Borgarráð 11. júní 2021

Bókun Flokks fólksins við tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 vegna endurskoðunar stefnu um íbúðabyggð og blandaða byggð og tæknilega uppfærslu aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, með lengingu skipulagstímabils til ársins 2040:  

Erfitt er að horfa upp á hvað gengið er á náttúru og lífríki til að þétta byggð t.d. með landfyllingaráformum m.a. við Elliðaárósa. Tillögur um mótvægisaðgerðir eru aumar. Að fylla fjörur er greinilega freistandi aðgerð til þéttingar en „þétt“ þýðir ekki endilega mannvænt og „þétt“ þýðir ekki endilega gæði eða hagkvæmni. Hreinsistöð Veitna við Klettagarða krefst t.d. landfyllinga nú og meira í framtíðinni. Eyðilegging á náttúru og skemmd á lífríki verður þegar sprengt verður fyrir Arnarnesvegi og Vatnsendahvarfið klofið, framkvæmd sem gagnast Kópavogi fyrst og fremst en sem mun leiða til mikillar aukningar á umferð á Breiðholtbraut. Þrengt er að þróun fyrirhugaðs Vetrargarðar. Bent hefur verið á að þétting byggðar leiði til dýrari íbúða en ella og samræmist það ekki stefnu um hagkvæmt húsnæði. Vakin er athygli á húsnæðisþörf fólks á aldri yfir 67 ára. Búa þarf til fleiri kjarna byggðar, sbr. Sléttuvegur, þar sem íbúðir njóta nálægðar við „þjónustusel“. Gengið er út frá því sem vísu að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri og yfir á Hólmsheiði. Er það ekki frekar bratt að ganga út frá því á þessum tímapunkti? Hér er ekki hægt að tala um nein tímamót enda rennt með margt blint í sjóinn og margt er mjög umdeilt.

 

Bókun Flokks fólksins við bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. júní 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 2. júní 2021 á tillögu að breytingum á leiðbeiningu hverfisskipulags um fjölgun íbúða:  

Skipulagsyfirvöld leggja fram tillögu um leiðbeiningar fyrir hverfisskipulag. Um framfarir er að ræða þegar stuðlað er að því að búa til fleiri íbúðir í grónum íbúðarhverfum, þar sem ekki þarf að raska innviðum. Um margar aðrar breytingar er ekki það sama að segja. Iðnaðarhúsnæði á ekki að breyta í íbúðir, nema þegar það svæði eigi að verða að íbúðarsvæði. Kvaðir ættu að vera í verslunar- og iðnaðarhúsnæði um að ekki megi vera þar með aðra starfsemi en sú sem upprunaleg er nema í undantekningartilfellum. Það er jákvætt að brugðist hafi verið við ýmsum athugasemdum íbúa og að kynning sé ítarleg. Einnig er tekið undir að mikilvægt er að unnið verði heildarskipulag fyrir Mjódd sem lykilsvæði til framtíðar.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. júní 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 2. júní á auglýsingu á tillögu að hverfisskipulagi Breiðholts, hverfi 6.1 Neðra Breiðholt:

Fulltrúi Flokks fólksins vill bóka um m.a. hverfiskjarnann í Arnarbakka. Til að styðja við hverfiskjarnann við Arnarbakka er mikilvægt að finna honum víðtækara hlutverk en honum er ætlað í dag. Þetta getur haft mikil áhrif á hvernig til tekst við endurlífgun hverfisins. Gatan á að verða borgargata en að gera Arnarbakkann að borgargötu fram hjá Breiðholtsskóla krefst mikilla breytinga á núverandi vegi. Það vantar í áætlunina. Samhliða hverfisskipulagi er unnið deiliskipulag fyrir verslunarlóðina í Arnarbakka 2-6 sem gerir ráð fyrir að núverandi hús séu fjarlægð og ný uppbygging heimiluð með verslunarrýmum á jarðhæðum að hluta og íbúðum á efri hæðum. Gert er ráð fyrir mikilli fjölgun íbúða. Heilmikil gagnrýni hefur komið fram um mikið aukið byggingarmagn á kostnað rýmis og grænna svæða. Heimilt er að reisa allt að 3 íbúðahæðir ofan á húsin. Gert er sem sé ráð fyrir lágum byggingum, en er það rétt stefna? Einmitt þetta svæði getur kannski tekið við hárri byggingu, svo sem áberandi turnbyggingu sem setja myndi mark á hverfið. Svæði sunnan við Arnarbakka, þar sem nú er opið svæði til sérstakra nota mætti t.d. koma á mörgum ólíkum íbúðabyggingum til að tryggja betur að um blandaða byggð verði að ræða en ekki einsleita.

 

Bókun Flokks fólksins við bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. júní 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 2. júní 2021 á auglýsingu á tillögu að hverfisskipulagi Breiðholts, hverfi 6.2 Seljahverfi:

Þegar horft er til Seljahverfisins er fókus Flokks fólksins á þeim skaða sem þar stendur fyrir dyrum að valda sem er að sprengja fyrir hraðbraut. Hraðbraut þvert yfir Vatnsendahvarf mun íþyngja Reykvíkingum mjög vegna aukinnar umferða sem það skapar á Breiðholtsbraut. Umhverfismatið er fjörgamalt. Margt hefur breyst. Umferðin á fyrsta áfanga Arnarnesvegar hefur nú þegar náð efri mörkum umferðar í matinu en samt á að tengja Salahverfi við Breiðholtsbraut með tilheyrandi stofnbrautarumferð. Í gögnum er reynt að skreyta málið, sagt fullum fetum að þessi framkvæmd muni ekki hafa neikvæð áhrif. Um þetta er efast. Það er ekki hægt að segja að hraðbraut sem liggur við fyrirhugaðan Vetrargarð muni ekki hafa áhrif. Hvað með þróunarmöguleika svæðisins, mengun og umferðarhávaða? Skipulagsyfirvöld í Reykjavík eru ekki að gæta hagsmuna borgarbúa í þessu máli heldur þjóna hagsmunum Kópavogsbúa. Skipulagsyfirvöld hefðu átt að berjast fyrir borgarbúa í þessu máli og krefjast nýs umhverfismats. Byggja á í Kópavogi 4.000 manna byggð efst á Vatnsendahvarfi næstu ár sem ekki hefur verið tekið með inn í reikninginn. Meirihlutinn hefur brugðist í þessu máli að berjast ekki fyrir að fá nýtt umhverfismat og ætla að bjóða börnum upp á að leika sér í Vetrargarði og á skíðum í hraðbrautarmengunarmekki.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. júní 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. júní 2021 á tillögu að hverfisskipulagi Breiðholts, hverfi 6.3 Efra Breiðholt:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst að víða megi gera breytingar og lagfæringar í Efra Breiðholti en hér er á að auka byggingarmagn gríðarlega og þá sem blokkir. Ekki verður mikið um blandaða byggð. Fækka á bílastæðum til muna í óþökk margra. Athugasemdir bárust um að torgið við Gerðuberg verði eflt. Gæta þarf að því að heimildir um aukið byggingarmagn valdi því ekki að afrennslisstuðull lóðar hækki heldur sé unnið á móti auknu byggingamagni með blágrænum ofanvatnslausnum innan lóðar sem því nemur. Víða í Breiðholti á að byggja hús með flötum þökum. Það á ekki að leyfa flöt þök þar sem ekki eru fyrir í skipulaginu. Með þessu er verið að ná einni viðbótarhæð, en nú einkennist byggðin af húsum með hallandi þaki. Ef horft er til stíga sem samgönguæðar þá eru margir núverandi stígar í Breiðholti að virka sem göngustígar en ekki sem hjólastígar og núverandi kerfi á ekki að festa í sessi. Markmiðið er að hjól og hlaupahjól verði kostur í samgöngum í Efra-Breiðholti. Þær fáu breytingar sem hafa verið gerðar á stígum eru ekki til bóta fyrir hjólreiðar. Kallað hefur eftir viðgerðum á gangstéttum í hverfinu og er það langalgengasta athugasemdin í þessum málaflokki sem skráð var á íbúafundi í hverfinu.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um dans- og fimleikahús með sölum fyrir dans, fimleika og aðra íþróttastarfsemi verði staðsett í hverfismiðjunni við Austurberg, samkvæmt tillögum að nýju hverfisskipulagi fyrir Efra-Breiðholt, sbr. meðfylgjandi minnisblað umhverfis- og skipulagssviðs og tillögu að hverfaskipulagi Breiðholts.

Fulltrúa Flokks fólksins finnst dans- og fimleikahús góð hugmynd enda þótt eigi eftir að útfæra hlutverk hússins. Það skýtur nokkuð skökku við að Leiknir skuli ekki koma þarna að en þeir hafa aðsetur í götunni sem húsið á að standa. Ef horft er til Leiknis þá hefur ekki komið nægjanlega vel fram við Leikni, félag sem berst í bökkum í hverfi sem er krefjandi vegna þess að þar er hæsta hlutfall fólks sem býr við fátækt. Illa hefur gengið að virkja börnin til þátttöku í íþróttir og tómstundir m.a. vegna tungumálaerfiðleika og kannski einnig vegna strangra skilyrða reglna frístundakortsins. Leiknir hefur lengi viljað víkka út starfsemi sína. Í raun lifir félagið vegna þrautseigju starfsmanna. Með því að hleypa ekki Leikni að þessu verkefni er verið að senda því köld skilaboð eftir allt það frábæra starf sem þar hefur verið frá 1973. Þarna er búið að byggja upp frábæra menningu og starf í þágu innflytjenda og nýbúa í hverfinu. Leiknir er sérlega vel metið í hverfinu og kallar það á að borgaryfirvöld sýni því viðhlítandi virðingu og stuðning. Félagið vantar aðstöðu til að geta boðið uppá fjölbreyttara íþróttastarf til að höfða til breiðari hóps barna í því blómstrandi fjölmenningarsamfélagi sem það starfar í.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 8. júní 2021, að borgarráð samþykki að þróa Vetrargarð í Breiðholti, fjölskylduvænt svæði fyrir iðkun vetraríþrótta þar sem einkum er horft til byrjenda og barna:

Þetta eru án efa athyglisverðar hugmyndir, gert er ráð fyrir þurrskíðabrekku og túbubraut nyrst á svæðinu sem nýtast allt árið og gönguskíðaleið ofan Seljahverfis. Fulltrúi Flokks fólksins hefur bent á að hraðbrautin frá Kópavogi og yfir í Breiðholtsbraut spillir þessum hugmyndum. Hvernig getur gönguskíðaleið legið ofan Seljahverfis? Vetrargarðurinn er skipulagður á horni gatnamóta tveggja stofnbrauta, sem verða með samtals 10 akreinar. Eins og 3. kafli Arnarnesvegar er skipulagður í dag verður hann 4 akreinar ásamt stóru hringtorgi og mun liggja alveg upp við topp Vetrargarðsins. Umhverfismatið sem vegaframkvæmdin er byggð á er frá 2003. Það verður að meta aftur hvaða áhrif þessi vegalagning mun hafa á Vetrargarðinn áður en farið er í frekari framkvæmdir. Það er ógn við lýðheilsu barna að þau séu að stunda áreynsluíþróttir við stórar stofnbrautir. Börnin verða að fá að njóta vafans. Þjónustubygging á að vera efst á hæðinni en þar er víðsýnt yfir borgina. Fulltrúi Flokks fólksins og Vinir Vatnsendahvarfs hafa talað um þennan stað sem einstakan útsýnisstað en hann er úr sögunni ef hraðbrautin verður lögð. Arnarnesvegur þrengir mjög að Vetrargarðinum og af honum mun hljótast hávaða-, sjón- og efnamengun sem fellur illa að stað þar sem margir koma saman, þar með fjölda barna.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að hefja undirbúning að hugmyndasamkeppni á nýjum þróunarreit í Efra-Breiðholti. Miðað er við að undirbúningur hefjist strax og að samkeppnin hefjist á haustmánuðum 2021:

Gott er að efna til samkeppni um slíka þróunarreiti, en óþarft er að taka fram að hús megi ekki vera hærri en 4-5 hæðir að hámarki. Þetta eru óþörf mörk og truflandi fyrir skapandi arkitekta og hönnuði. Meira máli skiptir hvernig húsin verða í laginu en hæðirnar sem slíkar. Það er stór munur t.d. á kassalaga húsum eða hvort efstu hæðirnar eru inndregnar. Aftur er bent á að áhrif húsa á vindstrengi er hægt að kanna í vindgöngum-líkantilraunum. Ef samkeppni er settar miklar skorður kemur það niður á hugmyndaauðgi hönnuða.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um breytingu á deiliskipulagi Steindórsreits vegna Hringbrautar 116/Sólvallagötu 77:

Steindórsreiturinn
Auka á byggingarmagn á efri hæðum sem hefur áhrif á skuggavarp. Með auknu byggingarmagni mun umferð aukast. Hvað varðar öryggisþáttinn þá hefur Hringbrautin mjög lengi verið ein af þeim götum þar sem gangandi og hjólandi vegfarendum er hætta búinn. Hringbraut er og verður alltaf mikil umferðargata.

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. júní 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við endurheimt votlendis og mótun lands í Úlfarsárdal. Kostnaðaráætlun 2 vegna 3. áfanga er 30 m.kr:

Það er meira en sjálfsagt að fjarlægja rusl og girðingar og fylla upp í gamla framræsluskurði. Að búa til tjarnir er annað mál og til að hámarka áhrif þeirra þurfa þær að vera það stórar að hægt sé að hafa í þeim hólma sem gæti verið griðastaður fyrir varpfugla og unga þeirra, en eins og vitað er ganga kettir lausir í borginni. Þá væri fyrst hægt að tala um að stuðlað væri að líffræðilegum fjölbreytileika. Það hugtak á ekki bara að vera frasi sem settur er fram í tíma og ótíma, án nokkurs innihalds. Í þessum tillögum er talað um að gera litlar tjarnir sem hjálpar fáum lífverum, alla vega ekki fuglum.

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. júní 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við grenndarstöðvar á árinu 2021. Kostnaðaráætlun 2 er 120 m.kr.

Óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir
við grenndarstöðvar á árinu 2021.
Kostnaðaráætlun 2 er 120 m.kr. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að mikilvægi grenndarstöðva vex og með meiri vitund um flokkun og endurvinnslu ætti að leggja áherslu á aðlaðandi grenndarstöðvar. Borgin ætti að stýra þessum ferlum að mestu en ekki láta Sorpu b.s. hafa úrslitaáhrif.

Bókun Flokks fólksins við drögum að áhættustefnu Reykjavíkurborgar. Einnig lögð fram drög að áhættustefnu Reykjavíkurborgar, dags. 8. júní 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þeim breytingum að framsetningin hefur verið gerð markvissari. Ekki á að líða sviksemi en hverjar eru afleiðingar ef einhver er uppvís um slíkt? Enda þótt sviksemi sé sviksemi þá er slíkt athæfi „mis“alvarlegt. Nú kemur fram að við endurskoðun eigendastefnu B-hluta félags verði sett inn frekari ákvæði um upplýsingagjöf til eigenda og aðkomu þeirra að áhættunefnd þess. Fyrir þessu hefur fulltrúi Flokks fólksins barist lengi og strax á fyrsta misseri þessa kjörtímabils lagði til að endurskoða bs-kerfi en það er ólýðræðislegt í þeirri mynd sem það er nú. Stefna af þessu tagi, sé hún gerð vel úr garði, er til að auka traust borgarbúa á kerfinu. Ekki dugar samt að hafa hana bara orð á blaði, ofan í skúffu. Ekki er ósennilegt að svona stefna/stjórnkerfi hefði nýst við fyrri ákvarðanir sem fóru úr böndunum, svo sem fjárhagslega – bragginn o.fl., en þá sofnuðu allir á verðinum og bruðl og óráðsía fékk að þrífast. Fulltrúi Flokks fólksins hefur vakið athygli á vísbendingum um að í ákveðnum verkefnum sé verið að sýsla með fjármagn með óábyrgum og léttúðugum hætti án þess að segja að grunur sé um nokkra sviksemi. Á þetta hefur ekki verið neitt hlustað.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi  íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 4. júní 2021. þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að gera samning við Farfugla ses. um fyrirkomulag vegna langtímastæða í Laugardal frá 1. júní 2021-1. júní 2022:

Til afgreiðslu er tillaga um að íþrótta- og tómstundasviði verði heimilað að gera samning við Farfugla vegna langtímastæða frá 1. júní 2021 til 1. júni 2022. Heyrst hefur að þetta hafi gengið vel síðasta ár. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessu gefið að leigjendur séu sáttir við samkomulagið.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi velferðarsviðs, dags. 8. júní 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um stjórnkerfis- og skipulagsbreytingar á velferðarsviði:

Fulltrúi Flokks fólksins styður við að kerfið verði einfaldað enda mikið völundarhús í þeirri mynd sem það er. Notendur hafa kvartað yfir að ná ekki sambandi og fá ekki þjónustu oft fyrr en illa og seint. Þjónustumiðstöðvar hafa virkað sem hindrun t.d. milli grunnskólabarna og sálfræðinga skólaþjónustu. Þjónustan þarf að vera aðgengilegri fyrir börnin og foreldra þeirra og starfsfólk skóla á einnig að hafa greiðan aðgang að fagfólki skólans. „Borgarbúinn“ hefur ekki verið í fyrsta sæti eins og sjá má af biðlistum en á þeim fjölgar með hverjum degi. Íslensk ungmenni sýna aukin þunglyndiseinkenni og segja andlega líðan sína verri í kórónuveirufaraldrinum en áður. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri íslenskri rannsókn sálfræðideildar HR og Rannsóknar og greiningar. Kannski er ekkert af þessu skrýtið ef horft er til þess að „fólk“ hefur ekki verið sett í fyrsta sæti. Skaðinn er skeður hjá mörgum, því miður því ástandið hefur varað allt of lengi. Bernskan verður ekki tafin frekar en nokkuð annað tímaskeið og fyrir sum börn verður skaðinn aldrei bættur. Það þarf að gera grundvallarbreytingar á skipulagi velferðarsviðs. En það kostar meira fjármagn, samþættingu þjónustu, samhæfingu, samstarf við aðrar stofnanir, einföldun ferla, minni yfirbyggingu, skýr markmið og árangursmælingar.

Bókun Flokks fólksins við bréfi velferðarsviðs. dags. 8. júní 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um velferðarstefnu Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum. R21040016

Lögð eru fram drög að tillögum stýrihóps um mótun velferðarstefnu. Hefðu þessi mál verið í forgangi hjá þessum og síðasta meirihluta væri stefna af þessu tagi komin í innleiðingu. Dýrmætur tími hefur tapast sem bitnar á þjónustuþegum. Áætlaður kostnaður við framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar er um 350 m.kr. en endanlegt kostnaðarmat er ekki tilbúið fyrr en í október. Þetta er ekki há upphæð ef samanborið við 10 milljarða sem ráðstafað er í stafræna umbreytingu, fjármagn sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur sýslað með af „léttúð“. Þessar upphæðir segja allt um hver forgangsröðunin er hjá þessum meirihluta. Ósennilegt er hvort eitthvað af þessum annars mörgu ágætu tillögum verða komnar í virkni fyrr en á næsta kjörtímabili. Innleiðingar hafa ekki verið útfærðar. Meðal markmiða eru sjálfsagðir hlutir eins og að allir lifi með reisn. Stór hópur fólks er í aðstæðum þar sem erfitt er að lifa með nokkurri reisn. Nú bíða 1068 börn eftir fagþjónustu skólanna. Eftir stuðningsþjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra bíða 342 og 804 eftir húsnæði. Fólki og ekki síst börnum er mismunað eftir því í hvaða hverfi það býr. Ekki stendur til að færa sálfræðingana inn í skólana sem er miður. Of mikil áhersla er á frumvarp, „farsældarfrumvarp“ sem ekki er orðið að veruleika.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi velferðarsviðs, dags. 8. júní 2021, sbr. samþykkt sameiginlegs fundar skóla- og frístundaráðs og velfarráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um innleiðingu verkefnisins Betri borg fyrir börn, ásamt fylgiskjölum:

Ein af tillögum stýrihóps er að verkefnið Betri borg fyrir börn verði innleitt um alla Reykjavíkurborg. Óskað er eftir 140 milljóna króna fjárframlagi frá borgarráði til að taka á biðlistum. Fulltrúi Flokks fólksins telur að mun meiri innspýtingu fjármagns þurfi en hér er lagt til ef takast á að sinna öllum þessum börnum svo vel sé. Þetta er ekki há upphæð ef samanborið við 10 milljarða sem ráðstafað er í stafræna umbreytingu, fjármagn sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur sýslað með af „léttúð“. Þessar upphæðir segja allt um hver forgangsröðunin er hjá þessum meirihluta. Fyrstu tillögur Flokks fólksins að taka á biðlistum komu strax á fyrsta misseri þessa kjörtímabils. Dýrmætur tími hefur tapast sem bitnar á þjónustuþegum. Nú bíða 1068 börn eftir fagþjónustu skólanna. Börnum er mismunað eftir því í hvaða hverfi þau búa. Ekki stendur til að færa sálfræðingana inn í skólana sem er miður. Íslensk ungmenni sýna aukin þunglyndiseinkenni og segja andlega líðan sína verri í kórónuveirufaraldrinum en áður. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri íslenskri rannsókn sálfræðideildar HR og Rannsóknar og greiningar. Kannski er ekkert af þessu skrýtið ef horft er til þess að „börn“ hefur ekki verið sett í fyrsta sæti.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi velferðarsviðs, dags. 8. júní 2021, sbr. samþykkt sameiginlegs fundar skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um úthlutun fjármagns á grundvelli lýðfræði, ásamt fylgiskjölum:

Nota á ákveðinn stuðul (e. Learning opportunites index – LOI) til að sjá betur hverjir þurfa snemmtækan stuðning. Að veita snemmtæka íhlutun ef barn á í vanda eru mannréttindi að mati Flokks fólksins. Börn eiga ávallt að fá snemmtæka íhlutun en einnig að fá nauðsynlegar greiningar sem kennarar og foreldrar ásamt fagaðilum hafa sammælst um að barn þurfi. Vel kann að vera að þessi meirihluti telji að með því að draga úr greiningum sé verið að spara mikinn pening. Svo er ekki. Ef barn er að fá ranga meðhöndlun og meðferð við sínum vanda því ekki hefur verið skoðað með gagnreyndum aðferðum hver sé grunnvandinn er verið að taka áhættu með líðan barnsins og það á eftir að kosta. Með því að fá upplýsingar frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis (4 ára skoðun barns) er hægt að sjá strax hvort barnið glími við vanda eða vísbendingar þar um. Því miður er ekki samræmd samvinna milli skóla og Heilsugæslu og hvergi er minnst á slíkt samráð í þeim tillögum sem hér eru lagðar á borð. Flótti frá greiningum þessa meirihluta til að spara fé vekur ugg og má telja víst að einhver hópur barna eiga eftir að líða fyrir að lokað er fyrir nauðsynlegan sveigjanleika í þessum efnum.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi velferðarsviðs, dags. 8. júní 2021, sbr. samþykkt sameiginlegs fundar skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um rafvæðingu umsóknarferlis skólaþjónustu og endurskoðun verklags út frá notendamiðaðri hönnun:

Fulltrúi Flokks fólksins styður að farið sé í þessa vinnu, en að það verði gert með skynsömum hætti og af ábyrgu fólki. Sviðin sjálf vita best hvað þau þurfa og hlýtur vinnan að þurfa að fara fram innan þeirra. Víða er kominn grunnur að snjalllausnum sem sjá má í öðrum stofnunum. Gríðarmiklu fjármagni hefur nú þegar verið veitt í stafræna umbreytingu og lítið ber á afrakstri eða afurðum. Fjármagni hefur verið eytt í tilraunir sem litlu hafa skilað enn sem komið er. Þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur sýslað með marga milljarða af lausung. Eftir á að koma í ljós hvort og þá hvenær þær afurðir verða komnar í virkni sem væntingar standa til. Öll höfum við sameiginleg markmið sem er að auðvelda aðgengi skóla og foreldra að skólaþjónustu og að einfalda samskipti bæði skóla og foreldra barna við skólaþjónustu. Forgangurinn hlýtur þó ávallt að vera sá að byrja á því að sinna börnunum sem beðið hafa á biðlistum jafnvel mánuðum saman. Í það þarf að setja fjármagn fyrst og fremst.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi velferðarsviðs, dags. 8. júní 2021, sbr. samþykkt sameiginlegs fundar skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um innleiðingu árangursmats á sértækum stuðningi við börn og fjölskyldur:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis rætt um að nauðsynlegt sé að gera árangursmælingar á sérkennslu. Í sérkennslu eru um 30% af grunnskólabörnum en ekki er vitað um árangur. Börn kunna einnig að vera að fá mismunandi þjónustu eftir því hvar þau búa. Alltof langur tími hefur farið hjá þessum meirihluta í að koma því á blað að mæla þarf árangur. Sérkennarar eru ofhlaðnir og undir miklu álagi. Í þeirra hópi eru börn ekki aðeins með námserfiðleika af ýmsu tagi og á ýmsum stigum heldur einnig með hegðunarvanda/raskanir. Þetta tvennt fer vissulega stundum saman en alls ekki alltaf. Barn sem ekki fær viðeigandi aðstoð við vanda sínum tapar fljótlega sjálfstrausti sínu og sjálfsöryggi og þá aukast líkur þess að birtingarmyndir þess sýni sig í hegðun og atferli. Annað áhyggjuefni er læsi barna og lesskilningur en eins og ítrekað kemur fram í könnunum er stór hópur barna sem útskrifast úr grunnskóla sem ekki lesa sér til gagn né gamans. Þessi hópur hefur farið stækkandi með hverju ári. Löngu tímabært er að meta með kerfisbundnum hætti árangur með reglulegum hlutlægum mælingum til að greina hvort stuðningur hafi leitt til bættrar stöðu barna og ef ekki, að greina og innleiða helstu tækifæri til úrbóta.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi  velferðarsviðs, dags. 8. júní 2021, sbr. samþykkt sameiginlegs fundar skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um verkefnisstjórn undirbúnings aðgerða vegna nýrrar löggjafar um farsæld barna:

Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á að þetta frumvarp er bara frumvarp sem ekkert er víst að verði að lögum. Finna þarf fjármagn í það sem ekki er enn séð hvar ríkisstjórnin ætlar að taka ef marka má umræður t.d. úr fréttum. Hafa skal í huga að ekki fannst nægt fjármagn hjá þessari ríkisstjórn til að niðurgreiða sálfræðiþjónustu til framtíðar jafnvel þótt allir væru sammála um að gera það Reykjavíkurborg verður að taka ábyrgð á sínum börnum, grunnskólabörnum sem eru alfarið sveitarfélagsins að sinna. Ef engir biðlistar væru, þá myndi vandi barna ekki ná að vefja upp á sig. Það að bíða lengi eftir nauðsynlegri aðstoð, með eða án greiningu gerir það að verkum að vandinn verður sífellt stærri. Fulltrúi Flokks fólksins vill spyrja að leikslokum og sjá þetta farsældarfrumvarp verða fyrst að veruleika áður en hlaupið er upp til handa og fóta og halda að mikið sé að gerast ríkisins megin. Meira fjármagn þarf til málaflokksins, ráða fagaðila og bretta upp ermar. Best væri ef sá hluti sem snýr að velferð grunnskólabarna heyri undir skóla- og frístundaráð eins og fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi  skóla- og frístundasviðs, dags. 8. júní 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um viðmið um fjölda reykvískra barna sem greitt er fyrir í Arnarskóla:

Nú leggur skóla- og frístundasvið það til að borgarráð samþykki að hámarksfjöldi nemenda í Arnarskóla verði 11 árið 2021 til 2022 og er það fjölgun um 4. Lokað er á sama tíma fyrir að greitt verði framlag fyrir fleiri. Fulltrúa Flokks fólksins finnst kannski ekki alveg hægt að loka fyrir umsóknir með svo stífum hætti. Það gæti komið umsókn nemanda sem er afar brýnt að fá skoðun og samþykki í Arnarskóla. Þetta er vissulega dýrt úrræði fyrir borgina sem styður tillögu fulltrúa Flokks fólksins að Reykjavíkurborg þyrfti að eiga og reka sambærilegt úrræði. Þegar horft er til reglna skiptir mestu að þær séu sanngjarnar og sveigjanlegar. Hagsmuni barns skal ávallt hafa að leiðarljósi og að í reglunum ætti að felast ákveðinn sveigjanleiki og tillitssemi gagnvart foreldrunum.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu á trúnaðarmerktum niðurstöðum á sálfélagslegu áhættumati og mati á starfsumhverfi starfsfólks sem starfar á vettvangi borgarráðs:

Til kynningar er niðurstaða á sálfélagslegu áhættumati og mati á starfsumhverfi starfsfólks sem starfar á vettvangi borgarráðs. Þrátt fyrir ítrekaða beiðni að fá kynninguna með útsendum gögnum tókst ekki að verða við því. Það vakti hins vegar athygli að starfsmaður mannauðsskrifstofu vísaði í þessa könnun í fjölmiðlum í gær, í persónulegum tilgangi, áður en búið var að kynna hana fyrir borgarráðsfulltrúum. Fulltrúi Flokks fólksins trúir ekki að það sé samþykkjanlegt að nýta aðstöðu sína með þessum hætti og ræða niðurstöður á trúnaðarmerktu gagni með persónugreinanlegum hætti í fjölmiðlum áður en gagnið er kynnt borgarráði. Gilda kannski önnur lögmál um embættismenn?

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 8. júní 2021 um að skipaður verði viðræðuhópur við Hjallastefnuna. Haft verði samráð við Óla Jón Hertervig skrifstofustjóra eignaskrifstofu og Ebbu Schram borgarlögmann, eftir því sem tilefni er til:

Hjallastefnan óskar hér með eftir viðræðum við Reykjavíkurborg um framtíð Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík. Jafnframt er óskað viðræðna um staðsetningu og aðstöðu fyrir leikskólann Öskju. Báðir skólarnir eru starfræktir á Nauthólsvegi 87 og missa þá aðstöðu að næsta skólaári loknu. Forsvarsfólk Hjallastefnunnar óskar eftir að flytjast í húsnæði sem borgin áformar að rísi á lóðinni nr. 81 við Nauthólsveg og að grunn- og leikskóli Hjallastefnunnar verði þar. Hugsanlega væri hægt að nýta núverandi byggingar skólanna í Öskjuhlíðinni og flýta þannig fyrir opnun skóla sem mikil þörf er fyrir. Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á mikilvægi þess að fulltrúar barna í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík/Öskju taki sæti í viðræðuhópinum. Hver verður kjarni umræðunnar í hópinum? Málefni skólans eru í óvissu og óvissa er aldrei góð. Húsnæðið er aðeins tryggt í eitt ár í viðbót. Fulltrúa Flokks fólksins finnst Hjallastefnuskólar og leikskólar mikilvægir og vonar að málin lendi á besta veg fyrir börnin sem þar stunda nám og hversu mikið hagsmunamál það er að framtíð þeirra verði tryggð.

 

Bókun Flokks fólksins við svari umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. júní 2021 við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um deiliskipulag fyrir grenndarstöðvar við Arnarbakka í Breiðholti, sbr. 46. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. janúar 2020:

Fyrirspurnin um deiliskipulag fyrir grenndarstöðvar við Arnarbakka í Breiðholti var lögð fram af fulltrúa Flokks fólksins fyrir meira en ári síðan. Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið og tekur afsökunarbeiðni vegna seins svars til greina. Það er rétt, grenndarstöðin var endurgerð og lítur mun betur út. Það þarf aftur á móti að sinna þessum gámum mun betur. Umgengi við gáma er slæm.

 

Bókun Flokks fólksins við skýrslu  stýrihóps um Elliðaárdal, dags. 7. júní 2021:

Í þessari skýrslu er ekki tekin skýr afstaða til stíflunnar. Hún er friðuð, hún hefur verið varanlega tæmd og fyrir liggur að OR er hætt raforkuframleiðslu í Elliðaám. Hvort stíflan fari eða veri og veri hún, hvort þá verði gert eitthvað með hana er allt opið eftir því sem fram kemur í skýrslunni. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því sem fram kemur að nauðsynlegt er að hafa enn viðameira samráð og við fleiri en áður til að komast hjá óþarfa árekstrum. Tryggja verður alvöru samtal, samráð og upplýsingaflæði á meðal lykilaðila, íbúa og áhugafólks um dalinn. Það er afstaða fulltrúa Flokks fólksins að varðveita náttúru eins og hægt er. Því miður hefur verið gengið freklega á græn svæði, fjörur og aðra náttúru í borgarlandinu. Nú þegar er Elliðaárdalurinn heilmikið mótaður af mönnum og náttúran hefur vikið. Skoðun fulltrúa Fulltrúa Flokks fólksins er að náttúran eigi að njóta vafans og unnið verði að því að Elliðaárnar renni eins og áður en þær voru virkjaðar. Ef heldur sem horfir með þá stefnu sem meirihlutinn rekur þá mun að lokum hvergi finnast ósnortin náttúra lengur í borgarlandinu.


Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 9. júní 2021, undir 2. lið fundargerðarinnar:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar hverju einasta bílastæði sem samþykkt er fyrir hreyfihamlaða og vonar að ákvörðun um þessi stæði hafi verið tekin í samráði við hagsmunasamtök fatlaðra. Þessi málaflokkur hefur orðið undir hjá meirihlutanum í borginni og við ákvörðun að loka fyrir umferð bíla og gera göngugötur þá má segja að fatlaðir og þeir sem eiga erfitt um gang hafa verið skildir eftir úti í kuldanum. Almennt er aðgengismál fatlaðra í miðbænum erfiðleikum háð og er í raun kapítuli út af fyrir sig. Því miður er það þannig að margir fatlaðir finna sig ekki lengur velkomin í bæinn og fara ekki þangað nema tilneyddir. Liður 15. Fulltrúi Flokks fólksins vill endilega fjarlægja járnslár á hjólreiðastígum. Ekki er liðinn nema einn fundur síðar Fulltrúi flokks fólksins nefndi í bókun að járnslár á göngu- og hjólastígum þurfi að fjarlægja enda skapa þær hættur fyrir hjólreiðamenn og einnig þá sem koma á öðrum farartækjum eða styðjast við hjálpartæki eins og hjólastóla. Það er því ánægjulegt að vel var tekið í að hafa þessa tillögu sem sameiginlega tillögu skipulags- og samgönguráðs alls.

 

Bókun Flokks fólksins við  við bréfi skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 12 mál:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir efni bréfs Sambands íslenskra sveitarfélaga, varðandi forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Efni bréfsins tengist tillögu fulltrúa Flokks fólksins sem var nýlega vísað frá í borgarstjórn. Flokkur fólksins lagði til að borgarstjórn samþykkti að veita auknu fjármagni til skólanna, þ.e. kennara og starfsfólks frístundaheimila og Ráðgjafateymis um kynferðisofbeldi í skóla- og frístundastarfi (Jafnréttisskólans) til að efla fræðslu og forvarnir grunnskólabarna um skaðsemi og afleiðingar klámáhorfs. Þetta var lagt til í ljósi niðurstaðna könnunar um klám og klámáhorf grunnskólabarna sem Rannsókn og greining birti í febrúar 2021. Niðurstöður sýna að um 30% stúlkna í 10. bekk hafa sent af sér ögrandi myndir eða nektarmyndir og um 6% hafa selt slíkar myndir. Um 24% stráka í 10. bekk hafa verið beðin um að senda slíka mynd og 15% hafa gert slíkt. Styðja þarf jafnframt við bakið á samtökum s.s. Heimili og skóla (Landssamtök foreldra) sem reka einnig SAFT og Samfok. Markmiðið er að veita foreldrum fræðslu og stuðning. Allir þurfa að taka höndum saman með það að markmiði að stuðla að vitundarvakningu og styrkja foreldra til að setja börnum sínum viðeigandi reglur og fylgjast með net- og tölvunotkun barnanna.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn af hverju borgin komi ekki fleirum hjúkrunarheimilum á laggirnar fyrir þá borgarbúa sem geta ekki lengur búið heima:

Borgin rekur tvö hjúkrunarheimili. Nú er gríðarlegur skortur á plássi á hjúkrunarheimilum. Fulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju borgin komi ekki fleirum hjúkrunarheimilum á laggirnar fyrir þá borgarbúa sem geta ekki lengur búið heima. Alvarlegur skortur er á hjúkrunarrýmum fyrir eldri borgara. Reykjavíkurborg getur ekki skorast hér undan, þótt málið sé á vegum ríkisins. Nýja samninga má gera. Það er þyngra en tárum taki það aðstöðuleysi og skortur á hjúkrunarheimilum sem er núna. Rúmlega hundrað manns liggja á Landspítalanum af því að ekki er hægt að útskrifa þau. Reykjavíkurborg á og rekur tvö hjúkrunarheimili, Droplaugarstaði og Seljahlíð. Sólarhringsþjónusta er á báðum stöðum. Ekkert er því til fyrirstöðu að bæta við fleiri hjúkrunarheimilum. R21060109

Vísað til meðferðar velferðarráðs.