Mannréttinda- nýsköpunar og lýðræðisráð 25. nóvember 2021

Bókun Flokks fólksins við bréfi mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 5. nóvember 2021, um skýrslu og tillögur starfshóps um ókyngreinda aðstöðu í skóla – og frístundahúsnæði Reykjavíkurborgar:

Þær niðurstöður sem hér eru birtar koma ekki á óvart. Það er tiltölulega nýtt að krafa sé gerð um að salerni verði ókyngreind. Skólahúsnæði er víða gamalt og býður jafnvel ekki upp á að breyta salernum og búningsklefum til að mæta þörfum trans barna og ungmenna. Þar sem það er hægt hefur það án efa verið gert. Reglugerðin gerir ekki kröfu um að salerni séu kyngreind fyrir karla og konur nema í þeim tilvikum þar sem skilrúm þeirra ná ekki frá gólfi og upp í loft, að öðru leyti mega þau vera ókyngreind. Kyngreining er ekki ávörpuð í greininni um bað-, búnings- og salernisaðstöðu þar sem er aðstaða til íþróttaiðkana. Við hönnun nýs húsnæðis er mikilvægt að hafa þetta allt í huga. Markmiðið er að útrýma mismunun, að það sé aðgengi fyrir alla. Ef fara á í framkvæmdir í þessum málaflokki þarf að huga að því að bætt verði aðgengi og aðstaða fyrir trans börn og ungmenni eins og fram kemur í skýrslunni og einnig fyrir aðra hópa sem þurfa sérstaka aðstoð á salernum og í bað- og búningsklefaaðstæðum.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs  skóla- og frístundasviðs dags. 23. nóvember 2021, um drög að stefnu Reykjavíkurborgar um byggingar fyrir skóla- og frístundastarf:

Tekið er undir þau viðmið sem sett eru fram í stefnunni (drögum) fyrir nýbyggingar, viðbyggingar og breytingar á húsnæði fyrir leikskóla, frístundaheimili, grunnskóla, skólahljómsveitir og félagsmiðstöðvar. Hönnun þarf að taka mið af starfseminni sem fara á fram í byggingunni og horfa þarf til byggingarefnis, loftgæða, efnisvals og sveigjanleika þannig að hægt sé að laga hana að mismunandi þörfum og tryggja fjölbreytni í notkun. Gæta þarf að halli sé á þaki til að draga úr líkum á leka, raka og myglu og fleiri þáttum. Ef horft er til leikskóla sérstaklega eru eftirfarandi þættir mikilvægir: 1) Öll  starfsmannaklósett eru  inni kennslustofum nemenda. 2) Fatahengi  barna í inni kennslustofu barna. 3) Hver kennslustofa hefur sér útihurð til að komast að leikvellinum. 4) Sameign þarf að vera hönnuð þannig að starfsmenn hafi ávallt yfirsýn yfir börnin. Í leikskóla þar sem hönnun hefur tekist vel segir starfsfólk að áhrif undirmönnunar eru minni vegna þess hvernig rýmin eru uppbyggð og hægt er að hafa góða yfirsýn. Að vinna við krefjandi störf í illa hönnuðu húsi er mannskemmandi. Heilsu fólks er ekki aðeins ógnað heldur einnig góðum starfsmannaanda. Breyta þyrfti eldri leikskólum þar sem það er hægt með ofangreinda hugmyndafræði að leiðarljósi sem myndi stuðla að samnýtingu og samkennslu í auknum mæli.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 24. nóvember 2021, um stöðu á vinnu stýrihóps um endurskoðun jafnlaunastefnu Reykjavíkurborgar:

Farið er yfir stöðu stýrihóps um endurskoðun jafnlaunastefnu Reykjavíkurborgar í víðara samhengi. Fulltrúi Flokks fólksins leggur mikla áherslu á réttlæti og mannréttindi í launamálum. Það er mjög mikilvægt að fólk fái allt metið t.d. nám sem leiða má líkum að geri það þroskaðri og hæfari til starfsins sem það á að sinna. Meta á hvern námsáfanga til einhverra stiga til hærri launa. Dæmi eru um fólk með margra ára háskólamenntun en sem hefur ekki útskrifast fær ekkert af menntun sinni metið til launa hjá Reykjavíkurborg. Fram kemur að hvetja eigi fatlað fólk til að sækja um hjá borginni. En þá þarf borgin að afnema skerðingar sem ávallt er vandamál þegar fatlað fólk vinnur umfram lágmarkið. Sama gildir um eldra fólk. Flokkur fólksins vill jafnrétti og mannréttindi fyrir þennan hóp sem dæmi að skerðingar verði afnumdar á atvinnutekjum fatlaðs fólks og eldra fólks. Reykjavíkurborg er ekki skylt að fylgja almannatryggingalögum þegar kemur að skerðingum og getur því bætt kjör þessa hóps með því að taka sjálfstæða ákvörðun í þeim efnum. Fulltrúi Flokks fólksins er umhugað um jafnlaunavottun í því samhengi. Hver er staðan á því nú þremur árum eftir að Reykjavíkurborg fékk jafnlaunavottun. Eru til niðurstöður úttektar á jafnlaunavottun fyrir árið 2020?

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 5. nóvember 2021, um skýrslu um úttekt á undirgöngum Reykjavíkur:

Skýrslan gefur mynd af stöðu undirganga undir umferðaræðar. Göng eru alls 51.  Fram kemur að víða  má bæta úr, svo sem merkingar, lýsingu, göngurampa. Bæta aðstæður þeirra sem eru með sérþarfir, t.d. þeir sem ekki sjá vel eða eiga erfitt um gang. Víða er skortur á almennu viðhaldi. Mörg dæmi eru um að bratti upp úr og ofan í undirgöng er alltof mikill og kemur það sér sérstaklega illa fyrir þá sem nota hjólastóla og auðvitað þá sem eru á hefðbundnu hjóli. Innkoma í göngin eru oft illa merkt, fólk sér ekki auðveldlega hvar á að fara inn. Undirgöng og viðhald þeirra eru kannski þess leg að auðvelt er að gleyma þeim. Fólk fer í gegn en gerir kannski ekki mikið úr því þótt allt sé útkrotað eða sóðalegt. Mikilvægt er að gera einnig úttekt af þessu tagi á vetrartímanum þegar farið er að rökkva því þá sjást aðrir hlutir betur. Fulltrúi Flokks fólksins vill láta skoða hvort setja ætti öryggismyndavélar í undirgöng. Margir eru hræddir við að nota þau en ef myndavélar væru gæti það skapað öryggiskennd. Myndavélar hafa líka fælingarmátt og gerist eitthvað er hægt að skoða atburðarás í myndavél og hver var aðili/aðilar í málinu.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu  fulltrúa Flokks fólksins um myndavélar á leiksvæðum, sbr. 17. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 10. júní 2021:

Tillögunni um að mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð beiti sér fyrir því að settar verði upp myndavélar á alla leikvelli á vegum borgarinnar er vísað frá. Það er miður. Börn eiga tilkall til þess að allt sé gert til að vernda þau og tryggja öryggi þeirra í borginni. Það er þekkt að þeir sem vilja skaða börn leita iðulega á staði og á svæði sem tryggt má vera að finna börn. Börnin í borginni verða að geta verið örugg á svæðum sem þeim er ætlað að leika sér á. Vissulega kemur myndavél ekki í veg fyrir að glæpur sé framinn en myndavél hefur fælingarmátt. Í Reykjavíkurborg eru hvergi myndavélar á leiksvæðum barna svo vitað sé. Þetta á jafnt við um leiksvæði sem eru eldri sem og nýuppgerð. Fulltrúi Flokks fólksins telur að sómi væri af því ef mannréttindaráð léti kostnaðarmeta þessa tillögu og í framhaldinu beita sér fyrir því að fá hana samþykkta. Auðvitað er þetta ekki fullkomið öryggi, það er ekkert til sem er fullkomið öryggi en okkur ber að gera okkar besta í þessu sem öðru. Læra þarf á ókostina og veikleikana og útfæra þetta í samræmi við persónuverndarlög. Öryggi barna er það sem skiptir öllu máli.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um stafræna vegferð þjónustu- og nýsköpunarsviðs, sbr. 12. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 11. nóvember 2021. R21110113

Hinn 29. júní 2021 var það tilkynnt að stafræn vegferð Reykjavíkurborgar fengi alþjóðlega viðurkenningu og fjárhagsstuðning frá Bloomberg Philanthropies. Borgin mun fá fjárframlag upp á 2,2 milljónir bandaríkjadala til að styðja við og hraða stafrænni umbreytingu á þjónustu borgarinnar. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvaða verkefni eru fjármögnuð með styrkveitingunni frá Bloomberg? R21110113

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.