Fundur Velferðarráðs 12. desember 2018

Tillaga Flokks fólksins er varðar aðhlynningu og virkniþjálfun sjúklinga með heilabilun.

Flokkur fólksins leggur til að velferðarsvið endurskoði með það að markmiði að bæta og dýpka virkniþjálfun fyrir heilabilunarsjúklinga á hjúkrunarheimilum borgarinnar. Fólk sem glímir við heilabilun hrakar oft hratt og þá sérstaklega ef það fær ekki viðeigandi þjálfun. Fyrir þennan hóp hafa rannsóknir sýnt að með því að virkja fólk er hægt að hægja á sjúkdómnum t.d. með ríkulegum samskiptum við það í orði og verki, með því að umönnun verði persónuleg og einstaklingsbundin og með því að virkniþjálfu, hvatning og örvun sé með fullnægjandi hætti.

Greinargerð

Við sem skipum borgarstjórn verðum að sjá sóma okkar í að veita eldri borgurum og sjúklingum með heilabilun ekki einungis persónulega aðhlynningu og  samskipti heldur einnig viðeigandi verkefni til að örva og hvetja það. Víða er ástandið hreinlega ekki nógu gott í þessum efnum og hafa aðstandendur látið vita af því. Ástæðan fyrir þessu er án efa fyrst og fremst mannekla en einnig kannski skortur á skýrri stefnu og/eða framkvæmd á þeirri stefnu sem fyrir er. Mannekluvandi veldur því að önnur verk an þau allra nauðsynlegastu mæta afgangi. Og það má ekki gerast.  Fyrir aldraða og fólk með heilabilunarsjúkdóma geta virkniverkefni skipt sköpum. Með því að auka virkniverkefni og hreyfingu svo sem með því að hafa tæki til tómstunda, kubba, liti, litabækur, bækur, hannyrðadót og annað sem hægt er að skapa eitthvað úr hægir á öldrunaferli og  ferli heilabilunarsjúkdómsins hjá mörgum. Fleira má nefna til sem myndi bæði hjálpa og gleðja þennan hóp. Bjóða mætti upp á dans vikulega, líkamsrækt og tónlist. Það er fátt sem yljar meira en að sjá glaðleg andlit þeirra sem komnir eru af léttasta skeiði eða eru veikir langt um aldur fram. Fyrir aldraða og þá sem glíma við heilabilun eigum við að bjóða upp á fleiri valkosti til þátttöku í fjölbreyttum verkefnum og huga að hlutum ofan í smæstu atriði eins og breytingar á leirtaui fyrir fólkið, nota liti og mynstur sem henta. Litlu hlutirnir skipta líka máli.

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að leggja skuli af herbergjasambýlið að Vesturbrún 17. Fulltrúi Flokks fólksins situr hjá og leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst ekki tryggt ef marka má umræðu um þetta mál að fólkið sem hér um ræðir sé fullkomlega sátt við flutninginn og að full sátt sé hjá hverjum og einum varðandi hið nýja húsnæði. Liggja þarf fyrir staðfesting frá hverjum og einum þar sem fram kemur að viðkomandi hafi verið upplýstur um ástæður flutningsins og geri sér grein fyrir hvað bíður er við kemur framtíðarhúsnæði. Aðlögun og sátt allra er grundvöllur fyrir því að stíga skref sem þetta enda stór breyting í lífi þessa fólks.

Á fundi velferðarráðs í gær átti Flokkur Fólksins fjögur mál. Hér koma þau og afgreiðsla þeirra ásamt bókunum:

Tillaga Flokks fólksins um hagsmunafulltrúa aldraða ásamt umsögn sviðsstjóra velferðarsviðs.

 
Til stóð að fella þessa tillögu af hálfu meirihlutans á þeim rökum að margir væri að sinna þessum störfum. Hins vegar kom í ljós að ekki hafði verið leitað eftir umsögn Öldungaráðs Reykjavíkur. Ég fór fram á frestun og að óskað yrði umsagnar Öldungaráðsins. 
 

Tillaga Flokks fólksins um að fólk megi taka mat í eigin umbúðum úr mötuneytum ásamt umsögn sviðsstjóra velferðarsviðs.

Nokkur umræða spannst og hefur sviðið áhuga á að gera tilraun með þetta á einum stað til að byrja með. 
Tillagan felld. Umsögn
 
Bókun Flokks fólksins:
Krosssmit eru vissulega gild rök. En hvernig verður þannig smit til ef matarílátið sem gesturinn kemur með er aldrei snert með áhöldum afgreiðslumannsins og eða matur sé afhentur á öðrum stað ef komið er með ílát að heiman?
Í þessu sambandi má vega og meta alla möguleika og vissulega þarf að gæta hreinlætis og taka sem minnsta áhættu. Það hækkar matarverðið til muna að afgreiða í umhverfisvænar umbúðir. Nefna má margt annað í þessu sambandi sem óttast mætti mun frekar. En svonefnt krosssmit fer fram með margvíslegum hætti til dæmis þegar verið er að borga með peningum. Fátt sem ber meiri bakteríur en peningar sem ganga á milli manna (handa). Einnig þó greitt sé með greiðslukorti, þar er sama smithætta. Það er mat borgarfulltrúa að borgin megi hvorki slaka á né hunsa að taka ábyrgð en e.t.v. er ótti hér óþarfur. Þessu má vel halda aðskildu. Margir eldri borgarar upplifað þetta sem valdníðslu af hálfu Reykjavíkurborgar á eldri borgara. Á það skal minnt að aldur er ekki sjúkdómur og hér er ekki verið að tala um sjúkrahúsaðstæður eða veikt fólk. Flokkur fólksins leggur til að þessi mál séu skoðuð með opnum huga og fordómalaust.
 

Svar við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um biðlista eftir úrræðum fyrir börn.

Umsögn

Bókun Flokks fólksins vegna biðlista á ýmis námskeið á vegum borgarinnar

Þetta eru sláandi tölur og með öllu óviðunandi ástand. Hér er verið að tala um óheyrilegan fjölda barna og foreldra sem bíða eftir að komast á nauðsynleg námskeið eins og PMT námskeið sem skipt getur sköpum fyrir foreldra við uppeldi barna sinna. Bið eftir foreldrafærnisnámskeiðinu PMT eru 309, Í hópmeðferð PMTO 116 krakkar, Í Klóka krakka 83 og í litla Klóka krakkar 54. Á námskeiðið Mér líður eins og ég hugsa bíða 45. Við þetta er ekki búið. Hér er komin enn ein staðfesting þess hversu flókið og stirt kerfi borgarinnar er í það minnsta sem snýr að þessum hluta. Að ekki sé hægt að anna þessu segir að skipulagið er ekki gott og skilvirknin lítil. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur fengið fjölmargar kvartanir frá svekktum foreldrum sem hafa beðið lengi eftir að börnin þeirra komast á námskeið sem þessi enda talin afar hjálpleg og gefandi fyrir börnin. Ekki skortir fagfólk til að halda þau en vissulega þarf fullnægjandi fjármagn sem borgarmeirihlutinn virðist ekki sjá ástæðu til að veita í þessi mikilvægu verkefni í þágu barna og foreldra.

 

Svar við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um aðgengi barna að skólasálfræðingum.

 
Bókun Flokks fólksins:

Kvartanir þess efnis að sálfræðingar í skólum borgarinnar séu víða enga veginn nægjanlega sýnilegir eru enn að berast. Þeir hafa ekki í öllum tilfellum kynnt sig börnunum og foreldrum þeirra og eru ekki að koma inn í mál sem talið er að eðlilegt að þeir gerðu í skólanum. Til dæmis má nefna að ef óskað er eftir að sálfræðingur sitji fundi með foreldrum með skömmum fyrirvara þá hefur það sýnst oft mjög erfitt. Varðandi húsnæði eru dæmi þess að skólasálfræðingur nýti aðstöðu skólahjúkrunarfræðings sem öllu jafna er aðeins hálfan daginn í skólanum. Borgarfulltrúi er því ekki alveg að kaupa þessar skýringar að skortur sé á aðstöðu sé ástæða þess að skólasálfræðingur sé ekki með aðsetur í skólanum en vissulega gæti það verið í einhverjum tilvikum. Borgarfulltrúi hefur einnig setið fundi fyrr á árinu með nokkrum skólastjórum sem allir sögðust óska þess að sjá meira af skólasálfræðingnum. Hins vegar ber að fagna þeirri áherslu að auka viðveru sérfræðinga skólaþjónustu á vettvangi. Það er samt sem áður mat borgarfulltrúa að vel mætti einfalda þetta kerfi miklu meira og ganga skrefið til fulls að skólasálfræðingar borgarinnar verði raunverulegi hluti af starfsliði skólanna.