Borgarráð 16. desember 2021

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. desember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 15. desember 2021 á uppfærslu aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, samþykktu í borgarstjórn 19. október sl., sbr. lista yfir lagfæringar í umsögn umhverfis- og skipulagssviðs dags. 13. desember 2021, sbr. einnig umsögn Skipulagsstofnunar, dags. 10. desember 2021, ásamt fylgiskjölum:

Fjallað er um athugasemdir sem komið hafa fram og eru þær flestar vegna byggingarmagns, hæðar húsa, blandaðrar byggðar og svæða fyrir bílastæði. Skipulagsstofnun telur að skerpa þurfi á viðmiðum og reiknireglum um hámarksþéttleika eftir svæðum. En þetta er aðalskipulag, í deiliskipulagi er tekin endanleg ákvörðun um byggingarmagn, hæðir húsa og þéttleika að undangengnu samráðsferli. Þá er komið að samráðsferlisumræðunni sem Flokkur fólksins telur að hefjist of seint í ferlinu. Skipulagsyfirvöld ganga fram án viðhlítandi samráðs. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður tjáð sig um skotveiðisvæðið á Kjalarnesi. Hagsmunum hverra er verið að berjast fyrir í því sambandi? Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst vantar skýr svör. Í sextán ár hafa íbúar Kjalarness mátt þola hljóðmengun sem svæðinu fylgir auk þess sem blý hefur safnast á ströndina og í sjóinn. Aðalskipulagi var breytt á síðustu stundu, íbúar höfðu ekkert tækifæri til athugasemda og samráð var ekkert. Ýmsum brögðum er beitt, allt til að skotvellirnir geti opnað að nýju. Fjöldi kvartana hefur borist til lögreglu og HER sl. sextán ár. Tveir hópar kærðu útgáfu starfsleyfanna í vor. Nú hafa íbúar og íbúasamtök Kjalarness sent erindin til Skipulagsstofnunar og niðurstaða er: það er ekki hlutverk Skipulagsstofnunar að skera hér úr. Borgin ræður.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. desember 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 8. desember 2021 á tillögu að deiliskipulagi fyrir Elliðaárvog/Ártúnshöfða, svæði 1. – Krossmýrartorg á Ártúnshöfða:

Byggja á allt að 8.000 íbúðir þegar allt er komið. Fram kemur að ,,markmið deiliskipulagsins er að sjá til þess að uppbygging svæðisins hafi ekki neikvæð áhrif á lífríki svæðisins“ og: „Mikilvægt er að varðveita og vernda lífríki og lágmarka sjónmengun frá ofanvatnskerfinu í viðtaka, við árbakka Elliðaáa og strandlengju Elliðaárvogs.“ Hér er um öfugmæli að ræða. Uppbyggingin eins og hún er hér framsett mun hafa mikil áhrif á lífríkið. Rústa á dýrmætasta svæðinu sem eru fjörurnar. Sagt er að „þörf“ sé á landfyllingu til norðurs. Auðvitað er engin „þörf“ á landfyllingu. Það á að vera hægt að skipuleggja án þess að þurfa alltaf að ganga á fjörur. Hætta ætti því við landfyllingar. Þétting byggðar tekur oft of mikinn toll af náttúru að mati fulltrúa Flokks fólksins. Þetta má sjá á Geirsnefi og bökkum Elliðaáa, austan- og vestanverðum ósasvæðum hennar. Alltof mikið er manngert, búin til gerviveröld. Af hverju mega ekki fágætir fjörubútar fá að vera í friði? Fáar ósnortnar fjörur eru eftir í Reykjavík. Árbakkarnir til sjávar meðfram Sævarhöfða eru þegar manngerðir. Geirsnef gæti orðið borgargarður, en þar á borgarlína að skera Geirsnef í tvennt og sá möguleiki því ekki lengur til.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu á niðurstöðum opinberrar hönnunarsamkeppni Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar um brú yfir Fossvog:

Kynnt er niðurstaða hönnunarsamkeppni. Tillagan Aldan var valin, öldubrú. Fulltrúi Flokks fólksins telur að tillaga nr. þrjú sé flottari. Í þriðju tillögunni er auga í miðjunni sem gerir hana fallega. Þetta er vissulega mikið mannvirki og tekur án efa mikinn vind og er því ekki verkfræðilega hentugt. En samkeppni sem þessi er rétta leiðin og nú tókst að gera það rétt. Allar þessar þrjár tillögur eru betri en tillögurnar í fyrri samkeppni. Þrjár voru valdar til að vinna til enda og var það gott fyrirkomulag.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. desember 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki viðauka við samkomulag vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar og þróunar á lóðum fyrirtækjanna á Ártúnshöfða í Reykjavík, dags. 21. júní 2019:

Óskað er eftir að borgarráð samþykki hjálagðan viðauka við samkomulag vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar og þróunar á lóðum fyrirtækjanna á Ártúnshöfða í Reykjavík. Verið er að tala um að þeir sem eru nú lóðarhafar fái að vera það áfram. Skipulagið er þannig að fyrirtækin eiga að flytja en eigendur þeirra fá að byggja á lóðinni. Nú liggur fyrir að þessar lóðir verða mjög verðmætar og hvað svo? Hverjir fá hagnaðinn af breyttri landnotkun? Samkvæmt fylgiskjali munu núverandi lóðarhafar fá mestallan hagnaðinn. Er það eðlilegt? Öll uppbygging verður á hendi lóðarhafanna sem þá fá hagnaðinn. 600 milljónir eiga að fara í listskreytingar og greiðir borgin 300 milljónir. Þetta snýst um það hve mikið þessi fyrirtæki eigi að fá og hver hlutur borgarinnar sé. Hér mættu fyrirtækin borga meira að mati fulltrúa Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu að borgarráð að fela umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar í samstarfi við eignaskrifstofu og fagsvið að hlutast til um að engin bifreið, hvort sem hún er í eigu Reykjavíkurborgar eða tekin á leigu, sé á nagladekkjum:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst líf og heilsa aðalatriðið og þess vegna verður að vega og meta hvenær það er öryggisatriði að vera á nagladekkjum. Öll getum við verið sammála um að ofnotkun nagladekkja sé slæm en þau geti verið mikilvægt öryggistæki í einstökum tilvikum. Hafa skal í huga að nagladekk geta bjargað mannslífum og hafa bjargað lífum. Ofnotkun nagladekkja veldur svifryksmengun og slítur götum sem kallar á meiri kostnað við viðgerðir. Á það skal þó bent að svifryk er einna mest í borginni á sumrin – ekki síst vegna þess að þrifum er ábótavant. Fulltrúi Flokks fólksins hefur skilning á því að þeir sem eiga sumarhús úti á landi eða ferðast mikið út á land noti nagladekk. Mikilvægt er að hnykkja á því við ökumenn að þeir virði þau tímamörk sem nota má nagladekk. Í vissum tilfellum er það ekki hægt ef veður eru válynd langt fram á vor og fólk á ferð út fyrir borgina. Fulltrúi Flokks fólksins er almennt séð aldrei hrifinn af öfgum. Í öllu þarf að vera ákveðinn sveigjanleiki. Fræðsla skiptir einnig máli. Sjálfsagt er að höfða einnig til ábyrgðarkenndar fólks.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu að borgarráð samþykki endurskipun samstarfshóps um málefni miðborgar til 12 mánaða sbr. hjálagt erindisbréf. Þá er ársskýrsla samstarfshópsins fyrir árið 2021 lögð fram til kynningar:

Borgarstjóri leggur til að borgarráð samþykki endurskipun samstarfshóps um málefni miðborgar til 12 mánaða sbr. hjálagt erindisbréf. Um er að ræða framlengingu um eitt ár. Í ljósi þess hversu mikið hefur gengið á, t.d. kvartanir um samráðsleysi við rekstraraðila og mikil óánægja sem hefur ríkt um ákvarðanir fyrirkomulags miðborgarinnar og þá einna helst í kringum gerð göngugatna þarf að vinna þessi mál með Miðbæjarfélaginu, með formlegum hætti í gegnum stjórn félagsins. Innan vébanda Miðbæjarfélagsins eru allar elstu og þekktustu verslanir á Laugavegi og veitingahús svo sem Brynja, Guðsteinn, Gleraugnamiðstöðin, Gullkúnst Helgu, Jón og Óskar, Gull og Silfur, Dún og Fiður og Gleraugnasalan Laugavegi 65 sem er elsta starfandi gleraugnabúð landsins. Rossopomodoro veitingahús með 16 ára gamla kennitölu, eina þá elstu í þessari starfsgrein. Svona mætti lengi telja.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu að borgarráð staðfesti hjálagðan samstarfssamning um áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið, dags. 2. desember 2021. Lagt er til að borgarstjóra verði falið fullt og ótakmarkað umboð til að undirrita samstarfssamninginn:

Samtök sveitarfélaga eru að stofna nýja stofu, Áfangastaða- og markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. Fyrirheitin eru háleit svo sem að þróa, móta og efla samstarf og samlegð um málefni ferðaþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu milli sveitarfélaga, atvinnulífs og stjórnvalda. Þetta er enn eitt byggðarsamlagsverkefnið og tími er kominn til að borgin hætti slíku samstarfi. Borgin mun greiða 56% en samkvæmt reynslu mun hún litlu ráða í verkefninu.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að Reykjavíkurborg veiti Strætó bs. ábyrgð með veði í útsvarstekjum borgarsjóðs í hlutfalli við eignarhlut Reykjavíkurborgar í félaginu vegna lántöku:

Borgarstjóri leggur til að Reykjavíkurborg veiti Strætó bs. ábyrgð með veði í útsvarstekjum borgarsjóðs vegna lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. að fjárhæð 400.000 þ.kr og vegna lántöku hjá Arion banka hf. að fjárhæð 300.000 þ.kr. Staða Strætó er alvarleg og það er áhyggjuefni. Fram undan eru lántökur upp á 700 milljónir. Minna má á að A-hlutinn er fjárhagslegur bakhjarl fyrirtækja borgarinnar ef í harðbakka slær. Ítrekað hefur verið óskað eftir því að borgarráð samþykki veð í útsvarstekjum Reykjavíkurborgar til tryggingar á ábyrgð bs. fyrirtækja. Þetta þarf að horfa á, ekki síst í ljósi þess að fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er óviðunandi. Gert er ráð fyrir sjö milljörðum í halla hjá A-hlutanum. Veltufé frá rekstri er neikvætt sem þýðir að tekjur A-hlutans nægja ekki til að greiða útgjöld hans.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu að magn kaupa á plastmöppum til nota í grunnskólum Reykjavíkurborgar verði lækkað um 15.000 stykki í komandi útboði um kaup á ritföngum fyrir skóla- og frístundasvið. Það magn af plastmöppum verði þessi í stað keypt af Múlalundi, vinnustofu SÍBS, þar sem vilji til slíkra kaupa hefur komið fram. Kostnaður við kaup á 15.000 stykkjum hjá Múlalundi yrði skv. fyrirliggjandi verðtilboði 4.477.500 mkr. (15.000 x 298,5 kr.):

Í þrjú ár hefur Múlalundur, sem er vinnustofa fyrir fólk með skerta starfsorku, reynt að fá Reykjavíkurborg að samningaborðinu. Um 80 prósent starfsmanna Múlalundar er með lögheimili í Reykjavík og það er löng bið eftir plássi þar. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu í ágúst sl. að skóla- og frístundaráð kaupi skólamöppur frá Múlalundi en fram til þessa hefur Reykjavíkurborg hunsað Múlalund með öllu, ólíkt öðrum sveitarfélögum. Tillagan var þá felld en nú leggur borgarstjóri til að kaup á plastmöppum til nota í grunnskólum Reykjavíkurborgar lækki um 15.000 stykki í komandi útboði um kaup á ritföngum fyrir skóla- og frístundasvið. Plastmöppur verði þessi í stað keyptar af Múlalundi, vinnustofu SÍBS, þar sem vilji til slíkra kaupa hefur komið fram. Auðvitað ber að fagna þessu skrefi en fulltrúi Flokks fólksins vill þó spyrja í tengslum við tillögu borgarstjóra af hverju allt er ekki keypt af Múlalundi og í leiðinni fleiri störf sköpuð innanlands. Það er alltaf biðlisti af fólki sem vill komast í vinnu í Múlalundi.

Bókun Flokks fólksins við við samþykki borgarráðs að leggja fram tillögu á næsta hluthafafundi Félagsbústaða hf. um að hækka hlutafé félagsins um 132.000 þ.kr. Fjárhæðin nemur 16% af stofnverði 19 íbúða sem Félagsbústaðir keyptu á árinu 2020 að fjárhæð 824.050 þ.kr. og ætlaðar eru til útleigu sem félagslegar leiguíbúðir:

Fyrir borgarráði liggur tillaga um að Reykjavíkurborg selji Félagsbústöðum 19 íbúðir af 51 sem keyptar voru árið 2017 til að létta á biðlistum vegna félagslegs húsnæðis. Á síðasta ári höfðu aðrar 19 íbúðir verið seldar á sama hátt. Ýmislegt vekur athygli í þessu sambandi. Í fyrsta lagi má nefna að Félagsbústaðir hafði ekki fjárhagslegt bolmagn á árinu 2017 til að kaupa fyrrgreindar íbúðir þrátt fyrir að rekstrarhagnaður fyrirtækisins skuli hafa verið 7.5 milljarðar samkvæmt ársreikningi þess. Það leiðir glögglega í ljós þá reikningslegu „froðu“afkomu sem er að finna í ársreikningi Félagsbústaða og fæst með því að tekjufæra endurmat á verðmæti íbúða í eigu Félagsbústaða. Í öðru lagi gengu kaup Reykjavíkurborgar á fyrrgreindum íbúðum gegn öllum þeim grundvallarreglum sem stofnun Félagsbústaða byggði á. Þær gengu út á nauðsyn þess að hafa allar íbúðir í félagslega kerfinu undir einni stjórn. Í þriðja lagi vekur það athygli að það skuli hafa verið kallaðir til tveir fasteignasalar til að verðmeta umræddar íbúðir samkvæmt markaðsvirði. Ætlar Reykjavíkurborg að hagnast á því að selja Félagsbústöðum fyrrgreindar íbúðir? Nauðsynlegt er að fyrir liggi samanburður á verðhækkun fyrrgreindra íbúða annars vegar frá kaupum Reykjavíkurborgar á þeim og hlutafjáraukningu Reykjavíkurborgar í Félagsbústöðum hins vegar svo niðurstaðan liggi ljós fyrir.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi  íþrótta- og tómstundasviðs, dags 10. desember 2021, um tillögur starfshóps um tennishús í Laugardal, ásamt fylgiskjölum:

Hér er um nokkuð stóra framkvæmd að ræða sem vonandi hindrar ekki aðrar framkvæmdir um framtíðaruppbyggingu Laugardalsins.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi skóla- og frístundasviðs, dags. 14. desember 2021 um framlag vegna skólavistar reykvískra nemenda í Arnarskóla skólaárið 2022-2023:

Nú leggur skóla- og frístundasvið það til að borgarráð samþykki að hámarksfjöldi nemenda í Arnarskóla verði 11 árið 2021 til 2022 og er það fjölgun um 4. Lokað er á sama tíma fyrir að greitt verði framlag fyrir fleiri. Fulltrúa Flokks fólksins finnst kannski ekki alveg hægt að loka fyrir umsóknir með svo stífum hætti. Það gæti komið umsókn nemanda sem er afar brýnt að fái skoðun og samþykki í Arnarskóla. Þetta er vissulega dýrt úrræði fyrir borgina sem styður tillögu fulltrúa Flokks fólksins að Reykjavíkurborg þyrfti að eiga og reka sambærilegt úrræði. Þegar horft er til reglna skiptir mestu að þær séu sanngjarnar og sveigjanlegar. Hagsmuni barns skal ávallt hafa að leiðarljósi og að í reglunum ætti að felast ákveðinn sveigjanleiki og tillitssemi gagnvart foreldrunum.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu um óvissustig almannavarna vegna Log4j veikleikans:

Ekki er ljóst út á hvað þessi liður gengur sem heitir óvissustig almannavarna vegna Log4j. Að allt sé gott og áfram eigi að fylgjast með?

Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst þá er hér um að ræða einhverskonar vangaveltur eða kynningar í kjölfar skoðunar öryggismála í netkerfum Reykjavíkur í kjölfar öryggisgallans sem varð vart við um allan heim fyrir nokkrum dögum. Það er vissulega mikilvægt að yfirfara kerfi borgarinnar hvað þetta varðar og vonandi er hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði sérstakur öryggisstjóri.

Bókun Flokks fólksins við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur:

Enn er borgin dæmd fyrir mistök í samskiptum við fólk. Það eru tugir milljóna sem farið hafa í skaðabætur vegna framkomu borgarinnar við fólk. Getur hjálpað að bjóða upp á endurmenntunarnámskeið fyrir þá sem sjá um samskipti eða hvað er hægt að gera til að draga úr svona málum?

Bókun Flokks fólksins við bréfi við 3. lið  fundargerðar aðgengis- og samráðsnefndar frá 2. desember 2021:

Skýrslur lagðar fram um aðgengisúttekt á opnum leiksvæðum. Úttektir sem þessar eru afar mikilvægar. Tekið er undir mikilvægi þess að upplýsa aðgengis- og samráðsnefnd fatlaðs fólks og/eða eftir atvikum stofnanir borgarinnar um að slíkar úttektir séu fyrirhugaðar. Á opnum leiksvæðum þurfa að vera leiktæki fyrir smærri börn og aðgengi þarf að vera gott og vel merkt. Foreldrar sem eru bundnir í hjólastól þurfa að geta fylgst með börnunum sínum á leikvellinum. Skoða þarf breidd stétta og að halli uppfylli lágmarkskröfur. Einnig að það sé pláss fyrir hjólastóla og göngugrind eða barnavagna við hlið bekkja.

 

Bókun Flokks fólksins við 5. lið fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar frá 2. desember 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins er reyndar ekki sammála því að komið hafi verið nægjanlega mikið til móts við athugasemdir íbúa sem mótmæltu hæð byggingar og svo miklu byggingarmagni í Mjódd. Það munar á 4 hæðum og 7 og má telja afar líklegt að miðað verði við efri mörk viðmiðsins sem er 7 en ekki 4 hæðir. Hundruð íbúa stóðu að baki þessum athugasemdum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur reynt að fá ítarlegri svör en segir í svörum að forsendur, kynningarferlis og skipulagsgerðar fyrir Mjódd liggi fyrir í aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 og vinna eigi skipulagslýsingu þar sem farið verður yfir fjölda íbúða, hæðir húsa, þéttleika eða umfang. Óttast er að ekki verði nægjanlega mikið tekið tillit til óska íbúa.

 

Bókun Flokks fólksins við 10. lið fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 15. desember 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar að umsagnarfrestur vegna tillagna um hverfisbreytingar Bústaða- og Háaleitishverfis verði samþykktur og jafnvel að hann verði mun lengri en rætt er um sem er í byrjun janúar. Íbúar í þessu hverfi eru virkilega áhyggjufullir. Þær hugmyndir sem liggja fyrir gefa til kynna að þrengja eigi verulega að þessari gömlu grónu byggð og að Bústaðavegi. Áður en þessi drög lágu fyrir eða vinnutillögur hefði þurft að hafa meira samráð og samtal við íbúana. Svokallað samráð hefst of seint í ferlinu. Samráð og samtal þarf að vera frá byrjun. Það er mjög sennilegt að fólk vilji ekki að gengið sé svona langt í þéttingunni og þrengingu að Bústaðavegi. Vissulega má víða þétta en þetta er spurning um hóf og skynsemi og varar fulltrúi Flokks fólksins við að farið sé gegn vilja þorra íbúa í þessum málum. Þá er betra að fara sér hægar enda er hvorki himinn né jörð að farast þótt almennilegur frestur verði veittur til að senda athugasemdir. Spurning er hvort ekki sé eðlilegt og réttlátt gagnvart íbúum að lengja frestinn fram yfir kosningar.

 

Bókun Flokks fólksins við 1. lið fundargerð öldungaráðs frá 6. desember 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir fögnuð öldungaráðs að hjúkrunarheimili rísi við Mosaveg í Reykjavík og ítrekar mikilvægi þess að ekki verði frekari tafir á því verkefni. Miðað við þann fjölda fólks sem bíður á Landspítalanum eftir að komast á hjúkrunarheimili með samþykkt færni- og heilsumat er mikilvægt að nýtt hjúkrunarheimili rísi í Reykjavík. Þessi mál eru því miður í miklum ólestri og má kenna bæði ríki og borg um. Tryggja þarf að þeir sem ekki geta dvalið heima þrátt fyrir víðtæka heimaþjónustu og heimahjúkrun fái pláss á hjúkrunarheimilum. Einnig er mikilvægt að efla heimastuðning því ef þjónustuþáttum væri fjölgað og aðrir dýpkaðir myndu fleiri geta búið lengur heima. Horfa þarf til fleiri úrræða og fjölbreyttari, t.d. sveigjanlegrar dagdvalar sem millilið. Það er vilji flestra að vera sem lengst heima og er það hagkvæmt fyrir þjóðfélagið. Þeir sem þurfa pláss á hjúkrunarheimilum verða að fá pláss í stað þess að þurfa að vera á Landspítala vikum eða mánuðum saman vegna þess að ekkert annað úrræði er til. Umfram allt má ekki setja öll eggin í eina körfu. Fleiri tegundir úrræða þyrftu að vera til staðar í samræmi við aldursþróun þjóðarinnar.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvaða kröfur um þekkingu, hæfni og reynslu núverandi meirihluti gerir til þeirra sem sitja fyrir hönd Reykjavíkurborgar í stjórnum bs. fyrirtækja og samkeppnisfyrirtækja sem eru í meirihlutaeigu Reykjavíkurborgar:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvaða kröfur um þekkingu, hæfni og reynslu núverandi meirihluti gerir til þeirra sem sitja fyrir hönd Reykjavíkurborgar í stjórnum bs. fyrirtækja og samkeppnisfyrirtækja sem eru í meirihlutaeigu Reykjavíkurborgar. Má þar nefna fyrirtæki eins og SORPU og Malbikunarstöð Reykjavíkur. Spurt er hvort þess sé krafist að þeir sem sitja í stjórn fyrir hönd Reykjavíkur leggi fram ferilsskrá, hafi víðtæka reynslu í þeim verkefnum sem fyrirtækin sinna, hafi reynslu af rekstri fyrirtækja, þurfi að sýna fram á menntunarkröfur eða annað. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir því að ef slík gögn um hæfiskröfur eða hæfi stjórnarmanna eru til staðar að þau verði lögð fram. MSS21120225

Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um nýlega skýrslu um ástand 136 leik- og grunnskóla og frístundaheimila í eigu Reykjavíkurborgar:

Fyrirspurnir Flokks fólksins um nýlega skýrslu um ástand 136 leik- og grunnskóla og frístundaheimila í eigu Reykjavíkurborgar. Skýrslan er svört svo vægt sé til orða tekið. Ástandið er slæmt sem rekja má til áralangrar uppsafnaðrar viðhaldsþarfar. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvernig skóla- og frístundasvið og meirihlutinn hyggst bregðast við þessum niðurstöðum. Hvernig á t.d. að bregðast við lélegri hljóðvist sem gengur eins og rauður þráður í gegnum eignirnar 136 því flestir skólar kvarta undan lélegri hljóðvist og hvenær verður það gert? Fram kemur að víða eru hættur í leik- og grunnskólum sem dæmi þá þarf að laga skógrindur í fataklefum þannig að yngstu börnin festi ekki fætur í þeim og slasist. Þetta kallar á viðbrögð strax. Byrgja verður brunninn áður en barn dettur ofan í hann. Í Lindarborg hefur orðið vart við rottugang undir gólfplötu kjallara. Hefur verið brugðist við þessu? Önnur hætta getur skapast af stiga frá 3. hæð að 4. hæð í Laugarnesskóla en hann er óþægilega brattur. Að sögn stjórnenda hafa orðið slys á fólki í stiganum. Í Langholtsskóla er upprennandi vandamál sem minnir ansi mikið á Fossvogsskóla. Hvenær verður gengið í viðgerðir þar? Fulltrúi Flokks fólksins vill fá svör um hvenær bregðast eigi við þessu og þá fyrst af öllu aðstæðum sem geta valdið slysum og einnig myglu og raka sem leiðir til veikinda eins og alþekkt er í mörgum skólum borgarinnar. MSS21120232

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins öryggismál þjónustu- og nýsköpunarsviðs:

Í borgarráði er liður sem heitir óvissustig almannavarna vegna Log4j. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst þá eru hér um að ræða einhverskonar vangaveltur eða kynningar í kjölfar skoðunar öryggismála í netkerfum Reykjavíkur í kjölfar öryggisgallans sem varð vart við um allan heim fyrir nokkrum dögum.

Þá er kannski rétt að spyrja hvort það sé búið að yfirfara kerfi borgarinnar hvað þetta varðar. Er ekki einhver sérstakur öryggisstjóri hjá ÞON? Hver er raunveruleg staða öryggismála ÞON / RVK? MSS21120233

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.