Borgarráð 9. maí 2019

Lögð fram svohljóðandi tillaga Flokks fólksins um að lóð Brúarskóla verði löguð hið fyrsta

Lagt er til af Flokki fólksins að farið verði hið fyrsta í að laga lóðina í kringum Brúarskóla. Eftir því sem næst er komist var búið að teikna lóðina upp en síðan var verkefnið sett til hliðar. Lóðin er verulega illa farin og á henni eru slysagildrur. Á henni eru heldur engin leiktæki eða afþreyingartæki fyrir börnin eða viðundandi svæði til athafna fyrir utan körfuboltakörfu. Þetta er eitt dæmi þess að skólinn virðist vera eins konar afgangsstærð hjá borginni og hefur umhverfi hans ekki verið sinnt sem skyldi. R19050072

Vísað til skoðunar í yfirstandandi vinnu við gerð fjárfestingaáætlunar.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Flokkur fólksins óskar eftir upplýsingum um úttektir á grunnskólum borgarinnar sem framkvæmdar hafa verið, hvenær og á hvaða skólum aðrar en sjálfsúttektir. Hér er verið að spyrja um úttektir sem gerðar eru af utanaðkomandi aðilum. Óskað er yfirlits yfir gerðar úttektir og upplýsingar í samantektarformi um hverja og eina síðustu 10 árin. Úttekt á skólum borgarinnar er afar mikilvæg fyrir alla hlutaðeigandi aðila til að hægt sé að fá það staðfest að verið sé að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið. Aftur er ítrekað að hér er ekki verið að spyrja um sjálfsmatsúttektir. R19050085

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Lögð fram tillaga Flokks fólksins um að framkvæmd verði víðtæk skoðanakönnun vegna varanlegrar lokunar Laugavegs og Skólavörðustígs

Flokkur fólksins leggur til að framkvæmd verði víðtæk skoðanakönnun á meðal borgarbúa víðs vegar um borgina með spurningum sem eru skýrar þannig að svarendur geti áttað sig á um hvað málið snýst sem er að bílar mega alfarið ekki aka um Laugaveg og hluta Skólavörðustígs allt árið um kring hvernig sem viðrar, þegar áætlunin verður framkvæmd. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill mótmæla því sem ítrekað hefur komið fram, þar á meðal í bókun meirihlutans um málið frá 4. apríl, lið 2, að kannanir hafi staðfest ánægju Reykvíkinga með göngugötur í miðborginni og þar með lokun þeirra fyrir allri bílaumferð árið um kring. Það kann að vera að ánægja sé með lokanir gatna fyrir bílaumferð yfir sumartímann en engar kannanir hafa sýnt að meirihluti Reykvíkinga sé ánægður með varanlega lokun þessara umræddu gatna fyrir allri umferð bíla. Þær skoðanakannanir sem auk þess er verið að vísa í eru mjög takmarkandi og styðst meirihlutinn einungis við hluta úr þeim könnunum í málflutningi sínum sem engan veginn gefur heildarmynd. Spurningar í þeim könnunum eru villandi og gefa því heldur ekki raunhæfa mynd af vilja og afstöðu borgarbúa.

Tillagan er felld.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Bráðabirgðarverkferill vegna kvartana starfsmanna yfir kjörnum fulltrúum

Borgarritari hefur tekið við kvörtunum frá starfsfólki vegna kjörinna fulltrúa eins og opinbert er orðið. Það er ábyrgðarhluti að taka á móti kvörtun þegar ekki er til farvegur fyrir hana og ill gerlegt að búa hann til vegna ójafnrar stöðu kjörins fulltrúa annars vegar og starfsmanns hins vegar. Verið er að gefa þeim sem kvartar falskar vonir um vinnslu til lausnar. Tillagan er órökrétt enda geta kvörtunarmál starfsmanns yfir kjörnum fulltrúa aldrei fengið neinar rökréttar málalyktir. Hins vegar hefur borgarritari veitt nánast skotleyfi á starfsfólk borgarinnar með því að bjóða kjörnum fulltrúum að senda mannauðsdeild formlega kvörtun teldu þeir starfsmann hafa gert á hlut sinn. Að opna fyrir þennan möguleika er ekki réttlátt gagnvart hinum almenna starfsmanni borgarinnar. Formlegt ferli getur leitt til áminningar eða brottrekstrar starfsmanns allt eftir alvarleika málsins. Sama gengur ekki á hinn veginn þar sem hvorki er hægt að reka kjörinn fulltrúa né áminna hann. Kjörinn fulltrúi hefur á hinn bóginn engan stuðning af stéttarfélagi eins og starfsmaðurinn. Komi upp mál milli aðila er dómstólaleiðin eina færa leiðin þegar aðilar eru annars vegar kjörinn fulltrúi og hins vegar starfsmaður.

Lögð fram tillaga Flokks fólksins um að fengið verði mat stjórnsýslufræðinga á tillögu meirihlutans um bráðabirgðarverkferil fyrir kvartanir yfir kjörnum fulltrúum

Borgarfulltrúi Flokks fólks leggur til að fengið verði mat stjórnsýslufræðinga á hvort sú tillaga meirihlutans sem nú hefur verið samþykkt af þeim einhliða um bráðabirgðaverkferil sem hefur það markmið að skapa farveg fyrir kvartanir starfsfólks yfir kjörnum fulltrúum standist skoðun. Lagt er til að þetta verði metið út frá stjórnsýslulögum og öðrum lögum og reglugerðum sem hún kann að snerta vegna þeirrar ójöfnu stöðu sem kjörinn fulltrúi hefur annars vegar og starfsmaður hins vegar. Borgarritari hefur tekið við kvörtunum frá starfsfólki vegna kjörinna fulltrúa. Það er ábyrgðarhluti hjá borgarritara að taka á móti kvörtun þegar ekki er til farvegur fyrir hana og útilokað að búa til slíkan vegna ójafnrar stöðu kjörins fulltrúa annars vegar og starfsmanns hins vegar. Tillagan er að mati borgarfulltrúa órökrétt enda geta kvörtunarmál starfsmanns yfir kjörnum fulltrúa aldrei fengið neinar rökréttar málalyktir. Því er því mikilvægt að sérfræðingar leggist yfir hana út frá stjórnsýslulögum. Borgarritari og borgarstjóri byggja þessa hugmynd sína á afar óljósri og loðinni skýrslu frá siðanefnd sveitarfélaga. Þessu er við að bæta að það vakti furðu þegar borgarritari veitti nánast skotleyfi á starfsfólk borgarinnar með því að bjóða kjörnum fulltrúum að senda mannauðsdeild formlega kvörtun teldu þeir starfsmann hafa gert á hlut sinn.

Greinargerð fylgir tillögunni. R19030021
Vísað til skoðunar í yfirstandandi vinnu við gerð varanlegs verkferils.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árið 2010-2024

Umsögn fjármálaskrifstofu

Enda þótt Alþingi sé ekki að standa sig gagnvart sveitarfélögum í að tryggja fulla fjármögnun í fjölmörgum málum eins og fram kemur í skýrslu fjármálastjóra verður borgin engu að síður að forgangsraða fjármunum borgarsjóðs þannig að fólkið sjálft og þjónusta við það sé ávallt í forgangi. Aðrir hlutir verða þá bara að raðast aftar. En þannig hefur það ekki verið undanfarin ár og hefur vandinn því vaxið. Dæmi um mál sem eiga að vera í algerum forgangi og nefndir eru í skýrslunni eru þjónusta við heimilislausa með flóknar þjónustuþarfir, fjölgun dagdvalarrýma og fjölgun hjúkrunarrýma til þess að fólkið sem ýmist vegna aldurs eða veikinda geti komist heim með stuðningi eða á hjúkrunarheimili allt eftir því sem mætir þeirra þörfum hverju sinni. Borgin státar sig af hagnaði og þennan hagnað þarf að nota til að bæta þjónustuna sem og hagræða í þágu fólksins. Ekki er dregið úr því að Alþingi stendur ekki við sínar skuldbindingar en það réttlætir ekki að láta fólkið bíða í ólíðandi aðstæðum eins og víða er raunin. Áfram verður að þrýsta á Alþingi af krafti að tryggja fjármögnun í fjármálaáætlun sinni og fulla fjármögnun eins og lög gera ráð fyrir.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Samgöngumál á höfuðborgarsvæðunum, Borgarlína

Hér er um gríðarmikið fé að ræða sem Reykjavík leggur út fyrir borgarlínu. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að borgarlína muni líklegast verða byggð. Enn er allt fjármagn frá ríkinu þó ekki fast í hendi. Það væri alveg skemmtilegt að ráðast í þetta verkefni ef staða allra borgarbúa hvað varðar grunnþarfir væri í það minnsta viðunandi. En svo er aldeilis ekki. Í þessari litlu borg sem nú skilar hagnaði samkvæmt ársreikningi 2018 hefur ekki tekist að tryggja öllum borgarbúum grunnþjónustu. Raunveruleikinn er blákaldur og eru honum gerð ágæt skil í umsögn fjármálastjóra um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2020 til 2024 til fjárlaganefndar Alþingis. Skóinn kreppir víða og ekki síst í velferðarmálum, heilbrigðis- og öldrunarmálum og skólamálum. Á 9. hundrað umsókna eru eftir félagslegri leiguíbúð í Reykjavíkurborg, tæp 500 börn búa undir fátæktarmörkum og tæp 800 börn eru börn foreldra sem fá fjárhagsaðstoð í Reykjavík. Slæm staða er víða dregin upp sem hefur alvarleg áhrif á líðan fólks með tilheyrandi afleiðingum, ekki síst á börnin í þeim fjölskyldum sem ekki hafa nóg til að getað lifað áhyggjulausu lífi. Allt þetta hlýtur að lita mögulegan spenning sem fylgir komandi borgarlínu.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Innkaupareglur Reykjavíkurborgar

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar endurskoðun á innkaupareglum Reykjavíkur. Breytingar eru til bóta og greinilega þarfar í ljósi þess að innkaupreglur í braggamálinu og fleiri framkvæmdum voru brotnar. Að sporna við samningagerð við þann sem orðið hefur uppvís af kennitöluflakki er sérstaklega ánægjulegt að sjá í reglunum. Sumt af því sem nefnt er í kynningu hefði maður haldið að væri sjálfsagt eins og að kaupandi skuli ávallt gæta hagkvæmni og gera samanburð meðal sem flestra fyrirtækja. En þeim sem unnu þessa endurskoðun hefur engu að síður þótt nauðsynlegt að nefna það sérstaklega. Ekki síst er mikilvægt að lögð er áhersla á aukið eftirlit og að auka upplýsingaflæði til innkauparáðs en á því varð einmitt brestur í braggamálinu. Rúsínan í pylsuendanum er að innkauparáð geti stöðvað framkvæmd tímabundið ef ekki liggur fyrir að samningi hafi verið komið á í samræmi við innkaupareglur og/eða ef fjárheimildir eru ekki fyrir hendi. Löngu tímabært ákvæði að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins!

Bókun Flokks fólksins við liðnum Mat Innri endurskoðunar á eftirlitsumhverfi Reykjavíkurborgar 2019

Í skýrslu IE um mat á eftirlitsumhverfi Reykjavíkurborgar koma fram upplýsingar um hvernig staðið hefur verið að hinum ýmsu verkþáttum í tengslum við framkvæmdir í borginni. Fram kemur í umsögn endurskoðunarnefndar að fyrst í júlí í fyrra var tekið skref í átt að heildstæðri áhættustýringu. Eitt af áhersluatriðum nefndarinnar er að skjótar verði brugðist við ábendingum og er lögð áhersla á að unnið verði hraðar en verið hefur. Til að átta sig betur á hvað er verið að hnýta í segir í skýrslunni að 10% áhættuflokkaðra ábendinga hafa fengið rauða áhættuflokkun sem ber merki um alvarlega veikleika í innra eftirliti. Flestar ábendingar eða 46% hafa gula áhættuflokkun, 26% appelsínugula og 18% græna sem þýðir að eftirlit er viðunandi. Strategía gerði skýrslu um skipurit og kemur þar fram að umboð og hlutverk er ekki í takt við núgildandi skipurit. Gegnsæi vegna stjórnarhátta borgarinnar sem eiganda B-hluta fyrirtækja er ekki gott. Bæta verður rekstur tölvukerfa hjá borginni. Almennt má velta því fyrir sér af hverju svo miklar brotalamir eru í borginni. Æðstu valdhafar hafa setið við völd í mörg ár og enn hafa 37% ábendinga ekki fengið úrlausn, sumar þeirra eru margítrekaðar.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Tjaldsvæði í Laugardal

Bréf Íþrótta- og tómstundasviðs vegna tjaldsvæðis

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill byrja á því að þakka þeim sem haldið hafa utan um þetta mál fyrir góða vinnu og upplýsingagjöf til borgarfulltrúa. Huga þarf að skammtíma- sem og framtíðarlausn. Ákveðinn hópur er í Laugardal og hefur borgarfulltrúi ávallt lagt ríka áherslu á að hlusta á væntingar og þarfir hans. Borgarfulltrúi styður þá lausn sem hér er dregin upp svo fremi sem hún samræmist væntingum einstaklinga sem um ræðir. Hafa verður einnig í huga að þessi hópur gæti bæti breyst og stækkað. Ávallt munu verða einhverjir sem velja að búa í húsbíl og huga þarf að staðsetningu til framtíðar hér í borginni. Þegar hugsað er til framtíðar ætti að vera fleiri en ein svona aðstaða, þetta búsetuform er sveigjanlegt og gætu fleiri viljað koma inn í þetta. Í borgum annars staðar er þetta alla vega þannig. Nýta ætti sveigjanleikann sem þetta húsnæðiskerfi á hjólum býður upp á. Það þurfa ekki að vera stór svæði í borginni, mætti t.d. nota svæði sem eru í biðstöðu en sem eru nálægt allri þjónustu og vissulega yrði stofnkostnaður sem snýr að aðgengi að sturtum, snyrtingum, þvottahúsi, eldhúsi og rafmagni. Vandamálið með sumarið verður að leysa og er borgarfulltrúi með tillögu í því sambandi.

Tillaga Flokks fólksins að borgin greiði helminginn af sumargjaldi fyrir hópinn sem er með húsbíla sína Laugardalnum

Flokkur fólksins leggur til að borgin greiði helminginn af sumargjaldinu fyrir þennan hóp í Laugardalnum. Sumargjaldið er 95 þúsund sem er allt of hátt fyrir þennan hóp sem hefur takmarkaða greiðslugetu og ber borginni að koma til móts við erfiða fjárhagsstöðu þeirra eins og annarra sem ná ekki endum saman. Í þessum hópi kunna að vera aðilar sem eiga ekki heima í Reykjavík og er lagt til að borgin ræði um samræmdar aðgerðir við viðkomandi sveitarfélög eftir atvikum.

Vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundasviðs.

Bókun Flokks fólksins vegna Gufunes, lóðarvilyrði til Þorpsins

Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst það skilyrði fyrir úthlutun lóðar til Þorpsins að Félagsbústaðir hf. skuli eiga rétt til að kaupa einungis 5% íbúða vera lágt. Þetta hlutfall mætti vera 10%. Einnig þykir sérkennilegt að Þorpið velji einslega þær íbúðir sem kauprétturinn nær til. Þótt sagt sé að þetta sé í einhvers konar samkomulagi þá er ekki betur séð en þetta sé alfarið ákvörðun Þorpsins. Þarna væri eðlilegra að Félagsbústaðir hefðu alla vega einhverja aðkomu að vali á þessum íbúðum sem standa þeim til boða.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við svar Skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem við framhaldsfyrirspurn Flokks fólksins um úttekt á framkvæmdum sem fara fram úr kostnaðaráætlun

Flokkur fólksins óskar eftir/leggur til að fengin verði umsögn IE á umsögn SEA frá 4. apríl og 6. maí við fyrirspurn borgarfulltrúa Flokks fólksins vegna úttektar annarra verkefna sem farið hafa fram úr kostnaðaráætlun. Flokkur fólksins lagði fram tillögur um að innri endurskoðandi tæki út þrjár framkvæmdir með sambærilegum hætti og braggann, sem farið hafa umtalsvert fram úr fjárhagsáætlun. Þessar framkvæmdir eru Gröndalshús, vitinn við Sæbraut og Aðalstræti 10. Tillaga um úttekt á Gröndalshúsi var felld í borgarráði. Innri endurskoðandi hefur staðfest að umrædd umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar kom aldrei inn á hans borð áður en hún var lögð fram. Í framhaldsfyrirspurn var spurt af hverju kom umsögn SEA ekki til skoðunar innri endurskoðanda. Svar SEA er á þá leið að ekki var óskað eftir umsögn innri endurskoðunar og var ekki gerð athugasemd við þá málsmeðferð í borgarráði. Hvort tveggja er gert hér með enda ekki eðlilegt að SEA veiti umsögn um eigið verk sem leiðir til þess að tillaga um úttekt er felld.

Tillaga Flokks fólksins um heimild til dýrahalds í félagslegu leiguhúsnæði borgarinnar hefur verið samþykkt.

Flokkur fólksins lagði fram tillögu í borgarráði þann 16. September 2018 um að hunda- og kattahald í félagslegum leiguíbúðum yrðir leyft. Tillögunni var vísað til stjórnar Félagsbústaða. Tillagan var tekin fyrir í stjórn Félagsbústaða og óskaði stjórnin eftir að málið yrði skoðað frekar áður en afstaða yrði tekin. Á samráðsfundi fulltrúa Félagsbústaða og Velferðarsviðs var tillagan til umfjöllunar og var það samdóma álit fundarmanna að ekki væri rétt að standa gegn hunda- og kattahaldi. Óskað var álits og umsagnar stjórnar samtaka leigjenda á tillögunni. Stjórnin tók málið upp á félagsfundi og þar kom fram að eðlilegt þykir að fylgt sé ákvæðum laga um fjöleignarhús um m.a. að afla þurfi samþykkis annarra íbúa. Þá þykir eðlilegt að útiloka tilteknar tegundir stórra hunda. Á fundi stjórnar félagsbústaða 2. maí sl. var málið á dagskrá að nýju. Samþykkt var að leyfa hunda- og kattahald samkvæmt almennum reglum og samþykktum íbúa. Samþykktin mun kynnt íbúum í fjölbýlishúsum Félagsbústaða og henni framfylgt í samræmi við lög um fjöleignarhús og samþykktir Reykjavíkurborgar um katta- og hundahald.