Borgarráð 20. maí 2021

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. maí 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. maí 2021 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Hvassaleitisskóla að Stóragerði 11A:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu í skipulagsráði um að skipulagsyfirvöld hlusti á íbúa við Brekkugerði og Stóragerði vegna tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir Hvassaleiti og nágrenni. Tillagan var felld með þeim rökum að málið væri afgreitt. Það hefði verið þessum meirihluta að meinalausu að hlusta á samstíga ákall íbúa sem benda á atriði um öryggi barna þeirra. Skipulagsyfirvöld eru í þjónustu borgarbúa en ekki öfugt. Skipulagsmál er ekki einkamál fárra aðila í meirihluta borgarstjórnar eða embættismanna. Enginn veit betur um hættur í hverfum en íbúarnir sjálfir. Fulltrúi Flokks fólksins telur að best hefði farið á því að fresta þessu máli enda hér farið gegn vilja íbúa sem hafa verið samstíga í málinu. Þetta er m.a. spurning um öryggi og öll viljum við að öryggi barna sem eru að koma í og úr skóla sé sem allra mest. Vinna á þetta með íbúum ekki síst þeim sem breytingarnar snerta mest. Aðgerðir þessar eru að ósk skólans en finna hefði átt lausn sem allir hefðu getað sætt sig við.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. maí 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við endurnýjun gönguleiða í eldri hverfum á árinu 2021:

Hér er verið að endurnýja gönguleiðir í eldri hverfum sem er víða mikilvægt enda margar gönguleiðir að koma illa undan vetri. Á þessum gönguleiðum er örugglega oft einnig hjólað. Nokkuð hefur borið á að rafhjól eru skilin eftir á miðjum gönguleiðum/stígum þar sem þau skapa mikla hættu, sérstaklega ef stígar eru þröngir. Flokkur fólksins bendir á að ef hjól, rafhjól og hlaupahjól eiga að verða hluti af samgöngukerfi þurfa gamlir göngustígar og leiðir ef því er að skipta að verða nothæfir fyrir slík farartæki. Best og öruggast er auðvitað að aðgreina gangandi og hjólandi umferð eins og kostur er og hlýtur það að verða framtíðin.

 

Bókun Flokks fólksins við  bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. maí 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við gerð hjólastíga 2021:

Framkvæmdin er hluti af verkefnum hjólreiðaáætlunar Reykjavíkurborgar sem er að mati fulltrúa Flokks fólksins metnaðarfull áætlun. Markmiðið að aðskilja gangandi og hjólandi umferð frá megin stofnleiðum borgarinnar. Hér er um einn áfanga að ræða en verkefnið er langtímaverkefni. Þetta plan lítur ágætlega út. Stærsta stökkið er að hafa aðgreinda stíga hjólandi og gangandi. Nú gengur, hleypur og hjólar fólk gjarnan með tónlist í eyrunum og heyrir því ekki eins vel þegar einhver nálgast það. Úr geta því orðið árekstrar. Víða eru eldri stígar blandaðir, hjóla- og göngustígar sem eru upphaflega hannaðir sem göngustígar. Þá þarf að lagfæra til að þeir verði öruggir og þægilegir fyrir bæði hjólandi og gangandi. Það ætti almennt ekki að vera vandamál. Rýmið er oftast nægilega mikið og hægt er að búa til aflíðandi beygjur og minnka brekkur. Járnslár sem víða eru á stígum eru hættulegar hjólreiðafólki. Ef stígar eru hugsaðir sem alvöru hluti af samgöngukerfi borgarinnar er mikilvægt að vera með eins lítið af brekkum og hægt er. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður minnst á að mikilvægi þess að taka fræðslu um reglur á hjólastígum (hjólakennslu) inn í skólana sem dæmi.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. maí 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna verkefna umferðaröryggisáætlunar:

Hér eru kynntar margar framkvæmdir sem snúa að bættu öryggi gangandi og er fulltrúi Flokks fólksins afar glaður með það. Mikilvægt er að íbúaráðin komi að því að forgangsraða verkefnunum. Gæði og hagkvæmni eiga að vera aðal áherslan eins og alltaf. Eftir því er tekið að Efla verkfræðistofa er látin sjá um undirbúninginn. Fulltrúa Flokks fólksins finnst alltaf erfitt að sjá hvað mikið fjármagn fer til einkaráðgjafafyrirtækja og ítrekað kemur upp sú spurning hvort hreinlega ætti ekki að hafa sérfræðinga (eins og þá hjá Eflu) á launaskrá borgarinnar til þess að sinna m.a. annars undirbúningi á svona verkefni. Með því myndi skapast mikil hagræðing og sparnaður.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. maí 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. maí 2021 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir Rauðhóla:

Búið er að skemma flesta Rauðhóla. Heilu hólunum var mokað í burtu, grafið í aðra og þeir skemmdir og nú stendur eftir alls konar form af „hólum“, allt skemmdir af mannanna völdum. Skemmdir vegna efnistöku eru skerandi og ættu að minna alla á að ganga vel um náttúruna. Hægt er að nota Rauðhólana sem efni í fræðslu um hvernig á ekki að ganga um náttúruna. Til stendur að gera nýtt göngustígakerfi og er það af hinu góða. Nú er spurning hvort og hvernig hægt er að gera það besta úr þessum skemmdum. Rauðhólar eru vannýtt svæði með tilliti til útivistar og mun bætt göngustígakerfi vonandi verða til bóta.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 18. maí 2021, um breytingu á gjaldskrá fyrir hundahald, ásamt fylgiskjölum:

Að innheimta hundagjald og skrá aðeins hunda af öllum gæludýrum er óviðunandi og ósanngjarnt ef horft er til þessa hóps sem heldur gæludýr. Vissulega hefur orðið einhver þróun til betri áttar, t.d. eru störf dýraþjónustunnar nú eilítið gagnsærri en áður. En staða þessara mála í borginni er almennt ekki nógu nútímaleg og góð borið saman við aðrar borgir.

Bókun Flokks fólksins við liðum 13, 14, 17, 18, 19, og 21 sem allir fjalla um stafræna umbreytingu: útboð, endurnýjun á netskápum; innleiðingu á kerfi til að halda utan um hugbúnaðaleyfi: innleiðingu á alþjónustu á prentumhverfi: útboðsferli á rafrænu fræðslukerfi og innleiðingu á öryggis og aðgangskerfi stjórnsýsluhúsa. Um er að ræða trúnaðarmál:

Fulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að margt þarf að laga og bæta í upplýsingatæknimálum borgarinnar. Það er þessi „grandiose“ hugsun sem einkennir framsetningu mála og liggur að baki ákvarðanatöku þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem skelfir fulltrúa Flokks fólksins. Tal um „allsherjar“ innleiðingu o.s.frv. hræðir einnig. Hvergi kemur fram að leitað sé samvinnu við „aðra“ til að halda niðri kostnaði, t.d. gera samning við nágrannasveitarfélög og deila þannig kostnaði og þar með afurðum/lausnum. Eitt er að eiga sér drauma í þessum málum en hitt er að horfa á raunveruleikann og gera sér grein fyrir að innspýting upp á 10 milljarða á 3 árum, er útsvarsfé borgarbúa. Nauðsynlegt er að fá nákvæmari hagræðingaráætlanir og hvað hefur verið reynt að gera til að finna hagkvæmustu leiðir á sama tíma og gætt er að gæðum að sjálfsögðu. Engu er til sparað að því er virðist í fjölda verkefna. Fulltrúa Flokks fólksins finnst svona viðhorf eigi ekki við í rekstri sveitarfélags. Halda mætti að verið sé að stofna „hugbúnaðarfyrirtæki“ á vegum Reykjavíkurborgar. Annað sem veldur áhyggjum er umfang í umgjörð, kaup á búnaði/húsgögnum og leiga á viðbótarhúsnæði í kringum þetta svið (ÞON) en fulltrúi Flokks fólksins hefur óskað eftir upplýsingum um sundurliðaðan kostnað í því sambandi.

Óskar J. Sandholt, Arna Ýr Sævarsdóttir, Finnur Kári Guðnason, Friðþjófur Bergmann, Kjartan Kjartansson og Þröstur Sigurðsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Mál þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem hér fara á eftir eru hluti af stafrænni umbreytingu Reykjavíkur. Alls er kostnaðarmat á þessum níu liða verkefnapakka sem hér er verið að óska heimildar til að fara í útboð fyrir um 1,7 ma.kr. Stafræn umbreyting snýst um nútímavæðingu þjónustu á forsendum íbúans með bættu aðgengi að þjónustu. Af þessu skapast mikið hagræði fyrir borgina, íbúa og umhverfið með minna veseni, minni mengun og minni sóun. Þetta er krafa nútímans og vegferð sem öll stærri fyrirtæki sem leggja áherslu á góða þjónustu eru á. Verkefnið er hluti af græna planinu þar sem stafrænni umbreytingu er hraðað og ráðist í verkefni á þremur árum sem hefðu ellegar tekið tíu ár.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 17. maí 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að fara í innkaup til að framhalda allsherjar innleiðingu á fjarfundarbúnaði:

Veita á heimild til að hefja allsherjar innleiðingu á fjarfundarbúnaði. Með því að orða þetta með þessum hætti er greinilega eitthvað stórt í aðsigi. Orðið „allsherjar“ þarfnast frekari skýringar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar hins vegar öllu því sem stuðlað getur að aukinni notkun fjarfundarbúnaðar. Bæði sparar það tíma og peninga sem annars færu í ferðir og er þá ekki síst átt við ferðir á milli landa ef svo ber undir. Þess vegna vonast borgarfulltrúinn til að spara megi umtalsverða fjármuni ef aukin notkun fjarfundarlausna verður innleidd með aukinni tækni. Hitt er að borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur séð að nú þegar er til staðar töluvert af, að því er virðist, „dýrum“ fjarfundarbúnaði á nokkrum stöðum í stjórnsýsluhúsum borgarinnar sem varla getur verið með öllu úreltur.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 13. maí 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili þjónustu- og nýsköpunarsviði að hefja innkaupaferli vegna breytinga á leyfasamningum fyrir innleiðingu á Microsoft Office 365 á alla starfsstaði borgarinnar:

Þjónustu- og nýsköpunarsvið óskar heimildar til að hefja innleiðingu á Microsoft Office 365 á alla starfsstaði borgarinnar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins heyrði af því á sínum tíma að búið væri að innleiða Microsoft Office 365 í allt skólaumhverfið borgarinnar. Fulltrúanum er kunnugt um að þar er um að ræða svokölluð skólaleyfi og veltir fyrir sér hvort þau séu ekki ódýrari? Heildarkostnaður þessa verkefnis er 605.000.000 kr. á tímabilinu júní 2021 til mars 2022. Yfir 600 milljónir í Microsoft Office. Er það besta tilboðið? Ekki er vitað til þess að kannað hafi verið hvort sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gætu sameinast í leyfakaupum af Microsoft og jafnvel ná með því betri tilboðum vegna aukins fjölda leyfa sem yrði vegna slíks sameiginlegs útboðs.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 13. maí 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja útboðsferli á úthýsingu vélasala Reykjavíkurborgar í gagnaver:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins skilur það að endurnýja þarf búnað sem kominn er til ára sinna og virkar ekki sem skyldi lengur. Fulltrúi Flokks fólksins styður að leitað sé allra leiða til lausna svo framarlega sem betri þjónusta, hagræðing og sparnaður hljótist af því. En ekki er hægt að sjá neinar upplýsingar um hagræðingu, hvar eru hagræðingartölur? Hvaða aðrir möguleikar hefðu verið í stöðunni sem dæmi og eins hvort ekki væri hægt að taka verkefnin í skrefum. Málið er lagt þannig upp að það er eins og allt sé ónýtt, eldgamalt drasl sem má nú sópa út. Borgarfulltrúinn er ekki sérfræðingur í vélarsölum en spyr sig samt hvort minni salur gæti hýst gögn borgarinnar. Við lestur þessa máls og annarra sambærilegra sem koma frá þjónustu- og nýsköpunarsviði fæst sú tilfinning „að engu er til sparað“ en minnt er á hvaðan fjármagnið kemur þ.e. frá fólkinu í borginni.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjóra, dags. 18. maí 2021, varðandi ársfjórðungsskýrslu græna plansins fyrir janúar til mars 2021:  

Lögð er fram Ársfjórðungsskýrsla græna plansins. Fram kemur að unnið er að einföldun, m.a. á skólaþjónustu. Þessi vinna gengur alltof hægt og enn hægar gengur að sinna börnum í vanda og vanlíðan sem bíða eftir þjónustu fagfólks. Skólaþjónustan er löngu sprungin. Biðlisti til fagfólks skóla er í sögulegu hámarki en nú bíða 1.033 börn eftir aðstoð fagaðila vegna ýmissa vandamála og vanlíðunar. Biðlistinn hefur lengst um 77 börn á tveimur mánuðum. Þann 1. mars voru 956 börn á bið eftir skólaþjónustu. Þeim hefur fjölgað síðan þá og voru 1.033 1. maí sl. Meirihlutinn lyftir ekki fingri til að taka á þessari neikvæðu þróun. Vandinn bara vex. Fulltrúi Flokks fólksins þreytist ekki á að nefna þetta enda er mikið í húfi. Hér er verið að leika sér að eldi. Barn í vanda og vanlíðan sem ekki fær nauðsynlega og viðeigandi aðstoð er líklegra til að grípa til örþrifaráða. Vaxandi vanlíðan barna í Reykjavík og aukning á depurð, kvíða, sjálfsskaða og sjálfsvígshugsunum hefur verið áhyggjuefni lengi. Á meðan börnin í borginni bíða er 10 milljörðum varið í stafræna umbreytingu sem er að minnsta kosti helmingi hærri upphæð en þyrfti til að styrkja tæknilega grunninnviði ef vel og skynsamlega væri haldið á spilunum og hagræðingar og hagkvæmni gætt.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi skóla- og frístundasviðs, dags. 24. mars 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 24. mars 2021 á tillögu um einhverfudeild í Réttarholtsskóla:

Tillögu um að stofnuð verði einhverfudeild í Réttarholtsskóla ber að fagna svo fremi sem úrræðinu fylgir nægt fjármagn og verði gert úr garði með fullnægjandi hætti. Jafnframt er mikilvægt að allir þeir sem starfi við deildina hafi sérþekkingu á málefnum einhverfra nemenda. Tekið er undir umsagnir, þ.m.t. umsögn skólaráðs, um að húsnæðið verði gert úr garði með fullnægjandi hætti, ekki síst hvað viðkemur rými, ljósi og hljóði svo fátt eitt sé nefnt. Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar áhyggjur af hvað margir sóttu um (38) en fáir fá pláss (8) og hvar mörkin eru dregin þegar sagt er að þau börn gangi fyrir sem „rekast illa í almennum bekk“ eins og kemur fram í gögnum. Þessi deild hefði þurft að vera stærri og deildarskipt ef vel hefði átt að vera því þarna verður sérþekking til staðar fyrir einhverf börn.

Bókun Flokks fólksins við bréfi innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar, dags. 18. maí 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að breyta heiti skrifstofunnar í Innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar:

Við skoðun á þessu nafni leitast fulltrúi Flokks fólksins við að reyna að skynja hvort nafnið sé lýsandi fyrir það hlutverk sem umboðsmaður borgarbúa hafði þegar hann var og hét, hlutverk sem innri endurskoðun hefur nú. Hlutverkið hans fólst m.a. í að hafa eftirlit með stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og tryggja rétt borgarbúa gagnvart henni. Þetta nýja nafn, Innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar, er gott eins langt og það nær en í nafninu felst þó ekki beinlínis að verið sé sérstaklega að tryggja rétt borgarbúa. Fulltrúi Flokks fólksins saknar tilvísunar í „borgarbúann“.
Hefði kannski mátt heita Innri endurskoðun og ráðgjöf íbúa Reykjavíkurborgar.


Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 26. apríl 2021, sem var samþykkt á fundi borgarráðs þann 29. apríl 2021 og færð í trúnaðarbók:

Harpa, tónlistarhús á 10 ára afmæli. Harpa er í eigu borgarinnar og ríkisins. Lagt er til að borgarráð samþykki að færa Hörpu, ásamt ríkinu, veglega gjöf. Það þýðir að eigendur eiga að gefa sjálfum sér gjöf. Er ekki mjög líklegt að nágrannasveitarfélögin vilji líka gefa Hörpu gjöf, svona fyrir að fá að njóta Hörpu án endurgjalds? Hefur slíkri hugmynd verið skotið að þeim?

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi við fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 3. maí 2021.

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari bókun og fagnar því yfirleitt að málefni tengd Arnarnesvegi komi loks inn á fund íbúaráðs Breiðholts. Í bókuninni er óskað eftir að farið sé í umhverfismat fyrir framkvæmd vegatengingar við Arnarnesveg. Fulltrúi Flokks fólksins bókaði síðast um málið í borgarstjórn að: „Fyrirhugaðar framkvæmdir við Arnarnesveg hafa verið kærðar. Hagur borgarinnar af þessari framkvæmd er lítill, en ókostir eru margir. Þúsundir fugla, þar á meðal lóur, hrossagaukar og spóar verpa á svæðinu og verulega er þrengt að fyrirhuguðum vetrargarði og framtíðarþróun hans er því í uppnámi. Byggja á framkvæmdina á 18 ára umhverfismati. Því er velt upp hvort fólk sem „dílar og vílar“ með þetta svæði hafi ekki séð það með eigin augum heldur skoði það aðeins á kortum. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur sem flesta til að koma á staðinn og sjá hvernig landið liggur. Á sama tíma og þetta er að gerjast talar meirihlutinn um grænar áherslur, aukið gildi náttúruverndar og útivistar. Engu að síður er búið að kvitta upp á að setja hraðbraut þvert yfir Vatnsendahvarfið og ekki aðeins skaða lífríkið heldur er brautin einnig ofan í leiksvæði barna, skíðalyftunni og svo auðvitað væntanlegum vetrargarði.“

Bókun Flokks fólksins við embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 31 mál:

Fulltrúi Flokks fólksins á tvö mál á lista embættisafgreiðslna sem lagður er fyrir borgarráð. Um er að ræða fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna ferða sviðsstjóra og stjórnenda þjónustu- og nýsköpunarsviðs sl. 4 ár og fyrirspurn um starfsánægjukönnun slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem kynnt var á síðasta borgarráðsfundi. Í þessu sambandi vill fulltrúi Flokks fólksins fara fram á að trúnaði verði aflétt af starfsmannakönnuninni. Sjálfsagt er að má út einhverjar persónugreinanlegar upplýsingar ef eru en mestu skiptir að gagn eins og þetta sé opið og gegnsætt. Að fela eða þagga vanlíðan, vandamál og jafnvel áreitni- og eineltismál sem eiga sér stað á vinnustöðum borgarinnar er ekki hagur neinna. Vanlíðan og vandi sem birtist í þessari könnun verður ekki til á einni nóttu. Þarna hafa vandamál kraumað í mörg ár og hafa jafnvel verið hunsuð af yfirmönnum. Að stimpla könnun af þessu tagi sem trúnaðarmál viðheldur gömlum og úreltum viðhorfum um að ekki megi tala opinskátt um þessi mál. Nú í nýrri bylgju eru gerendur ofbeldis/eineltis margir hverjir að stíga fram og vilja taka ábyrgð. Meirihlutinn vill varla standa í vegi fyrir þessari þróun, hvað þá vera gerendameðvirkur.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvaða áhrif vaxtahækkun Seðlabanka Íslands, sem tilkynnt var þann 19:

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvaða áhrif vaxtahækkun Seðlabanka Íslands, sem tilkynnt var þann 19. maí 2021 hefur á skuldastöðu og afborganir lána hjá Reykjavíkurborg. Svarið óskast sundurliðað milli A-hluta borgarsjóðs annars vegar og einstakra fyrirtækja Reykjavíkurborgar hins vegar.

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort stefnt sé að því að breyta gjaldskrá vegna akstursþjónustu fatlaðra og ef það á ekki að gera það hvaða rök standa að baki því að breyta ekki gjaldskránni:

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort stefnt sé að því að breyta gjaldskránni vegna akstursþjónustu fatlaðra og ef það á ekki að gera það hvaða rök standa að baki því að breyta ekki gjaldskránni. Það er mismunun að fötluðum einstaklingum sem eru tilneyddir að nota ferðaþjónustu fatlaðra sé gert að greiða hærra gjald en aðrir sem geta notað annarskonar samgönguleiðir. Í 29. gr. gjaldskrárinnar um akstursþjónustu kemur fram að sveitarfélögum er heimilt að innheimta gjald fyrir akstursþjónustu samkvæmt gjaldskrá sem sveitarstjórnir skulu setja og skal gjaldið vera sambærilegt gjaldi fyrir almenningssamgöngur á viðkomandi svæði. Hér segir að gjaldið skuli vera sambærilegt gjaldi fyrir almenningssamgöngur. Þarna er ekki um neitt val að ræða hjá sveitarfélögunum. Árskort eru seld með almennum hætti og ættu þar með að vera þau kjör sem öllum standa til boða. Þetta ætti þá að vera það gjald sem miðað er við, því ákvæðið er tengt við almenningssamgöngur. Í athugasemdunum sem fylgdu frumvarpinu sem varð að lögunum kemur fram að tilgangurinn með lagabreytingunni var að innleiða með efnislegum hætti 20. gr. Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Mikilvægust er 5. gr. SRFF í þessu samhengi sem kveður á um bann við hvers kyns mismun á grundvelli fötlunar, á öllum sviðum, alltaf alls staðar.

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um af hverju Reykjavíkur borg skiptir ekki við Múlalund:  

Ólíkt flestum öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu kaupir Reykjavíkurborg ekki skólavörur af Múlalundi, verndaðri vinnustofu SÍBS. Það er þrátt fyrir þá staðreynd að um 80% starfsmanna Múlalundar eru með lögheimili í Reykjavík. Í þrjú ár hefur Múlalundur reynt að ná borginni að samningaborðinu án árangurs. Þetta kemur fram í fréttum vikunnar. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hverju þetta sætir. Þetta er ekki í neinum takti við áhuga flokkanna á atvinnumálum fatlaðra. Í lögum um opinber innkaup er skýr heimild í 18. gr. til að velja sérstaklega vörur frá vernduðum vinnustöðum. Í Múlalundi hefur fólk með skerta starfsorku starfað við að framleiða ýmis konar skrifstofuvörur um áratuga skeið. Vegna stafrænna umbreytinga hafa forsvarsmenn Múlalundar þurft að finna ný verkefni og eitt af þeim er að framleiða margskonar vörur fyrir skólakerfið, meðal annars plastvasa og möppur með lituðum kili og glærri forsíðu sem margir þekkja. Í stað þess að skipta við Múlalund hefur Reykjavíkurborg kosið að kaupa innfluttar skólavörur. Þetta er miður. Önnur sveitarfélög hafa sýnt allt önnur viðbrögð. Þessi starfsemi er fyrst og fremst velferðarmál enda er starfið afar félagslega og tilfinningalega mikilvægt. Verið er að skapa atvinnu svo þarna má slá tvær flugur í einu höggi.

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs, innkaupaskrifstofu.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvað þessi könnun um framtíð Reykjavíkurborgar kostaði borgarsjóð:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að vita hvað þessi könnun um framtíð Reykjavíkurborgar kostaði borgarsjóð. Könnunin er sögð hluti af sviðsmyndagreiningu Reykjavíkurborgar og Deloitte um það hvernig borg Reykjavík verður árið 2035 með tilliti til efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta. Þessi könnun er illa tímasett að mati Fulltrúa Flokks fólksins þar sem nú er aðeins eitt ár eftir að kjörtímabilinu. Ekki er vitað hvaða flokkar/hverjir munu vera við stjórnvölinn næstu ár og áherslur næsta meirihluta alls endis óþekktar. Ýmist gæti því þróun á innviðum og tækifærum borgarinnar staðið í stað, þokast lítillega fram á við eða tekið stórt skref í framþróun. Vöxtur og þróun borgarinnar vinnst ekki nema í samráði við fólkið í borginni enda þótt kjörinn meirihluti leiði vinnuna. Ef sífelldar deilur og uppákomur einkenna borgarbraginn tefur slíkt fyrir jákvæðri framtíðarþróun.

Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvernig það er mögulegt að 4 skólahljómsveitir annir 15.500 nemendum borgarinnar?:

Fram kom hjá fulltrúa meirihlutans í borgarstjórn í ræðu að „gríðarvirkt starf er hjá skólahljómsveitum fyrir börn í öllum hverfum borgarinnar en starfið sjálft er mjög skapandi og í sífelldri mótun og endurskoðun.“ Fulltrúi Flokks fólksins ætlar ekki að mótmæla því að starfið sé skapandi en dregur það í efa að það sé rétt að virkt starf sé hjá skólahljómsveitum fyrir börn í öllum hverfum borgarinnar. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvernig þetta sé mögulegt. Skólahljómsveitir eru 4 og hverfi eru 10. Fjórum hljómsveitum er því skipt niður á hverfin og dekkar ein hljómsveit um 3-4 hverfi. Af 15.500 nemendum þá stunda á sjötta hundrað nemendur nám í skólahljómsveitunum fjórum. Segja má að það sé útilokað að allir þeir nemendur sem þess óska, rúmist í þessum fjórum hljómsveitum. Í ljósi þessa vill fulltrúi Flokks fólksins fá upplýsingar um fjölda umsókna í skólahljómsveitir borgarinnar undanfarin 3 ár. Hversu lengi að meðaltali eru nemar í hljómsveitunum? Eru biðlistar og ef svo er í hvaða hljómsveitir og hvað eru þeir langir? Hefur þurft að neita barni um þátttöku í einhverja skólahljómsveit borgarinnar vegna þess að ekki er pláss ef horft er til síðastliðinna þriggja ára?

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um biðtíma símatala til þjónustuvers borgarinnar:

Það er erfitt að ná inn til borgarinnar í gegnum síma, ljóst er að þjónustuverið annar ekki símtölum og ekki er hægt að ætlast til að fólk hafi endalaust tíma til að bíða á línunni. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um þjónustuverið, s.s. meðallengd biðtíma þeirra sem bíða eftir að ná sambandi sundurliðað eftir dögum og tíma árs. Einnig er óskað eftir upplýsingum um fjölda símtala á dag að meðaltali og fleira í sambandi við þjónustuverið, s.s. hvernig gengur að þjónusta þá sem hringja inn t.d. að tengja fólk við svið, deildir sem afgreitt geta erindi þeirra.

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvernig kynjuð fjármál draga úr mismun milli kynja en konur lýsa meiri þörf á þjónustu en fá minni:

Flokkur fólksins var með fyrirspurnir í velferðarráði um niðurstöður greiningar á stöðu aldraðra kvenna og karla í heimahjúkrun í Reykjavík og hjúkrunarrýmum, vísað er í skjal þessu tengt. Segir í greiningunni að „vinnubrögð“ Reykjavíkurborgar varðandi kynjuð fjármál séu til fyrirmyndar og að óskandi sé að önnur sveitarfélög tileinki sér „þessa aðferðafræði“. Spurt er: Um hvaða vinnubrögð og aðferðafræði er verið að ræða? Hvaða vinnubrögð eru til fyrirmyndar og hvar er þessi sérstaka aðferðafræði? Hvað er borgin að gera öðruvísi og „betra“ í kynjuðum fjármálum og sem leiðir til bóta fyrir konur en önnur sveitarfélög? „Konur lýsa meiri þörfum en karlar“ en samt eru þær metnar með minni þörf en karlar sem vísar mögulega til þess að verið sé mismuna mati á þjónustuþörf eftir kynjum. Segir að vegna „vinnubragða/aðferðafræði eru kynjuð fjármál að bæta konum upp mismun“. Hvernig tengist þetta að „vegna vinnubragða eru kynjuð fjármál að bæta þeim þennan mismun“? Er verð að meina að „kynjuð fjárhagsáætlun“ bætir konum upp mismun á mati því að þær eru að fá meiri þjónustu (lýsa meiri þörfum) þótt þær séu metnar með minni þörf en karlar? Rétt er að konur eru fleiri í þessum aldurshópi og sannarlega hefur hallað á þær í samfélaginu en hvernig það tengist þessari greiningu og kynjuðum fjármálum er ekki skýrt.

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um drög að samþykkt um dýraþjónustu:

Samþykkt um hundahald í Reykjavík er í endurskoðun á vegum umhverfis- og skipulagssviðs og Dýraþjónustu Reykjavíkur. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir því að fá afhent fyrirliggjandi drög að endurskoðaðri samþykkt og kynningu á henni á vettvangi borgarráðs.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

 

 Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvað felst í þessari „allsherjar innleiðingu“ á fjarfundarbúnaði:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar að vita hvað felst í þessari „allsherjar innleiðingu á fjarfundarbúnaði“. Einnig óskar borgarfulltrúi eftir upplýsingum um hvað verður um þann fjarfundarbúnað sem sviðið ÞON og áður skrifstofa þjónustu og reksturs hefur verið að fjárfesta í undanfarin ár og fram hefur komið að sé til í stjórnsýsluhúsum borgarinnar. Er meiningin að kaupa nýjan fjarfundarbúnað til viðbótar við þann sem fyrir er eða verður þeim búnaði skipt út öllum?

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um m.a. hversu mikill kostnaðarauki verður af innleiðingu Microsoft miðað við þann kostnað sem Reykjavíkurborg hefur verið að greiða Microsoft fyrir þann Office hugbúnað sem í notkun hefur verið árum saman í skrifstofuumhverfi borgarinnar.  

Borgarfulltrúi Flokks fólksins veit til þess að búið er að innleiða Microsoft Office 365 í allt skólaumhverfi borgarinnar. Þar er um að ræða svokölluð skólaleyfi sem hljóta að vera ódýrari en þau leyfi sem þarf að kaupa af Microsoft vegna innleiðingar Office 365 í skrifstofuumhverfi Reykjavíkurborgar. Í framhaldi af því spyr borgarfulltrúi Flokks fólksins um hversu mikill kostnaðarauki verður af þessari innleiðingu miðað við þann kostnað sem Reykjavíkurborg hefur verið að greiða Microsoft fyrir þann Office hugbúnað sem í notkun hefur verið árum saman í skrifstofuumhverfi borgarinnar. Einnig langar borgarfulltrúann að vita hvort borgin hafi nokkurn tíma kannað hvort hægt hefði verið fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að sameinast í leyfakaupum af Microsoft og jafnvel ná með því betri tilboðum vegna aukins fjölda leyfa sem yrði vegna slíks sameiginlegs útboðs. Hefur borgin kannað möguleika á sameiginlegu útboði til að fá betri samninga?

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort búið sé að reikna til enda hvort hagræðing verði af þessu verkefni:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins skilur að endurnýja þarf búnað sem kominn er til ára sinna og vill að leitað sé allra leiða til lausna svo framarlega sem hagræðing og sparnaður hljótist af því. En ekki er hægt að sjá neins staðar svo vel sé hvort hagræðing verði af þessu verkefni miðað við núverandi rekstrarkostnað og síðan árlegan kostnað við úthýsingu næstu árin. Hvaða aðrir möguleikar hefðu verið í stöðunni sem dæmi og eins hvort ekki væri hægt að taka verkefnin í skrefum. Það er eins og allt sé ónýtt og kaupa þurfi allt nýtt. Borgarfulltrúinn er ekki sérfræðingur í vélarsölum en spyr sig samt hvort minni salur gæti hýst gögn borgarinnar.
Er búið að reikna til enda hvort hagræðing verði af þessu verkefni miðað við núverandi rekstrarkostnað og svo árlegan kostnað við úthýsingu næstu árin? 2. Án þess að borgarfulltrúinn telji sig sérfræðing í rekstri vélasala, leikur honum forvitni á að vita hvort hægt hefði verið að halda gögnum borgarinnar hjá borginni en þá í nýrri og minni sal en þeir sem fyrir eru.

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvort komið hafi upp erfið samskiptamál og eineltismál í barnahópnum á nýrri Stoðdeild fyrir erlend börn og ef svo er hvernig tekið hefur verið á þeim:

Nýlega var stofnuð sérstök stoðdeild í Háaleitisskóla vegna móttöku barna hælisleitenda og erlendra barna með litla skólagöngu að baki. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hvernig gengur hjá hinni nýstofnuðu stoðdeild, meðal annars hvernig börnin eru að upplifa að stunda nám þar og hvernig samskipti þeirra eru innbyrðis. Spurt er hvort komið hafi upp erfið samskiptamál og eineltismál í barnahópnum og ef svo er hvernig tekið hefur verið á þeim. Í stoðdeildinni eru börn frá mörgum ólíkum menningarlöndum, með ólíkan lífstíl og tungumál. Hvað mörg börn hafa sest á skólabekk í stoðdeildinni og hvað mörg þeirra eru komin í almenna bekki? Hversu langur tími líður frá því að barn kemur til landsins og þar til það sest á skólabekk í stoðdeildinni? Hve langur er dvalartími barna í stoðdeildinni að meðaltali? Hvernig er eftirfylgni með börnum sem farin eru úr stoðdeildinni og eru komin út í almenna bekki? Öll þessi börn hafa búið við erfiðar aðstæður og mörg þeirra hafa orðið fyrir margskonar áföllum. Spurt er einnig um stuðning við kennara og starfsfólk og hvernig sé staðið við bakið á því til að styrkja það í starfi þeirra. Það er mikilvægt að hlúð sé vel að þessari deild. Úrræðið er til að milda fyrstu skref þessara barna í nýju landi, nýjum skólaaðstæðum þar sem þeim er mætt á eigin forsendum. Þess vegna skiptir máli að hverju einu og einasta barni sem kemur við í deildinni líði vel í skólanum þann tíma sem það dvelur þar og að starfsfólkið finni að það eigi vísan stuðning og styrk hjá skóla- og frístundasviði og borgarstjórn.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Fyrirspurn Flokks fólksins um m.a. hvað mörg börn hafa sest á skólabekk í stoðdeildinni og hvað mörg þeirra eru komin í almenna bekki:

Nýlega var stofnuð sérstök stoðdeild í Háaleitisskóla vegna móttöku barna hælisleitenda og erlendra börn með litla skólagöngu að baki.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hvað mörg börn hafa sest á skólabekk í stoðdeildinni og hvað mörg þeirra eru komin í almenna bekki?
Hversu langur tími líður frá því að barn kemur til landsins og þar til það sest á skólabekk í stoðdeildinni?
Hve langur er dvalartími barna í stoðdeildinni að meðaltali?
Hvernig er eftirfylgni með börnum sem farin eru úr stoðdeildinni og eru komin út í almenna bekki?