Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 7. október 2024, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 3. október 2024 á breytingum á reglum fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu
Flokkur fólksins fagnar því að loksins sé verið að bregðast við áliti umboðsmanns Alþingis um að Reykjavíkurborg beri að breyta gjaldskrám fyrir sameiginlega akstursþjónustu fyrir fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu. Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg bæri að bjóða upp á gjaldskrá sambærilega og gjaldskrá í almenningssamgöngum. Því miður náðist ekki samstaða í velferðarráði innan meirihlutans um að ákveða sjálfa gjaldskrána þannig að hér er eingöngu verið að viðurkenna álit umboðsmanns Alþingis um að breyta þurfi gjaldskrám. Velferðarsvið lagði fram tillögu að gjaldskrá um að allur akstur fatlaðra barna bæði leik og grunnskólabarna til 16 ára aldurs skuli verða gjaldfrjáls. Flokkur fólksins lagði áherslu á að þessi tillaga næði fram að ganga enda mikið réttlætismál hjá þessum viðkvæma hópi. Mikil óvissa ríkir í þessu máli.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram viljayfirlýsing á milli Reykjavíkurborgar, heilbrigðisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, innviðaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, Landspítala, Landhelgisgæslu og stýrihóps um skipulag framkvæmda við Landspítala um deiliskipulag annars áfanga uppbygingar Landspítalans og samstarf um lendingarstað fyrir björgunarþyrlur í Nauthólsvík. MSS24010082
Við lestur þessarar viljayfirlýsingar virðist vera tregða við að hafa góðan þyrlupall við nýjan Landspítala. Fulltrúi Flokks fólksins á bágt með að skilja þá tregðu að hafa góðan þyrlupall á eða beint við nýjan Landspítala. Kallað er eftir skýringum. Það er mikilvægt að gera ráð fyrir því að þyrla með bráðveikan eða slasaðan sjúkling geti lent á eða beint við nýjan Landspítala til að forðast óþarfa tafir og áhættu. Samkvæmt starfandi þyrlulæknum þá tekur það í dag 3-5 mínútur að koma sjúklingi úr þyrlu og inn á bráðamóttöku í Fossvogi og telst það eðlilegt verklag. Aftur á móti er miðgildi 28 mínútur frá lendingu þyrlu á Reykjavíkurflugvelli þar til komið er á Hringbraut. Munurinn er þannig 23-25 mínútur sem minnkar kannski í 15-20 mínútur með tilkomu borgarlínubrautar úr Nauthólsvík á NLSH. Slík töf og flutningur sjúklinga milli farartækja skapar mög vel þekkta áhættu og getur ekki talist æskilegt verklag og ber ekki að stuðla að slíku. Allir fagaðilar telja að töf á flutningi mikið veikra sjúklinga geti skipt sköpum fyrir þá. Bent hefur t.d. verið á af læknum að tafir geti orðið á komu hjartasjúklinga á leið í bráðaaðgerð, vanti þyrlupall.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. október 2024, sbr. samþykkt borgarstjórnar frá 1. október 2024 um að vísa tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um aukið framboð lóða til uppbyggingar til meðferðar borgarráðs:
Flokkur fólksins fagnar því að vísa eigi tillögunni til umsagnar aðila sem hafa með málið að gera s.s. Svæðisskipulagsnefndar SSH og HMS. Flokkur fólksins hefur lengi talað fyrir því að brjóta þurfi nýtt land undir byggð. Það hefur verið hangið of stíft í þéttingarstefnunni til að geta sett sem flesta í kringum framtíðar borgarlínu. Þétting byggðar var vissulega nauðsynleg á ýmsum stöðum í borginni en vandinn er meiri en svo að þétting í hverfum dugi til. Reykjavíkurborg hefur aldrei haldið í við þörfina eftir íbúðarhúsnæði og lengi var stöðnun. Þetta hefur leitt til óstöðugleika þar sem hækkun húsnæðisverðs veldur verðbólgu og leiðir til hærra vaxtastigs. Borgin hefur legið á lóðum til einstaklinga og smærri hópa sem vilja byggja sjálfir yfir sig og sína. Hræðslan við að borgin dreifist hefur tálmað byggingaframkvæmdir. Skapa þarf einnig betri skilyrði til uppbyggingar. Nú eru vísbendingar um samdrátt í verkefnum meðal arkitekta og verkfræðinga. Hvernig sem á þetta mál er litið, hvort sem byggja á íbúðir til kaups eða leigu, þá hefur lóðaskortur heft íbúðauppbyggingu.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 7. október 2024. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúi Flokks fólksins harmar hversu illa tókst til hjá borgarstjóra við kynningu á þéttingarhugmyndum í Grafarvogi. Byrjað var á öfugum enda. Í fundargerð má sjá bókun frá stjórn íbúasamtaka Grafarvogs sem harma þær þéttingatillögur í Grafarvogshverfi sem borgarstjóri kynnti lauslega í fjölmiðlum þann 26. júní sl. og eru núna loksins til sýnis og kynningar í Borgarbókasafninu í Spönginni. Ljóst er að ekkert samráð hefur verið við íbúa hverfisins, íbúasamtökin eða íbúaráð varðandi þessar þéttingahugmyndir sem hafa farið illa í íbúa. Íbúasamtökin skora á borgarstjóra að draga þessar hugmyndir til baka og efla samráð við íbúa varðandi öll slík mál í framtíðinni. Eftir umræddan fund var allt kynningarefni rifið niður og hefur Flokkur fólksins lagt fram fyrirspurn um málið sem ekki hefur borist svar við. Hún er eftirfarandi: Eftir íbúafundinn í Grafarvogi 7. október sl. höfðu verið sett upp plaköt, uppdrættir og myndir sem nú hafa verið rifin niður. Margir áttu eftir að skoða þetta betur og fresturinn til að skila inn athugasemdum er til 15. október. Er vitað hverjir tóku þetta niður? Geta íbúar skoðað þetta efni á vefnum eða annars staðar? Í skipulagsgáttinni, í aðalskipulaginu?
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 9. október 2024. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. og 4. lið fundargerðarinnar:
Liður 1
Fyrir liggur umsögn borgarlögmanns. Í raun má segja að óþarfi hafi verið að biðja um þessa umsögn sem hefur haft þær einu afleiðingar að málið hefur tafist. Niðurstaða borgarlögmanns er sú sama og var í svari ráðuneytisins um málið sem er að að lögin skilgreina ekki hvaða fulltrúar skuli eiga sæti í ráðinu, einungis að það skuli vera að lágmarki þrír fulltrúar félaga sem gæta hagsmuna eldra fólks í sveitarfélaginu. Sjálfsagt er að tryggja aðkomu fleiri félagasamtaka sem annast hagsmunagæslu fyrir eldra fólk við borð öldungaráðs. Fulltrúi Flokks fólksins vill að sætum fulltrúa verði fjölgað í takt við vaxandi hlutfall eldra fólks í sveitarfélaginu.
Liður 4:
Kynning á á aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi. Rannsóknir hafa sýnt að ofbeldi gegn eldra fólki hefur aukist. Mikilvægt er að ræða þessi mál opinskátt. Tekið er undir bókun ráðsins um að fræðsluefni sé fylgt eftir með markvissri upplýsingagjöf og samtali á þeim stöðum sem eldra fólk kemur saman. Það er góð hugmynd að setja tilkynningahnapp á heimasíðu borgarinnar þar sem má tilkynna um ofbeldi sem er sambærilegt verklag og barnavernd vinnur eftir. Mikilvægt er að fræðsla og verklag sé skýrt fyrir það starfsfólk sem kemur að þjónustu við eldra fólk.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 16. október 2024. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar:
Flokkur fólksins lagði fram 2. október sl. tillögu um að setja göngubrú yfir Sæbraut sem forgangsverkefni í ljósi hörmulegs banaslyss sem varð við Sæbraut fyrir skemmstu. Sú framkvæmd er að hefjast. Koma verður strax upp snjallstýrðum gangbrautarljósum sem lesa umferðarflæði, aðstæður og hreyfingar vegfarenda. Aðgerðir til lengri tíma snúa að Sæbraut í stokk því vitað var að að göngubrú yrði yfir Sæbraut milli Tranavogs og Snekkjuvogs, yrði hæðarlega erfið. Stokkur myndi tengja saman Vogabyggðina við Vogana vestan Sæbrautar, og gera göngubrúna óþarfa. Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur heldur úti akstri skólabíls milli Vogabyggðar og Vogaskóla á virkum dögum, sem þó fullnægir ekki ferðaþörf allra nemenda í Vogabyggð, s.s. í tengslum við frístund. Sæbrautarstokkur mun bæta úr vandamálum en fram að þeim tíma ætti að nota snjallljósakerfi til að stýra umferðinni. Vogabyggð er orðin fjölmenn byggð og börnin í hverfinu þurfa daglega að fara yfir Sæbrautina til að sækja skóla, frístundir og fleira. Íbúar hafa lengi verið að kalla eftir úrbótum. Þetta er hættulegar aðstæður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Íbúar Vogabyggðar hafa þurft að takast á við ótta um öryggi barna sinna alltof lengi og gangandi vegfarendur eru í stöðugri hættu.
Ný mál
Fyrirspurn um hvort endurgreiða eigi foreldrum vegna systkinaafsláttar:
Nýlega féll úrskurður mennta-og barnmálaráðuneytisins í máli nr. MRN23110405 þar sem ákvörðun Reykjavíkurborgar um að veita foreldrum ekki systkinaafslátt af gjöldum skólamáltíða var kærð. Í úrskurðarorðum kom fram að það er niðurstaða ráðuneytisins að ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 6. janúar 2023 um að synja beiðni kærenda um systkinaafslátt á þeim forsendum að reglur sveitarfélagsins gerðu ráð fyrir því að réttur til systkinaafsláttar væri bundinn við að systkini væru með sama lögheimili hafi ekki samrýmst jafnræðis- og réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Gerð hefur verið sú krafa að Reykjavíkurborg verði gert að endurgreiða aðilum þann afslátt sem þau hefðu annars notið í samræmi við aðra íbúa Reykjavíkur sem eru foreldrar og eiga þrjú börn sem ganga í grunnskóla í borginni, frá maí 2022. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvort endurgreiðsla hafi farið fram og ef ekki, hvenær standi til að hún fari fram.
Fyrirspurn um stafrænt kerfi fyrir skóla
Fulltrúi Flokks fólksins vill fá að vita hver sé staðan á stafræna skólaþjónustukerfinu Búa?
Spurt er af hverju ekkert bólar á Búa þrátt fyrir að langt er síðan að fjármagni var veitt í það verkefni?
Greinargerð
Lengi hefur verið beðið eftir að fá skilvirka og viðeigandi stafræna lausn til að halda utan um þann fjölda barna sem þurfa á sérstakri sérfræðiaðstoð skólaþjónustu. Búi er að því er virðist kerfi sem auðveldar starfsfólki að veita betri og skilvirkari skólaþjónustu. Búi var sagður eiga að hjálpa til að auðvelda samvinnu og samhæfingu og auka gagnsæi gagnvart forsjáraðilum sem og öryggi viðkvæmra gagna.
Sú málaskrá sem nú er við lýði er löngu úr sér gengin og er bæði flókin og tyrfin í notkun sem veldur því að utanumhald getur aldrei verið nákvæmt. Búið er að halda fína kynningu á Búa en hann sjálfur er hvergi sýnilegur. Ef Búi verður einhvern tíma að veruleika mun stafræn persónumappa fylgja hverju barni sjálfvirkt milli skóla. Þetta skref mun breyta miklu í utanumhaldi mála
Fyrirspurn vegna viljayfirlýsinga um lendingarstað við Landspítala og Nauthólsvík
Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvort viljayfirlýsing (milli Reykjavíkurborgar, Landspítala, Landhelgisgæslu og nokkurra ráðuneyta um lendingarstað fyrir björgunarþyrlur í Nauthólsvík) lúti helst að lendingarstað í Nauthólsvík þ.e. nálægt Landspítala frekar en við Landspítala og um þetta er spurt vegna þess að við lestur viljayfirlýsingarinnar er áberandi að talað er helst um lendingarstað nálægt Landspítala en ekki við Landspítala? Það tekur um 15-20 mínútum lengur að flytja slasaðan einstakling frá Nauthólsvík yfir á Landspítala en ef lent væri með hann við Landspítala. Þessar mínútur gætu verið skilin milli lífs og dauða
Greinargerð
Núverandi þyrlur eru að hámarki 12 tonn og verða ekki stærri. Að sjálfsögðu þarf að vera stór þyrlupallur í Nauthólsvík sérstaklega ef Reykjavíkurflugvöllur fer en það þarf alltaf að vera þyrlupallur á eða við nýja Landspítala (NLSH). Það verður að gera ráð fyrir að þyrla geti lent við nýjan Landspítala ef um bráðveikan eða slasaðan einstakling er að ræða til að forðast óþarfa tafir og áhættu.
Samkvæmt starfandi þyrlulæknum þá tekur það í dag 3-5 mínútur að koma sjúklingi úr þyrlu og inn á bráðamóttöku í Fossvogi og telst það eðlilegt verklag. Aftur á móti er miðgildi frá lendingu þyrlu á Reykjavíkurflugvelli þar til komið er á Hringbraut 28 mínútur. Munurinn er þannig 23-25 mínútur sem minnkar kannski í 15-20 mínútur með tilkomu borgarlínubrautar úr Nauthólsvík á NLSH. Slík töf og flutningur sjúklinga milli farartækja skapar vel þekkta áhættu og getur ekki talist æskilegt verklag og ber ekki að stuðla að slíku. Allir fagaðilar telja að töf á flutningi mikið veikra sjúklinga geti skipt sköpum fyrir þá.
Nýtt mál
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um það hvaða kjarasamningar Reykjavíkurborgar innihalda ákvæði um starfsmat en fyrir borgarráð liggur viðauki þar sem lagt er til að fjárheimildir fagsviða og miðlægrar stjórnsýslu verði hækkaðar um 20.000þ.kr. vegna endurmats á störfum. Um hvaða störf er verið að ræða að þessu sinni, voru þau öll metin til hækkunar og þá á hvaða forsendum.
Greinargerð
Að þessu sinni varðar starfsmatið ýmis stöðugildi á sviðum, en störf þessi hafa verið samþykkt á fundum starfsmatsnefndar á árinu 2024. Gildistími á afturvirkni er skv. reglum starfsmats og er frá og með þeim tíma sem beiðni endurmats barst þeim. Gert er ráð fyrir afturvirkni fyrir árið 2023 ásamt fjárhæð í ramma fyrir 2024 í þessum upphæðum eftir því sem fram kemur í gögnum í viðauka