Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að auknu fjármagni verði veitt til að sporna við klámáhorfi grunnskólabarna
Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að veita auknu fjármagni til skólanna þ.e. kennara og starfsfólk frístundaheimila og Ráðgjafateymis um kynferðisofbeldi í skóla- og frístundastarfi (Jafnréttisskólans) til að efla fræðslu og forvarnir grunnskólabarna um skaðsemi og afleiðingar klámáhorfs. Þetta er lagt til í ljósi niðurstaðna könnunar um klám og klámáhorf grunnskólabarna sem Rannsókn og greining birti í febrúar 2021. Niðurstöður sýna að um 30% stúlkna í 10. bekk hafa sent af sér ögrandi myndir eða nektarmyndir og um 6% hafa selt slíkar myndir. Um 24% stráka í 10. bekk hafa verið beðin um að senda slíka mynd og 15% hafa gert slíkt.
Styðja þarf jafnframt við bakið á samtökum s.s. Heimili og skóla (Landssamtök foreldra) sem reka einnig SAFT (Samfélag, fjölskylda og tækni) og Samfok (Svæðissamtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík). Markhópur þessara samtaka eru foreldrar/forsjáraðilar. Markmiðið er að veita þeim fræðslu og stuðning m.a. með því að halda málþing og námskeið. Skóla- og frístundasvið, skólastjórnendur, starfsfólk frístundaheimila og hagsmunasamtök barna og foreldra þurfa nú að taka höndum saman með það að markmiði að stuðla að vitundarvakningu og styrkja foreldra til að setja börnum sínum viðeigandi reglur og fylgjast grannt með net- og tölvunotkun barna sinna.
Greinargerð
Niðurstöður Rannsóknar og greiningar komu flestum á óvart. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að kennarar og starfsfólk frístundaheimila, Ráðgjafateymi um kynferðisofbeldi (Jafnréttisskólinn) og samtök sem standa vörð um hagsmuni foreldra og barna fái aukinn fjárhagslegan stuðning og ekki síður móralskan stuðning til að sporna við klámáhorfi grunnskólabarna.
Til að spyrna við fótum við þessari vá sem niðurstöður könnunar Greiningar og ráðgjafar sýna þarf aukið fjármagn úr borgarsjóði svo efla megi fræðslu og forvarnir til þeirra aðila og samtaka sem sinna því hlutverki. Það er í höndum skóla- og frístundaráðs/sviðs í samvinnu við skólana, starfsfólks frístundaheimila og Jafnréttisskólans að meta hversu mikið viðbótarfjármagn er nauðsynlegt til að geta gert enn betur í forvörnum og fræðslu í ljósi þessara niðurstaðna.
Víða er unnið gott starf bæði í skólum, af fagteymi á vegum borgarinnar og samtökum foreldra og barna. Í skólum eru kennarar og frístundafólk að takast á við þessi mál þegar þau koma upp. Styrkja þarf innviði skólanna til að geta sinnt forvörnum í auknum mæli og tekið á málum sem kunna að koma upp. Tryggja ber einnig að kennarar og starfsfólk frístundaheimila eigi vísan stuðning og fræðslu hjá skóla- og frístundasviði. Með auknu fjármagni mætti einnig efla starf Ráðgjafateymis og Jafnréttisskólans svo hægt sé að fjölga fyrirlestrum og námskeiðum um m.a. klám og ofbeldi.
Meginniðurstöður könnunar Rannsóknar og greiningar voru að um þrjátíu prósent stúlkna í 10. bekk hafa sent af sér ögrandi myndir og/eða nektarmyndir.
Um 6 prósent nemenda í 10. bekk hafa selt slíkar myndir.
Um 5 prósent stúlkna í 10. bekk á Íslandi hafa verið beðnar um að senda af sér ögrandi myndir eða nektarmyndir í gegnum netið. Þriðjungur stúlkna hefur sent slíkar myndir.
Alls hafa 24 prósent stráka í 10. bekk verið beðin um að senda slíka mynd og 15 prósent hafa gert slíkt. Um 2,2 prósent stráka í 10. bekk hafa sent slíka mynd gegn greiðslu en 3,8 prósent stúlkna á sama aldri Af þessu má sjá umfang kynferðislegra myndsendinga meðal barna. Stór fjöldi ungmenna hefur sent ögrandi mynd eða nektarmynd gegn greiðslu.
Fræða þarf börn og ungmenni um þessi mál, hjálpa þeim að þjálfa gagnrýna hugsun og hvetja þau til að „vingast“ ekki eða eiga í samskiptum á netinu við aðila sem þau vita ekki í raun hver er. Nú þarf að bregðast við af krafti sem aldrei fyrr með enn meiri fræðslu um t.d. hættuna sem fylgir því að þiggja greiðslu fyrir kynferðislegar myndsendingar.
Ástæður fyrir þessum geigvænlegu niðurstöðum eru flóknari en svo að þær verði reifaðar hér. Víst má þó telja að það er eitthvað að breytast varðandi viðhorf til þessara mála, ný norm hafa myndast. Hópur barna finnst þetta ekki tiltökumál en því miður eru þau ekki að átta sig á hættunni sem þessu fylgir og afleiðingum sem myndsendingunum, dreifingu og sölu geta fylgt.
Fram hefur komið hjá forstöðumanni Barnahúss að á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hafi 15 börn undir 15 ára aldri komið í Barnahús eftir að hafa sent kynferðislegar sjálfsmyndir. Þau voru innan við tíu allt árið í fyrra. Þetta sýnir að klámáhrif barna er að aukast mjög. Stundum hafa börnin verið þvinguð til að senda slíkar myndir og sláandi er að sjá hversu mörg barnanna hafa kynnst gerandanum í gegnum netið.
Það er mikið áfall fyrir foreldra að uppgötva að barnið þeirra hafi sent kynferðislegar sjálfsmyndir sem eru jafnvel komnar í sölu og dreifingu á netinu. Dreifing á myndum er líka gríðarlegt áfall og byrði fyrir unga manneskju. Þegar brotið er á ungu fólki eða börnum með þessum hætti er mikilvægt að bjóða upp á áfallahjálp, ráðgjöf og eftirfylgni til lengri tíma. Eins og fulltrúi Flokks fólksins hefur marg ítrekað bráðvantar fleiri fagaðila hjá Skólaþjónustu borgarinnar sem anna engan veginn beiðnum um aðstoð. Nú bíða eftir þjónustu rúmlega 950 börn í það minnsta. Það er jafnframt hlutverk Skólaþjónustunnar að hlúa að foreldrum og styðja þá í foreldrahlutverkinu með viðtölum og námskeiðum. Hvetja þarf foreldra og leiðbeina þeim að setja viðeigandi reglur um net- og skjánotkun barna þeirra og gera kröfu um að fylgjast með hvað það er sem börnin þeirra eru að skoða á netinu og við hverja þau eru að hafa samskipti.
Spurt hefur verið um hvort foreldrar geti og eigi að hafa óheftan aðgang að snjalltækjum barna sinna. Á því leikur enginn vafi enda foreldrar ábyrgir fyrir hversu mikil net- og skjánotkun er á heimilinu. Margir foreldrar veigra sér hins vegar við því að setja reglur sér í lagi ef börn þeirra mótmæla slíku eftirliti.
Með samstilltu átaki má efla allt foreldrasamfélagið til að fylgja reglum. Umboðsmaður barna hefur m.a gefið út net- og skjáviðmið ásamt leiðbeiningum fyrir foreldra. Foreldrar verða að þora að fara eftir viðmiðunum og vera vakandi yfir við hverja börn þeirra eru að vingast. Foreldri sem er forvitinn og afskiptasamur er foreldri sem sýnir ábyrgð þegar kemur að þessum erfiðu málum.
Mikilvægt er að foreldrar virði aldurstakmörk leikja og samfélagsmiðla og séu að sjálfsögðu sjálfir góðar fyrirmyndir. Það eru aldurstakmörk á samfélagsmiðlum og þau eru ekki sett að ástæðulausu. Foreldrar og ungmenni þurfa að eiga samtal um netið og skjánotkun. Best af öllu er ef hægt er að sammælast um reglur og jafnvægi.
Styðja þarf við kennara og starfsfólk frístundaheimila sem eru lykilaðilar á vettvangi til að takast á við vandann sem við blasir. Námskeið eða annað inngrip Jafnréttisskólans og fagteymis hans koma að miklu gagni. Heimili og skóli (SAFT), Samfok og Barnaheill á Íslandi vinna einnig ómetanlegt starf með ábendingum sínum, fræðslu og hvatningu. Það er því afar mikilvægt að einskis verði látið ófreistað til að snúa við þeirri þróun sem sýnilega hefur orðið og færa hana til betri vegar. Hér má einnig nefna áhrif fjölmiðlanna. Fjölmiðlar gegna ábyrgðarhlutverki í þessari umræðu sem og annarri.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði til að borgarstjórn samþykkti að gera átak í að jafna stöðu barna í íþrótta- og tómstundastarfi með því að beita sértækum aðgerðum, s.s. að boðið verði upp á fjölbreyttari úrræði í tómstundastarfi óháð fjárhag foreldra og að hagsmunir barna verði ávallt hafðir í forgangi við gerð fjárhagsáætlana Reykjavíkurborgar. Tillögunni er vísað til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs sem er sannarlega jákvæðara en ef tillagan hefði verið felld eða vísað frá. Það hljóta allir að vera sammála um að það er napurlegt að fá niðurstöður eins og þær sem birtar eru í skýrslu UNICEF sem gerði samanburð á efnislegum skorti barna í Evrópu. Staðan hér er verst hvað varðar þátttöku í tómstundum en 17% íslenskra barna mælast með skort á því sviði og Ísland er þar í 19. sæti af 31 Evrópulandi. Börn hafa ekki setið í mörg ár við sama borð þegar kemur að jöfnum tækifærum til tómstunda í Reykjavík. Þetta má sjá í niðurstöðum rannsókna frá 2009, 2014 og 2018. Hægt er að gera meira. Það væri t.d. svo sjálfsagt að létta enn frekar á reglum frístundakortsins svo hægt sé að nota það í styttri námskeið og þ.m.t. sumarnámskeið enda hentar það ekki öllum börnum að sækja tveggja mánaða námskeið.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Skýrsla UNICEF um réttindi barna sýnir að íslensk börn standa að mörgu leyti vel þegar kemur að efnislegum gæðum og aðgengi að menntun. En skýrslan sýnir líka að samanborið við mörg Evrópulönd skortir mörg íslensk börn tómstundastarf á borð við íþróttir, tónlist og annað barna- og unglingastarf. UNICEF nefnir nokkrar aðgerðir til að bæta úr þessu. Mikilvægt er að taka skýrsluna alvarlega. Notkun frístundakortsins meðal 6-18 ára barna í Reykjavík er mjög mikil, í sumum hverfum yfir 90%. Leitun er að annarri eins þátttöku. En þátttakan er mismikil eftir hverfum. Hún virðist vera minnst á heimilum þar sem atvinnuþátttaka er lítil og á heimilum þar sem eru mörg börn. Margt hefur verið gert undanfarin misseri í Reykjavík til að gera frístundastarfið aðgengilegra. Starfshópur skilaði í fyrra tillögum að breyttum reglum um notkun frístundakortsins og efnt var til tilraunaverkefnis í Breiðholti til að auka þátttökuhlutfall barna í frístundastarfi.
Bókun Flokks fólksins við umræðu um framtíðarskipan tónlistarnáms í Reykjavík:
Framtíðarskipan tónlistarnáms í Reykjavík þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar. Börn í Reykjavík sitja ekki við sama borð í þessum efnum þar sem nám í tónlistarskóla er fokdýrt. Í þeirri stefnu sem hér er lögð á borð er lausnin að jöfnuði ekki nógu skýr. Í nýlegri skýrslu stýrihóps borgarinnar um framtíð tónlistarnáms í Reykjavík var ekki fjallað um uppbyggingu tónlistarkennslu í grunnskólum og því voru ekki skoðaðar samhliða leiðir til að draga úr ójöfnuði þegar kemur að tækifærum til tónlistarnáms. Ójöfnuðurinn mun því halda áfram ef heldur sem horfir um ókomna tíð. Það sem þarf að gera og ekki er talað skýrt um í stefnunni er að færa tónlistarnám mun meira inn í skólana og að öll börn hafi jafnan aðgang að tónlistarskólum til að læra t.d. á þau hljóðfæri sem ekki er hægt að kenna á í grunnskólum. Ef horft er til skólahljómsveita þá gætu þær, væru þær í fleiri hverfum, verið mótvægisaðgerð til að jafna tækifæri barna til tónlistarnáms. Af 15.500 nemendum í Reykjavík eru um 700 börn í þeim fjórum skólahljómsveitum sem ætlað er að dekka 10 hverfi borgarinnar. Segja má að það sé útilokað að allir þeir nemendur sem þess óska rúmist í þessum fjórum hljómsveitum.
Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins:
Innkaupamál á þessu og síðasta kjörtímabili hafa ekki verið í nógu góðu lagi. Borgaryfirvöld hafa ítrekað virt lög og reglur um opinber innkaup að vettugi og gengið til samninga án þess að útboð fari fram. Þá er rétt að minna á að þótt útboðsskylda verði aðeins virk fari samningur yfir ákveðin fjárhæðarmörk þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að borgin bjóði út minni verk. Reykjavíkurborg hefur þurft að borga milljónir í skaðabætur vegna brota af þessu tagi. Dæmi um þetta er þegar borgin braut gegn lagaskyldu sinni til útboðs með samningum við Orku náttúrunnar ohf. um LED-væðingu götulýsingar í borginni. Þetta kemur fram í úrskurði kærunefndar útboðsmála, en auk tveggja milljóna króna stjórnvaldssektar lagði nefndin fyrir borgina að bjóða verkið út. Af hverju getur borgin ekki fylgt lögum og reglum í útboðsmálum? Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort stjórnendur þurfi kennslu í þessum efnum þar sem nýjar reglugerðir og lög eru kynnt svo og fjármálalæsi kennt. Það er líklega mun hagstæðara en að þurfa hvað eftir annað að greiða sektir sem skapast við slæma stjórnsýslu og laga- og reglugerðabrot Reykjavíkurborgar. Borgarbúar eiga að geta treyst því að stjórnvald eins og borgin fylgi lögum og reglum í hvívetna.
Bókun Flokks fólksins við umræða um lýðheilsustefnu Reykjavíkur til 2030:
Hér er lögð fram af meirihlutanum til umræðu lýðheilsustefna Reykjavíkur til 2030. Lýðheilsa er samheiti yfir heilsuvernd og forvarnir og miðar að því að viðhalda og bæta heilbrigði fólks. Farið er vítt og breitt í stefnunni með fögur fyrirheit. Ekki orð er um biðlista sem er rótgróið mein í Reykjavíkurborg. Hvergi er minnst á 1.033 börn sem bíða eftir að fá nauðsynlega aðstoð til að bæta líðan sína og hjálpa þeim með sértæk vandamál sín. Börn sem fá ekki nauðsynlega sálfræðiaðstoð eiga á hættu að þeim hraki. Með biðinni er heilsu þeirra ógnað, jafnvel til frambúðar. Hvergi er minnst á biðlista eldri borgara eftir þjónustu eða fatlaðs fólks eftir húsnæði. Útrýming á fátækt og að auka jöfnuð meðal barna í Reykjavík hefur heldur ekki fangað höfunda stefnunnar. Langir biðlistar, fátækt og ójöfnuður er stærsti lýðheilsuvandi þessarar borgar. Eins og fram kemur í nýrri skýrslu UNICEF er staðan verst hvað varðar þátttöku barna í tómstundum og er Ísland í 19. sæti af 31 Evrópulandi. Í stefnunni segir að reyna á að manna stöður leikskóla sem þessum meirihluta hefur ekki lánast að gera á þremur árum. Í borginni er vaxandi fátækt, vaxandi vanlíðan barna og biðlistar í sögulegu hámarki.
Bókun Flokks fólksins við umræðuni í Fossvogsskóla:
Málefni Fossvogsskóla eru áfall. Meirihlutinn í borginni lagði mikið á sig til að sannfæra starfsfólk, foreldra og börn sem og alla borgarbúa að búið væri að komast fyrir myglu í Fossvogsskóla. Glænýjar, sláandi myndir eru nú birtar af loftræstikerfum í skólahúsnæðinu þar sem sjá má að inntak í loftræstikerfi skólans er þakið myglu en búið var að hylja hana með klæðningu. Enn og aftur er fullyrt af eftirlitsaðilum að búið væri að fara yfir loftræstikerfið. Annað hvort er eftirlitið gallað eða menn hafa vísvitandi horft fram hjá þessu nema hvort tveggja sé. Þarna hafa börn verið látin stunda nám við afar mengandi aðstæður. Ákalli var ekki sinnt. Borgarfulltrúa Flokks fólksins var úthúðað af heilbrigðiseftirlitinu í febrúar 2020 þegar sendar voru inn fyrirspurnir um málið. Var hann sakaður um dylgjur af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Svo mikið fyrir þær dylgjur þegar horft er til ástandsins nú. Kannski er ekki að vænta góðs þegar í svörum frá embættismönnum er farið fram með slíkum hroka þegar verið er að ganga erinda borgarbúa. Reynt var að þagga málið niður og sagt að viðgerð væri lokið. En hvar voru eftirlitsmennirnir? Nú er viðurkennt af meirihluta skóla- og frístundaráðs að bregðast hefði átt við fyrr og hlustað betur. En á ekkert að biðjast afsökunar?
Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Fulltrúa Flokks fólksins finnst sjálfsagt að fólk á endurhæfingarlífeyri fái frítt í sund og börn einnig að minnsta kosti fram að 12 ára aldri. Grunntekjur þeirra sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri eru almennt mjög lágar, sé litið til almannatryggingakerfisins. Í Reykjavíkurborg kostar 165 krónur fyrir börn 6-17 ára í sund. Sé litið til annarra sveitarfélaga varðandi börn og gjald í sund þá má sjá ýmsar útfærslur sem eru mun hagstæðari en í Reykjavík.
Bókun Flokks fólksins við umræðu um 10 milljarða fjárútlát þjónustu- og nýsköpunarsviðs á næstu þremur árum:
Á þriggja ára tímabili fær þjónustu- og nýsköpunarsvið 10 milljarða til stafrænna umbreytinga. Á árunum áður hefur einnig miklu fjármagni verið veitt til sviðsins. Fulltrúi Flokks fólksins veit að upplýsingatæknimálin hafa verið í ólestri hjá borginni, einna helst öryggismálin. Kerfið þarfnast einföldunar. Athygli er vakin á hvernig farið er með fjármagnið, nánast af léttúð. Rauð ljós loga og bjöllur hringja. Fyrirspurnum er svarað með loðnum hætti og eru svör ótrúverðug. Vísbendingar eru um sóun og bruðl. Botnlausar greiðslur eru til ráðgjafafyrirtækja meðan fastir starfsmenn með langa starfsreynslu eru reknir. Undirrituð hefur haft afspurn af því að sá hluti húsnæðisins sem æðstu stjórnendur sviðsins hafa til umráða í Borgartúni hafi fengið endurnýjun umfram það sem gengur og gerist á öðrum sviðum. Ekki hefur verið sýnt fram á að 10 milljarðar skili þeim ávinningi sem sagt er. Markmið verkefna eru óljós, sbr. það sem er að gerast í hraðri uppsetningu á „hugbúnaðarhúsi“ eða „hugbúnaðarframleiðslueiningu“ sem verið er að búa til. Sviðið auglýsir nú eftir forriturum, grafískum hönnuðum, notendahönnuðum (sem eiga að fara að leggja stund á „notendarannsóknir“), endaprófurum, verkefnastjórnun og fleirum. Skoða þarf hvort þeir sem hafa verið ráðnir hafi farið í gegnum lögbundið ráðningarferli. Á stuttum tíma hafa meðallaun tölvunarfræðinga hjá Reykjavíkurborg hækkað.
Bókun Flokks fólksins við 12. liður fundargerðarinnar, gjaldskrá fyrir hundahald, er samþykktur.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
Hundaeigendur eru einir látnir halda uppi dýraþjónustu í borginni með gjaldtöku fyrir að eiga hund. Þeim er skylt að greiða skráningargjald, 11.900 kr., eftirlitsgjald, 9.900 kr., og handsömunargjald sleppi hundur þeirra, kr. 30.200. Gjaldið hefur lækkað lítillega frá því í fyrra. Nú er verið að leggja lokahönd á nýja samþykkt þar sem fram kemur að um sé að ræða tilraunaverkefni. Til að sú lækkun á hundagjaldi haldist þurfa skráningar að tvöfaldast. Hér er verið að snúa upp á hendur hundaeigenda og gera þá ábyrga hverja fyrir öðrum. Þetta er eins og heilum skóla væri refsað ef einn brýtur af sér. Þvingun og kúgun kallar maður þetta öllu jafna. Enginn afsláttur er gefinn ef fólk á fleiri hunda og ekki er hægt að framselja leyfi. Komið er inn ákvæði um refsingar sé samþykktinni ekki fylgt, allt að fjögurra ára fangelsi. Hundaeigendur þurfa ekki á dýraþjónustu Reykjavíkur að halda. Hundaeigendur og hagsmunasamtök sjá um flest allt sem varðar hunda, t.d. fræðslu, og hundar sem týnast finnast iðulega fljótt eftir að hafa verið auglýstir á samfélagsmiðlum. Matvælastofnun sér um velferðina, þangað beinir fólk ábendingum sínum ef grunur er um illan aðbúnað hunds. Borgin kemur þar hvergi nærri. Borgin er ekki hundavinsamleg borg. Það litla sem hefur áunnist hefur þurft að grenja út.
Bókun Flokks fólksins við 8. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs:
Það er með eindæmum sérstakt að skóla- og frístundaráð skyldi nú ekki sjá sóma sinn í að samþykkja tillögu Flokks fólksins um að niðurgreiðsla vegna dagforeldra miðist við afmælismánuð barns en ekki afmælisdag. Staðan í dag er sú að foreldrar barna sem fædd eru seint og jafnvel síðustu daga mánaðar sitja ekki við sama borð og foreldrar barna sem eru fædd fyrr í mánuðinum. Samkvæmt þessari tillögu skulu framlög hefjast í þeim mánuði sem barn er 9 mánaða en ekki skal miða við afmælisdag barns. Ástæða er sú að ef barn er fætt seint í mánuðinum fá foreldrar enga niðurgreiðslu á þeim mánuði. Um þetta munar auk þess sem fordæmi er fyrir þessu í öðrum sveitarfélögum sem miða niðurgreiðslu vegna dagforeldris við fæðingarmánuð barns en ekki fæðingardag. Að miða niðurgreiðslu við fæðingardag er ósanngjarnt. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum tekur undir þessa tillögu með þeim orðum að „Eðlilegt er að niðurgreiðslur vegna þjónustu við börn miðist við fæðingarmánuð en ekki fæðingardag. Kostnaður við tillöguna er óverulegur fyrir borgina en getur skipt miklu sérstaklega fyrir tekjulága foreldra.“ Hér hefði sannarlega verið lag fyrir meirihlutann í skóla- og frístundaráði að sýna sanngirni enda um réttlætismál að ræða.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Nú þegar er í gangi vinna á skóla- og frístundasviði þar sem öll gjaldskrármál sviðsins eru tekin saman og sett í samhengi. Í kjölfarið stendur til að ráðast í heildstæða endurskoðun á gjaldskrám sviðsins. Tillögunni var því vísað frá.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Þótt í gangi sé vinna á skóla- og frístundasviði þar sem öll gjaldskrármál sviðsins eru tekin saman og sett í samhengi er það hvorki ástæða né afsökun fyrir að samþykkja ekki tillögu Flokks fólksins um að niðurgreiðsla vegna dagforeldra miðist við afmælismánuð barns en ekki afmælisdag. Eðlilegt er að niðurgreiðslur vegna þjónustu við börn miðist við fæðingarmánuð en ekki fæðingardag. Kostnaður við tillöguna er óverulegur fyrir borgina en getur skipt miklu máli sérstaklega fyrir tekjulága foreldra. Hér er um sanngirnismál að ræða.