Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. júní 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 9. júní 2021 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir Elliðaárvog/Ártúnshöfða, svæði 1:
Byggja á allt að 3500 íbúðir í 1. og 2. áfanga og 8.000 íbúðir þegar allt er komið. Sagt er að „þörf“ sé á landfyllingu til norðurs. Auðvitað er engin „þörf“ á landfyllingu. Þessi borgarhluti stendur samkvæmt deiliskipulaginu án nokkurra landfyllinga eins og fram hefur komið. Hætta ætti því við landfyllingar á svæði 1 og 2. Þétting byggðar tekur oft of mikinn toll af náttúru að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þetta má sjá á Geirsnefi og bökkum Elliðaáa, austan- og vestanverð ósasvæði hennar. Allt of mikið er manngert, búin til gerviveröld. Af hverju mega ekki fágætir fjörubútar fá að vera í friði? Ósnortnar fjörur eru ekki orðnar margar í Reykjavík. Með þessu er gengið á lífríkið. Bakkarnir til sjávar meðfram Sævarhöfða eru þegar manngerðir. Geirsnef gæti orðið borgargarður, en þar á Borgarlína að skera Geirsnef í tvennt. Landfyllingar eru auk þess enn í mati. Hvað viðkemur iðnaðarsvæðinu þá felst breytingin í því að minnka skipulagssvæðið, malbikunarstöðin og bílasölur eiga að víkja skv. skipulaginu. Fækkun bílastæða á svæðinu er viðkvæmt mál fyrir stóran hóp. Samráð þarf að vera við borgarbúa um það.
Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. júní 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 9. júní 2021 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir Elliðaárvog/Ártúnshöfða, svæði 2:
Allt undirlag er á landfyllingu. Byggja á allt að 3500 íbúðir í 1. og 2. áfanga og 8.000 íbúðir þegar allt er komið. Sagt er að „þörf“ sé á landfyllingu til norðurs. Auðvitað er engin „þörf“ á landfyllingu. Þessi borgarhluti stendur samkvæmt deiliskipulaginu án nokkurra landfyllinga eftir því sem fram hefur komið. Þétting byggðar tekur of mikinn toll af náttúru að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þetta má sjá á Geirsnefi og bökkum Elliðaáa, austan- og vestanverð ósasvæði hennar. Allt of mikið er manngert. Ósnortnar fjörur eru ekki orðnar margar í Reykjavík. Með þessu er gengið á lífríkið. Bakkarnir til sjávar með fram Sævarhöfða eru þegar manngerðir. Geirsnef gæti orðið borgargarður, en þar á Borgarlína að skera Geirsnef í tvennt. Landfyllingar eru auk þess enn í mati. Varðandi iðnaðarsvæðið þá felst breytingin í því að minnkar skipulagssvæðið, malbikunarstöðin og bílasölur eiga að víkja skv. skipulaginu. Fækka á bílastæðum um 70% samnýta bílastæða en það er viðkvæmt mál fyrir stóran hóp.
Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. júní 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 23. júní 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Breiðholts I vegna Arnarbakka:
Taka má undir að Arnarbakki 2 og 4 hafi lítið varðveislugildi. Nýta má svæðið mun betur en nú er gert. Almenningssvæði á jarðhæðum og íbúðir á efri hæðum er ágæt stefna en framtíðarspár um umferð verða að vera raunhæfar. Sagt er að aðkoma að Arnarbakka 2 og 4 sé góð og áfram verði hægt að keyra snúningssvæðið við Breiðholtsskóla. Þetta er hæpin fullyrðing því að við uppbyggingu íbúða mun umferð vaxa, (65 stúdentaíbúðir, + 25 venjulegar íbúðir + athafnasvæði í neðstu hæðum) meðfram Breiðholtsskóla. Í gögnum er áætlað að bílferðum fækki um 15% sem er ekki raunhæft? Allsendis óvíst er hvort deilibílanotkun nái flugi hér eins og í erlendum borgum. Einnig er sagt að árið 2019 var hlutfall bílferða 74%, hjólreiða 5%, gangandi 14%, almenningssamgöngur 5% og annað 2%. Með því að fækka bílferðum um 15% fyrir 2040 er áætlað að hlutfall gangandi og hjólandi verði 25%. Er ekki verið að ofáætla hér? Byrja þarf á réttum enda t.d. byrja á að gera göngu- og hjólastíga þannig að þeir beri umferð fleiri farartækja og sjá hvort það dragi úr bílanotkun. Ef það gengur vel er alltaf hægt að fækka bílastæðum eftir á.
Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. júní 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 23. júní 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Breiðholts III, Fell, vegna Völvufells, Drafnarfells, Eddufells og Yrsufells:
Hér er um að ræða að endurbæta hluta af Fellahverfinu, Völvufell. Byggingar hafa ekki mikið varðveislugildi og þess vegna er hægt að byggja allt upp að nýju. En hér er, sem og við Arnarbakka gert ráð fyrir samgönguþróun sem ekki er víst að gangi eftir. Veruleg íbúafjölgun verður í Völvufelli ef áætlanir ganga eftir. Í gögnum segir segir “ Vinna skal samgöngumat ef tækifæri eru til að fækka bílastæðum, á – stærri byggingarreitum eða hverfum. – byggingarreitum með blandaðri landnotkun, í nágrenni við góðar almenningssamgöngur” ,,Kortið sýnir einnig 20 mínútna svæði fyrir hjólandi en miðað er við 16,3 km/klst hjólahraða sem er meðalhraði í Kaupmannahöfn“. Hér er gert ráð fyrir að hröð umferð verði á göngustígunum, en það er óraunhæft nema stígar verði teknir algerlega í gegn. Rangt er að hjólastígar séu góðir og talsvert er í að þeir verði gerðir viðunandi. Samanburður við hjólastígakerfið í Kaupmannahöfn á ekki við hér enda það allt annað og betra. Kallað hefur verið eftir viðgerðum á gangstéttum í hverfinu og var það langalgengasta athugasemdin í þessum málaflokki á íbúafundi. Varasamt er að fækka bílastæðum verulega áður en önnur góð samgöngutækifæri verða til að mati fulltrúa Flokks fólksins.
Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 21. júní 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út í samstarfi við Vegagerðina kaup á búnaði til endurnýjunar á gangbrautarljósum 2021. Kostnaðaráætlun 2 er 45 m.kr.:
Meirihlutinn óskaði eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út í samstarfi við Vegagerðina kaup á búnaði til endurnýjunar á gangbrautarljósum 2021. Fulltrúi Flokks fólksins leggur áherslu á og ítrekar að borgaryfirvöld fylgi lögum og reglum um útboð og vísar í því sambandi til nýlegs úrskurðar um lögmæti útboða borgarinnar.
Bókun Flokks fólksins við bréfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 27. maí 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja kaup á vinnu við viðhald og þróun á hönnunarkerfi Reykjavíkurborgar:
Þjónustu- og nýsköpunarsvið óskar heimildar til að hefja kaup á vinnu við þróun á hönnunarkerfi Reykjavíkurborgar. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér í þessu sambandi hvort ekki er skynsamlegra að kanna hvort til sé hönnunarkerfi sem uppfyllir þær kröfur sem hér um ræðir. Þetta verður að skoða áður en farið er út í þróa eða smíða nýtt kerfi. Sambærileg kerfi eru í notkun víða. Fulltrúi Flokks fólksins telur að ÞON eigi að nýta sér það sem nú þegar er til í stafrænum lausnum.
Bókun Flokks fólksins við bréfi þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 4. júní 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að hefja undirbúning og innkaup á nýjum innri innkaupa- og aðgangsvef fyrir borgina:
Fulltrúi Flokks fólksins vill koma því á framfæri vegna beiðni þjónustu- og nýsköpunarsviðs (ÞON) um heimild til kaupa á áframhaldandi þróun og vinnu við heimasmíðað hönnunarkerfi Reykjavíkurborgar, að kannski hefði verið skynsamlegra og hentugra fyrir borgina að kaupa tilbúið hönnunarkerfi í stað þess að eyða miklum tíma og fjármagni í uppfinningu, þróun og vinnu við að smíða sitt eigið kerfi. Það hlýtur að vera til staðlað og samræmt hönnunarkerfi í notkun annarsstaðar hjá borgum eða jafnvel sveitarfélögum af svipaðri stærð og Reykjavíkurborg. Fulltrúi Flokks fólksins telur að skoða hefði átt að fara í þá vinnu fyrst og bera svo saman kostnað við kaup á tilbúnu kerfi við þann kostnað sem áætla má að verði við þetta heimasmíðaða hönnunarkerfi ÞON þegar það kerfi verður tilbúið.
Bókun Flokks fólksins við bréfi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 11. júní 2021 ásamt skýrslu stjórnenda í barnavernd á höfuðborgarsvæðinu um stöðu barna með fjölþættan vanda:
Sameinast þarf um að sinna þessum stóra og mikilvæga málaflokki. Sveitarfélög standa ekki ein undir að sinna málefnum barna með fjölþættan vanda. Óvissa er mikil sem snýr að kostnaði vegna þjónustu við börn með fjölþættan vanda og reynist það börnum og foreldrum þeirra mikið áhyggjuefni.
Bókun Flokks fólksins við bréfi skóla- og frístundasviðs, dags. 9. júní 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um breytingu á reglum um leikskólaþjónustu:
Einn stærsti vandi leikskólamála í Reykjavík er biðlisti. Ekki hefur tekist að finna lausn á honum. Það verður að fara finna lausn enda ekki boðlegt foreldrum og börnum í Reykjavík ár eftir ár. Foreldrar þurfa einnig að geta treyst á að börn sín komist að þegar 18 mánaða aldri er náð. Fram kemur í gögnum að horft sé til þess að börn í ungbarnaleikskólum fari í leikskóla fyrir eldri börn á því ári sem þau verða þriggja ára. Spurning er hvort þetta gæti ekki verið sveigjanlegt. Sum börn eru kannski tilbúin fyrr og önnur síðar. Um þetta finnst fulltrúa Flokks fólksins að foreldrar ættu að hafa ákvörðunarvald. Almennt um þessar breytingar finnst fulltrúa Flokks fólksins að auka mætti sveigjanleika og auka vægi foreldra við ákvarðanatöku eins og hægt er.
Bókun Flokks fólksins við bréfi skóla- og frístundasviðs, dags. 9. júní 2021, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 8. júní 2021 á tillögu um breytingu á reglum um styrkveitingar í þróunar- og nýsköpunarsjóði:
Meirihlutinn leggur til breytingar á reglum um styrkveitingar í þróunar- og nýsköpunarsjóði. Almennt er það mat fulltrúa Flokks fólksins að styrkur skuli ekki greiddur að fullu fyrr en lokaskýrsla liggur fyrir og verkefni er lokið að fullu. Það hefur færst í vöxt að veita styrki sem er vel. Það er mikilvægt að mati fulltrúa Flokks fólksins að reglur um styrkveitingar eigi að vera samræmdar milli sviða í stað þess að sviðin útfæri þær hver á sinn hátt enda gæti útfærslan þá annars orðið afar mismunandi.
Bókun Flokks fólksins við liðnum Tímabundin fjölgun sérfræðinga til að vinna úr biðlistum:
Loks er meirihlutinn í borgarstjórn að taka við sér þegar kemur að því að ráðast til atlögu gegn löngum biðlistum. Nú á að ráða fleira fagfólk Sálfræðingar eiga þó ekki að hafa aðsetur innnan skólanna eins og fulltrúi Flokks fólksins hefði viljað sjá og hefur ítrekað lagt til. Það er auk þess vilji margra skólastjórnenda enda þjónar slíkt fyrirkomulag best börnum og starfsfólki. Hér talar fulltrúi Flokks fólksins af 10 ára reynslu sinni sem skólasálfræðingur.
Nú bíða 1056 börn eftir þjónustu fagfólks skóla. Biðlistinn hefur verið að lengjast jafnt og þétt síðustu árin. Covid ástandið bætti ekki ástandið en nú bíða sem dæmi 434 börn eftir þjónustu talmeinafræðings. Fulltrúi Flokks fólksins hefur frá upphafi kjörtímabils barist fyrir því að fagfólki verði fjölgað og að farið verði markvisst í að stytta biðlista barnanna en talað hefur verið fyrir daufum eyrum. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar vissulega að stíga eigi þetta skref og segja má „betra seint en aldrei“. Hins vegar hefur dýrmætur tími tapast. Fyrir tugi barna sem hafa verið á biðlistum er ansi seint í rassinn gripið. Þau hafa mátt bíða mánuðum saman og jafnvel árum með vandamál sín óleyst í þeirri von að brátt komi nú röðin að þeim og þau fái fullnægjandi þjónustu.
Frestað
Bókun Flokks fólksins við tillögu að undirbúningi leikskóla í Völvufell í samræmi við hugmyndir í drögum að deiliskipulagi Breiðholts III. Leikskólinn gæti verið allt að 10 deildir og útileiksvæðið verði jafnframt opið almenningi utan leikskólatíma. Umhverfis- og skipulagssviði er falið að sjá um undirbúning í samráði við skóla- og frístundasvið og leikskólana í Efra Breiðholti:
Fyrir borgarráð er tillaga meirihlutans að hafinn verði undirbúningur að nýjum leikskóla í Völvufell í samræmi við hugmyndir í drögum að deiliskipulagi Breiðholts III. Sameina á í hinum nýja skóla tvo skóla, Ösp og Holt. Leikskólinn gæti verið allt að 10 deildir og útileiksvæðið verði jafnframt opið almenningi utan leikskólatíma. Umhverfis- og skipulagssviði er falið að sjá um undirbúning í samráði við skóla- og frístundasvið og leikskólana í Efra Breiðholti. Fulltrúi Flokks fólksins vill að hugmyndin að tillögunni sé vel kynnt og að þeir sem málið snertir með séu hafðir með frá byrjun. Nú reynir á vönduð og fagleg vinnubrögð meirihlutans og að haft verði samráð við alla þá sem málið snertir og að samráð verði ekki aðeins í formi tilkynninga um hvernig hlutirnir eigi að vera.
Bókun Flokks fólksins við skýrslu stýrihóps um Elliðaárdal, dags. 15. júní 2021, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. júní 2021:
Í þessari skýrslu er ekki tekin skýr afstaða til stíflunnar. Hún er friðuð, hún hefur verið varanlega tæmd og fyrir liggur að OR er hætt raforkuframleiðslu í Elliðaám. Hvort stíflan fari eða veri og veri hún, hvort þá verði gert eitthvað með hana er allt opið eftir því sem fram kemur í skýrslunni. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því sem fram kemur að nauðsynlegt er að hafa enn viðameira samráð og við fleiri en áður til að komast hjá óþarfa árekstrum. Tryggja verður alvöru samtal, samráð og upplýsingaflæði á meðal lykilaðila, íbúa og áhugafólks um dalinn. Það er afstaða fulltrúa Flokks fólksins að varðveita náttúru eins og hægt er. Því miður hefur verið gengið freklega á græn svæði, fjörur og aðra náttúru í borgarlandinu. Nú þegar er Elliðaárdalurinn heilmikið mótaður af mönnum og náttúran hefur vikið. Skoðun fulltrúa Fulltrúa Flokks fólksins er að náttúran eigi að njóta vafans og unnið verði að því að Elliðaárnar renni eins og áður en þær voru virkjaðar. Ef heldur sem horfir með þá stefnu sem meirihlutinn rekur þá mun að lokum hvergi finnast ósnortin náttúra lengur í borgarlandinu.
Bókun Flokks fólksins við tillögu starfshóps um rekstur mannvirkja í Úlfarsárdal sbr. hjálagða skýrslu dags. 21. júní 2021:
Mannvirkið í Úlfarsárdal er metnaðarfullt og mun rúma margt og marga. Tryggja þarf strax að hópur eins og eldri borgarar hafi aðkomu að ákveðnu rými þar sem þeir geta komið saman til tómstunda eða gera hvað eina sem þeim langar að gera saman. Sé það ekki skilgreint strax er hætta á að þessi hópur gleymist og verði út undan. Húsið er fyrir alla í hverfinu og á starfsemi þess að taka mið af og mótast af þörfum, vonum og væntingum íbúanna á hverjum tíma.
Bókun Flokks fólksins við framlagningu úrskurða kærunefnda útboðsmála:
Þessir úrskurðir kosta stjórnvaldssekt til ríkisins, 8 milljónir og 1,5 milljón í málskostnað vegna orkukaupa, og hafa þau áhrif að taka þarf upp samninga í orkukaupum. Í LED málinu þarf borgin að greiða 3 milljónir í sekt og bætur og í samningum um hleðslustöðvar þarf að greiða 4 milljónir í stjórnvaldsekt og 2 milljónir í málskostnað. Samning um hleðslustöðvar þarf að taka upp að nýju. Samtals 18,5 milljónir eru farnar í súginn vegna lélegrar stjórnsýslu. Fulltrúi Flokks fólksins vill spyrja aftur hvort þeir sem annast þessi mál hjá borginni kunni að þurfa endurmenntun eða frekari fræðslu? Vegna þessa er núna ekkert rukkað fyrir hleðslu á rafhleðslustöðvum.
Bókun Flokks fólksins við tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um endurskoðun á reglum og samþykktum vegna spilakassa, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. mars 2021. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 7. júní 2021:
Fram kemur að ekki sé tilefni til að taka tillöguna til frekari skoðunar m.a. vegna þess að Reykjavík hafi ekki sett sér reglur eða samþykktir um rekstur spilakassa sem unnt er að endurskoða í samræmi við markmið tillögunnar. Tillögunni er því vísað frá. Borgin hefur ýmsar heimildir til að setja reglur eða samþykktir sem gætu komið í veg fyrir áframhaldandi rekstur spilakassa í borginni, eða a.m.k. dregið úr slíkri starfsemi. Lögreglusamþykkt Reykjavíkur kveður m.a. á um að enginn megi reka leiktækjastað eða þess háttar starfsemi gegn borgun nema með leyfi lögreglustjóra að fenginni umsögn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, sbr. 27. gr. lögreglusamþykktar. Þá fellur rekstur spilakassa undir slíka starfsemi, sbr. 2. gr. lögreglusamþykktar. Fram kemur í svari að Reykjavík getur ákveðið hvar heimilt er að reka slíka starfsemi. Jafnvel þótt engar reglur hafi verið settar um rekstur spilakassa af hálfu borgarinnar þá eru í gildi ýmsar samþykktir sem hægt er að breyta og gera þar með ítarlegri kröfur til rekstraraðila hyggist þeir reka spilakassa. Hægt væri t.d. að gera kröfu um að ekki megi selja áfengi eða veitingar í spilasölum eða að ekki megi reka spilakassa í rými þar sem fari fram veitingasala eða áfengissala. Skoða má hvort slík reglusetning myndi rúmast innan heimilda borgarinnar.
Bókun Flokks fólksins við fundargerð mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 10. júní 2021 liður 16.:
Tillögu fulltrúa Flokks fólksins um að standa vörð um alla minnihlutahópa í borginni hefur verið vísað frá í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði. Það er mjög sjaldan sem mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð hefur fjallað um málefni eldri borgara og vill fulltrúi Fokks fólksins beita sér fyrir að málefni þeirra fái þar meiri forgang. Eldri borgarar er hópur fólks sem langflestir eiga eftir að tilheyra, ef Guð lofar. Þetta er fólkið sem hefur lagt sitt af mörkum til samfélagsins allt sitt fullorðinslíf og langar til að fá að lifa ævikvöldið sitt áhyggjulaust og með þeim hætti sem það sjálft kýs. Hvetja þarf borgarstjórn til að taka málefni eldri borgara ofar á forgangslistann og samþykkja fleiri tillögur þeim til heilla. Það mætti sem dæmi færa rök fyrir því að, sé maður skikkaður til að hætta að vinna 70 ára þrátt fyrir fulla starfsgetu, þá sé það mannréttindabrot. Losa þarf um allar hindranir sem standa í vegi fyrir þeim sem vilja halda áfram að vinna eftir sjötugt. Huga þarf einnig að betri þjónustu til þeirra sem vilja búa heima. Þá er átt við sem dæmi að fjölga þyrfti þjónustuþáttum og dýpka þá sem fyrir eru.
Bókun Flokks fólksins við Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 24. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúi Flokks fólksins fékk svör við nokkrum spurningum er varðar styrk vegna glerskipta við götur þar sem umferð veldur hávaða. Svörin benda til þess að úrræðið er kannski ekki nógu vel kynnt. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að styrkur sem þessi renni til margra en ekki fárra þótt um lægri upphæðir verði þá að ræða. Það er auk þess mat fulltrúa Flokks fólksins að svona styrki eigi að tekjutengja. Þeir sem hafa efni á glerskiptum eiga að fjármagna það sjálfir en hjálpa á frekar hinum efnaminni sem hafa engin önnur ráð en að leita eftir styrkjum með vandamál af þessu tagi. Miðað við 65 desibela jafngildishávaðastig yfir sólarhringinn má búast við að við fjölda húsa víðsvegar í borginni sé hávaði. Hitt er annað mál, að það að kaupa hús í gömlum grónum hverfum hefur bæði galla og kosti. Þeir sem kaupa gömul hús vita að þau eru ekki eins vel einangruð og ný hús. Augljóst er hvaða hús eru við umferðargötur. Ekkert á að koma á óvart. Í hverfum í uppbyggingu er hins vegar erfiðara að sjá allt fyrir.
Bókun Flokks fólksins við fundargerðir skóla- og frístundaráðs frá 8. júní 2021, liður 5.
Þjónusta fyrir börn með sérstakar þjónustuþarfir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis rætt um að nauðsynlegt sé að gera árangursmælingar á sérkennslu. Í sérkennslu eru um 30% af grunnskólabörnum án þess að árangur sé metinn. Börn kunna einnig að vera að fá mismunandi þjónustu eftir því hvar þau búa. Allt of langur tími hefur farið hjá þessum meirihluta í að koma því á blað að mæla þarf árangur og enn lengri tími líður áður en það kemst til framkvæmdar. Sérkennarar eru ofhlaðnir og undir miklu álagi. Í þeirra hópi eru börn ekki aðeins með námserfiðleika af ýmsu tagi og á ýmsum stigum heldur einnig með hegðunarvanda/raskanir. Þetta tvennt fer vissulega stundum saman en alls ekki alltaf. Barn sem ekki fær viðeigandi aðstoð við vanda sínum tapar fljótlega sjálfstrausti sínu og sjálfsöryggi og þá aukast líkur þess að birtingarmyndir þess sýni sig í hegðun og atferli. Hópur þeirra sem útskrifast án þess að geta lesið sér til gagns fer stækkandi. Löngu tímabært er að meta með kerfisbundnum hætti árangur með reglulegum hlutlægum mælingum til að greina hvort stuðningur hafi leitt til bættrar stöðu barna og ef ekki, að greina og innleiða helstu tækifæri til úrbóta.
Bókun Flokks fólksins við fundargerðir öldungaráðs frá 12. apríl, 3. maí og 7. júní 2021:
Reykjavík er þátttakandi í í samvinnu við alþjóða heilbrigðismálastofnunina um verkefnið: Aldursvænar borgir. Meðal þess sem horft er til þegar talað er um aldursvænar borgir er húsnæðismál, samgöngur, aðgengi, heilsugæsla, félagsleg þátttaka, upplýsingaflæði, samfélagsleg þátttaka og atvinna fyrir eldri borgara. Hvar stendur Reykjavík með þessa þætti? Sennilega vel með margt en ekki þegar kemur að samstarfi og þátttöku eldri borgara í samfélaginu. Reykjavíkurmeirihlutinn lofaði að horfa til sveigjalegra vinnuloka þegar hann tók við en ekkert bólar á slíku nú þegar ár er til kosninga. Það er löngu tímabært leyfa þeim sem það geta og vilja að halda áfram að sinna starfi sínu þótt sjötugsaldri sé náð. Borgin ætti líka að þrýsta á ríkið að draga úr skerðingum á lífeyri vegna atvinnutekna svo sem að frítekjumark vegna atvinnutekna yrði hækkað úr 100.000 kr. í 200.000 kr. eða afnumið alfarið. Í kjarasamningi segir að yfirmanni sé heimilt að „endurráða þann sem náð hefur 70 ára aldri í annað eða sama starf á tímavinnukaupi, allt að hálfu starfi, án þess að það hafi áhrif á rétt hans til töku lífeyris.“ Þetta er tyrfin leið.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um starf sem lagt hefur verið í Melaskóla:
Fulltrúa Flokks fólksins barst það til eyrna nýlega að starf deildarstjóra sérkennslu í Melaskóla hefur verið lagt niður. Deildarstjórinn er talmeinafræðingur. Óskað er svara við: 1. Hvers vegna var staða deildarstjóra sérkennslu við Melaskóla lögð niður? 2. Var deildarstjóra sérkennslu Melaskóla, sem er talmeinafræðingur að mennt, boðin staða sem slíkur við skólann þegar staða hennar sem deildarstjóri var lögð niður?
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram fyrirspurn hvort ekki hefði verið skynsamlegra að kanna frekar til hlítar hvort tilbúið hönnunarkerfi hafi ekki verið til sem hægt hefði verið að kaupa fullbúið?
Þjónustu- og nýsköpunarsvið (ÞON) hefur óskað eftir að borgarráð heimili ÞON að hefja kaup á vinnu við viðhald og þróun á hönnunarkerfi Reykjavíkurborgar.
Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort ekki hefði verið skynsamlegra á sínum tíma, að í stað þess að ÞON hafi byrjað á því að hanna sitt eigið kerfi með öllum þeim áframhaldandi þróunar og sérsmíðis -kostnaði, að kanna frekar til hlítar hvort tilbúið hönnunarkerfi hafi ekki verið til sem hægt hefði verið að kaupa fullbúið?
Einnig langar borgarfulltrúa Flokks fólksins að vita hvort til sé raunhæf kostnaðaráætlun fyrir þetta verkefni sem miðast við hugsanlegan heildarkostnað þegar og ef þetta heimasmíðað kerfi verði fullklárað?
Vísað til meðferðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um af hverju ekki er hægt að upplýsa foreldra með nokkurri nákvæmni hvenær barn þeirra getur hafið aðlögun á komandi hausti:
Fulltrúi Flokks fólksins hefur orðið þess áskynja að foreldrar barna sem eru að hefja leikskólagöngu í haust er haldið í óvissu með hvenær börn þeirra geta hafið aðlögun. Óvissa er ávallt slæm og hefur neikvæð áhrif á líðan auk þess sem það raskar því að hægt sé að skipuleggja vinnu, pössun og fleira í kringum barnið. Óskað er upplýsinga um af hverju ekki er hægt að upplýsa foreldra um þessa hluti og þeim sagt með nokkurri nákvæmni hvenær barn þeirra getur hafið aðlögun á komandi hausti. Enda þótt mönnun liggi ekki endanlega fyrir má það alls ekki bitna á þjónustuþegum. Þetta er eitt af þeim hlutum sem borgarmeirihlutinn/skóla- og frístundasvið verður að taka ábyrgð á og sjá til þess að fjölskyldur séu ekki settar í óþarfa óvissu og uppnám vegna vanda sem tengist rekstrinum.
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að mál fulltrúa Flokks fólksins verði sett inn á heimasvæði hans á vef Reykjavíkurborgar:
Á fundi borgarráðs 24. júní var lagt fram yfirlit yfir fyrirspurnir og tillögur flokkanna sem lögð hafa verið fram í borgarráði. Fulltrúi Flokks fólksins vill þakka fyrir það á sama tíma og lagt er til að mál fulltrúa Flokks fólksins verði sett inn á heimasvæði hans á vef Reykjavíkurborgar: https://reykjavik.is/borgarfulltruar/kolbrun-baldursdottir Um er að ræða öll mál, tillögur og fyrirspurnir Flokks fólksins sem birt eru í ofangreindu yfirliti.
Frestað.