Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. janúar 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. janúar 2023 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Esjumela vegna lóðarinnar nr. 1 við Gullsléttu, ásamt fylgiskjölum. SN220460
Samþykkt.
Íbúum Kjalarness finnst þeim hafa verið sýnd vanvirðing vegna Gullsléttu 1. Íbúar hafa enn ekki fengið svör við innsendum athugasemdum sínum frá borginni, þrátt fyrir að búið sé að birta þau opinberlega í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. janúar 2023, 7. mál. Fulltrúi Flokks fólksins bendir á að íbúaráð Kjalarness óskaði eftir kynningafundi vegna fyrirhugaðra breytinga frá skipulaginu og heilbrigðiseftirlitinu þar sem ætlað er að þessi stóru hús verði 1,5 metrum hærri en þau hús sem fyrir eru á svæðinu skv. núverandi skipulagi, þ.e. 9,0 metrar í 10,5 metra. Þessi hús eru samhliða Vesturlandsveginum og breyta því ásýnd hverfisins fyrir alla þá sem aka til og frá borginni. Flokki fólksins finnst að taka eigi meira tillit til þess sem fram kemur hjá íbúaráðum almennt séð. Til hvers eru verið að halda úti íbúaráðum ef ekki á að hlusta á það sem fram kemur frá þeim?
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. janúar 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. janúar 2023 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Vesturbæjarlaugar, ásamt fylgiskjölum. USK22120092:
Færa á lóðarmörk við Einimel 18-26 sem nemur 3,1 m og minnkar lóð Vesturbæjarlaugar sem því nemur. Íbúar fá leyfi meirihlutans til að stækka lóð sína inn á tún Vesturbæjarlaugar. Ár er liðið frá því að tillögu um breytingu á lóðamörkum við Vesturbæjarlaug var fagnað og tilkynnt að sátt væri um málið. Samkvæmt athugasemdum í gögnum er greinilegt að þessi sátt var eingöngu sátt á milli meirihlutans og lóðareigenda. Haft var eftir meirihlutanum í bókun frá 2022 að með breytingunni stækkaði túnið miðað við raunverulega stöðu síðustu áratuga. Flokki fólksins finnst þetta sérkennileg röksemdafærsla því borgin á þetta land. Íbúar við Einimel fá leyfi meirihlutans til að stækka lóð sína inn á tún Vesturbæjarlaugar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst verulega hæpið að leyfa stækkun lóða sem gengur á almennt grænt svæði. Eftir auglýsingu tillögunnar kemur fram mikil andstaða sem er eðlilegt enda fer landið úr almenningseigu í einkaeigu. Hér er um dýrmætt svæði að ræða og verðmæti sennilega það hæsta á öllu landinu. Landrými á þessu svæði er eftirsótt. Flokkur fólksins telur að þarna sé verið að minnka möguleikana á að skapa fjölbreytt útivistarsvæði við Vesturbæjarlaug.
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 18. nóvember 2022, sbr. afgreiðslu borgarstjórnar frá 15. nóvember 2022 á tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins um mælaborð vegna eineltis og annarra ofbeldismála til borgarráðs. Einnig lögð fram umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 23. janúar 2023. Vísað til umsagnar menningar- og íþróttasviðs
Bókun ekki tekin inn:
Flokkur fólksins lagði til í borgarstjórn að sett verði upp mælaborð þar sem hægt er að sjá hvaða úrræði skólar og íþrótta- og tómstundafélög borgarinnar hafa tiltæk þegar upp koma eineltis/ofbeldismál. Tillögunni var ekki vel tekið af meirihlutanum en engu að síður vísað til skóla- og frístundasviðs. Segir í umsögn að skóla- og frístundasvið kallar eftir þessum upplýsingum frá skólum árlega. En með því að hafa mælaborð eins og hér er lagt til væru upplýsingarnar ekki einungis opinberar skólayfirvöldum heldur einnig foreldrum. Verkferlar skuli jafnframt vera aðgengilegir á heimasíðum skólanna. Það er eitt að eiga að gera en svo getur raunin verið önnur. Það er afar mismunandi hvort efni sem þetta er sýnilegt á heimasíðum skóla. Flokkur fólksins áttar sig ekki á hvað það þýðir hjá sviðsstjóra að viðbragðsáætlanir og úrvinnsluferli skóla vegna eineltis byggi á gátlista. Hvernig geta verkferlar verið byggðir á gátlistum? Það er mjög misjafnt hvernig tekið er á þessum málum í skólum og það eitt og sér er alvarlegt. Börn hafa verið flutt í annan skóla því ekki hefur verið tekið á einelti. Sagt er að efni um einelti sé endurskoðað reglulega og það væri forvitilegt að vita hvenær það var gert síðast.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 19. janúar 2023.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir tillögu frá fulltrúa Öryrkjabandalags Íslands vegna breytinga á fyrirkomulagi varðandi ferðaþjónustu fatlaðra. Lagt er til að þegar fatlað foreldri/-ar eða aðstandandi ferðast með börn sín undir 18 ára aldri sé ekki greitt aukalega fyrir barnið og að boðið sé upp á sessur sem hentar börnum á aldrinum 3 til 10 ára, til að tryggja öryggi þeirra. Fyrirkomulagið eins og það er í dag veldur því að sumir geta ekki ferðast eins frjálslega um og þeir vilja. Þessi tillaga stuðlar að bættu frelsi fatlaðra foreldra og/eða aðstandenda til að sækja t.a.m. menningarviðburði í borginni ásamt börnum sínum.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 19. janúar 2023. Áheyrnafulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar:
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið: Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir tillögu frá fulltrúa Öryrkjabandalags Íslands vegna breytinga á fyrirkomulagi varðandi ferðaþjónustu fatlaðra. Lagt er til að þegar fatlaður foreldri/ar eða aðstandandi ferðast með börn sín undir 18 ára aldri sé ekki greitt aukalega fyrir barnið og að boðið sé upp á sessur sem hentar börnum á aldrinum 3 til 10 ára, til að tryggja öryggi þeirra. Fyrirkomulagið eins og það er í dag veldur því að sumir geta ekki ferðast eins frjálslega um og þeir vilja. Þessi tillaga stuðlar að bættu frelsi fatlaðra foreldra og/ eða aðstandenda til að sækja t.a.m. menningingarviðburði í borginni ásamt börnum sínum.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir heilbrigðisnefndar frá 12. og 25. janúar 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 25. janúar:
Reykjavíkurborg hefur nú enn og aftur gefið út starfsleyfi fyrir skotvöll Skotfélags Reykjavíkur á Álfsnesi þrátt fyrir úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála eftir kærur tveggja hópa íbúa frá 24. september 2021 þar sem starfsleyfið var fellt úr gildi. Á Álfsnesi er annar samhliða skotvöllur Skotreynar, starfsleyfi þess vallar var einnig fellt úr gildi skv. úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 24. september 2021 eftir kærur tveggja hópa íbúa úr nágrenninu. Enn og aftur gaf Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur út starfsleyfi fyrir Skotreyn sem kært var af þremur hópum íbúa. Það starfsleyfi var fellt úr gildi 28. desember 2022 af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kjalnesingar töldu að þeir væru endanlega búnir að fá úrlausn málsins með birtingu úrskurðar kærendum í hag. Íbúar hafa sent samtals 7 kærur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á sl. 16 mánuðum. Allir úrskurðir hafa fallið kærendum í hag.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 1. febrúar 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:
Engar beinar framkvæmdir eru farnar af stað vegna borgarlínunnar sjálfrar en her fólks er í fullri vinnu. Þetta er ekki mjög traustvekjandi. Búið er að kynna nýja kostnaðaráætlun vegna verkefna samgöngusáttmálans. Kostnaður við tengd verkefni eykur heildarkostnaðinn. Kostnaður við samgöngusáttmálann eykst úr 120 í rúma 170 milljarða króna og fyrsti áfangi borgarlínu kostar 28 milljarða. Kostnaður við borgarlínu fer úr 49,6 í 68,6 milljarða einmitt vegna þessa fyrsta áfanga. Tugir milljarða fara í stokka. Þetta á að fjármagna m.a. með þróun Keldnalandsins og tafagjöldum, verði ákveðið að leggja þau á. Flokkur fólksins hefur áður bent á þennan „annan kostnað“ sem tengist borgarlínuverkefninu sem að ekki mun bókast sem kostnaður við borgarlínuna. Jafnvel tugmilljarða stokkar við Sæbraut og Miklubraut sem tekið verður sem samgönguverkefni. Hluti af því er til að mynda rými fyrir borgarlínuna. Nú er Reykjavíkurborg að biðja um að stokkar verði styrktir sér til að halda hugsanlegum byggingum við stokkinn. Taka verður með í reikninginn að umferðartafir vegna þessara stokkaframkvæmda munu verða gríðarlegar. Hvert er þjóðhagslegt tjón af þeim töfum og hefur það verið reiknað út? Þá veit enginn hver rekstrarkostnaður borgarlínunnar verður. Margur „annar kostnaður“ mun því gera þetta verkefni dýrara en lagt var upp með.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 25 mál. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið yfirlitsins:
Flokkur fólksins vill vekja athygli á erindi foreldra vegna synjunar á systkinaafslætti fyrir skólamáltíð, án viðeigandi rökstuðnings og hunsun á beiðni um skýringar. Um er að ræða foreldra með sameiginlegt forræði þriggja barna. Foreldrarnir eru með skipta búsetu og skipta því kostnaði samkvæmt lögum. Lögheimili er hjá báðum foreldrum. Í þessum tilfellum eru engar meðlagsgreiðslur. Foreldrar fengu lögfræðiálit á málinu sem segir að þetta sé mismunun og uppfylli ekki góða stjórnsýsluhætti hjá Reykjavíkurborg. Leiða má líkur að því að synjunin standist ekki lög. Þess utan er stjórnsýslan gagnrýnd harðlega. Erindið hefur verið hunsað og dregið á langinn. Rökin fyrir synjun er að þar sem börnin eiga tvö heimili eru þau ekki með sama fjölskyldunúmer. Flestar aðrar stofnanir hafa aðlagað sig að nýjum og breyttum lögum um skipta búsetu en borgin þráast við. Þannig eru aðgerðir borgarinnar í beinu ósamræmi við anda og markmið laga um skipta búsetu. Tekið er undir lokaorð erindisins sem er: „Túlkun innheimtusviðs er þunn og vísar í lögheimili með „computer says no“ stemmningu og horfir fram hjá fjölda staðreynda í málinu“.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvernig erftirliti er háttað með íþrótta- og tómstundafélögum Reykjavíkur varðandi úrræði þegar koma upp eineltis- og eða önnur ofbeldismál:
Fyrirspurn frá Flokki fólksins um hvernig eftirliti er háttað með íþrótta- og tómstundafélögum Reykjavíkurborgar varðandi úrræði þegar upp koma eineltis-, og eða önnur ofbeldismál. Spurt er einnig hvort hægt sé að sjá miðlægt hvort íþrótta- og tómstundafélög á vegum borgarinnar hafi viðbragðsáætlun og verkferla tiltæka og sýnilega á heimasíðu sinni þegar upp koma eineltis- eða ofbeldismál eða þegar grunur leikur á um að einelti viðgangist. Óskað er eftir ítarlegu svari og sundurliðun, t.d. hvaða félög, ef einhver, hafa ekki áætlun gegn einelti og viðbragðsáætlun tiltæka á heimasíðu sinni. Óskað er upplýsinga um hvort kallað sé eftir þessum upplýsingum frá íþrótta- og tómstundafélögum Reykjavíkurborgar reglulega og ef svo er, hversu reglulega? MSS23020010
Vísað til meðferðar íþrótta- og tómstundaráðs.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvort ekki eigi að taka áskorun margra og hætta við að loka Siglunesi:
Á ekki að taka áskorun fjölmargra og hætta við að loka Siglunesi? Spurt er: Hvernig ætlar meirihlutinn að taka á áskorun fjölmargra að hætta við að loka siglingaklúbbnum Siglunesi eins og meirihlutinn hefur lagt til? Flokkur fólksins minnir á tal um samráð og að hlusta á fólk. Starfsemi Sigluness er einstök, fyrst og fremst fyrir þær sakir að þar er ekki rekið hefðbundið íþróttastarf. Iðkendur stunda ekki æfingar, keppa ekki og þar er engin afreksstefna. Þar fá öll börn, og sér í lagi þau sem ekki finna sig í hefðbundnu afreksstarfi íþróttafélaganna, að finna kröftum sínum farveg til að eflast og þroskast á jafningjagrundvelli. Skorað hefur verið á meirihlutann að taka mál Sigluness til skoðunar áður en ákveðið verður að loka 55 ára farsælli starfseminni endanlega. Má þar meðal annars skoða stofnun hollvinasamtaka sem létt gætu róðurinn til að afstýra því slysi sem fylgdi því að leggja starfsemina af. USK22122901
Vísað til meðferðar íþrótta- og tómstundaráðs.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um samræmdar skólasóknarreglur:
Samræmdar skólasóknarreglur eða miðlægt viðmiðunarkerfi hefur nú verið við lýði í nokkur ár og er hugsað til að greina á milli ástæðna fjarvista. Ekki hafa allir skólar þó stuðst við kerfið. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvernig viðmiðin hafa nýst til að greina á milli ástæðu fjarvista. Einnig er spurt hvaða skólar nýta ekki þessi viðmið og rök þeirra fyrir því. Árið 2015 tóku grunnskólar Breiðholts í notkun samræmt skólasóknarkerfi (samræmdar viðmiðunarreglur) í 1.-10. bekk til að fylgjast með fjölda mála af þessum toga og vinna markvisst gegn skólaforðun. Nokkru síðar var hvatt til þess að önnur hverfi borgarinnar gerðu slíkt hið sama. Um var að ræða viðmiðunarkerfi sem sýndi „hættumerki“, s.s. „rauð flögg“, þegar skólasókn færi niður fyrir ákveðin skilgreind viðmiðunarmörk. Í kerfinu er ekki gerður greinarmunur á ástæðu fjarveru, vegna leyfa, veikinda eða óleyfilegra fjarvista sem kann að vera m.a. ástæða þess að ekki allir skólar hafa viljað nota viðmiðin. MSS23020012
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvort Reykjavíkurborg hefur aðlagast breyttum lögum sem lúta að lögheimili og búsetuheimili barna hjá báðum foreldrum í þeim tilfellum þar sem foreldrar eru með sameiginlega forsjá:
Óskað er upplýsinga um hvort Reykjavíkurborg hefur aðlagast breyttum lögum sem lúta að lögheimili og búsetuheimili barna hjá báðum foreldrum í þeim tilfellum þar sem foreldrar eru með sameiginlega forsjá. Heimilisföng barns eru þá tvö og eru bæði skráð í Þjóðskrá. Þegar samningur um skipta búsetu er gerður verða engar meðlagsgreiðslur og eru foreldrar þá í sömu stöðu og áður hvað kostnað varðar. Á þetta reynir þegar sótt er sem dæmi um systkinaafslátt. Íþróttafélög (Þróttur, Ármann), kirkjan og fleiri hafa engu breytt við framkvæmd systkinaafsláttar. Embætti landlæknis og fleiri opinberar stofnanir hafa aðlagað sig að breyttum veruleika í kjölfar laga um skipta búsetu. Að heimila barni að hafa tvö lögheimili hefur gjörbreytt stöðunni og umhverfinu öllu og hefur þetta verið baráttumál árum saman. MSS23020013