Forsætisnefnd 12. mars 2020

Bókun Flokks fólksins við svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 5. mars 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fundaumsjónakerfi í borgarstjórnarsal, sbr. 12. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 27. febrúar 2020. R20020293:

Flokkur fólksins spurði um ástæðu þess að fundaumsjónarkerfið komst aldrei í gagnið. Einnig hvort hægt er að skila kerfinu og fá það endurgreitt. Í svari segir að ráðist var í breytingar á Ráðhússalnum vegna fjölgunar borgarfulltrúa. Hluti breytinganna var kaup á fundaumsjónarkerfi. Að loknu útboði á evrópska efnahagssvæðinu var gengið til samninga við Exton ehf. um kaup á búnaðinum, tilboðsfjárhæðin var kr. 22.300.567. Exton gat ekki uppfyllt kröfur sem gerðar voru í útboðsgögnum. Samkomulag náðist um riftun. Í samkomulaginu um riftun kemur m.a. fram að Reykjavíkurborg haldi eftir hörðum búnaði. Við lestur umsagnar er erfitt að sjá hversu miklum skaða borgin situr uppi með? Fram hefur komið í munnlegum upplýsingum að borgin bar skaða af þessum viðskiptum að upphæð ca. 5. milljónir. Nú segir í umsögn að nýja fyrirtækið eigi eftir að leggja mat á hvort hægt sé að nota búnaðinn?

Bókun Flokks fólksins afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að fundaumsjónarkerfi sem ekki er í notkun í borgarstjórnarsalnum verði fjarlægt:

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að fundaumsjónarkerfi sem ekki er í notkun í borgarstjórnarsalnum verði fjarlægt og því skilað ef mögulegt er hefur verið felld. Ferlið er rakið í umsögn þar sem borgin í gegnum útboð keypti fundarumsjónarkerfi fyrir um 22 milljónir. Fyrirtækið skilaði ekki verkinu samkvæmt útboðsgögnum. Samningnum var rift og náðust samningar um að borgin fengi m.a. að halda eftir 23 hljóðnemum sem metnir eru á 4.6 milljónir. Því er ekki til umræðu að skila kerfinu. Ljóst er að það er með öllu óljóst hvort hægt er að nota þessa hljóðnema. Það á nýtt fyrirtæki eftir að meta. Nú eru þeir á borðum eins og ljótt skraut og sennilega flestum til ama. Þess utan má segja að svona kerfi sé óþarft þar sem hingað til hafa borgarfulltrúar gengið í pontu til að veita andsvör og gera stuttar athugasemdir og það gengið ágætlega. Ekkert mælir heldur gegn því að greiða atkvæði með handaruppréttingu. Að rétta upp hönd endrum og sinnum á fundi borgarstjórnar er bara góð og holl hreyfing.

 

Fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um tillögu Flokks fólksins sem lögð var fyrir á fundi borgarstjórnar 3. sept. 2019 um að samþykkt yrði að  borgarstjórnarfundir verði túlkaðir á táknmáli:

Tillögunni var vísað til forsætisnefndar og þaðan til hagsmunaaðila og Aðgengisnefndar. Engin tíðindi hafa borist um að hagsmunaaðilar hafi fengið tillöguna til umsagnar.
Eins og sjá má á síðustu dögum hefur færst í vöxt að fréttir og fundir ýmis konar séu táknmálstúlkaðar enda tíðindi válynd um þessar mundir og margt að gerast sem allir verða að fá upplýsingar um.  Ekkert hefur frést af framvindu tillögunnar og óskar borgarfulltrúi Flokks fólksins eftir að fá upplýsingar um hvar málið er statt. Hér er um mannréttindamál að ræða og með því að táknmálstúlka fundi borgarstjórnar er borgarstjórn að framfylgja lögum. Tillagan er liður í að rjúfa enn frekar einangrun heyrnarskertra og heyrnarlausra einstaklinga. Þessi hópur á rétt á því að fá upplýsingar úr samfélaginu og þ.m.t. að geta fylgst með umræðu á sviði stjórnmálanna og annað er snýr að störfum þeirra. Í 5. grein laganna um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra segir: Notendur íslenska táknmálsins eiga rétt á að upplýsingar sem birtar eru opinberlega samkv. Samning Sameinuðu þjóðanna sem brátt verður lögfestur.