Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Yfirlit yfir ferðakostnað umhverfis- og skipulagssviðs, fyrir tímabilið júlí – september 2022:
Heildar ferðakostnaður júlí – september 2022 hjá umhverfis- og skipulagssviði er samtals kr. 1.429.839. Nú getur fulltrúi Flokks fólksins vissulega ekki fullyrt mikilvægi þessara ferða í heildarsamhenginu, þ.e. að þær ferðir sem eru að baki upphæðinni hafi verið nauðsynlegar og skilað sér til borgarinnar og borgarbúa. Hins vegar vita forsvarsmenn umhverfis- og skipulagsráðs, eins og aðrir sem reka svið í borginni að Reykjavíkurborg stendur afar illa fjárhagslega. Haga þarf því seglum eftir vindi.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Sniðtalningar Reykjavík 2022, kynning:
Fulltrúa Flokks fólksins finnst gott að fylgst er með umferðarþróuninni. Hugmyndafræðin er að telja í ákveðnum sniðum en áður voru bílar taldir. Flokkur fólksins veltir því upp hvernig sniðtalningarreitir eru valdir. Svo virðist að mest sé mælt í miðbænum, en það kunna að vera eðlilegar skýringar á því. Sjá má örlítinn samdrátt á umferð á einstaka stöðum í miðbænum. Aukning er á bílaumferð um 4% milli ára. Umferð eykst víða, t.d. í úthverfum. Sams konar talning er ekki fyrir reiðhjól. Þess mátti vænta að með aukningu notkun hjóla sem samgöngutæki að bílaumferð myndi minnka. En það er ekki raunin þrátt fyrir að notkun reiðhjóla sem samgöngutæki hafi líka aukist. Vissulega hefur mannfjöldi líka aukist.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Umferðaröryggi í Reykjavík, kynning:
Fulltrúi Flokks fólksins vill bóka undir þessum lið að víða er umferðaröryggi í Reykjavík verulega ábótavant. Þann 16. nóvember sl. var ekið á á nemenda í 3. bekk í Laugarnesskóla á gangbraut yfir Reykjaveg. Íbúar hafa lengi kallað eftir að betur verði búið að þessari gangbraut til skólans, sett gönguljós, lýsing bætt og gangbrautin færð suður fyrir Kirkjuteig. Flokkur fólksins hefur einnig ítrekað farið fram á að hlustað verði á foreldra barna í Vogabyggð. Í júní lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að strax yrði hafist handa við að byggja bráðabirgðagöngubrú yfir Sæbraut við gatnamót við Skeiðarvog/Kleppsmýrarveg. Þetta eru sennilega ein hættulegustu gatnamót Reykjavíkur. Vogabyggð er orðin fjölmenn byggð, en þannig er málum háttað að börnin í hverfinu þurfa daglega að fara yfir Sæbrautina til að sækja skóla, frístundir og fleira. Ítrekað hefur verið bent á að umferðaröryggi er ábótavant í Úlfarsárdal. Nefna má gatnamót Úlfarsbrautar og Freyjubrunns. Þegar keyrt er í norðurátt upp Úlfarsbraut er grindverk um lóð húss í Lofnarbrunni sem skyggir á umferð gangandi sem koma niður Freyjubrunn. Þarna er brekka niður í móti og það koma oft krakkar á mikilli ferð og yfir gangbrautina sem tekur við. Hætta er á að þarna geti orðið slys.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Umsagnir sendar til Alþingis og Samgöngustofu,
Umsögn Reykjavíkurborgar um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur.
Flokkur fólksins telur það að öllu jöfnu hagur borgarbúa að aðgangur að leigubílum sé greiður. Tæma þarf miðbæinn á stuttum tíma eftir lokun skemmtistaða. Þess vegna eiga borgaryfirvöld að styðja rýmkun á rétti til að reka leigubíla og fjölga leyfum. Nú er skylda að vera skráður á leigubílastöð. Þess ætti ekki að þurfa. Fjölga mætti leyfunum. Auðvitað þarf að gera kröfur til starfseminnar þar sem þetta er þjónusta við fólk. Þeir sem sækja um leyfi þurfa að t.d hafa hreint sakavottorð. Það mætti búa til frjálsan rekstur svo framarlega sem viðkomandi er með leyfin á hreinu. Finna þarf leið til að þetta sé mögulegt. Vandamáli er að sumir leigubílstjórar vilja ekki afleysingu á bíla sína. Þess vegna eru í raun færri leigubílar á ferðinni er fjöldi leyfa segir til um.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Stafrænar umsóknir til byggingarfulltrúa, kynning
Fulltrúi Flokks fólksins lýsir ánægju sinni yfir að nú glittir í rafrænar lausnir (stafrænar umsóknir) hjá umhverfis- og skipulagssviði eftir „ítarlegar“ rannsóknir þjónustu og nýsköpunarsviðs, sem meðal annars fólust í vigtun pappírs sem kom inn og pappírs sem fór út. Á sama tíma og fulltrúi Flokks fólksins fagnar væntanlegri innleiðingu, verður hann að taka fram að öll þessi rannsóknarvinna sviðsins virðist í fljótu bragði ganga út á það eitt að uppgötva hið augljósa. Það er löngu vitað að rafrænar lausnir spara oft tíma, ferðir og pappír. Innleiðing rafrænna lausna þarf að ganga mun hraðar en raun ber vitni og byrja hefði átt fyrr með skilgreint markmið. Rafræn lausn BYGG mun spara rúmlega 20% af heimsóknum í Þjónustuver Reykjavíkurborgar á ársgrundvelli. Samhliða þessu eru rafrænar undirskriftir í fyrsta sinn í boði á vef Reykjavíkurborgar, í þessu kerfi alla vega, sem er ánægjuefni út af fyrir sig. Almennt er Reykjavíkurborg aftarlega á merinni þegar horft er til nágrannasveitarfélaga og landa sem við berum okkur saman við hvað rafrænar lausnir viðkoma. Hvorki á því að eyða fjármagni eða tíma í óþarfa pælingar og „leiksmiðjur“.
Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um umferðaröryggismál í Laugardal og Vogabyggð
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um umferðaröryggi í Laugardal og Vogabyggð, sbr. 27. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 16. nóvember 2022.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.
Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um lýsingu í borgarlandi (USK22110145):
Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um lýsingu í borgarlandi, sbr. 23. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 23. nóvember 2022.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu reksturs og umhirðu.