Velferðarráð 24. október 2018

Fyrirspurn Flokks fólksins um biðlista í námskeið fyrir börn og foreldra á vegum  þjónustumiðstöðva

Biðlistarvandinn virðist vera viðvarandi vandi í borginni þegar kemur að börnum. Börn þurfa að bíða í langan tíma, allt að ár eftir margs konar þjónustu. Vitað er til að það er biðlisti einnig í ýmis konar námskeið á vegum þjónustumiðstöðva.
Óskað er eftir að fá ítarlega stöðu biðlista sundurliðaðan eftir hverfum í þau námskeið sem þjónustumiðstöðvar bjóða börnum og foreldrum þeirra upp á:
1. PMTO foreldranámskeið
2. Fjörkálfar
3. Mér líður eins og ég hugsa – unglingar
4. Klókir krakkar
5. Klókir litlir krakkar

Kynning á rafvæðingu umsókna og þjónustu á velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Bókun Flokks fólksins er viðkemur þá sem ekki nota rafrænar leiðir til samskipta:
Huga þarf að eldri borgurum og öðrum sem ekki nýta sér rafræna þjónustu eða rafrænar leiðir til samskipta. Hvernig fær þessi hópur upplýsingar um þjónustu borgarinnar og réttindi sín í borgarkerfinu? Notendamiðuð hönnun nýtist ekki þeim sem ekki notar þjónustuna.  Í þessari hröðu þróun rafrænnar tækni er alltaf hætta á að fólk sem ekki vill eða getur af einhverjum ástæðum notað tæknina gleymist, verði út undan og týnist í kerfinu. Hættan er þá sú að þetta fólk viti ekki um réttindi sín og sé jafnvel að missa af þjónustu sem það þarfnast og á rétt á. Það verður að vera full yfirsýn yfir þennan hóp einstaklinga sem ekki notar rafræna þjónustu svo hægt sé að mæta þeim á þeirra forsendum. Finna þarf þessa einstaklinga, setja sig í samband við þá með bréfapósti, símtölum eða heimsóknum til að fá fullvissu fyrir að þeir séu að fá þá þjónustu sem þeir þarfnast og hafi allar upplýsingar um réttindi sín.