Borgarráð 23. júní 2022

Bókun Flokks fólksins við bréfi fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 21. júní 2022, þar sem lagt er fram rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar til mars 2022 ásamt greinargerð og fylgiskjölum:

1,9 milljarða halli er á A-hluta umfram áætlun, umfram það sem gert var ráð fyrir. Áhrif vaxtahækkunar á skuldastöðu borgarinnar verða án efa geigvænleg og afborgunarþungi mun verða mikill og kalla á enn frekari lán. Ekki liggur fyrir hvernig Reykjavíkurborg ætlar að mæta þessum halla. Ekki liggja fyrir áætlanir um hvar á að spara eða hvernig á að auka hagræðingu í rekstri borgarinnar. Einhverju hlýtur að þurfa að fresta af fjárfrekum verkefnum. Ofan á þetta bætist 21% hækkun fasteignamats sem tekin verður beint úr vösum íbúa borgarinnar með því að hækka fasteignaskatta samsvarandi ofan á allt annað og ofan í kjarasamninga. Viðvarandi halli er á rekstri leikskóla sem bætir ekki skuldastöðuna. Áætluð sala byggingarréttar nam 1.235 m.kr. og var 15 m.kr. undir áætlun sem þýðir að alls ekki er verið að byggja nóg. Framboðsskortur á nýbyggingum er fyrirsjáanlegur með tilheyrandi spennu á markaði og háu verði.

Fjárhagsáætlun er afgreidd í lok síðasta árs. Svo mikil frávik frá henni, sem raun ber vitni, á fyrstu þremur mánuðum ársins setur spurningamerki við gæði fjárhagsáætlunar borgarinnar.

Sérstaklega er það aukinn launakostnaður sem vekur mikla athygli og framúrkeyrsla miðað við fjárhagsáætlun. Í því sambandi vakna spurningar um gæði fjárhagsáætlunar. Það er erfitt að ímynda sér að launakostnaður vegna Covid 19 hafi verið miklu meiri á fyrstu þremur mánuðum 2022 heldur en á árinu 2021. Í fyrra voru áhrif pestarinnar í sögulegu hámarki en í upphafi þessa árs eru áhrif af Covid á undanhaldi.  Hvernig er t.d. eftirlit og aðhald með nýráðningum hjá borginni?


Tveggja milljarða meiri taprekstur en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun fyrir árið á fyrstu þremur mánuðum ársins ætti að kalla á mikla yfirlegu og nákvæma skoðun á rekstri borgarinnar. Vandi borgarinnar er útgjaldavandi en ekki tekjuvandi þar sem tekjur borgarinnar jukust verulega á sama tímabili. Hernig væri staðan ef tekjur hefðu verið samkvæmt fjárhagsáætlun. Þetta er aðeins brot af spurningum sem vakna þegar rekstur og fjármálaaðgerðir borgarinnar eru skoðuð.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi fjármála- og áhættustýringarsviðs Rekstraruppgjör A-hluta Reykjavíkurborgar janúar – mars 2022:

Óskað er eftir því að borgarráð samþykki viðauka við samning um milli- og löginnheimtu milli annars vegar Reykjavíkurborgar og hins vegar Gjaldheimtunnar ehf. og Momentum ehf., dags. 8. júní 2022. Flokkur fólksins spyr hvort alltaf sé nauðsynlegt að setja kröfur í innheimtu hjá einkafyrirtækjum? Getur borgarkerfið ekki sinnt innheimtu í gegnum samninga við fólk og tekið tillit til aðstæðna þeirra sem skulda? Að setja allar skuldir í innheimtu er dýrt fyrir þá sem skulda en innheimtufyrirtækin maka krókinn. Hér er verið að benda á viðhorf borgarinnar sérstaklega til þeirra sem geta ekki greitt vegna fátæktar eða tímabundinna erfiðra aðstæðna. Að senda skuldir bláfátæks fólks í innheimtu til lögfræðifyrirtækis finnst Flokki fólksins kaldar kveðjur til þeirra sem berjast í bökkum. Lögfræðikostnaður ofan á skuldina sjálfa gerir illt verra.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 13. júní 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki samkomulag um lok leigusamnings í Arnarbakka 4-6:

Flokkur fólksins fagnar hvernig leystist úr húsnæðismálum með Pepp samtökin en nú fá samtökin aðstöðu í Arnarbakka. Þessi samtök hafa það hlutverk að hjálpa fátæku fólki og hafa samtökin unnið gríðarlega góða vinnu með öll þessi krefjandi verkefni sem eru á þeirra borði.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi velferðarsviðs, dags. 21. júní 2022, þar sem lögð er fram skýrsla starfshóps um heildarendurskoðun laga nr. 38/2018 og skýrsla starfshóps um greiningu á kostnaðarþróun í þjónustu við fatlað fólk árin 2018-2020:

Það liggur fyrir að kerfið SIS-mat (Support Intensity Scale) sem er samræmt og staðlað mat á þjónustuþörf einstaklinga hefur frá upphafi sætt nokkurri gagnrýni fyrir að ná ekki að fanga stuðningsþarfir einstaklinga með líkamlega eða geðræna fötlun. Flokkur fólksins veltir því upp hvort ekki hafi átt að nota fleiri matskerfi til að byggja undir niðurstöður og gera þær þar með áreiðanlegri. Það eru til fleiri matskerfi. Segir í gögnum að samkvæmt „upplýsingum frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins voru ekki gerðar breytingar á matslistunum við innleiðinguna á Íslandi.“ Túlkun niðurstaðna SIS-matsins hefur þó þróast sér í lagi með tilliti til þeirra sem eru líkamlega fatlaðir en með fulla félagslega og hugræna færni en í ljós kom að þessir einstaklingar fengu 0 (núll) í mati á ákveðnum þáttum sem drógu niður meðaltalið í matinu. Enda þótt reynt hafi verið að aðlaga þetta með þessum hætti þá er enn spurning um áhrif þessara vankanta matskerfisins. Kerfið hefur þess utan ekki þótt fanga þjónustuþörf þeirra sem eru með óvenjulegar stuðningsþarfir og ættu að hafa það í för með sér að framlög vegna þeirra einstaklinga sem um ræðir hækki.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi velferðarsviðs, dags. 20. júní 2022, þar sem lögð er fram skýrsla um þróun í málaflokki fatlaðs fólks í Reykjavík á árunum 2011 til 2020:

Staða fatlaðra í Reykjavík er ekki góð og ekki á landsvísu heldur. Í Reykjavík bíða á annað hundrað eftir sértæku húsnæði og enn er hópur fatlaðra á herbergjasambýlum. Allt of margir eru ekki að fá þá þjónustu sem þeir eiga rétt á. Málaflokknum hefur ekki fylgt fjármagn sem segir einfaldlega að lögum hefur ekki verið framfylgt. Ný lög eru mikil framför frá þeim gömlu en ekki dugar að hafa góð lög ef þeim er ekki fylgt eftir með fjármagni. Hvað getur Reykjavík gert í þessari stöðu sem sveitarfélag? Borgin getur sýnt meira frumkvæði, beitt sér af krafti, látið rödd sína heyrast og nýtt öll tækifæri til að þrýsta á meira fjármagn. Fatlað fólk á sinn rétt og gildir þá einu hvort viðkomandi er með NPA samning. Ekki dugar að segja við fatlaðan einstakling, „afsakið en við erum ekki með fjármagn til að hjálpa þér.“ Skipa á starfshóp til að gera tillögu um framhaldið en sú vinna getur tekið óratíma og er allsendis óljóst hvað kemur út úr henni. Veita þarf þessum hópi aðhald. Markmiðið er að mæta þörfum fatlaðs fólksins samkvæmt lögum og samningi Sameinuðu þjóðanna. Fjölgun er í mengi fatlaðra og mun sú fjölgun halda áfram.

 

Bókun Flokks fólksins við skýrsla stjórnenda í barnavernd á höfuðborgarsvæðinu um stöðu barna með fjölþættan vanda:

Eins og fram kemur í bókun í gögnum málsins skorar velferðarráð á félags- og barnamálaráðherra og félagsmálaráðuneytið að hlusta á ákall sveitarfélaganna og vinna að farsælli lausn í málefnum barna með fjölþættan vanda. Fjölmargar nefndir hafa starfað og fjallað um málefnið. Flokkur fólksins var með í þessari bókun velferðarráðs. Nú hefur barnamálaráðherra með farsældarlögunum lofað að bæta þjónustu við börn þar sem skóinn að kreppir. Ekki hefur verið sýnt fram á hvernig fjármagna á alla þætti laganna. Nú er Framsókn komin um borð í meirihlutann í borginni og ættu því þessi mál að vera auðsótt nú þegar komin er bein pólitísk tenging milli borgarmeirihlutans og ríkisstjórnar.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 20. júní 2022, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki samkomulag við lóðarhafa að lóðinni Kirkjusandur 2, reitur A á Kirkjusandi:

Fram kemur að í samræmi við samningsmarkmið Reykjavíkurborgar er samið um að á reitnum, Kirkjusandur 2, verði 20% íbúða skilgreind sem leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, leiguíbúðir Félagsbústaða hf., búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða. Félagsbústaðir hafa kauprétt á allt að 5% íbúða á umsömdu föstu verði, sbr. 4. gr. Miðað við fyrirliggjandi tillögu verða um 45 íbúðir skilgreindar sem leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða og eiga Félagsbústaðir kauprétt að 11 þessara íbúða á umsömdu kaupverði. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því fyrir sér hvort ekki sé tímabært að breyta samningsmarkmiðum Reykjavíkur og þá þannig að hækka prósentu íbúða sem skilgreindar eru leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, leiguíbúðir Félagsbústaða hf., búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða. Um þetta er spurt vegna húsnæðisástandsins sem kemur hvað verst niður á leigjendum og efnaminna fólki.

 

Bókun Flokks fólksins við svari fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 20. júní 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðstoð við lágtekjuhópa vegna verðbólgu, sbr. 64. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. apríl 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins telur það mikil vonbrigði að ekki standi til að grípa til aðgerða að svo stöddu. Ljóst er að ef efnahagshorfur versna enn frekar verður nauðsynlegt að grípa til aðgerða, ekki aðeins á vegum ríkisins, heldur einnig á sveitarstjórnarstiginu.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ávinning af því að ráða verktaka í stað starfsmanna, sbr. 50. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. júlí 2021:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst mjög skrýtið að borgarritari virðist ekki hafa vitneskju um að þjónustu- og nýsköpunarsvið hafi rekið hátt í tíu starfsmenn árið 2020 í miðju Covid og ráðið inn verktaka í staðinn. Þessi gjörningur sviðsins gekk þvert á yfirlýsta stefnu Reykjavíkurborgar um að standa ætti vörð um störf borgarstarfsmanna á þessum erfiða tíma á meðan heimsfaraldurinn reið yfir. Ekki nóg með að þessum starfsmönnum hafi verið sagt upp fyrirvaralaust heldur leiddi þessi ákvörðun til þess að sviðið varð að ráða verktaka á verktaka ofan. Ráða þurfti verktaka til að aðstoða verktaka í því sem þeir áttu að gera. Flokkur fólksins telur að í þessum aðgerðum hafi ekki falist nein hagræðing heldur frekar aukin útgjöld. Enn er beðið eftir svörum við fyrirspurn Flokks fólksins um hvað vannst fjárhags- og rekstrarlega með þessari ákvörðun sviðsstjórans.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um hjólhýsi og húsbílabyggð í Laugardal, sbr. 51. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. júní 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þessum hópi, einna helst vegna þess að hann lifir í stöðugri óvissu. Ekkert hefur gengið að finna nýtt úrræði til framtíðar fyrir íbúa í hjólhýsa- og húsbílabyggð Laugardalsins. Í mörg ár hefur verið rætt um að finna verði langtímalausn en allt gengur það á hraða snigilsins. Árið 2021 kom fram í bréfi frá skipulagsfulltrúa að „einkaaðilar á markaði gætu allt eins þjónustað þá gesti á sínu landi sem hafa nýtt sér Laugardalinn frekar en að borgin útvegi land og setji upp grunnþjónustu.“ Um málið var fjallað í fjölmiðlum. Fulltrúi Flokks fólksins óttast að til standi af hálfu borgarinnar að reyna að losna við þennan hóp í stað þess að meðtaka hann sem hluta borgarbúa og finna honum viðeigandi aðstæður fyrir húsbýlabyggð. Hvernig sem litið er á málið þarf að vera lóð í boði fyrir hjólhýsa- og húsbílabyggð. Úthlutun lóðar er á ábyrgð borgarinnar en ekki einkaaðila.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um breytingar á aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. júní 2022:

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. MSS22060091

Staða fatlaðra í Reykjavík er ekki góð og ekki á landsvísu heldur. Í Reykjavík bíða á annað hundrað eftir sértæku húsnæði og enn er hópur fatlaðra á herbergjasambýlum. Allt of margir eru ekki að fá þá þjónustu sem þeir eiga rétt á. Málaflokknum hefur ekki fylgt fjármagn sem segir einfaldlega að lögum hefur ekki verið framfylgt. Ný lög eru mikil framför frá þeim gömlu en ekki dugar að hafa góð lög ef þeim er ekki fylgt eftir með fjármagni. Hvað getur Reykjavík gert í þessari stöðu sem sveitarfélag? Borgin getur sýnt meira frumkvæði, beitt sér af krafti, látið rödd sína heyrast og nýtt öll tækifæri til að þrýsta á meira fjármagn. Fatlað fólk á sinn rétt og gildir þá einu hvort viðkomandi er með NPA samning. Ekki dugar að segja við fatlaðan einstakling, „afsakið en við erum ekki með fjármagn til að hjálpa þér“. Skipa á starfshóp til að gera tillögu um framhaldið en sú vinna getur tekið óratíma og er allsendis óljóst hvað kemur út úr henni. Veita þarf þessum hópi aðhald. Markmiðið er að mæta þörfum fatlaðs fólksins samkvæmt lögum og samningi Sameinuðu þjóðanna. Fjölgun er í mengi fatlaðra og mun sú fjölgun halda áfram.

 

Bókun Flokks fólksins við Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 16 mál:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað vakið máls á að árum saman hafa íbúar, fjölmargir í miðbæ Reykjavíkur átt um sárt að binda vegna hávaðans frá næturklúbbum. Lögð var fram tillaga 2018 um að fylgja skuli reglugerð um hávaðamengun. Tillagan er enn í borgarkerfinu. Nú mun reyna á nýjan meirihluta, hvað hann ætlar nákvæmlega að gera í þessu máli. 22. júni var haldinn fundur með oddvita Framsóknar, borgarritara, fulltrúum íbúa miðbæjarins og fleirum um þessi mál.  Annar fundur er kominn á dagskrá sem mun verða með lögreglunni.

Halda þarf málinu á lofti og linna ekki fyrr en lausnir hafa verið fundnar og þær virkjaðar. Leggja þarf umfram allt áherslu á að þeim reglum sem í gildi eru verði fylgt, eftirlitsaðilar og leyfisveitendur hafi samráð og það sé einhver viðurlög við því að brjóta reglur, dagsektir, styttur opnunartími og leyfissviptingar ef vertar láta sér ekki segjast.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um að auka aðgengi að upplýsingum á vef borgarinnar:

Flokkur fólksins leggur til að farið verði í átak til að auka aðgengi að upplýsingum á vef borgarinnar. Þetta er lagt til vegna ábendinga sem borist hafa um að erfitt er að finna gögn á vefnum. Umfram allt þarf að auka sýnileika til að auðvelda fólki að finna hvar það á að leita að hvaða gögnum á Reykjavíkurvefnum. Bent hefur verið á að sérlega erfitt sé að finna t.d. samþykktir borgarinnar en einnig margt fleira. MSS22060177

Vísað til meðferðar stafræns ráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um að endurskoða hvernig reglur um kattahald er framfylgt:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að verkferlar umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar við framfylgd samþykktar um kattahald verði endurskoðaðir með tilliti til þess að auka meðalhóf. Haft verði að leiðarljósi við þá endurskoðun að reglurnar eiga ekki aðeins að vernda fólk frá ágangi katta, heldur eigi þær einnig að vernda hagsmuni kattaeigenda og líf og heilsu kattanna sjálfra. MSS22060179

Greinargerð

Borið hefur á gagnrýni við verklag umhverfissviðs Reykjavíkurborgar um framfylgd samþykktar um kattahald. Fyrir skömmu átti sér stað óheppilegur atburður. Köttur, sem var á ferð í grennd við heimili sitt, var handsamaður af starfsmönnum Reykjavíkurborgar, en þegar eigandi ætlaði að vitja hans til yfirvalda kom í ljós að hann hafði sloppið úr haldi. Atvik málsins eru með þeim hætti að margir furða sig yfir því hvers vegna kötturinn var handsamaður á annað borð í stað þess að sinna málinu á heimaslóðum kattarins. Fram hefur komið að kötturinn hafi ekki verið merktur á hálsól og því hafi þurft að færa hann í kattageymslu svo lesa mætti örmerki hans. Ýmsir hafa gagnrýnt þessar skýringar og bent á að vægari aðferðum hefði mátt beita. Undir það má taka. Því er lagt til að verkferlar verði endurskoðaðir og meðalhóf lagt til grundvallar. Reynt verði að beita vægari aðgerðum en handsömun ef slíkt dugar. Verklag sem byggir á meðalhófi gæti til dæmis hljóðað svo:

Starfsmenn skuli:
1. spyrjast fyrir um hver sé eigandi gæludýrsins og reyni að komast í samband við eiganda

2. reyni að lesa á hálsmerki eða örmerki á staðnum með skanna og í kjölfarið hafa samband við eiganda

3. lesa í aðstæður og athuga hvort dugi að grípa til vægari aðgerða

  1. handsama gæludýrið aðeins í neyð og ef allt framangreint hefur ekki virkað.

Vísað til meðferðar heilbrigðisnefndar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillaga um að fundið verði fullnægjandi skólaaðstaða fyrir börn hælisleitenda

Fyrir tæpum þremur árum var sett á laggirnar móttökudeild fyrir börn umsækjenda  um alþjóðlega vernd. Um var að ræða skólaúrræðið Birta sem  var hugsað sem tilraunaverkefni til þriggja ára. Staðsetning deildarinnar var í samnýttu húsnæði  í frístundaheimilinu Álftabæ og félagsmiðstöðinni Tónabæ en starfsmenn deildarinnar og nemendur voru hluti af Álftamýrarskóla. Aðbúnaður fyrir bæði nemendur og kennara hafa bæði verið erfiðar og ábótavant. Birta var hugsuð sem mikilvægur stökkpallur fyrir börn sem eru í umsóknarferli um alþjóðlega vernd þar sem mörg þeirra eru með takmarkaða skólagöngu. Flokkur fólksins leggur til að fundið verði fullnægjandi skólaaðstaða fyrir börn hælisleitenda og er þá átt við að aðstæður séu barn- og nemendavænar þannig að vel fari um börnin og kennarana. Kennarar þurfa að geta sinnt börnunum á einstaklingsgrunni jafnt og í hóp. Nægt rými þarf að vera til að geyma kennslugögn,  kennslutæki og kennsluefni barnanna auk þess að hengja upp myndir og verk á veggi. Húsnæðið þarf að hafa bæði stór og minni rými og vera búið húsgögnum sem passa börnunum í skólaaðstæðunum. MSS22060180

Greinargerð

Nú ríkir óvissa um framhald þessa verkefnis, Birtu sem var þriggja ára tilraunaverkefni.  Óvissan og þögn um framhald hefur leitt til þess að allir starfsmenn þess, 6 talsins hafa sagt upp störfum. Með því hefur tapast dýrmæt þekking og reynsla, allt sem búið er að byggja upp. Svo virðist sem úrræðið hafi verið sett á laggirnar og síðan er ekki meira gert, ekki hlúð að því og ekki hugað að óskum og þörfum nemenda og kennara. Fyrir þá sem fylgjast með lítur út sem verkefnið sé að fuðra upp.

Þess vegna er brýnt að farið verði í að finna viðeigandi húsnæði hið fyrsta og koma skóla-aðstæðum barna hælisleitenda í fullnægjandi horf til framtíðar.  Hælisleitendum er að fjölga og og gera má ráð fyrir að nemendur í þessum hópi verði fleiri. Miðað við ástand heimsins þar sem bæði stríð og loftslagsbreytingar  rekur fólk til að flýja heimabyggðir sínar má gera ráð fyrir enn meiri fjölgun flóttamanna næstu misseri og um langan tíma.

Upphaflega var gert ráð fyrir að stoðdeildin Birta gæti tekið á môti um 20  til 24 nemendum í einu. Fyrsta árið voru 21 nemandi sem innrituðust í Birtu, síðan á ōðru árinu innrituðust 41 nemandi og á þriðja árinu urðu fjōldi nemenda 51. Tímabært er að leggjast yfir heildar framtíðarskipulag þessa verkefnis og húsnæði í tengslum við það.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um 3ja ára tilraunaverkefni skólaúrræðis fyrir börn hælisleitenda:

Fyrir tæpum þremur árum var sett á laggirnar móttökudeild fyrir börn umsækjenda  um alþjóðlega vernd. Um var að ræða skólaúrræðið Birta sem  var hugsað sem tilraunaverkefni til þriggja ára. Staðsetning er í  Álftamýrarskóla og hefur aðstaða og aðstæður bæði verið erfiðar og ábótavant. Birta var hugsuð sem mikilvægur stökkpallur fyrir börn sem eru í umsóknarferli um alþjóðlega vernd þar sem mörg þeirra eru með takmarkaða skólagöngu. Nú ríkir óvissa um framhald þessa verkefnis og hafa ekki fengist skýr svör. Óvissan og þögn um framhald hefur leitt til þess að allir starfsmenn þess, sex talsins, hafa sagt upp störfum. Með því hefur tapast  þekking og reynsla, allt sem búið er að byggja upp. Svo virðist sem úrræðið hafi verið sett á laggirnar og síðan er ekki meira gert, ekki hlúð að því og ekki hugað að óskum og þörfum nemenda og kennara. Fyrir þá sem fylgjast með lítur út sem verkefnið sé að fuðra upp. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um eftirfarandi: Hvert er framtíðarskipulag þessa úrræðis, Birtu? Var haft samráð við starfsfólkið og leitað eftir þeirra áliti um hvað þyrfti að breytast fyrir börnin og til að bæta aðstæður? Hver er stefna yfirvalda í málefnum hælisleitenda/innflytjenda sem snýr að menntun? MSS22060178

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort ekki sé tímabært að breyta samningsmarkmiðum Reykjavíkur í þágu húsnæðismála efnaminna fólks :

Fram kemur að í samræmi við samningsmarkmið Reykjavíkurborgar er samið um að á reitnum, Kirkjusandur 2, verði 20% íbúða skilgreindar sem leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, leiguíbúðir Félagsbústaða hf., búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða. Félagsbústaðir hafa kauprétt á allt að 5% íbúða á umsömdu föstu verði, sbr. 4. gr.

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort ekki sé tímabært að breyta samningsmarkmiðum Reykjavíkur þannig að prósenta íbúða sem skilgreindar eru leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, leiguíbúðir Félagsbústaða hf., búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða hækki. Um þetta er spurt vegna húsnæðisástandsins sem kemur hvað verst niður á leigjendum og efnaminna fólki. MSS22060181

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um minnisblað fjármálaskrifstofu um áhrif vaxtahækkunar á skuldastöðu og afborgunarþunga lána hjá borginni.

1,9 milljarða halli er á A-hluta umfram áætlun. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir minnisblaði fjármálaskrifstofu um áhrif vaxtahækkunar á skuldastöðu og afborgunarþunga lána hjá borginni.  Spurt er hvernig á að mæta þessum halla? Hvar er hægt að spara eða auka hagræðingu í rekstri borgarinnar? Er hægt að fresta einhverjum verkefnum?  Einnig er spurt hvort ekki séu áhyggjur af afkomu þeirra efnaminnstu þegar  21% hækkun fasteignamats verður tekin nánast beint úr vösum íbúa borgarinnar með því að hækka fasteignaskatta samsvarandi og það er gert ofan í kjarasamninga? MSS22060182

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.