Bókun Flokks fólksins Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, íbúðarbyggð og blönduð byggð 2040, breyting á aðalskipulagi:
Fram kemur í gögnum að reynt verði að setja ,,fyrstu kaupendur“ -ungt fólk- í forgang við uppbyggingu húsnæðis við borgarlínuna. En þeir geta auðvitað selt eign sína. Ætlar borgin að skipta sér af því? Eru ekki allar íbúðir á opnum markaði? Í umhverfisskýrslu segir frá fjörufyllingum en fulltrúi Flokks fólksins leggur áherslu á að friða fjörur í stað þess að notast við landfyllingu þegar eitthvað á að gera við ströndina. Hjólastígar: Lítið þýðir að tala um hjólastíga sem samgönguæð ef þeim er ekki haldið við og vetrarþjónustu sinnt. Hugtakið líffræðileg fjölbreytni er misnotað í skýrslunni. Líf í einstökum beðum eða “grænum trefli” hefur ekkert með líffræðilega fjölbreytni að gera. Í Skýrslunni er hins vegar gert lítið úr áhrifum af stórfelldum landfyllingum við ósa Elliðaánna. Kolefnisspor: Í umhverfisskýrslunni segir:“Vistferilsgreiningar unnar hjá VSÓ Ráðgjöf sýna að kolefnisspor bygginga lækkar um 40% með því að velja timbur í stað steinsteypu” Er þetta ekki einföldun? Steinsteypa endist í áraraðir, en timburbyggingar endast ekki lengi í röku loftslagi nema að þær verði fúavarðar. Til þess þarf eiturefni og þau þarf að taka með í reikninginn. Ef á að kolefnisjafna er hægt að rækta skóg á óbyggðum austursvæðum. Planta mætti langleiðina upp í Bláfjöll og Hengil.
Bókun Flokks fólksins við drögum að tillögu og umhverfisskýrsla ásamt verk- og matslýsingu:
Ekki allir geta búið við borgarlínustöðvarnar þótt þétta eigi byggð þar hvað mest. Samt er, í skýrslunni, sem lögð er fram hér gert ráð fyrir að helmingur ferða borgarbúa 2050 verði með almenningssamgöngum. Þessu er sennilega ómögulegt að spá fyrir um. Gera þarf ráð fyrir stæði við borgarlínustöðvar þar sem fólk getur geymt bíla sína og önnur farartæki ætli það sér að nota borgarlínu. Hagkvæmt kann að vera að gera gott brauta- og stígakerfi fyrir önnur samgöngutæki og samtengja við borgarlínukerfið og bjóða upp á að lítil einstaklingsfarartæki megi flytja með borgarlínuvögnum. Tryggja þarf að allir sem vilja geti komist auðveldlega að borgarlínustöðvum. Af öðru, það hljómar sérkennilega þegar talað er um hágæðakerfi vs. gæðakerfi án þess að tíundaður sé hver munurinn er nákvæmlega. Hvað kostar hágæðakerfi í samanburði við gæðakerfi og hvað er fengið meira með hágæðakerfi sem réttlætir aukinn kostnað? Við erum varla að byggja upp kerfi sem er t.d. sambærilegt við ,,metro” kerfi í Kaupmannahöfn? Borgarlína er b.s. (byggðasamlög) verkefni með öllum göllum þess kerfis og Reykjavík þarf að gæta sín í slíku kerfi. Ástæðan, hlutur borgarinnar er rýr í stjórnun en rík í fjárhagslegri ábyrgð. Sporin hræða.
Bókun Flokks fólksins við tillögu umhverfis- og skipulagssviðs dags. í júní 2020, síðast uppfærð 11. desember 2020 að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Tillögunni fylgir umhverfisskýrsla:
Enn á að landfylla og því ætti að hætta. Þótt hér sé um lítinn hluta af strandlengjunni að ræða þá er enn og aftur minnt á, með hliðsjón af samlegðaráhrifum, að að búið er að skerða mikinn hluta fjörusvæða á höfuðborgarsvæðinu þ.m.t. í nágrenni fyrirhugaðrar landfyllingar. HER bendir einnig á að þar sem fyrirhuguð landfylling liggur að verndarsvæðum auk þess sem fyrirhugað er að friðlýsa Skerjafjörð í heild sinni þarf að gæta vel að áhrifum á lífríki og gæta þess að áhrif á strauma og setflutninga sé í lágmarki.” Ætla skipulagsyfirvöld að taka mark á þessari umsögn? Heilbrigðisnefnd bendir jafnframt á í skýrslu sinni að við flutning staðsetningar á grunnskóla og meðfylgjandi lóð er farið nær því svæði sem staðfest hefur verið að er olíumengun í jarðvegi. Huga þarf að því að strangari kröfur þarf að gera til hreinsunar og jarðvegsskipta þegar um er að ræða starfsemi fyrir börn. Gera þarf ráð fyrir slíkum ströngum skilyrðum í skipulagsskilmálum.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að lækka hámarkshraða við Korpúlfsstaðaveg:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að lækkaður verði hámarkshraði við Korpúlfsstaðaveg og að farið verði í að skoða hraðann við stoppistöð milli Brúnastaða og Bakkastaða. Þar er lýsing nánast engin, hraðinn mikill, merkingar nánast engar og þarna er stærsti hópurinn af yngsta stigi að taka skólarútuna á hverjum morgni og koma svo aftur seinni partinn heim. Báðar tímasetningar eru á háanna tíma og þegar umferðin er sem mest og birtan sem minnst. Mælingar sem borgin gerði sl haust til þess að skoða eðli umferðarinnar á veginum voru villandi að mati íbúa. Mælingarnar voru gerða milli Brúnastaða og Garðsstaða þar sem hraðahindranir eru fyrir og merktar gangbrautir. Skoða þarf þessi mál betur og endurtaka mælingar sem og mæla á fleiri stöðum. Skoða þarf eðli umferðarinnar þegar strætó og eða skólarúta stoppar þarna. Framúrakstur er algengur þrátt fyrir litla „eyju“ milli akreina sem eykur enn hættuna.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.
Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um að lýsa upp aðkomu að SORPU í Jafnaseli:
Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um betri lýsingu á aðkomuleið að Sorpu Jafnaseli er felld. Þarna er kolniðamyrkur þegar dimmt er orðið og afar óaðlaðandi aðkoma. Rökin eru þau að verkefnið sé ekki rétt forgangsröðun fjármuna. Kannski ekki en vel má segja að margt sem skipulagsyfirvöld setja í forgang finnst öðrum ekki vera forgangsmál. Um forgang má sannarlega deila. Það er dimmt meirihluta árs og koldimmt um 5 mánuði. Ef fólk veit ekki hvar aðkomuleið að Sorpu er, er erfitt að finna hana og þessi stutta leiði frá beygju og að inngangi er niðdimm. Þarna þyrfti ekki mikið til ef vilji væri til að bæta úr t.d. að setja upp 1-2 ljósastaura sem er varla dropi í hafið ef horft er til milljarða sem skipulagsyfirvöld setja í utanaðkomandi ráðgjöf af ýmsu tagi við nánast hvert einasta verkefni sem skipulagsyfirvöld ákveða að framkvæma.
Tillagan er felld. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.