Bókun Flokks fólksins við liðnum Göngugötur, niðurstöður starfshóps og tillaga að samþykk:
Ef horft er á 5. gr. er ekki gengið nógu langt. Íbúar eiga ekki að þurfa að sækja um leyfi fyrir tilfallandi akstri á göngugötu t.d. vegna flutninga eða stærri framkvæmda. Slík umsókn tefur málið og kallar á auka starfskrafta sem kosta.
Þegar talað er um göngugötur má ekki gleyma þeim sem eru fótafúnir eða með skerta hreyfifærni.. Fatlað fólk finnur mikið fyrir því núna að geta ekki lagt bílnum sínum í stæði nálægt verslunum og þjónustu. Ef við horfum t.d. á Laugarveginn, þá er ekki hægt að leggja bíl þar. Sérmerktu stæðin eru í hliðargötum. Leigubílar ættu að geta keyrt göngugötu til að sækja fatlaða einstaklinga. Í þessari bókun er vísað í eftirfarandi umfjöllun í Kjarnanum: https://kjarninn.is/skodun/laerdu-a-thetta/
Bókun Flokks fólksins við liðnum Gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, verkefni samgöngusáttmála:
Bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er færð í trúnaðarbók.
Sambærileg bókun hefur verið lögð fram í borgarráði 18. ágúst. Í henni eru engar trúnaðarupplýsingar og hljóðar hún svona:
Flokkur fólksins leggur áherslu á að bæta umferðarflæði á gatnamótum Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. Vandinn þar er áratuga gamall og hafa tafir á umferð kosta sitt, bæði í tíma og eldsneytiskostnaði. Umferðarflæðið snertir einkum Breiðholtsbúa, auk þeirra sem koma úr syðri sveitarfélögum..
Þessi gatnamót eru talin vera ein hættulegustu gatnamót höfuðborgarsvæðisins og er það mat fjölmargra að ef einhvers staðar ættu að vera mislæg gatnamót þá er það þarna.
Raskið á Elliðaárdalnum vegna mislægra gatnamóta á þessum stað er mun minna en verður á Elliðaárdalnum vegna tengingar Arnarnesvegar við Breiðholtsbraut samkv. sérfræðingum. Flokkur fólksins vill að staðið sé vörð um Elliðaárdalinn. Lausnir sem framkalla hávaða þarf að skoða vandlega því hljóðmanir duga ekki til að dempa hávaða frá umferð. Sjálfsagt er að kanna hvort stokkalausnir eru mögulegar, einkum með tilliti til umhverfisáhrifa. Hafa þarf einnig í huga að borgarlína er ekki að koma næstu árin, tilkynnt hefur verið um tafir í 3-5 ár.“
Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda sem fara fram hjá útgönguleiðum bílastæðahúsa, umsögn:
Flokkur fólksins lagði fram tillögu um að skipulags- og samgöngusvið kanni öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda sem fara fram hjá útgönguleiðum bílastæðahúsa. Vegfarendur sjá ekki að bíll er á leiðinni út, enda ekið út úr húsi. Áhyggjur eru af því að slys verði á vegfarendum sem fara fram hjá útgönguleiðum bílastæðahúsa víða í borginni. Ástandið er mis slæmt. Þetta er spurning um að vegfarendur fái viðvörun um bílaumferð úr bílastæðahúsi og að bílstjórinn sjái þ.e. hafi sjónlínu á gangstéttina til að geta gætt að vegfarendum. Í svari frá skipulagsyfirvöldum er tekið undir að aðstæður við útakstur úr sumum bílahúsum mættu vera betri og að mikilvægt sé að huga að sjónlínum við hönnun nýrra bílahúsa. En þrátt fyrir að þetta sé ekki nógu gott er það mat skipulagsyfirvalda að ekki sé hætta á alvarlegu slysi. Þessu er Flokkur fólksins ósammála og telur að skoða eigi og bæta þær út akstursaðstæður þar sem þær eru verstar. “Betra er að byrgja brunninn áður en barn dettur ofan í hann”. Það á aldrei að gefa afslátt af umferðaröryggismálum, séu brotalamir einhvers staðar sem hægt er að bæta.
Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um að gönguljós verði með skynjunarbúnaði, umsögn. Tillagan er felld. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Flokkur fólksins er ósáttur við hversu seint þessi tillaga kemur til afgreiðslu. Tillagan var lögð fram í janúar 2019 og er svarað í ágúst 2021. Á þessum tíma kann margt að hafa breyst. Tillagan er um að gönguljós verði með skynjunarbúnaði sem gefi frá sér hljóðmerki þegar fótgangandi nálgast og sem nema og laga sig að umhverfishljóðum. Í svari kemur fram “að nú sé gerð krafa um hnappabox sem innihaldi stillanlegan hljóðmerkjagjafa. Hljóðmerkin eru virk hvort sem gangandi vegfarendur eru til staðar eða ekki, en hægt er að stýra því á hvaða tíma sólarhrings þau eru virk”. Þá er það spurning hvort þessum hljóðmerkjum sé stýrt eða klingja þau kannski allan sólarhringinn? Hvað sem því líður þá hafa án efa orðið framfarir í þessum málum, skyldi maður halda enda á þriðja ár síðan tillagan var lögð fram.
Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um endurbætur á öllum biðstöðvum strætó, umsögn. Tillögunni er vísað frá. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Flokkur fólksins lagði fram tillögu 2019 um endurbætur á öllum biðstöðvum strætó sem voru þá víða í lamasessi. Tillagan kemur til afgreiðslu nú þremur árum síðar. Í umsögn er minnst á niðurstöður úttektar frá 2020 á aðgengismálum á biðstöðvum Strætó. Þá voru Yfir 500 biðstöðvar metnar ófullnægjandi. Flokkur fólksins bókaði 2020 að til stæði að lagfæra 12 strætó biðstöðvar sem voru verst farnar bæði um aðgengi og yfirborð. Aðeins á 11 biðstöðvum af 556 var aðgengi viðundandi. Aðgengi og lélegt yfirborð stétta við strætó biðstöðvar hefur auðvitað komið verst niður á fötluðu fólki. Í umsögn sem fylgir afgreiðslu þessarar tillögu er staðfest að endurbætur eru á bið vegna væntanlegrar borgarlínu sem búið er að upplýsa um að tefjist um 3-5 ár. Flokkur fólksins óttast að þessi mál verði látin danka og tefjist borgarlínuverkefnið enn frekar er ekki líklegt að skipulagsyfirvöld ráðist í endurbætur sem tengjast væntanlegri borgarlínu á næstunni. Flokkur fólksins telur að endurmeta verði endurbætur á þeim fjölda biðstöðva sem eru í lamasessi í ljósi fyrirsjáanlegrar seinkunar borgarlínu.
Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins, um bílastæðaklukkur, umsögn.
Tillagan er felld. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Flokkur fólksins harmar hversu seint er brugðist við málum Flokks fólksins en hér er enn ein tillaga Flokks fólksins sem hér er til afgreiðslu sem er eldgömul, lögð fram 2019. Lagt var til að Reykjavíkurborg skoðaði að leggja af stöðumæla og setja þess í stað bílastæðaklukkur. Í því myndi vera mikill sparnaður og hagræðing. Klukkur og nemar er það sem reynst hefur best annars staðar. Segir í umsögn að ekki verði séð að núverandi fyrirkomulag gjaldheimtu sé haldið slíkum göllum, að ástæða sé til að nota bílastæðaklukkur í stað núverandi kerfis. Flokkur fólksins vill benda á hagkvæmissjónarmið og að Reykjavíkurborg noti “kerfi” sem er bæði ódýrt, einfalt og sem virkar. Í umsögn er bent á að hægt sé að greiða fyrir með snjall lausnum. Flokkur fólksins segir þá að það sé gott fyrir þá sem nota snjalllausnir en það séu ekki allir sem noti slíkar lausnir. Nefna má eldri borgara, ferðamenn og aðra þá sem ekki eru með snjallsíma.
Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, að ljósabúnaður við innkeyrslu bílakjallara Ráðhússins verður lagaður, umsögn. Tillögunni er vísað frá. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins:
Á þeim tíma sem tillagan var lögð fram skapaðist iðulega vandræðaástand þegar ekið var í bílakjallarann eða upp úr honum. Flokkur fólksins lagði til í nóv. sl. að ljósabúnaður við innkeyrslu bílakjallara Ráðhússins verði lagaður. Vandinn fólst í að ljósabúnaður, upplýsingaskilti um laus stæði í kjallaranum og hvort bíll væri á leið úr kjallaranum virkaði ekki sem skyldi þannig að bílar á leið ofan í kjallarann og úr honum mættust. Innkeyrslan er einbreið. Margir lentu í vandræðum. Skýring er sögð vera sú að “vegna innleiðingar nýs aðgangsstýringarkerfis í bílakjallarann varð umrætt upplýsingaskilti tímabundið óvirkt”. Einnig segir í svari að bílastæðasjóður vinnur nú að uppsetningu nýs LED skiltis við innkeyrsluna í bílakjallara ráðhússins en því miður hefur tafist að koma upp skjánum”.
Ný mál:
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um samþykkt um göngugötur
Í samþykkt um göngugötur í Reykjavík þá kemur fram í fjórðu grein að íbúar á göngugötu geti sótt um svokallað göngugötukort til að hafa aðgang að bílastæði. Eingöngu er gefið út eitt göngugötukort fyrir hvert bílastæði. Flokkur fólksins spyr hvort ekki sé hægt að gefa út fleiri en eitt kort við sérstakar aðstæður? Vísað er jafnframt í umfjöllun um þessi mál í Kjarnanum: https://kjarninn.is/skodun/laerdu-a-thetta/
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um stæði fyrir hjól- og fellihýsi
Nágrannasveitarfélög eins og Hafnarfjörður og Kópavogur hafa komið til móts við eigendur hjól- og fellihýsa með því að bjóða þeim að geyma þau yfir sumarið á svæðum i eigu sveitarfélaganna sem eru illa nýtt. Þetta gæti t.d. verið skólalóð á þeim tíma sem skólar eru í sumarfríi eða við íþróttamannvirki. Það er stefna borgarinnar að fækka bílastæðum og hafa jafn vel undir einu bílastæði fyrir hverja íbúð í byggingu. Mikil fjölgun hefur orðið á hjól og fellihýsum og margir íbúar Reykjavíkur kjósa að eiga slík hýsi til frístundaiðkunar og því eðlilegt að Reykjavíkurborg hugi að þessum hópi og kanni hvort að ekki megi þjónusta hann. Ljóst er að þessi hópur er á hrakhólum í dag og spurning hvort að borgin eigi því ekki að koma að þessu. Flokkur fólksins óskar því eftir að fá að vita hver stefna borgarinnar er í þessu málefni.