Borgarráð 17. september 2020

Bókun Flokks fólksins vegna tillögu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um breytingu á opnunartíma leikskóla Reykjavíkurborgar vegna COVID-19:

Búið er að taka ákvörðun um að skerða þjónustu leikskóla með því að stytta opnunartíma. Ástæðan er sögð vera vegna sóttvarnaráðstafana. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að engin ástæða sé til að stytta opnunartíma vegna þessa. Vel er hægt að finna aðrar leiðir, sem ekki koma niður á þjónustunni. Stytting opnunartíma leikskóla kemur sér  illa fyrir marga. Ástæðan fyrir styttingu er að það þarf að sótthreinsa skólana. Ekki er hjá því komist í þessu sambandi að minnast á nýlegt jafnréttismat sem sýnir neikvæð áhrif sem breytingin hefur á jafnrétti kynjanna.  Skertur opnunartími mun ekki síður koma niður á foreldrum með takmarkaðan sveigjanleika í starfi og þeirra sem koma langa leiðir til að sækja vinnu. Hægt hefði verið að finna aðrar lausnir t.d. að ráða inn fólk eftir lokun sem annaðist sótthreinsun.

 

Bókun Flokks fólksins við svari mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 7. september 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um mat á starfsumhverfi starfsfólks sem kemur fyrir borgarráð, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. ágúst 2020.

Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að sú aðferðafræði sem Líf og sál notar til að framkvæma mat á starfsumhverfi sé á gráu svæði. Reynt er að gera ýmiskonar ráðstafanir til að halda aðferðafræðinni og ferlinu innan ramma persónuverndarlöggjafarinnar. Álitaefni má strax sjá í skilyrðunum sem þátttakendum könnunarinnar er gert að skrifa undir.  Einnig liggur ekki fyrir hvort  fullnægjandi fræðsla sé veitt til þeirra sem veita persónuupplýsingar og til þeirra sem upplýsingarnar varðar. Vandi er einnig með áreiðanleika persónuupplýsinga sem eru veittar við aðstæður sem þessar og hvort  rétt sé að heita þeim sem veita upplýsingar trúnaði. Við þessar aðstæður er hægt að ausa úr sér hatri og óhróðri um manneskju og allt í trúnaði en á umælunum á síðan að byggja niðurstöður. Hvað er mannauðsdeildin og borgarmeirihlutinn að fá fyrir þessar tvær milljónir sem þetta kostar? Mat fulltrúa Flokks fólksins er að hér sé verið að henda fé í tóma vitleysu. Í ljósi uppákomu á fundi borgarstjórnar 15. september þar sem fulltrúi Pírata fór langt yfir velsæmismörk í samskiptum við annan fulltrúa um efni sem á ekki heima í sal borgarstjórnar þarf fyrst og fremst að siða fólk til, láta það t.d. fylgja sínum eigin siðareglum. Það kostar engar 2 milljónir.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um mat á hvað flokkast undir trúaðarmál:

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um mat á hvaða mál flokkast sem trúnaðarmál hefur verið vísað frá . Flokkur fólksins lagði til að farið verði í ítarlega greiningu á því hvaða mál flokkast undir trúnaðarmál og hvað ekki og að verklagsreglur verði settar um flokkun mála eftir niðurstöðu greiningarinnar. Engin regla virðist vera um þessi mál eftir því sem fram kemur í svari. Í svari eru reifuð hin ýmsu lög sem hægt er að túlka eftir behag. Sem dæmi, ef ég væri borgarfulltrúi í meirihluta að leggja fram mál sem myndi varpa ljósi á neikvæða hluti í borginni þá óska ég bara eftir trúnaði. Í svari segir að ábyrgðin um hvort sé trúnaður eður ei liggi hjá þeim aðila sem leggur málið fram og gerir grein fyrir hvort erindið eða gögn sé trúnaður. Hann ákveður það sem sagt sjálfur. Þetta hefur ítrekað komið í ljós, kynningar sem koma illa út fyrir borgina eru stimplaðar trúnaður og sumar koma aldrei fyrir augu borgarbúa. Trúnaður er settur á jafnvel þótt í gögnum séu hvergi neinar persónugreinanlegar upplýsingar s.s. sem varðar skulda, lána eða viðskiptamál einstaklings eða önnur persónugreinanleg gögn. Þetta er geðþóttákvörðun sem alltaf virðist vera hægt að finna stað í lögunum eftir því hvernig Reykjavíkurborg kýs að túlka þau. Svo mikið fyrir gegnsæi!

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks undir 9. lið fundargerðarinnar:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar tillögu öldungaráðs, að láta gera könnun utanaðkomandi, óvilhallra og til þess bærra aðila, á máltíðum sem velferðarsviðið býður eldri borgurum upp á úr eldhúsi borgarinnar. Loksins er eitthvað að hreyfast í þessum málum en mikið hefur þurft til. Það er alveg ljóst að sá matur sem eldri borgurum hefur oft verið boðið upp á er ekki boðlegur. Annars hefðu allar þessar  gagnrýnisraddir ekki heyrst. Á gagnrýnisraddir hefur ekki verið nægjanlega hlustað. Það er upplifun fulltrúa Flokks fólksins að einhverjir hafi viljað berja niður umræðuna. Það sýnir sig best í því að tillögum Flokks fólksins sem unnar voru með eldri borgurum og aðstandendum sem snúa að þessum málum var hafnað. Skoða þarf bæði samsetningu matarins og framleiðslu hans sem og hvenær hann er sendur út. Fram kemur að maturinn er oft afhentur til neyslu tveimum dögum eftir framleiðslu. Það er ekki viðunandi. Einnig ætti að vera sjálfsagt að bjóða upp á næringardrykki með matnum og umfram allt á að vera val, t.d. á fólk að hafa val um hvort það vill meira eða minna grænmeti.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningur bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. september 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 9. september 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Grafarlæks, Stekkjamóa og Djúpadal:

Lögð fram umsókn T.ark Arkitekta ehf., dags. 15. júní 2020, varðandi breytingu á deiliskipulagi Grafarlækjar – Stekkjarmóa – Djúpadals. Í breytingunni felst stækkun á byggingarreit e3 í suðurátt til að rúma verkstæði og vélageymslu ásamt aukningu á byggingarmagni. Umsóknin er um mjög aukið byggingamagn. Áhrif á umhverfi verða talsverð. Tyrfa skal jaðra verkstæðis og vélageymslu með lyngþökum eða sambærilegum  þökum í samræmi við núverandi gróður í næsta nágrenni til að hús falli betur inn í landslagið og sé minna sýnilegt frá golfvelli. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að talsvert mikil bjartsýni er að halda því fram að lyngþökur séu lausn á útlitsumhverfisvandamáli. Slíkur gróður þarf mikla umönnun ef hann á að haldast. Varla er hægt að réttlæta mikið byggingarmagn með þessum rökum einum.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. september 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 9. september 2020 á tillögu um að framlengja tímabundnar göngugötur í miðborginni.

Afleiðingar aðgerða meirihlutans blasa nú við og áfram skal haldið gegn straumnum. Hópurinn sem mótmælir fer stækkandi. Samþykkja á nú 2. áfanga Laugavegarins til afgreiðslu. Fulltrúi Flokks fólksins finnur sárt til með þeim verslunum sem þarna eru og róa nú lífróður. Engum rann í grun að ástandið yrði svona slæmt enda átti enginn von á COVID sem gerði vissulega útslagið. Ef vel hefði verið haldið á spilunum væru Íslendingar í bænum mun meira en raun ber vitni. En með lokun fyrir umferð og með því að framlengja tímabundnar göngugötur er fátt um þá þarna. Þeir sem búa á svæðinu og í nágrenni þess eru vissulega í bænum en er þá upptalið utan þá sem sækja skemmtanalíf. Engir ferðamenn eru og verða ekki um ókominn tíma. Að framlengja tímabundnar göngugötur eru mistök og gerir bara illt verra. Hvert er markmið skipulagsyfirvalda með líflausum göngugötum nú þegar vetur gengur í garð? Þetta mun fara endanlega með suma rekstraraðila,  þá sem sáu fyrir sér þann draum að götur opnist í haust og að landinn myndi heimsækja bæinn meira.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. september 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við endurheimt votlendis og mótun lands í Úlfarsárdal, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 30 m.kr.:

Borgarráð vill heimila umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við endurheimt votlendis og mótun lands í Úlfarsárdal. Um er að ræða 2. áfanga verkefnisins. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að ekki sé  tímabært að bjóða verkið út. Undirbúningsvinnu er áfátt. Verktaki sem fær verkið hefur ólíklega sérfræðinga á sínum snærum sem geta greint gróður seint að hausti eða um hávetur. Þess vegna eru kröfur um að varðveita einhverjar plöntutegundir marklausar, því að ekki verður unnt að fara eftir því. Ekkert verður hægt að segja hvort líffræðileg fjölbreytni aukist eða minnki. Verktaka er ætlað að loka skurðum og búa til einhverjar tjarnir á víð og dreif. Þetta þarf að forvinna miklu betur. Andfuglar sem nýta tjarnir þurfa að hafa tjarnir með skjóli, t.d. hólma. Að öðrum kosti fá fuglarnir ekki frið til að verpa og koma ungum á legg. Teikna þarf upp hvernig verkið skal vinna og m.a. gera ráð fyrir tjörnum með hólmum. Skoða þarf gróðurfar og kanna sérstaklega hvort hlúa þurfi að einstökum plöntutegundum (dæmi gulstör, síkjamari, lófótur). Eftir slíka vinnu er fyrst tímabært að bjóða verkið út.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að auka votlendi í Úlfarsárdal. Það er vel, en þar vantar mikið upp á undirbúningsvinnu, lagt er því til að fresta útboðinu.

Áætlað er að auka votlendi í Úlfarsárdal. Það er vel, en þar vantar mikið upp á undirbúningsvinnu. Samkvæmt verkefninu „endurheimt votlendis – Úlfarsárdalur“ á að bjóða verkefnið út núna en það er  að hirða rusl o.fl. og fylla upp í þverskurði.  Reiknað er með að varðveita votlendisgróður. Verkið á að hefjast í september og ljúki áður en varp fugla hefjist á næsta ári. Flokkur fólksins leggur til að þessu útboði verði frestað því að svona vinnubrögð ganga ekki. Verktaki sem fær verkið hefur líklega ekki sérfræðinga á sínum snærum sem geta greint gróður  seint að hausti eða um hávetur og allra síst votlendisplöntur sem eru komnar í vetrarham. Þess vegna eru kröfur um að varðveita einhverjar plöntutegundir marklausar, því að ekki verður unnt að fara eftir því. Ekkert verður hægt að segja um hvort líffræðileg fjölbreytni aukist eða minnki. Verktaki á að loka skurðum en búa til einhverjar tjarnir. Andfuglar nýta tjarnir og í stórum tjörnum er hægt að gera hólma. Þá fá andfuglar frið frá t.d. heimilisköttum til koma ungum á legg. Teikna þarf upp hvernig verkið skal vinna. Eftir slíka vinnu er tímabært að bjóða verkið út.

Greinargerð.

Fullkomin endurreisn lífríkis  verður aldrei í borgarumhverfi en það má ganga þannig um óbyggð svæði að þau líkist því sem er í ósnortinni náttúru. En til að það sé hægt þarf alla vega að skoða hvernig ósnortin svæði nýtast þeim lífverum sem við viljum halda í

Áberandi er við borgarmörkin að skortur er á griðarstöðum fyrir margar fuglategundir. T.d. ef gerð er tjörn, koma andfuglar á hana eftir fáeina daga (tjarnir vantar),  svo sem sjá þá þegar settjarnir voru gerðar meðfram Elliðaám.  Augljóst er  öllum að andfuglar nýta tjarnir, en þær tjarnir hafa meira virði ef þær eru það stórar að hægt sé að gera hólma í þeim. Þá fá andfuglar frið frá t.d. heimilsköttum til koma ungum á legg.

Teikna þarf upp hvernig verkið skal vinna og leggja áherslu á að gera tjarnir með hólmum.
Skoða þarf gróðurfar og kanna sérstaklega hvort hlúa þurfi að einstökum plöntutegundum. (dæmi. gulstör, síkjamari, lófótur)
Eftir slíka vinnu er tímabært að bjóða verðið út.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ráðningarmál í skólum:

Hver er staða ráðningarmála í leik- og grunnskólum Reykjavíkurborgar? Á hverju hausti hefur verið vandi hjá skóla- og frístundasviði vegna þess að ekki hefur tekist að manna stöður í leik- og grunnskólum sem og frístundaheimilum. Á þessu hausti var óráðið í all margar stöður. Flokkur fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hver staðan sé nú þegar september er rúmlega hálfnaður.

Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.