Borgarráð 1. desember 2022

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagður fram árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir janúar-september 2022:

Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er kolsvört. Um það verður ekki deilt. Borgin hefur safnað skuldum undanfarið eins og enginn sé morgundagurinn. Veltufé frá rekstri er nú einungis um fjórðungur þess sem það þyrfti að vera til að reksturinn væri í þokkalegu jafnvægi. Skammtímaskuldir eru í fyrsta sinn um nokkurra ára skeið hærri en handbært lausafé, sem er ávísun á aukningu dráttarvaxta. Á tímabilinu 2021-2023 virðist sem aukning langtímaskulda sé að jafnaði um einn ma.kr. á mánuði. Þungi afborgana af langtímaskuldum mun vaxa verulega á árunum 2021-2023. Talið er að fjármálin færist hratt til betri vegar eftir tvö ár eða svo. Á hvaða forsendum byggja t.d. áætlanir um fimmföldun veltufjár frá rekstri við lok tímabilsins hjá A-hluta? Athygli vekur að á sama tíma mun lausafjárstaða A-hluta versna og afborganir langtímaskulda meira en tvöfaldast. Langtímaskuldir vaxa ár frá ári. Mikilvægt er að fyrir liggi hverjar eru forsendur fyrirhugaðrar endurreisnar á fjármálum A-hluta borgarsjóðs. Framundan eru stór og fjárfrek fjárfestingarverkefni. Þess er vænst að verkefni sem eru nauðsynleg til að viðhalda þjónustu verði sett í forgang en að önnur fái að bíða.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram breytingartillögur Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins, Pírata og Viðreisnar, dags. 28. nóvember 2022, við frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023 vegna aðgerðaáætlunar um umbætur og hagræðingu. Jafnframt lagðar fram aðrar breytingartillögur Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins, Pírata og Viðreisnar, dags. 28. nóvember 2022, við fjárhagsáætlun 2023:

Hagræðingar- og umbótaaðgerðirnar eru 92 talsins en ekki fylgja rök með af hverju þessar tillögur eru valdar frekar en aðrar. Meirihlutinn leggur til að fjárheimildir mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu verði lækkaðar um 500 þ.kr. með fækkun á tveimur fulltrúum í öldungaráði. Gert er ráð fyrir að fulltrúar fari úr 9 niður í 7 fulltrúa. Hér finnst Flokki fólksins höggvið í viðkvæma liði. Væri ekki nær að draga mun meira úr fjárheimildum til þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem sett hefur fjármagn í ýmis óskilgreind verkefni og erlenda ráðgjöf sem hvergi sést hvar hefur skilað sér? Með því að gera grundvallarbreytingar á skipuriti þjónustu- og nýsköpunarsviðs væri hægt að spara tugi milljóna króna. Sparnaður fælist í því að fækka skrifstofum og millistjórnendum sviðsins með því að sameina skrifstofur sem hafa með samþætta starfsemi að gera. Alla upplýsingamiðlun Reykjavíkurborgar mætti einfalda og efla t.d. með sameiningu skrifstofa sem hafa með ýmis konar upplýsingamiðlun til íbúa að gera undir einni skrifstofu upplýsingaþjónustu. Meirihlutinn leggur einnig til að fjárheimildir umhverfis- og skipulagssviðs lækki um 20.000 þ.kr. vegna lækkunar á viðhaldi gatnalýsingar vegna LED-væðingar. Fulltrúi Flokks fólksins telur að borgin megi varla við þessu þar sem hún er nú þegar dimm sem hefur áhrif á öryggi íbúa.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs, dags. 28. nóvember 2022, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs frá 28. nóvember 2022 á tillögu að tilraunaverkefni um samrekið almennings- og skólabókasafn á Kjalarnesi:

Meirihlutinn leggur til að sett verði af stað tilraunaverkefni um samrekið almennings- og skólabókasafn á Kjalarnesi. Hluti af hagræðingu Borgarbókasafns fyrir árið 2023 fól í sér niðurlagningu á rekstri bókabílsins Höfðingja. Bíllinn sinnti m.a. Kjalarnesi sem er er eitt af úthverfum borgarinnar þar sem ekki er starfrækt almenningsbókasafn á vegum Reykjavíkurborgar. Með niðurlagningu bókabílsins þurfa íbúar Kjalarness að sækja alla bókasafnsþjónustu til Mosfellsbæjar eða í önnur hverfi Reykjavíkurborgar. Það voru margir afar ósáttir við niðurlagningu bókabílsins og vill fulltrúi Flokks fólksins fá upplýsingar um hvort sú tillaga sem hér er lögð fram hefur verið lögð undir íbúa Kjalarness og sé gerð í sátt við íbúa þar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 28. nóvember 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að fela sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að gera viðauka við samninga Reykjavíkurborgar við sjálfstætt starfandi leikskóla í Reykjavík sem gilda til 31. desember 2022:

Flokkur fólksins vill sjá tillögur sem lúta að því að Reykjavíkurborg setji kvaðir um arðgreiðslur eða hvernig rekstrarafgangur sem rekja má til opinberra framlaga skuli nýttur ræddar í þaula og samþykktar áður en framlengja á samninga við sjálfstætt starfandi leikskóla, hvort sem framlengingu er til skemmri eða lengri tíma. Þessar tillögur ásamt fleirum voru reifaðar í skýrslu starfshóps um mótun stefnu og tillagna um aðkomu Reykjavíkurborgar að sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum. Það var vissulega hið versta mál að Samtökum sjálfstæðra skóla  var ekki boðin aðkoma að gerð hennar þrátt fyrir að beinlínis hafi verið gert ráð fyrir því og samtökin leitað eftir því. Athugasemdir í skýrslu innri endurskoðunar vegna arðgreiðslna vöktu tortryggni. Eðlilegt er því að ljúka umræðu tillagnanna og ákveða hverjar verða samþykktar áður en samningar eru framlengdir. Allir leikskólar borgarinnar hvernig svo sem þeir eru reknir eru að vinna frábært starf og þörf er á þeim öllum og gott betur. En það er mikilvægt að enginn þurfi nokkurn tímann að halda að verið sé að reka leikskóla til að græða.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 24. nóvember 2022, þar sem óskað er eftir heimild til að hefja verkefnið samræmd nemendaskráning:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst einkennilegt að þjónustu- og nýsköpunarsvið hafi ekki kannað hvort til væru tilbúin innskráningarkerfi fyrir nemendur í grunnskóla áður en farið var af stað að uppgötva, hanna og þróa fyrsta hluta þess kerfis sem talað er um. Innskráningar nemenda í grunnskóla er eitthvað sem nánast öll sveitarfélög hérlendis þurfa að framkvæma, sem og borgir og sveitarfélög í öðrum löndum. Þessir ferlar hljóta því að hafa verið ansi vel þróaðir og tilbúnar lausnir víða að finna. Þess vegna telur fulltrúi Flokks fólksins að þjónustu- og nýsköpunarsvið hefði átt, í þessum málum eins og öðrum, að leita víðtækara samstarfs við önnur sveitarfélög og ríkið varðandi þetta. Einfaldleiki og samræming innskráninga nemenda í grunnskóla óháð búsetu ætti að vera markmið sem bæði skólastjórnendur og foreldrar græða á.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 21. nóvember 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili þjónustu- og nýsköpunarsviði að hefja innkaupa- og þróunarferli í tengslum við næsta skref í uppbyggingu gagnalandslags Reykjavíkurborgar:

Enn og aftur vill fulltrúi Flokks fólksins benda á það að þjónustu- og nýsköpunarsvið Reykjavíkurborgar ætti umfram allt að leita víðtækara samstarfs við önnur sveitarfélög í gegnum Samband íslenskra sveitarfélaga sem og Stafrænt Ísland, um stefnu og áætlanir vegna gagna og gagnavinnslu, í stað þess að vera alltaf að gera hlutina upp á eigin spýtur án samstarfs við aðra opinbera aðila. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur nú þegar tekið þá stefnu að hefja aukið samstarf við Stafrænt Ísland varðandi þekkingaruppbyggingu, þróun og innleiðingu stafrænna lausna ásamt innkaupum á lausnum. Þar hefði Reykjavíkurborg átt að vera stærri þátttakandi en raun ber vitni vegna þeirra samlegðaráhrifa sem af því hefðu hlotist.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 21. nóvember 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili þjónustu- og nýsköpunarsviði að hefja undirbúning á innkaupum og innleiðingu á kerfi fyrir stjórnun tilkynninga:

Í umsókn stoð- og tækjaþjónustudeildar þjónustu- og nýsköpunarsviðs eru talin upp hin ýmsu samskiptakerfi sem sviðið hefur fest kaup á undanfarin ár. Þar á meðal er samskiptakerfið Workplace sem er í eigu Facebook og ætlað vinnustöðum. Fulltrúi Flokks fólksins bendir á að kaup þjónustu- og nýsköpunarsviðs á Workplace á sínum tíma voru líklega gerð til þess að efla samskipta- og tilkynningamöguleika á milli starfsfólks. Sú ákvörðun hlýtur að þurfa endurskoðunar við ef áreiðanleiki þeirra tilkynninga sem starfsfólk getur sent frá sér í því kerfi er ekki ásættanlegur. Þegar Workplace var keypt á sínum tíma hlýtur miklu að hafa verið kostað til. Samhliða þeirri innleiðingu voru alls kyns auglýsingavörur keyptar ásamt rafrænum kynningarskjáum sem settir voru upp á nokkrum stöðum í borginni. Einnig fór starfsfólk sviðsins víða til að kynna þetta samskiptakerfi. Það er því umhugsunarefni ef þjónustu- og nýsköpunarsvið ætlar sér að bæta við enn einu tilkynningarkerfinu í hóp þeirra kerfa sem sviðið hefur verið að kaupa í gegnum árin. Það hlýtur að þurfa að skera eitthvað niður á móti í stað þess að vera með öll þessi kerfi í gangi á sama tíma. Öll þessi uppflettikerfi hljóta að fara að bitna á tíma starfsfólks til vinnu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar Strætó bs., dags. 25. nóvember 2022, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Klapp, rafrænt greiðslukerfi Strætó, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. júní 2022:

Klapp kerfið hefur án efa marga kosti. Flokkur fólksins telur að kaup og innleiðing á því sé úr takti við ástand Strætó bs. sem hefur riðað á barmi gjaldþrots í langan tíma. Þess utan voru byrjunarörðugleikar einkum vegna þess að ekki var næg fyrirhyggja til staðar og ekki hugsað um þá sem þurfa sérstaka aðstoð og sérhæfð úrræði eins og sumt fatlað fólk. Nú hefur þess utan komið á daginn að skannar eru ekki að virka. Blessunarlega verða útskiptin á kostnað birgjans. Sjálfsagt er að færa hluti til nútímans en það er tími og staður fyrir allt og undirbúa þarf hlutina vel ef fara á í róttækar breytingar. Kostnaður við þetta allt er á fjórða hundrað milljónir. Það munar um það í þeim fjárhagslegu erfiðleikum sem Strætó bs. er í um þessar mundir.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 25. nóvember 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um innkaup Reykjavíkur, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. október 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins telur að skoða þurfi gaumgæfilega högun innkaupa- og útboðsmála hjá Reykjavíkurborg. Innkaupaskrifstofa virðist vera eingöngu notuð til ráðgjafar í stað þess að hafa yfirumsjón með innkaupum skrifstofa og sviða borgarinnar. Margir starfsmenn skrifstofa og sviða sjá t.d. um innkaupa- og útboðsmál oft án aðkomu innkaupaskrifstofu. Þegar innkaupamál eru nánast dreifð um alla borg hlýtur að vanta ákveðna yfirsýn og heildrænt mat innkaupa- og útboðsmála innan borgarinnar. Afleiðingar þessarar lausungar í skipulagi innkaupa- og útboðsmála eru að koma í ljós þegar litið er til þess að kærum vegna útboðsmála fer sífellt fjölgandi. Þegar kærum hefur fjölgað úr fjórum í tæpar 30 á stuttum tíma, er það skýrt merki þess að núverandi skipulag sé löngu úrelt. Samt segir að hlutverk innkaupaskrifstofu sé að annast allar tegundir útboðsmála. Þessi mál þyrftu að vera meira á einni hendi en ekki út um allt. Það gefur auga leið að svona dreift utanumhald innkaupa og útboðsmála án heildrænnar yfirsýnar þarfnast algjörrar endurskoðunar við.

 

Bókun Flokks fólksins undir 2 lið fundargerðar íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis frá 22. nóvember 2022:

Það skilti við Lönguhlíð sem hér er til umræðu hefur valdið miklu fjaðrafoki. Tvennar sögu fara af því hvort þeim húseigendum Lönguhlíðar sem málið varðar hafi verið gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri við tillöguna. Fram kemur að umrædd grenndarkynning sé talin uppfylla öll skilyrði sem þarf að senda inn varðandi byggingarleyfisumsókn og fylgdu þau með til útsendingar á grenndarkynningu. Tekið er undir það sem fram kemur í umsögn að skilti eru hluti af útliti borga og séu þau vel útfærð geta þau aukið á borgarbrag og læsileika borgarinnar. Flokkur fólksins hefur talað um reynslutíma en vandinn við það er að ef skilti er einu sinni komið upp þá er hætta á að það verði þar að eilífu þótt mikil óánægja sé með það. Í markmiðum samþykktar um skilti í Reykjavík segir beinlínis að „skilti séu íbúum borgarinnar ekki til ama eða óþæginda og að þau skerði ekki hönnun mannvirkja, hafi neikvæð áhrif á umhverfi eða skerði ásýnd borgarinnar.“ Einnig segir að halda eigi fjölda skilta í lágmarki og að leggja eigi áherslu á að fjöldi skilta valdi ekki óreglu og ringulreið í sjónlínu gatna. Um þetta mál hefði þurft að liggja fyrir sátt.

 

Bókun Flokks fólksins undir 7 lið fundargerðar samstarfshóps um málefni miðborgar frá 17. maí og 23. nóvember 2022:

Kynning á fyrirhuguðum framkvæmdum í miðborginni. Það bíða borgarhönnun stór verkefni á komandi árum. Forhönnun er hafin á Kirkjustræti, Vallarstræti, Veltusundi og Tjarnargötu. Á dagskrá í sumar er forhönnun Lækjartorgs. Fulltrúi Flokks fólksins telur að þeir sem sjá um forgangsröðun verkefna þurfi að taka tillit til slakrar fjárhagsstöðu borgarinnar. Vel kann að vera að erfitt sé að hætta við verkefni í miðju kafi en forhönnun Lækjartorgs er t.d. ekki hafin. Nú er staðan þannig að borgin getur ekki sinnt lögbundinni þjónustu sómasamlega. Ef horft er til biðlista barna eftir fagfólki skóla bíða nú 2048 börn. Eitthvað verður undan að láta. Það er ekki alltaf hægt að taka meiri lán og stefna borginni í gjaldþrot. A-hlutinn er að koma lakar út en gert var ráð fyrir á öllum mælikvörðum. Mikill hallarekstur er á nokkrum sviðum borgarinnar sem er skiljanlegt enda verkefnin stór og krefjandi. Niðurstaða rekstrarreiknings A-hluta á árunum 2020-2023 verður samkvæmt fjárhagsáætlun árið 2023 neikvæð um 31,2 milljarða. Þetta er hallarekstur á daglegum rekstri Reykjavíkurborgar. Veltufjárhlutfall er í fyrsta sinn á þriggja ára tímabili lægra en 1. Skammtímaskuldir verða hærri en lausafé á næsta ári sem þýðir að erfiðara er að greiða af reikningum og standa í skilum.

 

Bókun Flokks fólksins undir 2. og 9. lið fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 18. nóvember 2022:

Rekstrarniðurstaða var neikvæð um 1.069 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 93 m.kr. Þrátt fyrir að stefndi í óefni hjá Strætó bs. fjárhagslega var ráðist í kaup á rándýru greiðslukerfi sem vel hefði mátt bíða. Undir 9. lið fundargerðarinnar er rætt um útboð. Framkvæmdastjóri kynnti stöðu útvistunarmála en unnið er að gerð áhættumats fyrir næsta útboð á akstri sem fyrirhugað er á árinu 2023 og akstur hefjist 2024. Flokkur fólksins telur útboð á rekstri ekki góða hugmynd. Vel mætti hins vegar skoða að bjóða út viðhaldsþætti. Sjá má ef litið er til sögunnar að útvistanir reksturs af þessum toga til einkaaðila hafa gengið misvel auk þess sem útvistanir geta leitt til verra starfsumhverfis og verri þjónustu. Einnig má gera að því skóna að verði reksturinn boðinn út takmarkist möguleikar á að hafa t.d. frítt í strætó. Vísað er til slæmrar reynslu af útvistun almenningssamgangna í Bretlandi og Svíþjóð. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur hin sveitarfélögin sem eiga Strætó bs. að veita áfram fé til rekstursins. Ekki er sennilega að vænta krónu frá ríkinu. Einnig þarf að hefja rekstur næturstrætós hið fyrsta sökum fráflæðisvanda úr miðbænum, einna helst um helgar.

 

Bókun Flokks fólksins undir 11 lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 30. nóvember 2022.

Umsögn Reykjavíkurborgar um áform um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hversu vel skoðanir leigubílstjóra sjálfra og þeirra sem sinna afleysingu hafi skilað sér í umsögnum almennt séð um þetta frumvarp. Það er hagur borgarbúa að aðgangur að leigubílum sé greiður. Tæma þarf miðbæinn á stuttum tíma eftir lokun skemmtistaða. Þess vegna eiga borgaryfirvöld að styðja rýmkun á rétti til að reka leigubíla og fjölga leyfum. Nú er skylda að vera skráður á leigubílastöð. Þess ætti ekki að þurfa. Fjölga mætti leyfunum. Auðvitað þarf að gera kröfur til starfseminnar þar sem þetta er þjónusta við fólk. Þeir sem sækja um leyfi þurfa að t.d hafa hreint sakavottorð. Það mætti búa til frjálsan rekstur svo framarlega sem viðkomandi er með leyfin á hreinu. Finna þarf leið til að þetta sé mögulegt. Vandamálið er að sumir leigubílstjórar vilja ekki afleysingu á bíla sína. Þess vegna eru í raun færri leigubílar á ferðinni en fjöldi leyfa segir til um.

 

Bókun Flokks fólksins undir 9. lið embættisafgreiðslna, alls 9 mál:

Bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 18. nóvember 2022: Tillögur starfshóps um aðkomu Reykjavíkurborgar að sjálfstætt starfandi leikskólum. Flokkur fólksins tekur undir margar tillögur starfshópsins sem hefur mótað stefnu og tillögur um aðkomu Reykjavíkurborgar að sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólum en finnst leiðinlegt hvernig staðið var að gerð skýrslunnar. Samtökum sjálfstæðra skóla  var ekki boðin nein aðkoma að gerð hennar þrátt fyrir að beinlínis hafi verið gert ráð fyrir aðkomu fulltrúa samtakanna að gerð skýrslunnar og samtökin leitað eftir því. Í erindi frá Samtökum sjálfstæðra skóla er þetta harmað og tekur borgarfulltrúi Flokks fólksins undir það. Flokki fólksins finnst það mikilvægt að skapa aukið jafnræði fyrir foreldra og nemendur um val á skólum í borginni og að skapa möguleika fyrir einkaaðila að hafa rekstur leik- eða grunnskóla í húsnæði borgarinnar á sömu kjörum og borgarreknir skólar. Tekið er undir að samræma gjaldskrár sjálfstætt starfandi leikskóla og borgarrekinna leikskóla til að skapa aukið jafnræði foreldra við val á leikskólum. Flokkur fólksins fagnar tillögunni um að setja eigi skorður við útgreiðslu arðs og að rekstrarafgangur verði nýttur til að efla skólastarf og tryggja að hann verði nýttur í þróun skóla um leið og skólagjöld verði lögð af.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019.:

 

Jákvæð umsögn er veitt um Jólakvosina, jólamarkað við Ingólfstorg, Austurstræti og Veltusund, 2.-8. desember, tímabundið áfengisleyfi á grundvelli 17. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Fulltrúi Flokks fólksins nefnir þetta því nýlega fengu allir borgarfulltrúar skeyti frá íbúum á þessu svæði þar sem mótmælt er „hávaðasamri útitónlistarkeyrslu Nova og Manhattan Marketing, sem er rekstraraðili skautasvellsins á Ingólfstorgi, um síðustu helgi, með drynjandi bassa, sem fór langt yfir viðmiðunarmörk (55 dB). Hávaðinn lagðist yfir miðborgina með fullum þunga, sem náði alla leið upp á Skólavörðustíg. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í gegnum starfsmann Reykjavíkurborgar, tókst ekki að fá styrkinn lækkaðan í gegnum þann tengilið segir í skeytinu. Umsókn sem þessi virkar saklaus og sjálfsögð en hér má sjá í skeyti íbúa að málið er dauðans alvara og illþolanlegt. Birt er einnig svar Heilbrigðiseftirlitsins: „Inni á skemmtistöðum gilda hávaðamörk á samkomum sem eru 95 dB en hávaði utandyra má ekki fara yfir 55 dB“. Flokkur fólksins telur að hér þurfi Heilbrigðiseftirlitið að beita sér af fullum þunga gagnvart Nova og Manhattan Marketing, vegna brota á lögreglusamþykkt, reglugerð um hávaða, ákvæði stjórnarskrár um truflun á friðhelgi einkalífs og heimila, og beiti sektum ef þörf krefur.

 

Nýtt mál:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um meðalnámstíma barna í skólaúrræðinu Birtu:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hver sé meðalnámstími barna sem stunda nám í skólaúrræðinu Birtu. Óskað er upplýsinga frá 2019 þegar úrræðið var sett á laggirnar og að upplýsingar séu sundurliðaðar eftir árum. Stoðdeild Birtu, sem var fyrst staðsett við Álftamýrarskóla en hefur flust til Seljaskóla, er skólaúrræði fyrir börn í 3.-10. bekk sem eru í umsóknarferli fyrir alþjóðlega vernd á Íslandi. Samkvæmt starfsreglum stoðdeildarinnar eru börn að hámarki eitt skólaár í stoðdeild Birtu áður en börnin fara í hverfisskólana. Í ljósi fjölgunar á barnafjölskyldum til landsins í leit að alþjóðlegri vernd og meiri hraða á málsmeðferð óskar Flokkur fólksins þessara upplýsinga.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.