Borgarráð 22. nóvember 2018

Kynning á skýrslu innri endurskoðunar í OR starfsmannamálinu

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Kynning var á skýrslu innri endurskoðunar um OR málið. Margt er enn óljóst t.d. hvort uppsögn konunnar er á grunni kvörtunar um kynferðislega áreitni eða „frammistöðu“. Flokki fólksins finnst margt í viðbrögðum OR í þessu máli vera harkalegt. Hver svo sem vandinn er talinn hafa verið í tengslum við frammistöðu viðkomandi starfsmanns hefðu viðbrögð fyrirtækisins átt að vera önnur en að reka hann. Sú gagnrýni að starfsmaður hafi komið með maka sinn á fund vegna uppsagnar er líka harkaleg. Því er haldið fram að það sé ekki löglegt en engu að síður gerði OR engar athugasemdir við það. Púður sem farið hefur í að ræða „opinbera smánun“ í tengslum við færslur maka á Facebook virkar eins og verið sé að færa fókusinn á annað. Flokki fólksins finnst það ósmekklegt og ótaktískt að hóta að skoða lögsókn vegna tölvupósta maka til OR sem skrifaðir eru í uppnámi eðli málsins samkvæmt. Það er ekki til þess fallið að milda þetta mál. Því er auk þess mótmælt að sitjandi forstjóri yfirgaf fund borgarráðs áður en umræðunni lauk.

Umræða um Secret Solstice 2019

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Flokkur fólksins vill styðja það sem fram kemur í umsögnum foreldrafélaga í hverfinu sem telja að þessi hátíð, tónleikar í Laugardal – Secret Solstice 2019, eigi ekki heima í Laugardalnum. Þetta er sérstaklega nefnt í ljósi umræðu síðustu mánaða varðandi stöðu mála í neyslu ungs fólks á vímuefnum og hvernig sú þróun hefur breyst til hins verra. Fram hefur komið hjá foreldrum í kjölfar síðustu hátíðar „að mikil brotalöm var á skipulagi hátíðarinnar og framfylgd áfengiskaupalaga auk þess sem neysla og sala ólöglegra fíkniefna var mikil í tengslum við hátíðarhöldin“. Borgarfulltrúi veit að reynt hefur verið að gera ráðstafanir til að þessir hlutir fari ekki úr böndum. Engu að síður eru foreldrar áhyggjufullir. Flokkur fólksins gerir sér grein fyrir að margir eru ánægðir með þessa staðsetningu og hátíðina og reynt er að gera margt til að þessi hátíð sem önnur fari vel fram. En fyrir Flokk fólksins eru það hagsmunir barnanna sem eru í þessu sem öðru settir í forgang og vill borgarfulltrúi hlusta á foreldrar og taka tillit til áhyggna þeirra.