Borgarráð 23. ágúst 2018

Tillaga Flokks fólksins um kaup á 25 smáhýsum

Lagt er til að borgarráð samþykki að fela skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að annast innkaup á 25 smáhýsum sem uppfylla þau skilyrði að vera færanleg, vel einangruð og bjóða upp á lágmarksþjónustu eins og salerni, sturtu og eldunaraðstöðu.

Greinargerð
Á aukafundi borgarráðs sem haldinn var 31. júlí sl. var samþykkt að fela umhverfis- og skipulagssviði að útvega fimm lóðir fyrir allt að fimm smáhýsi á hverri lóð á árinu 2018 eða samtals 25 einingar. Kaup á slíkum smáhýsum eru aðeins hluti þeirra aðgerða sem borgin þarf að grípa til í málefnum heimilislausra og er í eðli sínu alltaf skammtímalausn.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að skrifstofa eigna og atvinnuþróunar kanni og framkvæmi kaup á smáhýsum á hagstæðu verði sem uppfylla öll skilyrði til skammtímabúsetu, geta verið tilbúin til notkunar fyrir veturinn og eru í reynd heilsárshús. Eigi að bregðast við fyrir veturinn þarf að taka ákvörðun sem fyrst. Eins og staðan er núna er afgreiðslutími slíkra húsa skammur. Smáhýsi eins og þetta virkar í alla staði betur en t.d. gámar sem hafa verið notaðir í þessum sama tilgangi. Sem dæmi má nefna smáhýsi sem eru framleidd í Lettlandi og eru ca. 3*5 m að stærð eða 15m2 og hafa verið seld víða um Evrópu í sambærilegum tilgangi. Hægt er að panta aðrar stærðir. Þau eru vel einangruð með salerni, vaski og sturtu auk eldunaraðstöðu. Hægt er að afhenda 4 smáhýsi á viku og því mögulegt að bregðast við bráðavanda áður en vetur gengur í garð. Verð á hverju smáhýsi með öllu er 3,4 m.kr. + vsk. en samsetning, uppsetning og frágangur er einfaldur.
Vísað til skrifstofu eigna og atvinnuþróunar

Fyrirspurn Flokks fólksins um lögfræðikostnað Félagsbústaða

Hver er lögfræðikostnaður Félagsbústaða síðastliðin fimm ár sem fyrirtækið hefur greitt lögfræðingum í málum eins og viðhaldsmálum og öðrum kvörtunar- eða dómsmálum sem hafa að gera með myglu eða aðra galla í eigum Félagsbústaða?
Vísað til Félagsbústaða

Tillaga Flokks fólksins um að fenginn verði óháður aðili til að meta viðhaldsþörf hjá Félagsbústöðum

Lagt er til að borgarráð samþykki að fá óháðan aðila til að meta eignir Félagsbústaða þar sem kvartanir hafa borist vegna myglu eða annarra galla þegar ágreiningur er uppi á milli leigjanda og Félagsbústaða. Í matinu skal jafnframt koma fram hvers lags viðgerða sé þörf og hvort viðgerðir hafi verið framkvæmdar með fullnægjandi hætti.

Greinargerð
Fjölmargar kvartanir hafa borist frá leigjendum Félagsbústaða sem hafa leitað eftir viðgerð vegna myglu og öðru viðhaldi. Leigjendur segjast ýmist ekki fá nein svör eða sein og þá ófullnægjandi viðbrögð. Beiðni um viðgerð er einfaldlega oft ekki sinnt og gildir þá oft einu hvort íbúar leggi fram læknisvottorð vegna heilsubrests, myndir af skemmdum vegna myglu og jafnvel vottorð frá öðrum sérfræðingum sem skoðað hafa húsnæðið. Kvartað hefur verið undan myglu og rakaskemmdum í íbúðum og fullyrt að um sé að ræða heilsuspillandi húsnæði. Veikindi hafa verið tengd við myglu og raka í húsnæði sem Félagsbústaðir leigja út.

Fjölskyldur hafa stundum þurft að flýja húsnæðið. Þetta fólk hefur sumt hvert ítrekað kvartað en ekki fengið lausn sinna mála hjá Félagsbústöðum sem hafa hunsað málið eða brugðist við seint og illa. Margir kvarta yfir að hafa verið sýnd vanvirðing og dónaskapur í samskiptum sínum við Félagsbústaði. Oft er skeytum einfaldlega ekki svarað. Þeir sem hafa kvartað yfir samskiptum sínum við Félagsbústaði segja að starfsfólk hafi sagt þeim bara að fara í mál. Hér um að ræða hóp fólks sem leigir í félagslega húsnæðiskerfinu vegna þess að það er láglaunafólk, efnalítið og fátækt fólk. Þetta fólk hefur ekki ráð á að fara í mál við Félagsbústaði. Sumir hafa neyðst til þess og eru í kjölfarið skuldsettir umfram greiðslugetu.

Það fólk sem stigið hefur fram með kvörtun af þessu tagi segir að Félagsbústaðir hafi ýmist neitað að þessi vandi sé til staðar eða hunsað hann. Í öðrum tilfellum hafa komið viðgerðarmenn og gert eitthvað smávegis en ekki ráðist að grunnvandanum. Mygla og annað sem fólk hefur verið að kvarta yfir hefur því haldið áfram að aukast og haft alvarleg áhrif á heilsu íbúa. Reynslusögur fólks sem leigt hefur hjá Félagsbústöðum eru orðnar margar. Í einni slíkri segir kona frá að í íbúð á vegum Félagsbústaða hafi verið mygla og hafði hún ítrekað kvartað. Múrari hafi komið frá Félagsbústöðum til að athuga með leka og hafi sagt sér að ekki mætti fara í miklar aðgerðir sem kosta mikið. Því var bara settur „plástur“ á skemmdirnar sem dugði í ár. Það sem hefði þurft að gera var að rífa klæðningar inn að steypu og leyfa henni þorna. Þess í stað var farið í að múra upp í og loka.

Hér má einnig lesa um sambærilega sögu mæðgna sem ítrekað þurftu að flýja heilsuspillandi húsnæði á vegum Félagsbústaða:
http://www.visir.is/g/2018180529713.

Haldnir hafa verið fjölmargir fundir vegna sambærilegra mála bæði með otendum/leigjendum og Félagsbústöðum m.a. hjá umboðsmanni borgarbúa. Svo virðist sem Félagsbústaðir séu ekki að greina nægjanlega vel hver viðhaldsþörfin er þegar kvörtun berst og þá til hvaða viðhaldsverka þarf að grípa til að leysa vanda með fullnægjandi hætti. Almennu viðhaldi virðist vera ábótavant á mörgum eignum Félagsbústaða. Þegar kvörtun berst vísa Félagsbústaðir til heilbrigðisyfirvalda. Heilbrigðisyfirvöld styðjast við sjónpróf og lyktarpróf sem duga oft ekki til að finna hver grunnvandinn er. Iðulega er sagt við notendur „loftaðu bara betur út“.

Af þessu að dæma er líklegt að endurskoða þurfi aðferðir sem heilbrigðiseftirlitið notar í málum af þessu tagi. Í mörgum tilvikum þarf ítarlegar greiningar til að komast að vandanum. Önnur fyrirtæki, einkafyrirtæki, bjóða upp á nánari greiningu og kostnaðinn þurfa leigjendur iðulega sjálfir að bera en hafa eðli málsins samkvæmt enga fjárhagslega burði til. Í mörgum þessara tilvika er um lekavanda að ræða, vanda sem hefur e.t.v. verið mörg ár að þróast. Af frásögnum að dæma hjá mörgum virðist vera einhver mótþrói hjá Félagsbústöðum í að horfast í augu við að það þarf að setja fjármagn í fullnægjandi viðhald og bregðast við kvörtunum með fullnægjandi hætti. Ekki dugir að senda sífellt lögfræðinga á notendur Félagsbústaða. Nú er svo komið að taka þarf á þessu ástandi fyrir fullt og allt. Horfast þarf í augu við að Félagsbústaðir hafa víðtækum skyldum að gegna gagnvart öllum skjólstæðingum sínum. Hér er ekki um að ræða einkafyrirtæki eða banka. Félagsbústaðir geta ekki alltaf sett þessi mál bara í átakaferli. Hafa skal í huga að fólk er einnig misviðkvæmt fyrir myglu. Mikilvægt er því að horfa á hvert tilvik fyrir sig í stað þess að setja alla undir sama hatt. Endurskoða þyrfti alla verkferla Félagsbústaða af óháðum aðila og gera þá gagnsæja. Eftirlit með hvort Félagsbústaðir séu að fylgja verkferlum virðist verulega ábótavant. Upplýsingar í þessari greinargerð eru komnar frá leigjendum Félagsbústaða og fleirum sem komið hafa að málum í tengslum við Félagsbústaði með einum eða öðrum hætti.

Lagt fyrir í borgarráði 23. ágúst og aftur fyrir borgarstjórnarfund 4 september

Fyrsti borgarstjórnafundurinn 19. júní

Tillaga  Flokks fólksins um könnun á þjónustu Félagsbústaða

Lagt er til að borgarráð samþykki að fá óháðan aðila til að gera könnun á þjónustumenningu Félagsbústaða í tengslum við samskipti starfsmanna fyrirtækisins við leigjendur. Við framkvæmd könnunarinnar skal leita til núverandi og fyrrverandi leigjenda og þeirra sem eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði í dag og óska eftir að þeir taki þátt í könnuninni og veiti upplýsingar um álit sitt á viðmóti, viðhorfi og framkomu starfsmanna Félagsbústaða í þeirra garð.

Greinargerð
Í langan tíma hafa notendur Félagsbústaða kvartað yfir neikvæðri framkomu starfsmanna í sinn garð. Kvartað er yfir neikvæðu og jafnvel meiðandi viðmóti, að þeim séu sýndir fordómar og dónaleg framkoma. Kvartað er yfir stjórnsýsluháttum Félagsbústaða, að notendur fái ekki svör við spurningum fyrr en seint og síðar meir og sumum erindum sé einfaldlega aldrei svarað. Notendur þjónustu Félagsbústaða kvarta yfir að þeir þurfi oft að hafa mikið fyrir hlutunum og að mikið vanti upp á að þeim sé sýnd virðing og tillitssemi. Sumir hafa jafnvel talað um að þeim hafi verið hótað af starfsfólki Félagsbústaða, ógnað og þeir lítillægðir.

Sumir notendur hafa sagst ekki þora að koma fram með kvörtun sína undir nafni af ótta við að verða með einhverjum hætti refsað. Margir hafa leitað til umboðsmanns borgarbúa með mál sín. Fjölmargir notendur Félagsbústaða hafa auk þess kvartað yfir að þeir séu ekki upplýstir um réttarstöðu sína í þessum málum. Hafi þeir samband við Félagsbústaði með kvörtun sína er þeim vísað á lögfræðinga fyrirtækisins. Á það skal bent að markmið Félagsbústaða er að þjónusta sem best fólk sem nýtir þjónustu þess. Félagsbústaðir ættu að hafa sín gildi á hreinu. Af þeim fjölmörgu kvörtunum skráðum og óskráðum sem notendur Félagsbústaða hafa borið á borð, má líkja ástandinu við stríð, eins og Félagsbústaðir séu í stríði við notendur þjónustunnar í stað þess að sinna því þjónustuhlutverki sem fyrirtækinu er ætlað samkvæmt reglum. Upplýsingar í þessari greinargerð eru komnar frá notendum og leigjendum Félagsbústaða og fleirum sem komið hafa að málum í tengslum við Félagsbústaði með einum eða öðrum hætti.

Lagt fyrir í borgarráði 23. ágúst og aftur fyrir borgarstjórnarfund 4 september

Tillaga  Flokks fólksins um breytingu á skilyrðum fyrir félagslegt leiguhúsnæði

Lagt er til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á skilyrðum þess að hægt sé að sækja um félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavík. Í stað þess að umsækjandi þurfi að hafa átt lögheimili í Reykjavík síðastliðin 2 ár nægir að hafi átt lögheimili á Íslandi síðastliðin 2. ár. Þessi breyting á skilyrðum er nauðsynleg fyrir margar sakir. Á meðan fólk bíður eftir félagslegu húsnæði á það oft ekki í önnur hús að venda á biðtímanum í Reykjavík. Sumir eiga þess kost að búa tímabundið í öðru sveitarfélaga á meðan það bíður en til þess að falla ekki útaf biðlistanum
leggja það á sig að hírast við óviðunandi húsnæðisaðstæður, fá að liggja inni hjá vinum og ættingjum um tíma eða búa í ósamþykktu húsnæði. Með því að afnema þetta skilyrði getur fólk fundið sér tímabundið húsnæði annars staðar á landinu á meðan það bíður eftir að röðin komi að sér í félagslega íbúðakerfinu í Reykjavík. Þessi breyting opnar fyrir meiri sveigjanleika og möguleika á að fá viðunandi húsnæði á biðtímanum enda þótt um sé að ræða tímabundið. Þessi breyting gerir skilyrðin auk þess mun manneskjulegri en þau eru nú. Þetta skilyrði hefur óþarfa fælingarmátt og enda þótt fólk geti sótt um undanþágu þá veit fólk oft ekki um þann rétt sinn, er jafnvel ekki upplýst um hann.
Vísað í Velferðarráð

Tillaga Flokks fólksins um að stýrihópur um þjónustustefnu á velferðarsviði hafi samráð við önnur svið sem málið varðar

Lögð er til aukin og þéttari samvinna og samstarf milli sviða. Nýlega var stofnaður stýrihópur sem hefur það markmið að móta heildstæða stefnu um þjónustu sem velferðarsvið veitir þeim hópi sem vegna veikinda eða annarra orsaka þarfnast fjölþættrar aðstoðar, þ. á m. þaks yfir höfuðið. Fjölmargir einstaklingar hafa lengi verið í húsnæðisvanda og enn öðrum bíður gatan eða vergangur næstu mánuði. Á þessu þarf að finna lausn hið fyrsta. Í stýrihópinn hefur nú þegar verið vísað tillögum að húsnæðisúrræðum sem kalla á lóðarstaðsetningu eða ákvörðun um að kaupa íbúðir/eignir. Það er þess vegna lagt til að strax frá upphafi komi til náins samstarfs og samvinnu við þau svið sem nauðsynlega þurfa að koma að þessum málum svo sem skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem annast kaup á sértæku húsnæði og
átaksverkefnum og umhverfis- og skipulagssvið sem útvegar lóðir og sér um skipulag (smáhýsi, búsetukjarnar). Takist viðkomandi sviðum að vinna að lausn húsnæðisvandans í Reykjavík í sameiningu má gera því skóna að framkvæmdir taki skemmri tíma en ella.

Þessa tillögu var ég beðin að draga til baka þar sem fram kom í erindisbréfi fyrir þennan stýrihóp að haft yrði samstarf við önnur svið. 

Tillaga Flokks fólksins um að sett verði á laggirnar nýtt sérskólaúrræði í Reykjavík

Lagt er til að fleiri sérskólaúrræði verði sett á laggirnar í Reykjavík enda er Klettaskóli sprunginn. Klettaskóli er eini sérskólinn í Reykjavík af sinni gerð en í honum stunda börn með sérþarfir vegna þroskahömlunar nám. Flokkur fólksins telur að fleiri slík úrræði þurfi enda mörg börn nú á biðlista sem Klettaskóli getur ekki tekið inn. Í sérskólaúrræði eins og Klettaskóla og öðrum sambærilegum skólaúrræðum er mikilvægt að inntökuskilyrðin séu með þeim hætti að hver umsókn sé metin í samvinnu við foreldra á grundvelli fyrirliggjandi
upplýsinga um nemandann. Í þessum efnum eiga foreldrar ávallt að hafa val enda þekkja foreldrar börn sín best og vita þess vegna hvað hentar barni þeirra námslega og félagslega. Ekki má bíða lengur með að horfa til þessara mála og fjölga úrræðum. Það er réttur hvers barns að fá skólaúrræði við hæfi þar sem því líður vel, þar sem námsefni er við hæfi og þar sem félagslegum þörfum þess er mætt, þar sem það er meðal jafningja.

Greinargerð
Brýn þörf er á að setja á laggirnar annan sérskóla sambærilegan Klettaskóla þar sem myndast hefur biðlisti barna í hann sem óska eftir að stunda nám í skólanum. Þegar kemur að uppbyggingu innviða sérskóla fyrir börn með þroskahömlun eru nokkur atriði sem skipta sérstaklega miklu máli. Bjóða þarf upp á mikinn sveigjanleika og fjölbreytni enda þarfir barnanna afar ólíkar. Til staðar þarf að vera fullnægjandi sérþekking á málefnum barna með
þroskahömlun. Heildstæður skóli er fyrirkomulag sem hentar börnum með þroskahömlun vel. Allt fyrirkomulag sem tryggir stöðugleika og öryggi skiptir börn með þroskahömlun sérstaklega miklu máli. Með heildstæðum skóla er átt við að starfi skóla, frístundar og sumarfrístundar er fléttað saman í eina heild. Arnarskóli í Kópavogi er sem dæmi með þetta fyrirkomulag og hefur það sýnt sig að henti börnunum vel. Með þessu er hægt að tryggja samfellu sem eykur líkur á þroska og betri líðan. Með heildstæðum skóla skapast meiri sveigjanleiki og auðveldar að koma á móts við ólíkar þarfir nemenda.

Lagt fyrir í borgarráði 23. ágúst og aftur fyrir borgarstjórnarfund 4 september

Tillaga Flokks fólksins um að gerð verði könnun á þörf fyrir fleiri sérskólaúrræði

Lagt er til að foreldrar/aðstandendur grunnskólabarna verði spurðir hvort þeir telji þörf á fleiri sérskólaúrræðum, frekari úrræðum innan núverandi skóla eða blöndu af hvoru tveggja. Spurningin gæti verið með fimm svarmöguleikum með miðju og jafnmörgum neikvæðum og jákvæðum svörum:
1. Átt þú barn sem þarf á sérstökum stuðningi að halda í skóla (vegna vísbendinga/greiningar um lesblindu, sértæka námserfiðleika eða frávika í vitsmunaþroska; raskana t.d. ADHD, asperger eða einhverfuróf og/eða annarra tilfinninga-, hegðunar og félagslegra vandamála)
2. Ég tel að fjölga þurfi sérskólaúrræðum (t.a.m. fyrir börn með þroskahamlanir sbr. úrræði eins og Klettaskóla og sérdeildir með sérhæft hlutverk vegna barna með miklar sérþarfir í námi, meðal annars vegna geðraskana og annarra alvarlegra hegðunarvandamála) mjög ósammála; frekar sammála; hvorki sammála né ósammála; frekar sammála; mjög sammála. 3. Ég tel að fjölga þurfi úrræðum innan núverandi skóla til að styrkja stefnuna um skóla án aðgreiningar. Mjög ósammála; frekar sammála; hvorki sammála né ósammála; frekar sammála; mjög sammála. Mikilvægt er að skoðanir barnanna sjálfra nái fram í umræðuna. Þar væru viðtöl og vettvangsheimsóknir gagnleg leið til að safna upplýsingum.

Lagt fyrir í borgarráði 23. ágúst og aftur fyrir borgarstjórnarfund 4 september

Tillaga Flokks fólksins um að færa Félagsbústaði aftur undir A-hluta

Félagsbústaðir eru fyrirtæki undir B-hluta borgarinnar. Vandi Félagsbústaða er mikill og fyrir liggur tillaga Flokks fólksins að óháður aðili geri fjölþætta úttekt á fyrirtækinu. Fjölmargar kvartanir liggja fyrir um m.a. skort á viðhaldi eigna, ofurhárrar leigu og margt fleira sem snýr að stjórnun, rekstri og launamálum. Það er mat Flokks fólksins að það sé eitthvað mikið að hjá Félagsbústöðum og er lagt til að borgin hefji þá vinnu að skoða með raunhæfum hætti hvort færa eigi þetta fyrirtæki aftur undir A-hluta borgarinnar undir skrifstofu eigna og atvinnuþróunar til að reyna að gera borgina heildstætt kerfi í stað sundurlausra eininga sem jafnvel stríða innbyrðis.
Frestað á fundi borgarráðs 23. ágúst

Tillaga  Flokks fólksins um að breyta inntökuskilyrðum í Klettaskóla

Lagt er til að inntökuskilyrði í Klettaskóla verði endurskoðuð og í stað greina 1 og 2 þar sem segir: „Innritun í Klettaskóla. Klettaskóli er einn af grunnskólum Reykjavíkur og er sérskóli fyrir nemendur með þroskahömlun. Skólinn er fyrir nemendur með: • miðlungs, alvarlega og djúpa þroskahömlun með eða án viðbótarfatlana • væga þroskahömlun og skilgreinda viðbótarfötlun/fatlanir s.s. einhverfu, blindu, heyrnarleysi og alvarlega hreyfihömlun“ skal koma einungis:„Klettaskóli er sérskóli sem ætlaður er börnum með sérþarfir vegna þroskahömlunar. Umsóknir eru metnar í samvinnu við foreldra á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um nemandann.“

Greinargerð:
Ef foreldrar óska eftir skólavist fyrir barn sitt í Klettaskóla er lagt til að fyrirkomulagið verði þannig að foreldrar senda skólanum grunnupplýsingar um barnið og myndi þá það vera hlutverk skólans að fara yfir umsóknina í samvinnu við foreldra og sveitarfélagið Reykjavík og meta hvort Klettaskóli sé hentugur fyrir nemandann. Við viljum gjarnan vera framarlega í jafnréttismálum, fordómaleysi og umburðarlyndi. En metnaður okkar má aldrei verða skaðlegur börnum okkar.
Árið 2011 voru sett ströng inntökuskilyrði í Öskjuhlíðarskóla, eina skóla landsins sem ætlaður var börnum með þroskahömlun. Börn með væga þroskahömlun (IQ 69-50) fengu ekki lengur aðgang að skólanum. Þetta var m.a. gert í þeim tilgangi og þeirri von um að hugmyndin um skóla án aðgreiningar færi að virka. Það er, ef sérskólinn lokaði á þennan hóp barna, myndi almenni skólinn taka við sér og standa sig betur í að koma til móts við börn með sérþarfir.
Það er mat Flokks fólksins að þarna hafi verið byrjað á vitlausum enda og ákvörðunin tekin án umræðu við þá sem málið varðaði. Þessu mótmæltu margir foreldrar fatlaðra barna. Nú eru börn með væga þroskahömlun ekki velkomin í skólann sem nú hefur fengið nafnið Klettaskóli. Umsóknir um skólavist þar hafa þó sjaldan ef nokkurn tímann verið fleiri. Lítil sem engin rök hafa verið færð fyrir þessu annað en það að gott sé fyrir ófötluð börn að kynnast fötluðum börnum. Önnur rök eru þau að á Íslandi sé skóli án aðgreiningar og að ófötluð börn séu góðar fyrirmyndir fyrir fötluð börn. Þessi rök hljóma vel á blaði og einnig ef til vill í eyrum einhverra. Það er ekki talað um það hvernig sumum fötluðu börnunum líður í skóla þar sem þau finna vanmátt sinn, eru öðruvísi og eignast ekki vini á jafningjagrundvelli.
Það er öllum mikilvægt að finna sig i samfélagi meðal jafningja og þess vegna er það mörgum börnum með þroskahömlun afar mikilvægt að fá að stunda nám með öðrum börnum með þroskahömlun og hafa þannig aðgang að jafningjasamfélagi.
Börn með þroskafrávik, hverju nafni sem þau nefnast, eiga að fá menntun og þjónustu við hæfi og hafa aðgang að þeim skóla og því samfélagi þar sem þau þrífast best andlega og félagslega. Öll börn með þroskahömlun eiga að hafa aðgang að sérskóla sé það talið besta mögulega úrræðið fyrir þau og á það undir öllum kringumstæðum að vera val foreldra hvort sótt er um fyrir barn með þroskahömlun í almennum skóla eða sérskóla.

Lagt fyrir í borgarráði 23. ágúst og aftur fyrir borgarstjórnarfund 4 september

Fyrirspurn Flokks fólksins er varðar félags- og menningarlega einangrun innflytjenda í Fellahverfi

Nú er svo komið að stór hópur innflytjenda í Reykjavík hefur einangrast félagslega og menningarlega. Komið hefur fram að 70% af Fellaskóla eru börn innflytjenda og að aðeins 5 börn með íslensku að móðurmáli hefji skólagöngu í Fellaskóla í haust. Gera má því skóna að fjölmargir innflytjendur hafi þar af leiðandi ekki náð að tengjast borgarsamfélaginu og blandast því með eðlilegum hætti. Ekki er að sjá að borgin hafi undanfarin ár mótað skýra stefnu um hvernig forða skuli innflytjendum frá því að einangrast eins og nú hefur gerst. Það er ljóst að þessi staða hefur verið að þróast í mörg ár og hefur borgarmeirihlutinn flotið sofandi að feigðarósi og ekki gætt þess að innflytjendur hafi blandast samfélaginu í Reykjavík nægjanlega
vel, hvorki menningarlega né félagslega.

1. Hvernig ætlar borgin að rjúfa einangrun
innflytjenda í Fellahverfi?
2. Hvernig ætlar borgin að bregðast við menningarlegri og félagslegri
einangrun þeirra sem þar búa, bæði til skemmri og lengri tíma?
3. Hvernig hyggst borgin ætla að standa að fræðslu og hvatningu til að innflytjendur geti með eðlilegum hætti blandast og samlagast íslensku samfélagi í framtíðinni?
Vísað í Velferðarráð

Beiðni Flokks fólksins um að umræða um manneklu á leikskólum verði tekin á dagskrá borgarráðs

Fokkur fólksins óskar eftir að umræða um manneklu á leikskólum verði tekin á dagskrá í borgarráði 16. ágúst. Um er að ræða langvarandi og stigvaxandi vandamál. Ýmsar tillögur um lausn eru án efa á borðinu en ekki er séð að þær séu komnar í framkvæmd að heitið geti.
Skammt er í að vetrarstarf hefjist að nýju og það er, að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins, ekki í boði að hefja vetrarstarf með marga leikskóla sem ekki eru fullmannaðir enda ekki hægt að leggja slíkt álag frekar á börnin, foreldra þeirra og starfsfólk leikskólanna. Flokkur fólksins vill sjá borgina girða sig í brók í þessu máli og leysa það með fullnægjandi hætti. Ljóst er að einkum tvennt skiptir máli þegar rætt er um leiðir til lausna; launin annars vegar og álag hins vegar. Alltof lengi hefur borgin sýnt stétt leikskólakennara og starfsmönnum leikskólanna lítilsvirðingu að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins þegar kemur að launamálum. Inn í þetta spilar starfsálag sem hefur verið enn frekar íþyngjandi vegna langvarandi manneklu. Það er ekkert sem skiptir meira máli en börnin okkar og allt sem varðar þau skal borgin setja í forgang.