vetrartíma eru mörg tæki lokuð í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum eðli málsins samkvæmt. Flestir sem heimsækja garðinn yfir vetrartímann koma um helgar. Þá er lagt til að reynt verði sérstaklega að taka vel á móti gestum og bjóða þeim sem dæmi upp á heitt kakó og kleinur í kaffihúsinu og jafnvel eitthvað skemmtiatriði. Eins og staðan er núna er afar kaldranalegt að koma í garðinn um helgar og lítið gert til að laða gesti að sérstaklega yfir vetrartímann

Vísað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að skoðað sé hvernig afgreiðslu ábendinga og fyrirspurna í lýðræðisgáttina er svarað:

Flokkur fólksins leggur til að skoðað sé hvernig afgreiðslu ábendinga og fyrirspurna sem borist hafa í lýðræðisgátt borgarinnar og/eða sem borist hafa á ábendingarvefinn er háttað og kannað hverju af þessu hefur verið:

1. Svarað
2. Er komið í ferli
3. Er komið í framkvæmd
4. Annað

Greinargerð

Heyrst hafa raddir frá fólki sem sent hafa inn kvartanir eða ábendingar í lýðræðisgátt borgarinnar að oft sé ekkert gert með það, fólk fær ýmist ekki svör eða nokkur viðbrögð. Spurt hefur verið um hvort þessi lýðræðisgátt  sébara sýndarmennska?

Þeir sem bent hafa á þetta segja að svo virðist stundum sem ábendingar séu hunsaðar og að jafnvel mætti halda að ábendingavefur borgarinnar sé bara upp á punt. Ekki sé nóg að setja upp eitthvað kerfi sem þar sem fólk getur komið með ábendingar ef svo ekkert er gert með það. Látið er í það skína að verið sé að hlusta á kvartanir en  svo ekkert kannski gert með það? Haft hefur verið á orði að svo virðist sem deildir og svið borgarinnar starfi ekki saman í það minnsta er eitthvað djúpstætt samskiptaleysi í gangi.
Frestað.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um breytingu á fundartíma borgarstjórnarfundar

Lagt er til að borgarstjórnarfundir hefjist kl. 9 1. og 3. þriðjudag í mánuði í stað kl. 14. Eins og ljóst er orðið þá eru borgarstjórnarfundir langir fundir og vara oft í allt að 10 tíma og jafnvel meira. Undir kvöld eru borgarfulltrúar orðnir þreyttir og einbeitingin farin að minnka.

Vísað til meðferðar forsætisnefndar.

Menntastefna Reykjavíkur til 2030

Bókun Flokks fólksins:

Flokkur fólksins vill benda á nokkur atriði í tengslum við menntastefnuna. Það sem skiptir mestu máli er að börnum líði vel i skólanum. Til að svo megi vera þarf að huga að mörgu s.s. að námsefni sé við hæfi, að börn fái tækifæri til að læra að lesa með þeirri aðferð sem hentar þeim sem einstaklingi og að þau séu að finna sig meðal jafningja ekki einungis námslega heldur einnig félagslega. Sum börn læra að lesa með sjónrænum aðferðum meðan öðrum hentar hefðbundnari lestraraðferð. Þetta þarf að virða. Miklu fé er varið í sérkennslu sem er hið besta mál. En ávallt þarf að spyrja hvort sérkennslan sé vel skilgreind og einstaklingsmiðuð. Mikilvægt er að barn fái viðhlítandi greiningu áður en það fer í sérkennslu til þess að hægt sé að haga sérkennslunni þannig að hún mæti þörfum barnsins. Einnig þarf að árangursmæla sérkennsluna fyrir hvert barna til að hægt sé að endurbæta hana eftir þörfum og á forsendum barnsins. Flokkur fólksins hefur einnig áhyggjur af því að ekki sé verið að taka alvöru skref í að eyða biðlista til skólasálfræðinga og enn sé allt of mikið bil milli barna sem þarfnast sálfræðiþjónustu og skólasálfræðinganna. Biðlisti í sálfræðiviðtöl og í greiningu sem ákveðið hefur verið að barnið þurfi er enn margir mánuðir.

Áskorun heiðursborgara Reykjavíkur um Vikurgarð
Bókun Flokks fólksins

Flokkur fólksins leggst gegn því að byggt verði hótel á þessu svæði. Víkurgarður og nánasta svæði þar í kring hefði átt að fá að vera í friði enda svæði sem er mörgum kært. Gróðavon og  stundarhagsmunir er það sem virðist ráða för hér á kostnað staðar sem er helgur og hefur tilfinningalegt gildi fyrir marga. Af hverju mátti þessi litli blettur ekki fá að vera í friði og þeir sem þar hvíldu, hvíla þar í friði? Fjarlægðar hafa verið minjar í þessum tilgangi og þykir Flokki fólksins að sá gjörningur hafi verið mistök og allt og langt gengið enda ekki skortur á byggingarsvæði. Flokkur fólksins tekur undir og styður áskorun frú Vigdísar Finnbogadóttur og þriggja heiðursborgara sem mótmæla þessari framkvæmd og skora á borgina og byggingaraðila að láta af áformum um byggingu hótels á þessum bletti.