Borgarráð 28. apríl 2022

Bókun Flokks fólksins við bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. apríl 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 6. apríl 2022 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 34-36 við Borgartún:

Flokkur fólksins bókaði um lóðina Borgartún 34-34 í skipulags- og samgönguráði þann 6. apríl sl. Fækka á íbúðum um tvær. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort ráðlagt sé að setja svo margar íbúðir í eitt hús. Fordæmi er varla fyrir þessu í Reykjavík nema kannski má finna eitt dæmi. Fulltrúi Flokks fólksins finnst þéttingarstefna meirihlutans ganga ansi langt hér og óttast þrengsl og umferðavandamál. Hér er dæmi um hvernig þéttingarstefna hefur verið tekin út í öfgar.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. apríl 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 6. apríl 2022 á breytingu á deiliskipulagi hesthúsabyggðar á Hólmsheiði:

Flokkur fólksins bókaði í skipulags- og samgönguráði þann 6. apríl um að mjög margar athugasemdir bárust við deiliskipulagstillöguna. Eftir því sem sýnist var tekið vel í þær flestar. Svo virðist sem skipulagsyfirvöld hafi ekki samband við þá sem senda inn athugasemdir eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst allavega næst. Þeir sem það gera geta því aðeins vonað að tekið verði tillit til þeirra. Fyrir lesanda gagna er ekki gott að átta sig á hvað af þessum athugasemdum og frá hverjum hafa verið teknar til greina. Það væri gott ef þetta væri sett skýrar fram í gögnum með málinu. Gott væri ef það væri gert skýrar í framtíðinni.

 

Bókun Flokks fólksins við  bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 25. apríl 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við 1. áfanga uppbyggingar á útivistarsvæði Austurheiða:

Setja á 100 milljónir í að bæta aðstöðu til útivistar. Hér er kannski um að ræða verkefni sem mætti bíða og nota fjármagnið í að bæta þjónustu við fólkið. Minnt er á biðlista í nánast allt í Reykjavík, allt frá biðlistum til sálfræðinga og eftir leikskólaplássi yfir í biðlista barna í skólahljómsveitir. Meirihlutinn verður að forgangsraða í þágu fólksins umfram allt annað. Fínheit eins og hér er lýst mega bíða þar til betur árar. Fyrir liggur slæm staða borgarsjóðs, veltufé frá rekstri er einungis rúmlega 300 milljónir króna. Aldrei í sögu borgarinnar hefur sést annað eins. Flokkur fólksins leggur áherslu á að þörf er á grundvallarbreytingu á forgangsröðun verkefna í þágu fólksins og þjónustu við það. Endurskoða verður fjármálastjórn Reykjavíkurborgar ef ekki á að stefna fjárhag borgarinnar í óefni.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að torgið á norðausturhorni Túngötu og Garðastrætis fái heitið Kænugarður og undirheiti þess verði Kýiv-torg:

Það er fagnaðarefni að Reykjavíkurborg nefni torgið á mótum Garðastrætis og Túngötu Kænugarð með undirheitinu Kýiv-torg/Kyiv-square. Hér er verið að gefa höfuðborg Úkraínu sess í hjarta Reykjavíkur. Með þessari ákvörðun borgarinnar er verið að senda skýr skilaboð um samstöðu með íbúum Úkraínu sem berjast fyrir frelsi sínu og sjálfstæði. Heitið Kænugarður á sér aldalanga sögu og tengsl borganna rótgróin.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi formanns borgarráðs, dags. 25. apríl 2022, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki tillögu stýrihóps um almenna eigendastefnu Reykjavíkurborgar gagnvart B-hlutafélögum:

Tími er kominn til að skilgreina eigendastefnu borgarinnar. Ekki er verra að viðhafa virka, gegnsæja og góða stjórnarhætti. Borgarstjóri á sæti í stefnuráði byggðasamlaga og ber ábyrgð á að upplýsa borgarráð reglulega og þegar tilefni er til. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að ekki dugir aðeins að upplýsa borgarráð heldur þarf að tryggja aðkomu minnihlutafulltrúa að ráðinu til að geta veitt gott aðhald. Ekki er séð að ákvörðun um það hafi komist inn á þetta teikniborð.

 

Bókun Flokks fólksins bréfi borgarstjóra, dags. 26. apríl 2022, þar sem minnisblað VSÓ Ráðgjafar varðandi þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024, dags. 29. mars 2022:

Fólksfjölgun er fyrirsjáanleg og mikið þarf að byggja. Alvarlegur húsnæðisskortur er í borginni rétt eins og ekki hefði verið hægt að sjá fyrir alla þessa fólksfjölgun. Húsnæðis og mannvirkjastofnun mat uppsafnaða íbúðaþörf vera tæpar 3.950 íbúðir á landinu í ársbyrjun 20211. Það samsvarar 2.500 íbúðum á höfuðborgarsvæðinu eða álíka mikið og byggt var á metárinu 2020 eins og kemur fram í gögnum.

 

Bókun Flokks fólksins bréf borgarstjóra og borgarritara við liðum sem (17-20) í fundargerð um samþykki að veita vilyrði:

  1. Leirtjörn, vilyrði – Leigufélag aldraðra
  2. Leirutjörn vestur- Samtök aldraðra – lóðarvilyrði
  3. Leigufélag aldraðra, viljayfirlýsing
  4. Lífsgæðakjarnar fyrir eldri borgara – Húsnæðisáætlun:

Þessi liðir 17 til 20 að báðum meðtöldum sem meirihlutinn setur fram nú  gefa sterklega til kynna að kosningar eru í nánd. Nú á allt að gerast en best hefði verið að sjá þessa liði á dagskrá fyrr á kjörtímabilinu eins og lofað var.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Framlagðar viljayfirlýsingar við Betri samgöngur ohf. um samstarf vegna þróunar og uppbyggingar Keldnalands og Keldnaholts og flýtingu uppbyggingar innviða tveggja Borgarlínuleiða.

Flokkur fólksins styður ekki borgarlínu eins og hún er lögð upp af hálfu borgarstjóra og meirihlutanum. Hér má sjá glöggt hversu stutt þetta verkefni er komið en hefur nú þegar kostað ævintýralegar háar upphæðir eða 1,7 milljarða frá Reykjavík einungis. Um er að ræða fjárfrekt verkefni sem ekki er séð fyrir endann á næstu 10-15 árin. Nú hefur verið dregið úr þjónustu strætó vegna fjárhagserfiðleika þannig að almenningssamgöngur eru hvorki fugl né fiskur. Fólk á þess einn kost eða hér um bil að nota bíla eða hjóla. Hér er rætt um samkeppni um þróun Keldnalands og Keldnaholts. Samkeppni er af hinu góða enda eykur hún valkosti. Best er að fá skoðanir og hugmyndir/tillögur frá sem flestum. Í borgarlínuverkefninu er Vegagerðin ríkjandi en þar er mikil þekking um hvernig aka má bílum hratt á milli staða, en minni þekking og reynsla á umhverfisáhrifum fólksflutninga í þéttbýli.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjóra, dags. 26. apríl 2022, þar sem lögð eru fram til kynningar drög að erindisbréfi starfshóps um framtíðarhúsnæði Kolaportsins:

Hér er verið að mynda starfshóp um Kolaportið og framtíðarhúsnæði þess sem og að gera á þarfagreiningu, kortleggja mögulegar staðsetningar og gera markaðskönnun. Hópinn skipa fjórir aðilar og er einn af þeim fulltrúi Kolaportsins. Spurning er hvort ekki ætti einnig að vera fulltrúi borgarbúa? Kolaportið er gríðar mikilvægur vettvangur sem borgarbúar eiga og sem standa þarf vörð um. Á kjörtímabilinu hefur verið þrengt að aðgengi með framkvæmdum og lokunum gatna og bílastæðum fækkað. Árið 2020 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að það yrði frítt í bílastæðahús t.d. 2-4 tíma á laugardegi og sunnudegi. Þá hafði Íslendingum fækkað verulega í Kolaportinu sem fjölmenntu áður þangað. Hugsunin með tillögunni var einnig að laða að fólk sem öllu jafna treystir sér ekki til að fara með bíl sinn í bílastæðahús. Rök skipulagsyfirvalda gegn tillögunni voru að bílastæðasjóður yrði fyrir tekjutapi. Þau rök halda ekki því á þessum tímum eru bílastæðahús hvergi nándar nærri full. Þess utan er það ólíklegt að eldra fólk sem nýta myndu sér frítíma í bílastæðahúsum myndu fjölmenna í bæinn um helgar í slíkum mæli að rekstrargrundvelli bílastæðasjóðs væri ógnað.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um samþykki draga að viðauka við þjónustusamning við Fjölsmiðjuna sbr. hjálagt bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 6. apríl 2022:

Garðabær og Seltjarnarnes greiða minnst, sem væri eðlilegt ef þessi sveitarfélög væru að sinna þeim sem minnst hafa milli handanna í einhverjum mæli t.d. sjá þeim fyrir fæði, klæði og húsnæði. En þetta eru sennilega þau sveitarfélög sem gera það hvað minnst ef þá nokkuð.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 25. apríl 2022, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki aðgengisstefnu Reykjavíkurborgar með fyrirvara um kostnaðarmat á aðgerðum frá umhverfis- og skipulagssviði sem vísað yrði inn í fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2023:

 

Aðgengisstefnan er ágæt upp að ákveðnu marki. Samgöngumálin eru mjög fyrirferðarlítil í stefnunni. Fjölga ber P-merktum bílastæðum í borgarlandinu en ekki fækka eins og gert hefur verið að undanförnu. Skýra þarf og skilgreina betur hlutverk aðgengis- og samráðsnefndar Reykjavíkurborgar og tryggja það að eðlilegt og reglulegt samráð sé haft við nefndina um málefni fatlaðra. Alveg gleymist að skoða og ræða um fjárhagslegt aðgengi en fram hefur komið að það var ekki hluti af erindisbréfinu. Til dæmis er verðskrá og þjónustan ekki sambærileg hjá strætó og akstursþjónustunni, sem hugsuð er sem ígildi strætó fyrir þau sem geta sjaldan eða aldrei notað hann. Ferð með akstursþjónustunni er dýrari. Fötluðu fólki á ekki að refsa fyrir fötlun sína með því að borga meira af því þau þurfa sérhæfða þjónustu. Þessi hópur er auk þess sá verst setti í samfélaginu og er skemmst að vitna í nýútkomna skýrslu um fátækt og bága stöðu öryrkja. 80 prósent fatlaðs fólks á erfitt með að ná endum saman og jafnhátt hlutfall þeirra þarf að neita sér um heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. Skipa þyrfti einn yfiraðgengisfulltrúa og síðan ráða aðgengisfulltrúa.

 

Bókun Fokks fólksins við bréfi mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 11. apríl 2022, sbr. samþykkt mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 7. apríl 2022 á uppfærðri þjónustustefnu Reykjavíkurborgar og aðgerðaráætlun, ásamt fylgiskjölum.

Stafrænar lausnir eru framtíðin, um það er ekki deilt. Búið er að veita til þjónustu- og nýsköpunarsviði borgarinnar um 13 milljarða á 3 árum. Farið hefur verið með fjármagnið af lausung. Ómældu fé hefur verið veitt í ráðgjöf sem ekki er séð hvernig skilaði sér. Þetta er óásættanlegt miðað við nútímakröfur um skilvirkni og árangursstjórnun. Í stað þess að setja þær stafrænu lausnir sem liðka fyrir t.d. umsóknarferlum eins og umsókn um leikskólapláss strax í forgang og hefja samvinnu við Stafrænt Ísland frá upphafi, hefur stór hluti þessa fjármagns farið í að belgja út sviðið sjálft. Hver skrifstofan á fætur annarri verið sett á laggirnar á sviðinu og fjöldi fólks úr einkageiranum ráðið til starfa. Búið er að halda úti tilraunateymum sem miða að því að uppgötva stafrænar lausnir sem víða eru til. Hér má nefna rafrænar undirskriftir sem enn eru í þróun hjá borginni. Nýtt skjalastjórnunarkerfi hefur verið að malla í þrjú ár en er ekki enn komið í fulla notkun. Flokkur fólksins harmar vinnubrögð af þessu tagi en flokkurinn berst fyrir að börn fái þá þjónustu sem þau þarfnast, að fátækt og efnalítið fólk fái þak yfir höfuðið og mat á diskinn sinn.

 

Bókun Flokks fólksins við svarbréf borgarstjóra, dags. 12. apríl 2022, við bréfi innviðaráðuneytisins vegna uppbyggingar í Skerjafirði:

Flokkur fólksins hefur margoft bókað um þessi mál. Uppbyggingin í Skerjafirði mun skerða gæði flugvallarins og skemma náttúrulega fjöru. Er ekki bara best að bíða með að byggja þar til flugvöllurinn fer í stað þessa að byggja á hvern blett í kringum hann.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. febrúar 2022, sbr. vísun borgarstjórnar frá 1. febrúar 2022 á tillögu borgarfulltrúa Miðflokksins um að innri endurskoðandi leggi mat á lögmæti samninga Reykjavíkurborgar við olíufélögin, ásamt fylgiskjölum:

Samningarnir eru taldir vera lögmætir, en það er ekki það sama og að segja að þeir séu borginni hagstæðir, sem þeir eru sennilega ekki. Líklega munu olíufélögin hagnast verulega, fjármagn sem hefði verið vel þegið að fá í borgarsjóð og nota þá til að bæta þjónustu við borgarbúa.

 

Bókun Flokks fólksins við svari fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 13. apríl 2022, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðhald á leigueignum fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. febrúar 2022:

Svar við fyrirspurn Flokks fólksins um leigueignir hefur borist og er þakkað fyrir það. Spurt var um hvort skilin milli minni- og meiriháttar viðhalds séu skýr og skilgreind. Einnig hvort upp hafi komið deilumál aðila um hvers ábyrgð viðgerð/viðhald sé? Í svari segir að skilin séu skilgreind og að hvert tilvik sé skoðað fyrir sig. Lagagreinin skilgreinir minniháttar viðhald svo: Leigjanda er skylt að annast á sinn kostnað minniháttar viðhald, svo sem skipti á ljósaperum og rafhlöðum í reykskynjurum og hreinsun niðurfalla. Annað er á ábyrgð leigusala.Einnig kemur fram í svari að ekki hafi komið upp deilumál vegna viðhalds milli leigusala og Reykjavíkurborgar. Af svari að dæma virðist fulltrúa Flokks fólksins sem þessi mál séu skýr.

 

Bókun Flokks fólksins við svari Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs, ódags., við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð við niðurstöðum starfsánægjukönnunar slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, sbr. 37. lið fundargerð borgarráðs frá 17. mars 2022:

Í svari við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um hvernig brugðist hafi verið við niðurstöðum starfsánægjukannanna hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu segir að í kjölfarið af niðurstöðum starfsánægjukannanna sem komu afar illa út hjá Slökkviliðinu var farið í samstarf við Empower. Í framhaldsvari við fyrirspurn um hvort ekki sé rétt að gerð verði heildarúttekt á trausti starfsfólks til stjórnenda SHS? segir að starfsfólk hafi fengið fræðslu um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi (EKKO) frá Auðnast, fyrirtæki sem hefur m.a. sérhæft sig í EKKO málum. Segir enn fremur að kynna eigi “veitu” út úr húsi sem fólk getur leitað til ef það treystir sér ekki til að ræða sín mál við stjórnendur innanhúss eða ef um formlega kvörtun er að ræða. Fulltrúi Flokks fólksins leggur mikla áherslu á að gerð verði heildarúttekt á trausti starfsfólks til stjórnenda Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og skorar á borgarstjóra að ýta við þeirri framkvæmd svo hún megi verða sem fyrst. Þetta er spurning um hvaða leið er farin og sá aðili sem er með öllu óháður og hlutlaus verði valinn til verksins.

 

Bókun Flokks fólksins undir 2. lið fundargerðar aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 7. apríl 2022:

Lagt er fram erindi frá öryggisnefnd Ráðhúss Reykjavíkur, dags. 4. apríl 2022, um aðgengi úr Tjarnarsal Ráðhússins. Aðgengis- og samráðsnefnd óskar eftir því að fasteignastjóra og hönnuði Ráðhússins verði falið að finna viðunandi lausn á aðgengi úr Tjarnarsal í neyðartilfellum í samráði við aðgengis- og samráðsnefnd og öryggisnefnd Ráðhússins. Fulltrúa Flokks fólksins finnst ámælisvert að Reykjavíkurborg hafi ekki í eigin húsnæði viðunandi aðgengi fyrir fatlað fólk. Ef borgin sýnir sjálf ekki gott fordæmi í aðgengismálum er ekki hægt að krefjast þess að aðrir geri það.

 

Bókun Flokks fólksins  fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks 7. apríl 2022:

Fundur fjölmenningarráðs undir yfirskriftinni “Why should I vote?”, var haldinn í Gerðubergi þann 23 apríl 2022. Á ráðstefnuna voru mættir fulltrúar flestra flokka sem bjóða fram í borgarstjórnarkosningunum næstkomandi. Á ráðstefnunni var keyrð glærusýning og lifandi þýðingarforrit sem var í gangi á skjá á meðan henni stóð. Ljóst er að engu var til sparað í kynningu og framsetningu ráðstefnunnar. Þeir innflytjendur sem þessi ráðstefna var sniðin fyrir, voru hins vegar hvergi þar að finna. Þó að málefni ráðstefnunnar hafi verið gott og gilt og mikilvægt að virkja innflytjendur og aðra minnihlutahópa til víðtækrar þátttöku í samfélaginu, er alveg ljóst að þarna þarf að koma til fjölbreyttari nálgun. Það má leiða að því líkum að það verkefni að ná til innflytjenda sé á vissan hátt svipað og það að ná til eldra fólks og annarra sem ekki eru eins rafræn í sinni upplýsingaleit og margir aðrir. Þess vegna þarf Reykjavíkurborg að hugsa út fyrir rammann hvað þetta fólk varðar. Það er bara þannig að ein lausn hentar ekki öllum. Það gleymist ansi oft í þeirri stafrænu ævintýramennsku sem núverandi meirihluti hefur talið vera lausn á öllum vandamálum heimsins hingað til.

 

Bókun Flokks fólksins undir 13. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 27. apríl 2022:

Gerð hafa verið mistök. Einkavegur var gerður fyrir einn aðila sem er nú staðfest með gögnum að hafi ruglað alla hæðarsetningu í Gufunesi. Gögnum hefur verið haldið frá aðstandendum og reynt að þagga málið niður í þrjú ár. Ekki hefur einu sinni verið fylgt lögbundnu samráðsferli. Svo virðist sem Reykjavíkurborg hafi ekki útfært í deiliskipulagi það sem þó ber að gera skv. skipulagsreglugerð, afstöðu gatna og jarðvegs við gólfhæð 1. hæðar húsa, hæð landslags á lóðum. Þetta er ákveðið og gert án vitundar og athugasemda- og ábendinga möguleika almennings eftir því sem Flokkur fólksins kemst næst. Haldinn var loks fundur 25. apríl þar sem boðið var lækkun á götu og seinkun á gjalddögum. Þetta er slakt tilboð eftir allt sem á undan er gengið. Tafir hafa verið miklar og skemmdir á starfsemi í rúm 3. ár. Eftir því sem næst er komist er búið að framkvæma alla gatnagerð þarna á rangan hátt og með því mögulega brjóta á aðstandendum Loftkastalans stjórnsýslulagabrot, eignarréttarbrot, hegningarlagabrot. Af hverju var ekki fenginn óháður aðili til mælinga? Fulltrúi Flokks fólksins ítrekar að lenda þarf þessu máli og það fyrir kosningar. Málinu hefur verið vísað til innri endurskoðunar sem hefur nú hlutverk „umboðsmanns borgarbúa.“

 

Bókun Flokks fólksins undir 4. lið embættisafgreiðslur:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að ekki er lengur verið að skjóta í Álfsnesi enda hefur það verið íbúum til ama í nærri tvo áratugi og á skjön við ekki bara mannlíf, heldur einnig náttúru. Finna þarf þessari íþrótt nýjan stað þar sem sport eins og þetta á heima. Erfitt getur reynst að finna svæði þar sem ekkert mannlíf er í nágrenninu og þar sem blýmengun veldur ekki skaða og/eða þar sem skotæfingar skaða ekki náttúru. Utandyra þarf það svæði að vera einangrað og fagmannlega útbúið. Þar getum við leitað þekkingar hjá öðrum Evrópuþjóðum þar sem slík svæði eru í sátt við umhverfi sitt.