Borgarráð 11. október 2018

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að Innri endurskoðun geri heildarúttekt á endurbyggingu braggans.

Því er mótmælt að Innri endurskoðun verði falið að ráðast í heildarúttekt á öllu því ferli sem endurgerð braggans fól í sér. Innri endurskoðun hér eftir vísað í sem IE getur varla talist óháð í þetta verkefni vegna ákveðinna „tengsla“ og þeirra upplýsinga sem hún hefur haft allan tímann um framvindu endurbyggingar braggans. Í því ljósi munu niðurstöður heildarúttektar IE, þegar þær liggja fyrir varla álitnar áreiðanlegar. Hér er ekki verið að vísa í neina persónulega né faglega þætti starfsmanna IE heldur einungis að IE hefur fylgst með þessu máli frá upphafi í hlutverki eftirlitsaðila og getur því varla talist óháð. Annar þáttur sem gerir IE ótrúverðuga sem rannsakanda er að hún sá ekki ástæðu til að koma með ábendingar í ferlinu jafnvel þótt framúrkeyrslan blasti við. Sem eftirlitsaðili og ráðgjafi borgarstjóra hefði IE átt að benda á þessa óheillaþróun og skoða strax hvort verið væri að fara á svig við vandaða stjórnsýsluhætti. Að IE ætli nú að setja upp rannsóknargleraugun og skoða ferlið með hlutlausum hætti er þar að leiðandi óraunhæft að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins og mun varla leiða til trúverðugra rannsóknarniðurstaðna.

Bókun vegna ákvörðunar Minjastofnunar að hefja undirbúning friðlýsingar Víkurgarðs

Flokkur fólksins fagnar því að Minjastofnun hefur ákveðið að hefja undirbúning tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra að friðlýsingu Víkurkirkjugarðs við Aðalstræti. Flokkur fólksins fordæmir aðgerðir borgarinnar að ætla að byggja þarna hótel. Mátti ekki þessi litli blettur sem er mörgum borgurum kær fá að vera í friði fyrir hótelbyggingar-æðinu í Reykjavík? Sannarlega er hér um gróðravon og stundarhagsmuni að ræða en ekki síður virðingarleysi fyrir stað sem er helgur og hefur tilfinningalegt gildi fyrir marga. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst víða mikill skaði skeður í borginni nú þegar, en að eira ekki litlum gömlum kirkjugarði er með ólíkindum. Það er lagt hafi verið í það verk að grafa upp bein til að rýmka fyrir hóteli er ótrúlegt. Þarna voru 20 heillegar kistur með heillegum beinagrindum . Flokkur fólksins tekur undir og styður áskorun frú Vigdísar Finnbogadóttur og þriggja heiðursborgara sem mótmæla þessari framkvæmd og skora á borgina og byggingaraðila að láta af áformum um byggingu hótels á þessum bletti.