Borgarráð 2. maí 2019

Borgarráð 2. maí mál og bókanir sem lagðar voru fram

Átta tillögur Flokks fólksins sem snúa að nemendum sem eru með  ýmisskonar geðraskanir en eins og vitað er er mjög erfitt fyrir þessi börn að fá aðstoð í „venjulegum skóla“

  1. Lagt er til fyrst og síðast að farið sé að lögum. Það er lögbrot að reka börn úr skilaskyldu vegna frávika. Það verður að setja meira fjármagn með hverju barni til að ráða faglegan stuðningsfulltrúa t.d. iðjuþjálfa eða sálfræðing sem hefur eitthvað vægi inn í skólastofunni
  2. Lagt er til að fjármagn sé merkt barni en ekki skóla þannig að það fylgi barninu skipti það um skóla
  3. Lagt er til að unnið verði markvisst að því að fækka nemendum í bekkjum
  4. Lagt er til að í miðjum tíma fái börn tækifæri til að stand upp og fá hreyfingu
  5. Lagt er til að láta af því að afsérþarfavæða börnin til að það aðlagist kerfinu, hinum svo kallaða „skóla án aðgreiningar“. Skóla- og frístundarráð hefur gengið allt of langt að reyna að þagga niður vanda barna til að láta þau passa inn í skólakerfi sem er ekki útbúið til að taka á þörfum allra barna. Erlendis má sjá að í stað þess að reyna sífellt að slökkva elda er börnum leyft að nota stóra bolta í stað stóla, heyrnatól með tónlist til að þau geti haldið athyglinni og þeim leyft að nýta öll þau verkfæri sem virka til að vinna og efla kosti barnanna. Sveigjanleiki og margbreytileiki þarf að koma sterkar inn í hugmyndafræði skólastefnunnar
  6. Lagt er til að Skóli- og frístundarráð auki vægi tækni- og listaverkefna í grunnskólanum. Eins og vitað er eru styrkleikar barna alls konar.
  7.  Lagt er til að Skóla- og frístundarráð fari nú að alvöru að eyða endalausum biðlistum í þjónustu s.s. greiningar. Borgarstjóri hefur nýlega sagt á opinberum vettvangi að verið sé að setja meira fjármagn í skólana. Hvernig væri að sýna að hér eru ekki einungis orðin tóm?
  8. Lagt  er til að aðgengi barna að sálfræðingum og iðjuþjálfurum verði stórbætt og að foreldrar hafi ávallt gott aðgengi að þessum sérfræðingum
    Vísað til meðferðar Skóla- og frístundarráðs.

Bókun vegna fundargerðar Sorpu

Borgarfulltrúa finnst fundargerðir Sorpu frekar rýrar í samanburði við aðrar fundargerðir svo erfitt er að átta sig á innihaldi umræðunnar. Þetta þykir borgarfulltrúa Flokks fólksins mikilvægt í ljósi þeirra upplýsinga um vandamál fyrirtækisins sem fjallað er um í Ársreikningi Reykjavíkurborgar 2018 sem nú hefur verið opinberaður. Þar kemur m.a. fram að Sorpa hefur átt í dómsmálum. Nokkrir rammasamningshafar í akstursþjónustu fatlaðs fólks og fatlaðra skólabarna hafa kært Strætó bs. til Kærunefndar. Niðurstaða er enn ekki komin í þetta mál. Það er því mikilvægt að minnihlutafulltrúar hafi ríkar upplýsingar um hvað fram fer á fundum Strætó bs og þurfa því fundargerðir að vera mun ítarlegri. Strætó er eitt af B hluta fyrirtækjum borgarinnar sem þrátt fyrir að vera byggðasamlag með þeim ókostum sem því fylgir má ekki gleyma hverjir eru aðaleigendur fyrirtækisins, en það eru að sjálfsögðu Reykvíkingar.

Bókun vegna fundargerðar Skipulags- umhverfisráðs, liður er varðar lokanir gatna

Á síðasta fundi Skipulags- og samgönguráðs lagði Flokkur fólksins fram skýlausa kröfu um samráð vegna fyrirhugaðrar lokunar Laugavegarins og nærliggjandi gatna. Þetta samráð hefur ekki verið haft að heitið geti eins og staðfest hefur verið af mörgum og þar á meðal rekstraraðilum sjálfum og öðrum hagsmunasamtökum eins og Öryrkjabandalaginu.  Meirihluti borgarinnar er með þessari ákvörðun sinni að valta yfir á þriðja hundrað rekstraraðila við Laugaveg sem hafa með undirskrift sinni mótmælt þessari ákvörðun og óttast um afkomu sína. Nú hefur borgarmeirihlutinn ákveðið að ganga enn lengra án þess að spyrja kóng eða prest. Til stendur að  loka fyrir umferð bifreiða umhverfis Hlemm og fyrir umferð Rauðarárstígs og Snorrabrautar, sunnan við Hlemm sem og loka fyrir bílaumferð að Hlemmi úr austurátt, á kaflanum frá Fíladelfíu að Hlemmi. Engu breytir hvað fólkið í nærliggjandi umhverfi segja eða þeir sem eiga hagsmuna að gæta. Borgarfulltrúi Flokks fólksins krefst þess að haft verði viðhlítandi samráð við þá sem lengi hafa reynt ná eyrum ráðandi afla í borginni. Ótti Flokks fólksins um að miðbærinn verði einungis fyrir túrista, vellauðuga og borgarmeirihlutinn virðist vera að sanngerast. Þar sem þessi hópar munu aldrei ná einir og sér að halda uppi mannlífi í borginni stefnir hratt í að miðbærinn verði að draugabæ.

Bókun við tillögu Skóla- og frístundarráðs um stofnun stoðdeildar fyrir börn hælisleitenda

Út frá reynslu minni af vinnu með börnum hælisleitenda, sem sálfræðingur, sérfræðingur í klínískri sálfræði, sem og skólasálfræðingur til 10 ára og svo auðvitað sem borgarfulltrúi styð ég þessa tillögu. Í stoðdeild munu þau fá þá þjónustu sem þau þarfnast og fá hana á þeirra forsendum. Mikilvægt er að þetta sé hugsað ávallt sem tímabundið og um leið og þau eru tilbúin fari þau í heimaskóla. Að byrja skólagöngu hér með þessum hætti er mildari aðkoma að nýju tungumáli og nýrri menningu og þeim er ekki hent út i djúpu laugina. Við komu eru mörg börn hrædd, kvíðin og óvissan alger. Þau þurfa sérstaka aðhlynningu, utanumhald, líka í skólanum. Með þessu fá þau meira svigrúm til að aðlagast, melta allt þetta nýja og læra tungumálið á þeim hraða sem hentar hverju barni fyrir sig. MÆTA ÞÖRFUM ALLRA BARNA Á ÞEIRRA FORSENDUM! Þetta er hluti af því. Þetta er fjölbreyttur hópur, sum börn með litla skólagöngu, misbrotinn bakgrunn en eiga það sameiginlegt að allt hér er nýtt fyrir þeim. Börnin búa dreift og það er áhyggjuefni. Hvernig þau komast í og úr skóla er verkefni þarf að leysa.

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans um samþykkt nýrra reglna um félagslegt húsnæði

Þær breytingar sem hafa verið gerðar er góðar eins langt og þær ná. Flokkur fólksins hefði viljað ganga lengra sbr. tillögu um að fella á brott þá kvöð að viðkomandi hafi þurft að eiga lögheimili í Reykjavík. Sveitarfélag ber að veita þá þjónustu sem viðkomandi þarfnast án skilyrða. Geti viðkomandi ekki einhverra hluta vegna kostað húsnæði yfir höfuð sitt ber borgarkerfinu að koma til hjálpar. 12 mánaða skilyrðið hefur fælingarmátt og veldur fólki í erfiðri stöðu sem þessari einungis meiri erfiðleikum og hugarangri. Almennt má einfalda þessar reglur enn meira eins og aðrar reglur sem snúa að umsókn um fjárhagsaðstoð. Leiðarljósið á að vera að gera fólki þetta ferli eins auðvelt og átakalaust og hægt er, hafa sveigjanleika og afla einungis þeirra upplýsinga sem rétt nægja til afgreiða umsóknina.

Bókun Flokks fólksins við úrskurð samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um álagningu vatnsgjalds

Þetta er hið mesta klúðursmál og spurning hvort hægst sé að leiðrétta þetta til baka í tíma. Af þessari oftöku verður að láta og tryggja að gerist aldrei aftur. Seilst hefur verið í vasa borgarbúa með grófum hætti. Þetta er ein staðfestingin enn á því hvernig sum þessara fyrirtækja sem kallast B hluta fyrirtæki virka. Það hefur ekki gengið vel með mörg þeirra. Þar eru stórar ákvarðanir teknar án þessa að eigendur hafi nokkra aðkomu og varla er hægt að kalla það lýðræðislegt. Þetta fyrirtæki sem fleiri fyrirtæki undir svo kölluðum B hluta ættu einfaldlega að heyra beint undir borgarráð og vera þannig í nánari tengslum við borgarbúa. Hér er um fyrirtæki að ræða sem eru eins og ríki í ríkinu. B hluta fyrirtæki eru orðin svo aftengd borginni að fólk gleymir að þau eru borgarfyrirtæki.

Tillaga Flokks fólksins um að gripið verði til sérstakar aðgerðir til að létta undir með fátækum barnafjölskyldum

Tekin til afgreiðslu
Lagt er til að Reykjavíkurborg setji það á stefnuskrá sína að grípa til sértækra aðgerða til að létta undir með fátækum barnafjölskyldum. Það eru tæpar 500 fjölskyldur með um 800 börn sem eru með fjárhagsaðstoð. Á annað þúsund barna býr í félagslegu leiguhúsnæði á vegum Reykjavíkurborgar og í 1.000 barnafjölskyldur fá sérstakan húsnæðisstuðning. Borgin ætti að horfa mun meira til tekna foreldra og forráðamann þegar gjald sem snýr að börnum sem dæmi skólamáltíðir, dvöl á frístundaheimili/félagsmiðstöðvar og tómstundir er ákvarðað. Framtíðarmarkmiðið ætti að vera að ofangreindir þættir séu gjaldfrjálsir fyrir fjölskyldur sem eru undir framfærsluviðmiði. Áður hefur borgarfulltrúi. Flokks fólksins lagt til að gjald skólamáltíða verði lækkað til að tryggja að ekkert barn væri svangt í skólanum en þær tillögur voru felldar. Það er ekki verið að gera nóg fyrir fjölskyldur sem eru í mestri neyð eins og staðan er núna. Börnum fátækra foreldra er mismuna á grundvelli efnahags foreldra þeirra. Með því að einblína sérstaklega á þennan hóp með ákveðnar sértækar aðgerðir til að létta byrði þeirra er ekki einungis verið að létta fjárhagslega á fjölskyldum og einstaklingum heldur er einnig verið að létta á áhyggjum og vanlíðan sem tengist því að ná ekki endum saman.

Greinargerð fylgir þessari tillögu
Vísað til meðferðar velferðarráðs

Bókun
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill höfða til þeirra flokka í meirihlutasamstarfinu sem hafa gefið sig út fyrir að vera jafnaðarflokkar. Til að hægt sé að stuðla að jöfnun þarf að beita sértækum aðgerðum til að rétta hlut þeirra verst settu. Það verður aldrei neinn jöfnuður að heitið geti ef hækkanir ganga upp allan skalann án tillits til efnahags og aðstæðna fólks. Hópur efnaminna fólks og fátækra hefur orðið útundan í Reykjavík síðustu ár. Hátt leiguverð og gríðarlega erfiður húsnæðismarkaður étur upp meira og minna allt sem fólk nær að þéna á mánuði. Borgarafulltrúi vill benda á skýrsluna Lífskjör og fátækt barna á Íslandi 2004-2016 sem unnin var fyrir Velferðarvaktina. Þar segir að brýnast er að bæta lífskjör einstæðra foreldra og barna þeirra. Nærri fjögur af hverjum tíu börnum undir lágtekjumörkum eru börn einstæðra foreldra. Þá hefur húsnæðiskostnaður meiri áhrif á fátækt barna einstæðra foreldra en barna sem búa á annarskonar heimilum. Annar hópur sem er vert að huga að eru börn öryrkja. Staða barna þeirra er á pari við stöðu barna einstæðra foreldra. Staðan á húsnæðismarkaði hefur haft mikil áhrif á lífskjör barna. Á þessu ástandi bera borgaryfirvöld mikla ábyrgð og ætti því hiklaust að huga að frekari lausnum fyrir þennan hóp sem um ræðir hér.

Tillaga Flokks fólksins um frekari einföldun á reglum um fjárhagsaðstoð

Tekin til afgreiðslu
Tillaga um enn frekari einföldun á reglum um fjárhagsaðstoð: Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði í að einfalda reglur um fjárhagsaðstoða frá Reykjavíkurborg enn meira. Gæta þarf meðalhófs þegar kemur að öflun gagna og upplýsinga og almennt að reyna að gera fólki þetta ferli eins auðvelt og hægt er með því að einfalda það eins og frekast er unnt.

Tillögunni vísað frá

Bókun Flokks fólksins vegna frávísunar tillögunnar

Meirihlutinn hefur vísað tillögunni frá og er það miður í ljósi þess að mörgum þykir flækjustigið heilmikið í borgarkerfinu og ef einhverju er breytt þá er það eitthvað agnarlítið auk þess sem langur tími líður á milli breytinga. Horfa þarf á þessi mál út frá sjónarhorni notandans, hvernig þessi hlutir eru að virka fyrir notendur þjónustunnar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr hvort yfir höfuð sé nokkuð rætt við notendur þjónustunnar um hvað þeim finnst um reglurnar. Hvað finnst notendum eðlilega ferli þegar sótt er um fjárhagsaðstoð sem dæmi? Nú státar borgarmeirihlutinn sig af því að hafa notendasamráð að leiðarljósi og þá hlýtur að vera hægt að krefjast þess að það sé ekki bara í orði heldur einnig á borði??

Tillaga Flokks fólksins um rýmkun á reglum um frístundarkort til að heimila notkun fyrir stutt verkefni


Tekin til afgreiðslu

Lagt er til að reglur um Frístundarkort verði rýmkaðar til að hægt sé að nota það til þátttöku í stuttum verkefnum. Lagt er til að reglur um Frístundarkortið verði víkkaðar þannig að hægt sé að nota það með rýmri hætti en nú er hægt. Reglurnar eru allt of strangar eins og þær eru í dag og niðurnjörfaðar. Eins og reglurnar eru nú „er einungis hægt að nota Kortið hjá félögum og samtökum í Reykjavík. Félagið sem er með námskeiðið þarf að vera með samning við Reykjavíkurborg. Námskeið þarf að vera að minnsta kosti 10 vikur. Kennarinn eða leiðbeinandinn þarf að vera með menntun í því sem er kennt á námskeiðinu og eldri en 18 ára. Húsnæði þar sem námskeið fer fram þarf að vera með rekstrarleyfi. Þetta eru allt of strangar reglur. Um þetta þyrfti að losa. Hægt ætti að vera nota kortið til þátttöku í stuttum íþrótta- og félagslega tengdum verkefnum. Í þessu tilfelli skiptir húsnæði ekki miklu máli og mætti t.d. taka út þann þátt. 10 vikur er allt of langur tími og hentar ekki öllum börnum og unglingum. Sjálfsagt ætti að vera að systkini noti sama kortið ef það hentar þeim.

Tillaga er felld

Málsmeðferðartillaga Flokks fólksins að tillögunni verði vísað inn í stefnumótunarvinnu Íþrótta- og tómstundaráðs.


Afgreiðsla meirihlutans:
Í ljósi þess að tillaga er felld kemur málsmeðferðartillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins ekki til afgreiðslu.

Bókun Flokks fólksins
Tillagan hefur verið felld. Það var ósk borgarfulltrúa Flokks fólksins og eins fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að þessari tillögu verði vísað inn í stefnumótunarvinnu Íþrótta- og tómstundaráðs. Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram breytingatillögu þess efnis en þar sem tillaga meirihlutans gekk lengra var greitt atkvæði um hana og þar með var tillaga Flokks fólksins felld.  Svo virðist sem engin leið sé fyrir borgarfulltrúa Flokks fólksins að fá meirihlutann til að skoða þessar reglur með það að leiðarljósi að rýmka þær til að fleiri börn geti nýtt sér Frístundarkortin.  Ein af þessum stífu reglum er að skilyrða  kortið við 10 vikna námskeið í það minnsta. Þetta nær engri átt. Fleiri skilyrði eru afar þröng og algerlega óþörf. Það ætti að vera borgarmeirihlutanum ljúft og skylt að létta á þessum skilyrðum og gefa þannig fleiri börnum rýmra tækifæri að nýta kortið svo nýtingin verði sómasamlega í öllum hverfum.

Fyrirspurnir um aukagjöld sem börn þurfa að greiða vegna ferða og viðburða í skóla

Grunnskólinn er samkvæmt lögum gjaldfrjáls og þarf það að gilda um allt sem tengist skólanum. Engu að síður hefur fregnast að börnin þurfi að greiða ýmis konar gjöld sem börn hafa þurft að greiða vegna ferða og viðburða. Flokkur fólksins óskar eftir að fá upplýsingar frá skólum borgarinnar um gjöld vegna skólaferðalaga, árshátíðar og annarra viðburða síðastliðið ár sem börn hafa þurfa að greiða til að fá að taka þátt.
Það er mikilvægt að fá þessar upplýsingar til að sjá í hvernig þessum málum er hátta. Vitað er að það eiga ekki allir foreldrar aukakrónur til að standa straum af kostnaði sem þessum. Börn efnalítilla og fátækra foreldra þurfa þess vegna stundum einfaldlega að sitja heima og það er sárt. Það má aldrei vera þannig að barn geti ekki tekið þátt í skólatengdum viðburðum vegna þess að foreldri getur ekki greitt uppsett gjald. Að mismuna börnum vegna fjárhagsstöðu foreldra samræmist ekki Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Börn fátækra foreldra fá t.d. ekki sömu tækifæri til tómstunda. Skólatengdir félagslegir viðburðir og  verkefni eru stundum eina tómstund þessara barna.

Vísað til umsagnar Skóla- og frístundarráðs

Fyrirspurn um fjölda barna sem hefur ekki fengið skóavist vegna hegðunarvanda

Óskað er eftir upplýsingum um hve mörg börn hafa undanfarin fimm ár hafa lent á milli skips og bryggju í skólamálum með þeim afleiðingum að barn fær ekki skólavist vegna þess að það glímir við djúpstæðan hegðunarvanda tengd röskun af einhverju tagi?  Til að tengja þessa fyrirspurn raunveruleikanum er rifjuð upp nýleg frétt þar sem stúlka fékk ekki skólavist sem rekja má til þarfar hennar fyrir umtalsverða sérþjónustu og sértækrar aðstoðar. Það er alvarlegt þegar borgaryfirvöld sem segist reka stefnu „Skóli án aðgreiningar“ geta ekki sinnt börnum með sérþarfir en samt segir í stefnunni að skólinn eigi að vera fyrir alla. Þetta verður að skoða í víðara samhengi. Það hefur lengi verið vitað að það er ákveðinn hópur barna sem líður illa í skólanum vegna þess þau fá ekki þjónustu við hæfi. Hér er það staðfest enn og aftur að þessi metnaðarfulla ímynd um skóla fyrir er ekki að virka fyrir ÖLL börn og ekki nóg með það heldur er börnum sem glíma við mikla erfiðleika tengdum veikindum sínum hreinlega vísað frá.  Flokkur fólksins vill fá að vita hve mörg börn hafa verið sett í ólíðandi aðstæður sem þessar.

Vísað til umsagnar Skóla- og frístundarráðs

Fyrirspurn um kostnað ef grunnskólabörn fá frítt í strætó

Óskað er eftir að það verði reiknað út eða áætlað í ljósi notkunar, hvað það kostar að grunnskólanemendur í Reykjavík fái frítt í strætó?

Vísað til umsagnar stjórnar Strætó bs.

Fyrirspurn áheyrnafulltrúa Flokk fólksins varðandi kvartanir sem væntanlega berast Strætó bs.  

Áheyrnafulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um allar kvartanir sem kunna að hafa borist Strætó BS frá notendum þjónustunnar og sem varða þjónustuna síðastliðin þrjú ár.

Óskað er eftir upplýsingum um hvernig Strætó BS hafi afgreitt kvartanir sem kunna að hafa borist. Óskað er upplýsinga um hversu langur tími að meðaltali hefur liðið frá því að kvörtun berst og þar til sá sem kvartar fær svar/afgreiðslu á máli sínu.

Vísað til umsagnar Strætó bs

Tillaga frá Flokki fólksins um að borgin greini stöðu fatlaðra barna með innflytjenda-bakgrunn

Lagt er til að Reykjavíkurborg láti greina stöðu fatlaðra barna með innflytjenda-bakgrunn til að varpa ljósi á á stöðu þeirra í íslensku samfélagi. Skoða þarf hverjar eru aðstæður þessara barna og þarfir, hvernig er þjónustu við þau háttað og hvað má gera til að tryggja að hún komi sem best til móts við þarfir barnanna?

Tillögur um að fleytitími verði enn meiri sveigjanlegur

Lagt er til að borgin beiti sér fyrir að vinnutími þeirra sem starfa í miðborginni verði enn breytilegri en nú er í þeim tilgangi að létta á umferðarteppu í og úr miðbænum á ákveðnum tíma árdegis og síðdegis.
Í sama tilgangi er lagt er til að borgin beiti sér í ríkari mæli en nú er gert  í að atvinnufyrirtæki rísi í úthverfum frekar en í miðborginni. Hér er átt við fyrirtæki/stofnanir sem vegna þjónustunnar sem veitt er þurfi fólk að leita þangað í eigin persónu.
Loks er lagt til að skoðað verði gaumgæfilega hvaða fyrirtæki sem nú eru í miðbænum mætti hugsanlega færa í úthverfin hvorutveggja í þeim tilgangi að létta á umferð í og úr miðborginni.

Frávísun
Tillögunni sem er lögð fram á fundinum er strax vísað frá og neitað er að gefa upp rökstuðning fyrir frávísuninni þótt borgarfulltrúi Flokks fólksins hafi farið fram á það.

Bókun Flokks fólksins
Meirihlutinn í borgarráði hefur vísað fyrirspurn Flokks fólksins frá og er það í fyrsta skipti sem tekið er upp á því að vísa frá nýlögðum tillögum. Óskað var eftir skriflegum rökstuðningi en því var hafnað. Ástæðan fyrir frávísuninni er því óljós.

Tillaga um að Sorpa taki upp þriggja tunnu flokkunarkerfi

Lagt er til að Reykjavíkurborg/Sorpa taki upp þriggja tunnu kerfi í Reykjavík. Þetta hefði átt að vera löngu búið að gera og í raun hefði Reykjavík átt að vera leiðandi á með slíkt kerfi sem stærsta sveitarfélag landsins. Nú hafa mörg sveitarfélög tekið þetta upp og má segja að Reykjavík sé að verða allt að því gamaldags þegar kemur að flokkun sorps.  Við hvert hús ætti að standa þrjár tunnur, gærn, brún og grá.
Þriggja  flokka sorpflokkunarkerfi er nú þegar við lýði í tólf bæjarfélögum á landinu, þ.e.; Stykkishólmi, Nónhæð í Kópavogi, Hveragerði, Flóahreppi, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Skaftárhreppi, Fljótsdalshéraði (Egilsstöðum), Fljótsdalshreppi, Langanesbyggð, Fjallabyggð, Hvalfjarðarsveit og Fjarðabyggð. Kópavogur er að byrja með þetta kerfi hjá sér. Önnur fimm bæjarfélög nota tveggja tunnu kerfi þ.e. gráu tunnuna og grænu tunnuna þ.e.; Arnarneshreppur, Fjarðarbyggð, Akranes, Borgarbyggð og Skorradalshreppur.

Greinargerð

Þriggja tunnu kerfið gengur í daglegu tali undir heitinu „Stykkishólmsleiðin“ þar sem Stykkishólmur var fyrsta sveitarfélagið til að gera samning við Íslenska gámafélagið um þriggja flokka kerfi. Þriggja flokka kerfið felur í sér að íbúar sveitafélaga taka skrefið til fulls í flokkun sorps og söfnun og moltugerð lífræns úrgangs frá öllum heimilum.

Markmið verkefnisins er að minnka umfang almenns sorps sem fer til urðunar um 70-80%. Þannig sparar sveitarfélagið stórar fjárhæðir og flokkaða efnið fær endurnýjun lífdaga í nýjum framleiðsluvörum sem sparar auðlindir, eða umbreytist í orku t.d. við bruna eða við metanframleiðslu.

Vísað til meðferðar stjórnar Sorpu

Tillaga um að setja hjólreiðarreglur um hámarkshraða

Flokkur fólksins leggur til að settar verði hjólareiðahraðareglur í borginni þar sem þess þarf og það er eflaust víða. Nú með hækkandi sól eykst umferð hjólandi, gangandi og hlaupandi. Fjölmörg dæmi eru um að hjólreiðamenn hjóla allt of hratt þegar þeir fara fram úr öðrum hjólreiðarmönnum og gangandi vegfarendum. Margir gangandi og einnig hjólreiðarmenn eru með hundinn sinn sér við hlið. Dæmi eru um að hjólreiðamenn hafi þotið fram hjá á ca 60 km+. Hvað gerist t.d.  ef 80 kg  hjólreiðamaður lendir á fólki eða dýrum á 60 km hraða. Ástandið er þannig víða að það er ekki spurning um hvort verður slys heldur hvenær. Nefna má staði eins og Víðidal.  Að sunnanverðu er víða mjög blint vegna trjáa. Engu að síður hjóla sumir á ógnarhraða og taka hiklaust fram úr öðrum hjólandi og gangandi stundum á ógnarhraða. Ástandið í Víðidal er alvarlegt hvað þetta varðar og án efa er það víðar í borginni. Hér verður að grípa til aðgerða með því að setja hámarkshraða, hraðahindranir þar sem það á við og að aðskilja keppnishjólreiðar og gangandi vegfarendur þar sem það er nauðsynlegt.