Borgarráð 28. janúar 2021

Bókun Flokks fólksins um tilnefningu tveggja kjörinna fulltrúa frá Reykjavíkurborg í starfshóp stjórnar Samtaka Sveitarfélaga vegna verkefnis um stjórnsýslu byggðasamlaga:

Hér er verið að skipa í starfshóp í byggðasamlagskerfi. Lagt er til að borgarráð samþykki að tilnefna Dóru Björt Guðjónsdóttur í starfshópinn fyrir hönd meirihluta og tilnefni jafnframt einn fulltrúa úr minnihluta í starfshópinn. Er það í fyrsta sinn sem boðið er upp á að fulltrúi minnihlutans taki þátt í starfi sem þessu? Eitt af hlutverkum hópsins er að fara yfir helstu niðurstöður skýrslu Strategíu frá því í júní 2020 og þeirrar vinnu sem hefur farið fram. Það er gott. Fyrirtækið reyndi að draga fram sviðsmyndir m.a. sem gæti gert bs.-kerfið lýðræðislegra. Ekki hefur verið ákveðið hvaða sviðsmynd, ef einhverja, á að skoða. Hvað sem öllum sviðsmyndum líður er staðreyndin sú að byggðasamlagskerfið sjálft er ekki nógu lýðræðislegt. Niðurstaðan er skýr, bs.-stjórnkerfið virkar illa, eigendur eru langt frá ákvörðunum og virkni eigenda lítil. Vald kjörinna fulltrúa er framselt til bs. Reynsla Reykjavíkur af byggðasamlögum er ekki góð, rýr hlutur í stjórnun en rík fjárhagsleg ábyrgð. SORPA er skýrasta nýlega dæmið. Bs.-hugmyndin sem slík er ólýðræðisleg. Betra væri að sameina sveitarfélög og kominn er tími til að pólitíkin fari að taka þá umræðu fyrir alvöru.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra, dags. 26. janúar 2021, þar sem minnisblöð um stöðu velferðar- og atvinnumála í Reykjavík í lok árs 2020 eru send borgarráði til kynningar:

Fram kemur í gögnum að mikil breyting hefur orðið á þjónustu við fólk í heimahúsum frá því faraldurinn hófst, þó misjafnt eftir þjónustuþáttum. Eðlilega fækkaði ferðum og aukning varð á heimsendum mat. Í félagslegri heimaþjónustu hefur notendum fækkað enda eldri borgarar hræddir við að fá ókunnugt fólk inn á heimilin vegna hættu á smiti. Í heimahjúkrun er fjölgun enda hér um að ræða fólk sem verður að fá hjúkrun. Ekkert er minnst á andlega líðan þessa hóps og hvernig hefur tekist að veita þeim sálfélagslega þjónustu. Eins og vitað er hefur neysla geðlyfja aukist til muna hjá þessum aldurshópi. Ekki kemur á óvart að kvíði, þunglyndi og önnur vanlíðunareinkenni geri vart við sig á þessu æviskeiði og í COVID hefur líðan margra versnað m.a. vegna einangrunar og ótta við faraldurinn. Í COVID-faraldrinum síðustu mánuði hafa þróast tæknilausnir eins og samskipti með viðræðum gegnum tölvuskjái. Slíkar „skjáheimsóknir“ geta þó aldrei komið í staðinn fyrir persónuleg tengsl og spjall þar sem fólk talar saman maður við mann, og geta varla flokkast sem sálfélagslegt meðferðarúrræði. Í Reykjavík eru engin skipulögð sálfélagsleg meðferðarúrræði til fyrir fólk á hjúkrunarheimilum. Oft er geðlyfjameðferð eina meðferðarúrræðið sem eldri borgurum býðst og er það með öllu óásættanlegt að mati fulltrúa Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu að borgarráð vísi eftirfarandi tillögum starfshóps um mótun nýs fyrirkomulags á markvissum vinnu- og virkniaðgerðum Reykjavíkurborgar vegna stöðu á vinnumarkaði vegna COVID-19, fyrir árin 2021 og 2022:

Hér er verið að koma á fót nokkuð stórri vinnumiðlun og tilbúnum störfum, enn eitt kerfið með yfirbyggingu. Ráðið verður í 9 stöðugildi sérfræðinga. Auk kostnaðar við laun og launatengd gjöld þá er alls konar annað sem kostar, s.s. námskeið, samfélagsfræðsla, vakta þarf þróun á vinnumarkaði, meta gagnsemi aðgerða og gera tillögur að næstu áföngum o.s.frv. Þessi eining kostar borgina nettó 460.000. Þetta eru mikilvæg og nauðsynleg verkefni, ekki er dregið úr því. En fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort ekki sé hægt að fela starfsmönnum sem fyrir eru að sinna þessum verkefnum eða vera í samstarfi við þá sem nú þegar sinna þessu. Borgarkerfið er að verða eins og völundarhús og fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort borgarbúar þekki innviðina. Nú er einnig verið að leggja til stofnun Virknihúss, annað kerfi, önnur yfirbygging. Ekki hefur verið vilji til að gefa út upplýsingabækling um þjónustu borgarinnar. Borist hafa ábendingar um að upplýsingaflæði til fólksins sé ábótavant, að fólk viti ekki hvert það eigi að snúa sér eftir upplýsingum eða hver réttindi þeirra séu. Með fjölgun deilda/skrifstofa/kerfa innan borgarinnar verður þetta ekki einfaldara.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs velferðarsviðs, dags. 18. janúar 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 16. desember 2020 á tillögu um þróun virkniúrræða velferðarsviðs:

Varðandi Virknihús sem er eitt af átaksverkefnum sem kynnt eru. Ef þessum tillögum um Virknihús er ætlað draga úr flækjustigi kerfisins, hagræða, einfalda og flýta fyrir afgreiðslu, þá er það gott. Eins og þetta er kynnt virkar þetta ekki mjög skýrt. Gott væri að með fylgdi dæmi um t.d. hvernig þessi útfærsla snýr að einstaklingnum. Ráða á teymisstjóra og fleiri í kjölfarið. Fulltrúi Flokks fólksins óttast kostnað vegna yfirbyggingar sem oft á það til að ofvaxa. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort komið sé enn eitt kerfið, ein yfirbygging í viðbót. Hefði ekki verið einfaldara að fela einhverjum tveimur starfsmönnum velferðarsviðs að sinna þessari samþættingu frekar en að setja á laggirnar enn eina nýja yfirbyggingu? En það er fulltrúa Flokks fólksins að meinalausu að styðja þessa tillögu í þeirri von að hún leiði til gagns og einföldunar fyrir notendur.

 

Bókun Flokks fólksins við umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 25. janúar 2021, um frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, mál nr. 354:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt hvað borgin vill treysta á ríkið með margt t.d. í sambandi við tæplega 900 barna biðlista í skólaþjónustuna. Velferðaryfirvöld voru uppveðruð þegar félagsmálaráðherra kynnti farsældarfrumvarpið og töldu að komin væri lausn á stóra biðlistavanda borgarinnar. En nú kveður á við annan tón sem sjá má í drögum að umsögn. Í ljós hefur komið að það hlutverk sem sveitarfélög eiga að taka á sig eins og því er lýst í frumvarpinu mun kosta mikla fjármuni og ótti er um að þeir fylgi ekki með. Tengiliður, málastjóri og fleira sem sveitarfélög eiga að halda utan um er bæði illa skilgreint hjá félagsmálaráðherra og erfitt að átta sig á hvað kostar. Það er skynsamlegt að hafa varann á þegar Alþingi segir að það ætli að flytja verkefni yfir ríki til borgarinnar og að fjármagn skuli fylgja í gegnum Jöfnunarsjóð. Ríkið stóð ekki við eldri fyrirheit í tengslum við t.d. þjónustu við fatlað fólk og NPA samninga. Verkefnið sjálft er metnaðarfullt og í rauninni mun tíminn leiða það í ljós hvort verið sé að gera of mikið í einu. Þar mun skipta mestu áhugi næstu ríkisstjórnar á verkefninu.

 

Bókun Flokks fólksins við umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 5. janúar 2021, um frumvarp til laga um Barna- og fjölskyldustofu, 355. mál.:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir margt sem fram kemur í umsögninni. Ekki orði er þó minnst á rúmlega 800 barna biðlista eftir sálfélagslegri þjónustu hjá borginni og annar eins ef ekki lengri biðlisti er hjá stofnunum ríkisins. Lögð er áhersla í umsögninni á uppbyggingu úrræða fyrir börn með alvarlegar geð- og þroskaraskanir. Nauðsynlegt er að hafa úrræði fyrir þessi börn en þetta er þó ekki stærsti hópurinn (21 í árslok 2020). Stærsti hópurinn eru börn sem eru ekki með alvarlegar þroskaraskanir en glíma engu að síður við mikla andlega vanlíðan af ýmsum orsökum. Vegna þess hve lengi þarf að bíða eftir þjónustu þá versnar líðan barna og endar jafnvel í bráðamáli. Ríki og borg hafa ekki tryggt nægt fagfólk til að sinna þessum börnum og fjölskyldum þeirra. Í umsögninni er vísað í sjónarmið Barnaverndar Reykjavíkur. Þau rúmlega 800 börn sem bíða eftir sálfræðiþjónustu hjá skólum eru þó sennilega fæst barnaverndarmál. Bæði ríki og borg þrýsta foreldrum æ meira til að fara með börnin í einkageirann. Þjónusta einkageirans er dýr. Í frumvarpinu kemur fram að Barna- og fjölskyldustofu verði heimilt að taka gjald fyrir sérstök verkefni. Þessu er mótmælt af hálfu Flokks fólksins. Ljóst er að þeir sem ekki hafa góð fjárráð munu þ.a.l. ekki fá fullnægjandi þjónustu fyrir börn sín.

Bókun Flokks fólksins við svari þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 15. janúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um útvistun á þjónustu- og nýsköpunarsviði, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020:

Í svari er ítarleg lýsing á tækniframförum samtímans og nánustu framtíðar sem kallaðar hafa verið fjórða iðnbyltingin, vísað er til „sjálfvirknivæðingar, þróunar gervigreindar, róbótatækni“ og hvað eina, en fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvað þetta kemur uppsögnum á reynslumiklum tölvuþjónustumönnum borgarinnar við. Í svari er rætt um greiningarvinnu „Capacent“ og „Gartner Group“. Hafa þessir aðilar ráðlagt að opinber rekstur skuli leggja niður innri tölvuþjónustu sem búið er að þróa árum saman og er með skýra verkferla? Varla. En ef svo væri það alvarlegt mál. Fulltrúa Flokks fólksins óar við þessum ráðgjafarkaupum svo ekki sé minnst á ferðalög ef litið er til undanfarinna ára en ferðalög tilheyra nú vonandi liðinni tíð þegar fjarfundareynslan er komin. Eru aðrar skrifstofur og svið Reykjavíkurborgar að kaupa annað eins af erlendum ráðgjafafyrirtækjum og þetta svið? Hvar er svo öll hagræðingin og sparnaður á útsvarspeningum borgarbúa? Útboðsgerð vegna úthýsingar á síma- og vettvangsþjónustu stendur yfir eins og segir í svari og leggja á áherslu á sérfræðiþekkingu. Er verið að segja með því að sérfræðiþjónusta hafi ekki verið fyrir? Var ekki einmitt boðið upp á ISO-vottaða gæðaþjónustu áður?

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um gjaldfrjáls frístundaheimili, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. nóvember 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur barist fyrir að frístundaheimili skuli gjaldfrjáls og einnig að skólamáltíðir verði fríar. Hér er fulltrúinn að hugsa um fátæka foreldra þar sem fátækt þeirra hefur áhrif á grunnþarfir barnanna. Á haustönn 2020 voru sendar út 39 uppsagnir vegna vanskila á frístundavistun. Foreldrar 10 barna athuguðu ekki með frekari aðstoð og hefur börnum þeirra verið vísað úr frístundaheimilisdvölinni. Ekki er vitað hvar þessi börn dvelja nú eftir skóla. Reykjavíkurborg er rík borg. Byrja þarf á að huga að fólkinu og tryggja að sem allra flestum líði vel og fái þá þjónustu, lögbundna sem aðra, sem þau þarfnast. Fram kemur í svari fjármálastjóra að lágmarkskostnaður borgarinnar vegna gjaldfrjálsra frístundaheimila væri rúmlega 420 m.kr. að teknu tilliti til tekna og systkinaafsláttar. Þetta telst ekki há summa í sjálfu sér t.d. ef borið er saman við allar þær milljónir og milljarða sem hafa farið í einskisverða hluti eins og endurgerð braggans og fjölmargt fleira. Frístundin er frábært úrræði og hefur gefið foreldrum tækifæri til að sinna vinnu sinni áhyggjulaus. Sömuleiðis má búast við aukinni aðsókn að sumarfrístund verði hún gerð gjaldfrjáls sem yrði einnig afar gleðilegt. Því fleiri hamingjusöm og áhyggjulaus börn í borginni því ánægjulegra.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 18. janúar 2021:

Í fundargerð kemur fram að íbúaráðið fagnar yfirlýsingu varaformanns skipulags- og samgönguráðs þess efnis að fallið verði frá tillögum að breytingum á aðalskipulagi vegna reits M22 í Úlfarsárdal. Fulltrúi Flokks fólksins óttast að ekki verði endilega fallið frá þessu heldur sé þetta aðeins sett á ís. Málinu er frestað en ekki hefur verið staðfest að fallið hafi verið frá þessu og er það miður. Aðalskipulag á að gilda og vill fulltrúi Flokks fólksins ítreka í bókun að skipulagsyfirvöld staðfesti að fallið verði alfarið frá hugmyndum um að hafa einungis verkstæðisstarfsemi á umræddum reit. Almennt séð á að reyna að blanda saman atvinnu- og íbúðasvæði ásamt samgöngumiðstöðvum í hverfum borgarinnar að mati fulltrúa Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 27. janúar 2021:

Hér er verið að tala um heilsu fólks. Svifryk er sannarlega vandamál í borginni og vinna þarf markvisst að því minnka það. Bæta má ástandið með ýmsum aðgerðum. Einfalt atriði er að hafa frítt í Strætó þegar svifryksdögum – gráum dögum – er spáð. Það kostar lítið enda eru vagnar sjaldan fullir og bílaakstur minnkar. Götuþvottur á afmörkuðu svæði hlýtur að vera til bóta svo og þvottur vörubíla sem eru að aka upp úr byggingarstað. Margar aðrar aðferðir eru mun dýrari svo sem að nota harðara steinefni í malbik en nú er gert en einnig þarf að gera það að einhverju marki. Ekki er hægt að líta fram hjá niðurstöðum rannsókna á svifryksmengun af völdum nagladekkja. Veðurfar spilar stórt hlutverk og ferðir út á land þar sem veður eru iðulega válynd um vetrartímann, aðstæður sem krefjast þess nauðsynlega að búa bíla nagladekkjum enda þótt oft dugi góð vetrardekk. Þá er full ástæða til að minnka notkun flugelda en styrkja starfsemi björgunarsveita sem sinna mikilvægu björgunarstarfi án þess að kaupa skotelda. Reykjavíkurborg hefur ekki sýnt ábyrgð þegar kemur að þessum þætti og hvatt, sem dæmi, borgarana til að finna aðrar leiðir til að styrkja björgunarsveitir en að skjóta upp skoteldum.
 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvað fæst með því að reka reynda tölvunarfræðinga og útvista verkefnum:

Fram hefur komið í svari vegna áður framlagðra fyrirspurna Flokks fólksins að í reglum Reykjavíkurborgar um framkvæmd fjárhagsáætlunar er kveðið á um að sviðsstjórar og stjórnendur skuli hafa frumkvæði að því að innleiða umbætur í rekstri til að bæta þjónustu, auka skilvirkni og lækka kostnað. Spurning fulltrúa Flokks fólksins: Hvernig er hægt að bæta þjónustu með því að leggja niður gæðavottað þjónustuteymi og fá í staðinn fólk frá verktökum sem hefur kannski minni reynslu af því að þjónusta borgarstarfsmenn? Einnig: Hvernig gengur það upp að lækka kostnað með því að ráða inn verktaka sem kosta mun meira en fastir starfsmenn?

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins hver staðan er á óleystum þjónustubeiðnum þegar búið er að reka þjálfaða og reynda tölvunarfræðinga:

Í svari við áður framlögðum fyrirspurnum hefur komið fram að uppsafnaðar, óleystar þjónustubeiðnir voru nokkur þúsund á tímabili en slíkur bunki óleystra verkbeiðna skapar mikinn kostnað í borgarkerfinu sem nauðsynlegt er að taka með í reikninginn til að meta hagræðið að fullu. Spurning fulltrúa Flokks fólksins: Af hverju var þessum reynslumiklu þjónustumönnum ekki haldið áfram í störfum fyrst þjónustubeiðnum hefur fjölgað svona mikið? Hver er staðan á þjónustubeiðnum núna eftir að þeir, með alla sína þekkingu, voru látnir fara.

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um réttlætingu þess að segja upp fólki og útvista verkefnum þegar borgaryfirvöld hafa lofað að standa vörð um störf:

Fram hefur komið í svari við áður framlögðum fyrirspurnum Flokks fólksins að eftirspurn eftir hæfu starfsfólki í upplýsingatækni er á hverjum tíma mikil og því yfirleitt vandalítið fyrir aðila að fá starf við sitt hæfi utan borgarinnar. Fulltrúi Flokks fólksins spyr: Hvernig stenst sú fullyrðing, að ekkert mál sé fyrir fólk í upplýsingatæknigeiranum að fá aðra vinnu núna – á mestu atvinnuleysistímum í nútímasögunni? Hvernig er hægt að réttlæta þá aðgerð að segja upp reynslumiklu starfsfólki á þessum tímum – á sama tíma og meirihlutinn er að tala opinberlega um að „vernda þurfi störf borgarstarfsmanna“?

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.