Bókun Flokks fólksins við samþykki á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir 2. áfanga Laugavegar sem göngugötu:
Eins mikið og göngugötur eru skemmtilegar, sér í lagi þær sem aðgengi að er gott og allir geta komist á þær án tillits til hreyfifærni, þá eru þessar gerðar í óþökk meirihluta fólks. Ekkert af rökum, ábendingum eða tillögum m.a. Flokks fólksins og hagsmunaðila sem hjálpað gætu miðbænum að halda lífi hafa náð til skipulagsyfirvalda. Sérstakur kafli er um samráð í meðfylgjandi gögnum þar sem segir að víðtækt samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila. Segir: „Víðtækt samráðsferli hefur þegar átt sér stað. Nú þegar hefur verið rætt við samtök kaupmanna (Miðborgin okkar og Miðbæjarfélagið) og Öryrkjabandalið (ÖBÍ) og mun sú vinna halda áfram í gegnum allt hönnunarferlið“. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst kannast ekki allir þeir sem eru nefndir við að það hafi verið talað nokkuð við þá. Þetta er því merkilegt ekki síst út frá sálfræðilegu sjónarmiði. Skipulagsyfirvöld fullyrða að rætt hafi verið við fólk sem kannast ekki við að rætt hafi verið við það! Hvernig má þetta vera?
Bókun Flokks fólksins við auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi: Brynjureitur, Frakkastígsreitur og Laugavegsreit vegna færslu á lóðarmörkum:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur mikla samúð með rekstraraðilum á þessum reitum. Margir hafa hrakist á brott, nokkrir undirbúa nú brottför og enn eru einhverjir að bíða með von um að „kraftaverk“ gerist. Framlagning þessara mála, deiliskipulag (færsla á lóðarmörkum) við reitina Laugavegur, Brynjureitur og Frakkastígur er sérstök vegna skýrslu fyrirtækisins Landslags sem birt er í gögnum. Í skýrslunni eru ósannindi. Þar stendur „Mikið líf hefur skapast á Laugaveginum síðustu misseri þar sem takmarkanir á bílaumferð hafa gert gangandi og hjólandi umferð hærra undir höfði.“ Þetta er hvorki satt né rétt. Öll vitum við að lítið líf er á Laugavegi og verslanir sem þar eru róa lífróður. Farið var í breytinguna án samtals við fjölmarga rekstraraðila sem vöruðu við lokun á alla umferð. Þetta voru mistök. Skipulagsyfirvöld áttu aldrei að ganga fram með svo miklu offorsi. Ótti hagsmunaaðila reyndist á rökum reistur og hefur verslun hrunið. Á þetta áttu skipulagsyfirvöld að hlusta. Með COVID-19 fóru ferðamenn sem gerði illt vera. Hrun verslunar var byrjað löngu áður og á því ber skipulagsráð ábyrgð. Þetta er ekki pólitík heldur staðreynd.
Bókun Flokks fólksins við framlagningu viðauka við fjárhagsáætlun 2020 er varðar tilraunaverkefni um frístundir:
í Viðauka er lagt til að fjárheimildir velferðarsviðs hækki um 20.300 þ.kr. vegna tilraunaverkefnis um frístundir í Breiðholti. Aðgerðirnar felst í því að hækka frístundakortið úr 50.000 í 80.000 kr. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að hér ætti ekki að vera um neitt tilraunaverkefni að ræða heldur ætti þetta verkefni að vera varanlegt og ná til allra hverfa. Að öðrum kosti er verið að mismuna börnum. Enda þótt mesta fátæktin sé vissulega í hverfi 111 eru líka fátæk börn í öðrum hverfum og það eru líka börn af erlendum uppruna í öðrum hverfum.
Fulltrúi Flokks fólksins hefur barist lengi fyrir að frístundakortið verði notað samkvæmt sínu upphaflega tilgangi en ekki til að greiða með frístundaheimili eða setja upp í skuld foreldra sem þarfnast fjárhagsaðstoðar fyrir börn sín. Upphæð hefur verið allt of lág ekki síst þar sem krafist er að námskeið vari í 10 vikur til að hægt sé að nota frístundakortið. Enn hefur stýrihópur sá sem er að endurskoða reglur um frístundakortið engu skilað.
Bókun Flokks fólksins við svar borgarstjóra, dags. 29. september 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um afgreiðslu á kvörtun vegna ummæla fyrrum borgarritara, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. janúar 2020.
Fram kemur í svari borgarstjóra að kvörtunin hafi verið afgreidd í bréfi dags. 2. september. Það er rétt. Kvörtunin sneri að neikvæðri og meiðandi skrifum fyrrverandi borgarritara á samfélagsmiðlinum Workplace en hann sagði m.a. að minnihlutafulltrúar væru tuddar og að þeir minnihlutafulltrúar sem myndu bregðast við þessum ummælum hans væru þeir seku. Þessi ummæli sagði hann að væru sögð í umboði borgarstjóra. Engu að síður vill fulltrúi Flokks fólksins koma því á framfæri að sú hegðun sem fyrrverandi borgarritari sýndi minnihlutafulltrúum var með öllum óásættanleg og skaðaði bæði þá og fjölskyldur þeirra. Undir óhróður hans á Workplace tóku um 80 starfsmenn, þar af margir í æðstu stöðum borgarinnar. Fyrir minnihlutafulltrúa, nýlega kjörna var þetta sérkennileg og erfið reynsla. Ef vísað er til afgreiðslubréfs borgarstjóra kemur fram að honum finnist að það hafi verið rétt og eðlilegt að borgarritari tjáði sig með þessum hætti enda hafi allir tjáningarfrelsi. Þá er spurt hvort minnihlutafulltrúar hafi ekki líka tjáningarfrelsi? Eða gilda um þá aðrar reglur? Fulltrúi Flokks fólksins telur sig ekki vera neinn tudda en taldi sig engu að síður knúinn til að tjá sig um ummæli borgarritara fyrir þær sakir að þær voru óviðeigandi og meiðandi. Tjáningin per se gerir engan kerfisbundið að neinu, hvað þá sekan eða saklausan.
Bókun Flokks fólksins við fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdal 24. september 2020:
Svo virðist samkvæmt fundargerð að nokkuð sé ábótavant með merkingar bílastæða, einnig með umferðarskipulag svo sem hringtorg í Grafarholti og Úlfarsárdal. Þetta eru atriði sem þarf að laga og gera það í fullu samráði við íbúa.
Fram kemur að óánægja er meðal íbúa með skort á merkingum og mistúlkun á legu bílastæða í Úlfarsárdal. Má þar helst nefna Freyjubrunn og Sjafnarbrunn. Íbúaráð Grafarholts og Úlfarsárdals leggur til að bílastæði í borgarlandi sem liggja samhliða akbrautum verði merkt með málningu. Hvað stendur í vegi hjá skipulagsyfirvöldum að ganga í að lagfæra og fullklára þessi verk? Með þau óleyst skapast hætta á slysum.
Bókun Flokks fólksins við fundargerðr íbúaráðs Grafarvogs 21. september 2020:
Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir með íbúaráðinu í lið 2 þar sem fjallað er um skólamál í norðanverðum Grafarvogi. Þau mál voru ekki leyst nægjanlega vel. Sameining skólanna var of hröð og ekki séð nægjanlega til þess að allt væri verklega í lagi þegar sameinað var. Of lítið var um alvöru samráð. Til dæmis var foreldrum lofað þegar Korpuskóla var lokað að öryggi barna þeirra yrði að fullu tryggt. Það loforð hefur ekki verið efnt að fullu. Ennþá er t.d. vandamál með aðstæður við biðstöðina við Brúnastaði. Þarna er stærsti hópurinn á hverjum degi að bíða í einum hnapp. Börn á aldrinum 6-10 ára. Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á þetta enn og aftur og það áður en að slys verður. Eftir því sem upplýsingar berast er ekki verið að hægja á umferð á þessum stað, fyrir utan hvað skýlið stendur nærri götunni. Umferðin og hraðinn þarna er stórhættulegur og vekur furðu að ekki sé búið að ganga í betrumbætur.
Bókun Flokks fólksins við fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 28. ágúst 2020:
Undir 5. lið í fundargerð SORPU er talað um að rætt hafi verið um markaðsþróun vegna metans og moltu. Ekki er sagt frá stöðu sölu metans og ráðstöfun moltu. Enn og aftur er aðeins sagt frá hvað er rætt á fundi SORPU en ekki út á hvað umræðan gekk, niðurstöður? Erfitt er að sjá hver staðan er. Hvernig standa sem dæmi markaðsmál metans? Einnig má ætla að tafir við GAJU hafi kostað eitthvað, en hversu mikið ? Til að fundargerð gagnist fyrir aðra en þá sem sækja fundi þarf þetta að vera bitastæðara, innihaldsmeira. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður rætt þetta vandamál með fundargerðir SORPU. Minnt er á umræðuna m.a. á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga og niðurstöður Strategíu eftir langa og ítarlega vinnu með kjörnum fulltrúum og aðkomu þeirra að bs.-fyrirtækjum. Niðurstaðan var m.a. að bætta þyrfti aðgengi kjörinna fulltrúa að rekstri og áherslum byggðasamlaga. Eigendur og minnihlutafulltrúar eiga rétt á að fá upplýsingar um hvað fer fram í byggðasamlögum. Snautleg fundargerð eins og SORPU er ekki liður í átt að ríkari aðkomu neins, hvað þá meira gegnsæis.
Bókun Flokks fólksins við liðnum embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, liðr 2 og 3 er varða gjaldskrárhækkanir og viðmiðunarstundaskrá:
Liður 2
Fulltrúi Flokks fólksins vill taka undir í lið 3 í fundargerð stjórnar Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem fram kemur árétting afstöðu stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga að ótímabært og óskynsamlegt sé að hækka gjöld á íbúa að nauðsynjalausu við núverandi efnahagsástand. Því miður hefur Reykjavíkurborg hundsað þessi tilmæli. Nýlega var ákveðið að hækka fjölmargar gjaldskrár umtalsvert
Liður 3
Meirihluti skóla- og frístundaráðs hefur gagnrýnt drög menntamálaráðuneytis að breytingu á viðmiðunarstundaskrá í aðalnámskrá grunnskóla og þá sérstaklega niðurskurð á vali nemenda til að hægt sé að leggja meiri áherslu á m.a. íslensku og lestur. Hér er verið að reyna að bregðast við hríðversnandi árangri barna í lestri í grunnskólum Reykjavíkur. Lesskimun 2019 sýnir enn verri árangur. Tæp 61% nemenda les sér til gagns en rúm 39% geta það ekki. Þetta er verri útkoma en árið 2018 en þá gátu 65% stúlkna lesið sér til gagns og 64% drengja. Munar um 4 prósentustigum milli ára. Hlutfallið 2019 er það næstlægsta í sögu skimunar. Hringlandaháttur hefur verið með lestraraðferðir. Önnur, hljóðaaðferðin, er gagnreynd en árangur hinnar, Byrjendalæsis, er dregin í efa af ýmsum sérfræðingum vegna skorts á ritrýndum rannsóknum. Það er því ljóst að skóla- og frístundaráð/svið hefur ekki tekist að ná markmiðum sínum í lestrarkennslu
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölda greininga sem voru gerðar á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar árið 2019:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um fjölda greininga sem voru gerðar á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar árið 2019. Óskað er sundurliðunar eftir þjónustumiðstöðvum. Óskað er upplýsinga um fjölda tilvísana, viðtalsbeiðna og bráðamála árið 2019 skipt eftir þjónustumiðstöðvum. R20100005
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvaða sérstöku aðferðir/mælingar hafa verið notaðar til að mæla lesskilning nemenda:
Enda þótt nemendur kunni að vera ágætir í lesfimi (hraða og lestrarlagi) eru þeir ekki alltaf eða endilega með góðan lesskilning. Reykjavíkurborg nýtir sér aðferðir stefnumiðaðs árangursmats til að meta lesfimi og hafa það að markmiði að nemendur geti lesið sér til gagns við lok 2. bekkjar. Án þess að skilja eða meðtaka það sem lesið er, gagnast lestur lítið jafnvel þótt hægt sé að lesa hratt og fumlaust. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hvaða sérstöku aðferðir/mælingar hafa verið notaðar til að mæla lesskilning nemenda. R20100006
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um upplýsingar um hvað margir skólar nota gagnreynda lestrarkennsluaðferð:
Í ljósi versnandi árangurs barna í lestri sbr. lesskimun 2017, 2018 og 2019 óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir upplýsingum um hvað margir skólar nota gagnreynda lestrarkennsluaðferð. Miklar áhyggjur eru af hríðversnandi árangri barna í lestri í grunnskólum Reykjavíkur. Deilt hefur verið um tvær aðferðir við lestrarkennslu síðustu árin. Önnur (hljóðaaðferðin) er rótgróin aðferð, byggð á sannreyndum gögnum. Hin (byrjendalæsi) á rætur að rekja til ársins 2004 og hefur árangur hennar verið dregin í efa af ýmsum sérfræðingum Menntamálastofnunar. Engar ritrýndar, óháðar rannsóknir eru á bak við aðferðina. Skólastjórnendum er í sjálfsvald sett hvaða aðferð er notuð við kennsluna. Árið 2017 notaði helmingur skóla byrjendalæsi. Fulltrúa Flokks fólksins fýsir að vita hver staðan er nú. Reykjavíkurborg á ekki til gögn sem sýna samanburð á milli lesþróunar barna í skólum eftir námsaðferð. Nú liggur fyrir að ekki hefur tekist að kenna 33-39% barna að lesa sér til gagns eftir 2. bekk á tímabilinu 2002 til 2019, (67% gátu lesið sér til gagns 2002 og 61% árið 2019). R20100007
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvað margir læsisfræðingar starfa í leik- og grunnskólum Reykjavíkur:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvað margir læsisfræðingar starfa í leik- og grunnskólum Reykjavíkur. Læsisfræðingar eru þeir sem hafa lokið meistaragráðu í læsisfræðum við innlendan eða erlenda háskóla og eru því sérfræðingar á sviði náms og kennslu í læsi. Hlutverk læsisfræðinga er fjölbreytt. Læsisfræðingar eru án efa góð viðbót við flóru starfsfólks skóla. Þeir þekkja vel til á sviði rannsókna og vita hvaða kennsluaðferðir eru raunprófaðar og hafa sýnt árangur. Störf þeirra geta snúið að beinni kennslu nemenda í læsi, greiningum á lestrarvanda, eftirfylgni barna, ráðgjöf og stuðningi við kennara og foreldra auk aðkomu að stefnumótun varðandi læsiskennslu.
Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fá að sjá þessa reikninga Grant Thornton fyrir endurskoðunarverk við OR:
Í lið 7 í fundargerð endurskoðunarnefndar segir að rætt hafi verið um reikninga Grant Thornton fyrir endurskoðunarþjónustu við Orkuveitu Reykjavíkur. Endurskoðunarnefnd lagði fram bókun um að samþykkja skuli að fela formanni að ganga frá þessum málum í samræmi við umræður á fundinum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá að sjá þessa reikninga Grant Thornton fyrir endurskoðunarverk við OR og spyr hvar þá er hægt að finna. R20010018