Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. maí 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. maí 2024 á breytingu á aðalskipulagi 2040 fyrir skotæfingasvæði Álfsnesi.
Framlengja á starfsleyfi fyrir skotæfingasvæði á Álfsnesi til 2028 fyrir Skotfélag Reykjavíkur og Skotveiðifélag Reykjavíkur. Flokkur fólksins hefur því miður litla trú á að skotvellirnir fari 2028. Þær breytingar sem hér á að gera til að hýsa áfram skotvellina eru kostnaðarsamar og er reikningurinn sendur á skattgreiðendur. Íbúar á Kjalarnesi hafa staðið í stappi við borgaryfirvöld í tæpa tvo áratugi. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað bókað um málið enda ofbýður honum yfirgangur meirihlutans gagnvart íbúum Kjalarness í þessu máli. Íbúar mega sín lítils. Auðvelt er að setja sig í spor íbúanna sem mega þola ýmiss konar mengun. Í gögnum kemur skýrt fram að talsvert magn er af gömlum og nýjum höglum í jarðvegi. Staðfest er að högl berast niður í fjöru og enda í maga fugla. Niðurstöður greiningar benda til þess að hlutfall blýhagla sé hærra en ætlað var frá upplýsingum sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur haft fram að þessu. Niðurstöður mælinga á hávaðamengun koma heldur ekki vel út. Stytta þarf kvöldopnunartíma til að takmarka ónæði vegna skothljóða. Þetta segir allt sem segja þarf. Tekið er undir athugasemd þar sem segir „HER hefur ekkert gert annað en að matreiða niðurstöður svo skotfélögin geta haldið starfseminni áfram á Álfsnesi.“
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. maí 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. maí 2024 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Breiðholts I vegna lóðanna nr. 2-6, 8 og 10 við Arnarbakka:
Óskað er eftir breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðirnar Arnarbakka 2-10. Breytingar felast í fjölgun íbúða, færslu á byggingarreitum og heimild fyrir leikskóla á svæðinu. Markmiðið er að fækka bílastæðum til muna á fyrirhuguðum uppbyggingarreitum, stærri reitum sem smærri og einnig á blönduðum sem og þeim sem eru í nágrenni við góðar almenningssamgöngur. Vandamálið er að nú eru engar góðar almenningssamgöngur og bið í borgarlínu jafnvel um einhver ár. Samnýta á stæði eins og hægt er sem er ágætis mál ef þess er nokkur kostur. Flokkur fólksins tekur undir að bílastæði séu ekki merkt neinum nema auðvitað stæði fyrir hreyfihamlaða og fatlað fólk. Stæði eiga ekki að vera frátekin fyrir ákveðin fyrirtæki. Mikið er talað um almenningssamgöngur og nálægð við þær en aftur er minnst á hvað við búum við slakar almenningssamgöngur sem þjóna aðeins mjög þröngum hópi. Enn er með öllu óljóst hvernig borgarlína á eftir að virka í úthverfum Reykjavíkur. Flokkur fólksins getur ekki samþykkt að bílastæðum sé fækkað svo mikið sem til stendur fyrr en hægt er að segja að við höfum fullnægjandi almenningssamgöngur. Bílum fjölgar og áfram þarf að gera ráð fyrir bílum á götum og í bílastæðum bæði ofan jarðar og neðan.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. maí 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. maí 2024 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna reits I við Haukahlíð, lóð nr. 6:
Þetta mál gengur út á breyting á deiliskipulagi – Haukahlíð 6. Lögð fram umsókn Bjargs íbúðafélags sem felst í fjölgun íbúða úr 70 íbúðum í 85 leiguíbúðir ásamt mörgu fleiru þessu tengt. Fram kemur í gögnum að „hafa ber þó í huga að þrátt fyrir að viðmið um fjölda bílastæða séu uppfyllt þá verða 31 íbúðir án bílastæða og því er mikilvægt að huga að því að gera aðgengi að vistvænum samgöngum eins hátt undir höfði og mögulegt er til að auðvelda íbúum að lifa bíllausum lífsstíl.“ Hér staldrar fulltrúi Flokks fólksins við því við vitum öll að við búum ekki við þann lúxus að hafa nógu góðar almenningssamgöngur. Það er ekki hægt að ætlast til að allir fari um á hjóli. Ekki eru aðstæður til að hægt sé að ætlast til að allir lifi bíllausum lífsstíl. Stungið er upp á ýmsu, s.s. að samnýta bílastæði eða veita aðstöðu til hjólaviðgerða nú eða tryggja íbúum aðgengi að deilibíl. Þetta er eins gott og það nær. Staðreyndir tala máli sínu. Bílum fjölgar og ekki að ástæðulausu. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sem verið sé að þvinga borgarbúa allt of mikið til að leggja bílnum.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 17. maí 2024, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 15. maí 2024 á tillögu um samþykkt samnings um neyslurými vegna skaðaminnkandi þjónustu milli Reykjavíkurborgar og Sjúkratrygginga Íslands:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur ávallt stutt hugmyndina um neyslurými enda slíkt úrræði búið að sanna gildi sitt í öðrum löndum. Markmiðið er að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og auka lífsgæði þeirra sem nota vímuefni í æð. Því miður hefur ekki tekist að halda samfellu í Reykjavík í þessu úrræði og hafa margir liðið fyrir það. Hér er um að ræða mannréttindamiðaða nálgun sem byggir á að draga úr skaða og aðstoða einstaklinga á þeirra eigin forsendum. Nú er þetta erfiða mál loksins komið á skrið og er það þakkarvert. Rauði kross Íslands hefur fengið heimild eiganda lóðar við Borgartún 5 (ríkiseign) til að setja niður gáma, sem félagið telur henta starfseminni best og er miðað við að starfsemi geti hafist í byrjun júní nk. Samningurinn gildir í eitt ár frá því að móttaka notenda hefst. Um leið og dregið er úr skaðlegum afleiðingum sem fylgja neyslu ávana- og fíkniefna er ekki aðeins verið að hjálpa einstaklingunum sjálfum heldur einnig aðstandendum og nærsamfélaginu. Í þeim löndum sem neyslurými eru til hefur dauðsföllum sem rekja má til notkunar vímuefna í æð fækkað.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram greining mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. febrúar 2024, á kynbundnum launamun í október 2023.
Konur voru með 0,1% lægri laun en karlar í október 2023 að teknu tilliti til aldurs, reynslu, menntunar, starfaflokks, yfirvinnu, hæfnisflokka, annarra launa og vaktaálags. Konur eru með hærri grunnlaun en karlar og hærri uppreiknuð grunnlaun en karlar að meðaltali með 0,4% hærri uppreiknuð heildarlaun þegar aðeins hefur verið tekið tillit til starfshlutfalls. Einnig eru karlar með 0,1% hærri uppreiknuð heildarlaun en konur að teknu tilliti til kyns, aldurs, starfaflokks, menntunar, reynslu, hæfnisflokka, mældra og fastra yfirvinnutíma, vaktaeininga og annarra launa. Karlar fá frekar greidda mælda yfirvinnu heldur en konur, þ.e. 35,6% kvenna á móti 44,6% karla. Karlar fá einnig frekar greitt vaktaálag en konur en 37,3% karla fær greitt vaktaálag en 25,0% kvenna. Karlar fá að meðaltali hærri mælda yfirvinnu, þeir fá einnig hærri önnur laun en konur auk þess að fá hærra vaktaálag. Segja má að þessi barátta þurfi að halda áfram, henni er hvergi nærri lokið.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: agt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 21. maí 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki drög að samkomulagi sem felur í sér tímabundin afnot af Miðbakka í þeim tilgangi að setja þar upp og reka parísarhjól:
Skoða á að staðsetja parísarhjól yfir sumartímann, við Miðbakka við gömlu höfnina í Reykjavík. Um er að ræða 32 m hátt parísarhjól. Hugmyndin um parísarhjól á Miðbakka hefur áður komið fyrir borgarráð, síðast fyrir tæpu ári. Nú er verið að skoða Miðbakkann. Þá koma upp áhyggjur með aðgengi en aðgengi að Miðbakka og miðbænum öllum er afar erfitt fyrir aðra en þá sem búa nálægt og ferðamenn. Aðrar áhyggjur varða m.a. hávaðavandamál en mikið er búið að leggja á íbúa svæðisins í þeim efnum. Líklegt má telja að það verði ónæði af starfseminni. Sjálfsagt er að miða við lokun kl. 22:00. Vegna aðgengisvanda og bílastæðaskort er líklegt að gestir leggi við íbúðarhús. Íbúar hafa oft kvartað yfir bílastæðamálum í sínu nærumhverfi og hvorki fengið áheyrn né stuðning frá borginni vegna bíla sem leggja þarna í leyfisleysi. Þessi starfsemi hefur auðvitað ekkert að gera með „haftengda upplifun.“ Aftur er minnt á samráð sem er ekkert enn sem komið er í þessu máli.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 21. maí 2024, varðandi þátttöku borgarfulltrúa á ársþingi Eurocities 2024, ásamt fylgiskjölum:
Fulltrúi Flokks fólksins minnir á fjárhagsstöðu borgarinnar og að hver króna skiptir máli. Það var von fulltrúans að með nýjum borgarstjóra og hans fólki yrði dregið úr ferðakostnaði og annarri óþarfa eyðslu. Hafa skal í huga að fæstar þessara heimsókna eru að skila nokkru og alls ekki neinu til borgarbúa. Flokkur fólksins skilur að í einstaka tilfellum er nauðsynlegt að æðstu stjórnendur borgarinnar láti sjá sig á erlendri grund á mikilvæga fundi/þing/ráðstefnur en það eru í raun undantekningartilfelli.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 21. maí 2024, varðandi fyrirhugaða ferð borgarstjóra og borgarfulltrúa á stjórnarfund Vestnorræna höfuðborgarsjóðsins 2024:
Fulltrúi Flokks fólksins minnir á fjárhagsstöðu borgarinnar og að hver króna skiptir máli. Það var von fulltrúans að með nýjum borgarstjóra og hans fólki yrði dregið úr ferðakostnaði og annarri óþarfa eyðslu. Hafa skal í huga að fæstar þessara heimsókna eru að skila nokkru og alls ekki neinu til borgarbúa. Flokkur fólksins skilur að í einstaka tilfellum er nauðsynlegt að æðstu stjórnendur borgarinnar láti sjá sig á erlendri grund á mikilvæga fundi/þing/ráðstefnur en það eru í raun undantekningartilfelli.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 8. maí 2024, sbr. samþykkt öldungaráðs frá 8. maí 2024 á tillögu um samræmda upplýsingagjöf til eldra fólks um heilsueflingu og afþreyingu á vegum Reykjavíkurborgar:
Þessi tillaga ætti varla að vefjast fyrir ráðamönnum enda sambærileg tillaga víða að finna annars staðar. Grunnur er til staðar sem hægt er að byggja á fristund.is sem birtir ýmsar mikilvægar upplýsingar. Um er að ræða tillögu öldungaráðs um samræmda upplýsingagjöf til eldra fólks um heilsueflingu og afþreyingu á vegum Reykjavíkurborgar þvert á svið þar sem finna má allar upplýsingar um ólíka þjónustu fyrir eldra fólk innan allra borgarhluta í rauntíma. Við lestur umsagnar finnst fulltrúa Flokks fólksins verið að gera einfaldan hlut of flókinn og óttast að nú eigi að fara af stað eina ferðina enn með þróunar-, uppgötvunar- og tilraunafasa á lausn sem víða er farin að virka annars staðar. Flokkur fólksins vonar innilega að nú eigi ekki að fara að finna upp hjólið heldur skuli samnýta það sem til er og leita til þeirra sem eru komnir með sambærilegt. Þarfirnar eru þær sömu hvort sem um er að ræða Reykjavík eða Akranes ef því er að skipta. Ekki er trúverðugt að það sem stendur í umsögninni eigi að vera tilbúið eftir 2 mánuði, alla vega ekki ef marka má fyrri reynslu af þessum málum.
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 12. apríl 2024, sbr. vísun borgarstjórnar frá 9. apríl 2024 á tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins um óháða úttekt á þjónustu- og nýsköpunarsviði varðandi hagræðingu og framtíðarskipulag sviðsins, ásamt fylgiskjölum.
Frestað. MSS24040055
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 16. maí 2024. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. og 3. líð fundargerðarinnar:
Fulltrúi Flokks fólksins varð fyrir miklum vonbrigðum með umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um skotsvæðið á Álfsnesi. Í umsögninni skín þekkingarleysi á áhrifum skotæfingasvæði og lífríkis í gegn. Blý er þungmálmur og sem mengunarvaldur berst ekki sérlega hratt um umhverfið. Ekki er þörf á samanburði við hvernig landið var áður. Blýhögl berast hratt þegar þeim er skotið úr byssu. Þá eru blýhögl aðgengilegur kostur fyrir fuglana sem ekki gera greinarmun á sandkorni og blýhagli og mengast þar með af blýi. Fáránlegt er að ætla að jarðvegsmengun eigi þar hlut að máli. Í þessari umsögn er mest verið að elta ólar við hver beri ábyrgðina og hver eigi að gera hvað. Að heilbrigðiseftirlitið varpi fram svo mikilli óvissu um ábyrgð er ótraustvekjandi. Liður 2: Heilbrigðiseftirlitið er eins og aftur úr fornöld hvað varðar stafrænar lausnir á meðan önnur sveitarfélög skarta metnaðarfullu tölvukerfi á þessu sviði. Þetta er afleiðing þrákelkni þjónustu- og nýsköpunarsviðs að vilja ekki vera í samvinnu við aðra á sömu vegferð nema takmarkað. Gopro kerfið er löngu úrelt og Hlaðan nýtist ekki Heilbrigðiseftirlitinu. Hin slæma staða í stafrænum málum hamlar starfseminni. Ekki er séð hvernig heilbrigðiseftirlitið á að halda utan um lögbundin verkefni með eldgamalt og úrelt tölvukerfi
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 29. apríl, 8. maí og 16. maí 2024: Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. og 2. lið fundargerðarinnar frá 16. maí:
Flokki fólksins finnst margt á dagskrá þessa fundar óljóst og vafasamt. Fyrir minnihlutafulltrúa þá má segja að þeim er haldið utan við þessi mál og aldrei upplýst hvað fer almennilega fram í innkaupa og framkvæmdarráði. Fulltrúi Flokks fólksins telur nauðsynlegt að fá einhverja kynningu á þessum málum t.d. lið 1 þar sem verið er að bjóða út verkefni við Hlemm og nágrenni. Einnig í lið 2 er verið að bjóða út verk í Grófarhúsi. Stóð ekki til að hægja á þessum verkefnum í ljósi slakrar fjárhagsafkomu borgarinnar? Hvað með lið 3 þar sem lagt er til rammasamningsútboð um tölvu og netbúnað? Þetta eru öll mál sem minnihlutinn þarf að vita um og vera inn í ef borgarkerfið á að virka trúverðugt í augum almennings.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 6. maí 2024. MSS24010012. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:
Ef litið er yfir fundargerðir íbúaráða þá er talsvert bókað um sorphirðumál. Þótt margt hafi gengið vel í þeim efnum er mörgu ábótavant og vill Flokkur fólksins að ábendingar frá borgarbúum og íbúaráðum séu teknar alvarlega. Í þessari fundargerð sem hér um ræðir er verið að benda á brýna nauðsyn þess að losunartíðni verði endurskoðuð og aftur verði gámar undir pappa og plast sett á stöðvarnar. Segir í umræddri bókun „Æ ofan í æ eru allir gámar fullir og fólk skilur eftir flokkað sorp við gámana, það er því augljóst að það verður að skipta þeim oftar út. Einnig viljum við að gámum undir plast og pappír verði aftur komið upp á öllum grenndarstöðvum hér í Grafarvogi. Í ljósi þess að í könnun á vegum Gallup fyrir SORPU kom fram að yfir 90% íbúa taka þátt í að flokka og fólk vill flokka en þá verður að gera það eins aðgengilegt og kostur er.“
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 8. maí 2024. MSS24010014. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins minnir á að hafa samráð við íbúa og borgarbúa eftir atvikum ávallt í heiðri í sbr. bókun ráðsins í lið 1 um Esjuferðir undir liðnum: Umræða um svifferju upp Esjuhlíðar. „Íbúaráð Kjalarness vill koma á framfæri við Framkvæmdasýsluna ríkiseignir vilja íbúa til þess að koma að samtali um Esjuferju á sem flestum stigum málsins.“ Flokki fólksins finnst þetta sjálfsagt mál og leggur áherslu á að ekki verði valtað yfir íbúa hvorki í þessu máli né öðrum.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 24. apríl 2024. MSS24010016. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar:
Fram fer umræða um Airbnb á fundi íbúaráðs Miðborgar. Flokki fólksins finnst vert að minnast og í því sambandi bókun íbúaráðsins um Airbnb. Málið er að það er mjög hátt hlutfall af Airbnb íbúðum sem eru í eigu hagnaðardrifinna leigufélaga í miðborg Reykjavíkur. Flokkur fólksins hefur látið sig þessi mál varða og bent á neyðarástandið sem er á leigumarkaði í þessu sambandi. Skoða þyrfti að setja leiguþak. Eins og fram kemur í bókun ráðsins þá tala íbúar á leigumarkaði um að það sé skýr fylgni milli slakrar réttarstöðu leigjenda og óhóflegra hækkana á húsaleigu vegna Airbnb íbúða. Flokki fólksins finnst gott að vita að íbúaráðið láti sig varða líðan fólksins og sérstaklega barnanna. Fjöldi Airbnb íbúða hefur sannarlega neikvæð áhrif á fasteignamarkaðinn.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð Orkuveitu Reykjavíkur frá 22. apríl 2024. MSS24010029. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúi Flokks fólksins getur ekki orða bundist yfir launum fyrir stjórnarsetu. Greiddar eru 217 þúsund krónur fyrir að sækja einn fund á mánuði. Þetta er varið með því að segja að „Þar sem stjórnarstörf eru aukastörf þykir eðlilegt að stjórnarlaun hækki um 3,25%. Samkvæmt því nemi stjórnarlaun aðalmanna 217.493 (voru 210.647, 2023) íslenskum krónum mánuði en varamanna helming þeirrar fjárhæðar fyrir hvern fund.“ Er það eðlilegt fyrir aukastarf? Hér er verið að sýna slæmt fordæmi nú einmitt þegar verið er að hvetja alla til að sýna aðhald.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 8. maí 2024. MSS24010033. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:
Kynning á biðstöðvum Strætó út frá aðgengi. Á árunum 2020 til 2023 hafa verið endurgerðar 69 strætóstöðvar en 114 strætóstöðvar þarfnast endurgerðar. Hér þarf að spýta í lófana ef verkefnið á ekki að taka mörg ár. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem setja þarf í forgang. Árið 2020 var aðgengi tekið út. Skoðað var yfirborð. Þá voru yfir 500 biðstöðvar metnar ófullnægjandi. Til stóð að lagfæra 12 sem voru allra verst farnar, bæði aðgengi og yfirborð. Við þá tölu hefur nokkrum verið bætt við á þeim tveimur árum sem liðin eru. Í úttektinni kom fram að aðeins á 11 biðstöðvum af 556 var aðgengi viðundandi. Flokkur fólksins lagði fram tillögu 2019 um endurbætur á öllum biðstöðvum strætó sem voru þá víða í lamasessi. Tillagan kom til afgreiðslu þremur árum síðar og var þá felld. Aðgengi og lélegt yfirborð stétta við strætóbiðstöðvar hefur auðvitað komið verst niður á fötluðu fólki og fólki með skerta sjón og hreyfigetu. Staðfest var í umsögn með málinu að endurbætur bíða vegna væntanlegrar borgarlínu sem búið er að upplýsa um að tefjist um 3-5 ár. Því er enn ríkari ástæða til að endurbæta biðstöðvar.
Ný mál
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að endurskoða ákvörðun um að breyta laugarbökkum Sundhallarinnar:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð samþykki að endurskoða ákvörðun um að breyta laugarbökkunum Sundhallarinnar með þeim hætti sem til stendur. Fram hefur komið að verið sé að endurgera sundlaugina í samræmi við nútímakröfur. Álitamál er hvort hægt sé að fara aðrar leiðir án þess að eyðileggja laugarbakkana sem eru órjúfanlegur hluti af heildinni. MSS24050112
Greinargerð
Ef málið er skoðað þá er engin sérstök þörf á þessari breytingu og er hún ekki gerð með þarfir sundgesta að leiðarljósi. Hér er heldur ekki um öryggismál að ræða, því eftir að gripstallurinn verður fjarlægður verður erfiðara að staldra við bakkann. Fyrir eldra fólk verður snúníngurinn örðugri og ógerningur að hvíla sig kríustund við bakkann. Þetta er sagður vera hluti að nútíma hönnun.
Hér er um tilfinningalegt málefni að ræða enda um einstætt listaverk. Ennþá er ekki of seint að hverfa frá þessari ákvörðun. Sundhöll Reykjavíkur er merk bygging og mikilvægt að halda í upphaflegt útlit eins og kostur er. Þeir eru ekki ófáir sem það finnst
Við byggingu nýrrar útilaugar voru gerðar breytingar í inngangs- og afgreiðslurými hallarinnar sem breyttu útliti og andrými hússins, sem mörgum þótti miður og að mestu óþarfar. Aðrar lausnir voru i boði. Flokkur fólksins reyndi hvað hann gat með tillögum og bókunum að benda á þær
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um samtalsþjónustu við eldra fólk.
Lagt er til að borgarráð samþykki að fela velferðarsviði að bjóða eldra fólki í Reykjavík upp samtalsþjónustu í ljósi vaxandi ofbeldis af öllu tagi gegn eldra fólki eins og fram kom á nýlegum fundi Landssambands eldri borgara. Þetta er lagt til sökum þess að besta forvörnin gegn ofbeldi í garð eldra fólks er samtalið. MSS24050113
Greinargerð
Flokkur fólksins lagði til 2023 að stofnað verði sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir eldri borgara sem búa á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsi til að fyrirbyggja einmanaleika og til að geta betur átt möguleika á að meta líðan eldra fólks. Ekkert kemur í staðinn fyrir samtalið og nærveruna.
Aldraðir eru sérstaklega útsettir fyrir ofbeldi en aðrir þjóðfélagshópar og ólíklegri til að tilkynna það. Það kemur til að því að sá sem beitir ofbeldinu er oft sá sem viðkomandi er háður, t.d. stuðningi frá degi til dags. Flokkur fólksins hefur margsinnis talað um vaxandi einsemd eldra fólk í okkar samfélagi. Besta forvörnin er samtalið og umræðan sem og virkt nágrannasamfélag. Þetta er ábyrgð okkar allra alveg á sama hátt og velferð barna er á ábyrgð okkar allra. Við þurfum að vera áræðin og þora að stíga fram og benda á ef við sjáum, heyrum, höfum vísbendingar um eða grun um að aldraður einstaklingur sé beittur ofbeldi af einhverju tagi. Hvað varðar sálfélagslegt úrræði þá hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins áhyggjur af einmanaleika hjá þessum hópi. Þessi hópur er einnig sennilega sá sem minnst er tæknivæddur og ekki allir nota þá velferðartækni sem er þó í boði. Kanna þarf með þennan hóp núna en ekki bíða eftir að aðgerðarplan Lýðræðisstefnu komi í virkni.
Frestað.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort þróa eigi nýja lausn Bjargey og Búi sem til er í ýmsum myndum í öðrum sveitarfélögum?:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort þjónustu og nýsköpunarsvið sé í einhverskonar samstarfi í innleiðingu stafrænna lausna varðandi nemendaskráningar ofl. í grunnskólum. virðast hafa með nemendaskráningar og íbúaþjónustu að ræða.
Greinargerð
Nýlega voru lausnirnar “Búi” og “Bjargey” kynntar fyrir borgarfulltrúum. Þar eru á ferðinni kerfi sem virðast hafa með nemendaskráningar og íbúaþjónustu að ræða. Nánast allir þeir sem héldu erindi á Nýsköpunardegi hins opinbera þann 15. maí sl. ítrekuðu mikilvægi samvinnu og samnýtingu stafrænna lausna og að sveitarfélög væru í þéttu samtali og virku samstarfi um þessi mál, enda væri stafræn vegferð kostnaðarsöm. Þetta hafa borgarfulltrúar Flokks fólksins ítrekað verið að benda á allt frá árinu 2019 þegar stafræn vegferð hófst. Þau eru ófá málin: tillögur, fyrirspurnir sem og bókanir Flokks fólksins þar sem lesa má að “Reykjavíkurborg skuli taka fullan þátt í innleiðingu stafrænna lausna í opinberri þjónustuveitingu ásamt öðrum sveitarfélögum og ríkinu enda í því fólgið mikið hagræði og sparnaður fyrir alla aðila – ekki síst fyrir notendur þeirra lausna sem eru íbúar í sveitarfélögum landsins.”
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um samstarf við HMS og hvað gera á við Bygg 2 nú þegar hefja á samstarf við HMS og SÍS. Í
ljósi þess að Reykjavíkurborg hefur undirritað viljayfirlýsingu um þátttöku í sameiginlegu verkefni um stafræn byggingarleyfi með Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Sambandi Íslenskra sveitarfélaga og Stafrænu Íslandi, vill fulltrúi Flokks fólksins fá upplýsingar um hvað gert verði við lausnina BYGG2 sem Reykjavíkurborg lagði tíma og fjármagn í og innleiddi að hluta til árið 2022? Spurt er hvort ekki sé hægt að hætta með BYGG2 og nota alfarið lausn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem allir virðast vera að nota. Einnig er óskað upplýsinga um hver var heildarkostnaður við innleiðingu BYGG2 og rafrænar mannvirkjaskrár sem Reykjavíkurborg innleiddi á svipuðum tíma og yfirgripsmikil og ítarleg mannvirkjaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar var innleidd. MSS24050115
Greinargerð
Fulltrúi Flokks fólksins telur það alvarlegt mál ef fjármunum borgarbúa sé sóað þannig að verið sé að þróa og uppgötva og síðan innleiða lausnir í stað þess að leggja áherslu á samvinnu og samnýtingu lausna sem þá þegar eru komnar í virkni hjá öðrum sveitarfélögum og ríki. Athuga ber að þjónusta sveitarfélags við íbúa eru mikið til sú sama hvort sem um er að ræða Reykjavík, Akranes eða Mosfellsbæ. Yfirlýst markmið Húsnæðis og mannvirkjastofu með stafrænum byggingarleyfum er að samræma verklag þvert á sveitarfélög. Þess vegna hljóta þeir sem skoða þessi mál að spyrja sig af hverju þjónustu og nýsköpunarsvið hafi verið að leggja svo mikla vinnu og fjármagn í ofangreind verkefni í stað þess að hafa frumkvæði að því að leita samstarfs við Mannvirkja og húsnæðisstofnun, Samband Íslenskra sveitarfélaga og Stafrænt Ísland?
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um verklag með innkaupabeiðnum:
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um það hvernig verklag með innkaupabeiðnum er háttað hjá Reykjavíkurborg. Einnig er óskað eftir því að vita af hverju rafrænar innkaupabeiðnir og kort hafi ekki enn verið innleidd hjá Reykjavíkurborg. MSS24050116
Greinargerð
Eftir því sem Flokkur fólksins í borgarstjórn kemst næst virðist verklag innkaupabeiðna verið nánast óbreytt undanfarna áratugi. Um er að ræða handskrifaðar pappírsbeiðnir sem látnar eru fylgja pappírsreikningum sem sendir eru til borgarinnar sem síðan þarf að skrá handvirkt í tölvukerfi. Mörg sveitarfélög ásamt ríkinu hafa tekið upp rafræn beiðnakerfi. Fulltrúi Flokks fólksins hefur heyrt af því að beiðnum úr beiðnaheftum borgarinnar hafi stundum verið stolið og í einu tilfelli hafi ekki verið hægt að gera grein fyrir allt að 7 milljónum sem verslað var með handskrifaðri innkaupabeiðni frá Reykjavíkurborg. Ljóst er að rafrænar innkaupabeiðnir eru ráðandi í innkaupum opinberra aðila hér á landi sem annars staðar og ef satt reynist að fyrirkomulag innkaupabeiðna hjá Reykjavíkurborg sé með þeim hætti sem að ofan greinir, telur fulltrúinn það vera alvarlegt mál sem þurfi að lagfæra sem allra fyrst með stafrænni umbreytingu.